Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
19.06.2007 at 18:10 #592624
Í hverju liggur verðið er spurt. Ekki rafmagnsrúðuupphölurum og hljóðeinangrun, svo mikið er víst. Ég vona að allur þessi peningur liggi í gæðum sem skilar sér í styrk og endingu. Menn geta spurt sig hvar eru allir gömlu Asíujepparnir? Ekki á götunni.
Annars minnti eftirfarandi reynslusaga mig enn og aftur hvers vegna ég á og ek helst engu öðru en Land Rover:
Ég var að leiðsegja hóp erlendra ferðamanna m.a. upp í Skálpa á nokkrum jeppum. Þ.á.m. Defenderum og Patrolum. Svo slysalega vildi til að tveir jeppanna óku á töluverðri ferð (sama hraða) ofaní hvarf sem myndast hafði þegar runnið hafði yfir og úr veginum. Til að gera langa sögu stutta þá bognaði framhásing og eyðilögðust pakkningar í liðhúsi Patrólsins en Defenderinn bað um meira. Ætli þetta skýri verðmuninn að einhverjum hluta. Þetta er það fallegur dagur að ég læt vera að minnast á Toyotur.Steini
Hamingjusamur eigandi LR Defender 110, LR Tomcat, Range Rover og Discovery
18.06.2007 at 21:38 #592606Ætli helsta breytingin verði ekki að teljast vélin og kassinn. Defenderinn hefur nefnilega fengið 120 hö vél úr Ford Transit og nýjan SEX gíra kassa. Kassinn er með lægri 1. gír en gamli R380 og hærri 6. en 5. gír var í R380 kassanum. Þetta ætti að gera Defendirinn enn meðfærilegri í ófærum og snjó auk þess að minnka hávaðan á "mikilli" ferð. Þá var örlítið kíkt á innréttingamálin. Hægt er að fá aftursæti sem snúa fram frá Land Rover sjálfum, í stað hliðasæta eða bekkja. (slík sæti hafa fengist aftermarket lengi) Nýtt mælaborð sem á að vera miklu betra, þó einkalega vegna þess að menn þurfa ekki að fara á námskeið í rötun til að finna rofa og annað. Betri og aflmeiri miðstöð og er þá held ég upptalið. Grunar mig reyndar að þessi grái sé ekki alvöru 2007, heldur prototýpa því langt er síðan ég sá myndir af gripnum. Glöggir munu t.d. taka eftir að bungan á húddinu er ekki nákvæmlega eins og á alvöru 2007 bílnum. En skemmum ekki skemmtilega sögu með smá- og aukaatriðum eins og sannleikanum. Mér finnast þessir kantar (á þessum gráa) mun fallegri en þessir Íslensku. Þessi Defender var hér, og er etv. enn, í hópi Land Rover Experience hóps sem Eskimós hafði veg og vanda af. Mikið af Land Rover og mikið af landróveráhugamönnum.
Steini
16.04.2007 at 00:28 #587642Jú það er hægt að skella Tomcat beint á Disco ’97 grind.
Eitthvað er búið að klippa þetta allt til og færa í stílinn. Upptökurnar tóku sex daga og var ekið vítt og breitt um svæðið. Eins og glöggir menn hafa komið auga á þá var ekki alltaf ekið í átt að útfallinu og ósnum. hafa skal það sem er skemmtilegra og láta ekki sannleikan skemma góða sögu.
Frekari upplýsingar um Tomcat má finna á tomcat.is eða með því að hafa samband við undirritaðann í info@tomcat.is
finna má fréttir af rallý-liði Tomcat á blogsíðu undir Team Tomcat á heimasíðunni.
Steini
12.04.2007 at 21:06 #587632Búið var að fjarlægja allt efni frá BBC af You Tube vegna höfundaréttamála. En Tomcat innslagið er komið inn aftur eins og bent er á hér að ofan.
Steini
12.04.2007 at 21:01 #587560Leiðin sunnan flugvallar er orðin nokkuð góð og í raun fær öllum jeppum með lagni og varkárni. En slóðinn er vægast sagt grófur og leiðinlegur norðan flugvallar lang-leiðina að veiðiskálanum við Arnarvatn stóra. Grýttur og runnin, skorin og með egghvössu flögugrjóti á köflum. Þá er hann ógreinilegur jafnvel á stundum, eins og víðar á heiðinni.
Ekki er ráðlegt að fara um vegi og slóða fyrr en "opnað" hefur verið af veiðifélaginu sunnanmegin. Oftast er opnað um miðjan júní og eru vegir þá í þokkalegu standi en fari menn fyrr geta þeir lent í alvarlegum vandræðum og festum. Árlega liggur mér við að segja, festast einhverjir kjánar upp að speglum sem ekki geta beðið. Er oft mjög erfitt og kostnaðarsamt að veita þeim björgun. Ef Vegagerðin veitir ekki góðar upplýsingar um vegin yfir Arnarvatnsheiði má reyna að slá á þráðin til Snorra á Augastöðum en hann er veiðivörður þar fram-frá og þekkir þetta allt manna best. Þá eru trökk eftir mig í safni ykkar af flestum slóðum af heiðinni sunnanverðri, sem Bessi setti inn. Þar má sjá að í raun eru þrjár leiðir yfir heiðina. Aðalvegurinn, Leggjabrjótur og svo slóði um Langaás sem engin ætti að fara nema með kunnugum.Kveðja
Steini
Bóndi í Hálsasveit
11.04.2007 at 18:00 #200108Á sunnud. kemur þ. 15. apríl verður sýnt atriðið með Tomcat jeppunum sem tekið var upp hér á landi fyrir u.þ.b. einu ári. Innslagið sem er 6-8 mínútur var tekið við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi af BBC fyrir Top Gear. Er þar sviðsett kapp á milli vélknúins fótanuddtækis og jeppa. Bæði myndbandið og Tomcat jepparnir hafa vakið athygli um allan heim og linnir ekki látunum í fyrirspurnadeildinni vegna áhugasamra útlendinga sem vilja vita meira um þessa merkilegu jeppa. Það er gamann ( og viðeigandi) að minnast þess að fyrsti tomcat jeppinn á Íslandi var frumsýndur í ausandi rigningu á sumarmóti 4×4 í Húsafelli. Síðan þá hefur gengið á ýmsu. Tomcat jeppi varð t.d. Íslandsmeistari í jeppaflokki í ralli 2006. Bílarnir eru alltaf til sýnis skv. samkomulagi og hafa þó nokkrir heimsótt okkur í vetur og svalað forvitni sinni. Þá munum við bráðlega auglýsa hér á vefnum einhverja hluti notaða og nýja sem falla til í útgerðinni vegna endurnýjunar og þróunar. T.d. Koni demparar fyrir Patrol, og notuð dekk svo eitthvað sé nefnt.
Með kæru þakklæti fyrir áhugann og móttökurnar hingað til.
Steini
E.S: Hægt er að fylgjast með gangi rallýliðsins á tomcat.is undir Team Tomcat
06.04.2007 at 12:06 #587346Ef þyngdin er eitthvað sem þú vilt halda niðri og kostnaðurinn einnig, dettur mér í hug Rover V8. Hún er úr áli, hefur slagrúmtak á bilinu 3,5 – 4,6 L (og jafnvel 5L með smá vinnu). Við þessa vél færðu val um nokkrar gerðir gírkassa og einhvern snjallasta og besta (ekkert sparað í stóryrðadeildinni) millikassa LT 230 sem þú getur fengið, nokkur mismunandi hlutföll í, hefur aflúrtak sem má nota fyrir; yfirgír, skriðgír, eða jafnvel rótor fyrir stiglausan skriðgír, nú eða heyblásara. Ef þér hugnast ekki 3ja eða 4ra þrepa skiftingarnar (Crysler og ZF, ef ég man rétt) þá getur þú valið um nokkra mismunandi gírkassa alla 5 gíra. Nefni hér LT77, LT77s, LT 85 Santana, LT 95, R380 en reyndar færðu hvergi 6 gíra Ford kassan sem Land Rover fékk út úr kynnum sínum við Fordverksmiðjurnar. Kostirnir við þetta allt saman fyrir utan endalaus gæði að sjálfsögðu, er mikið framboð og lágt verð og passar allt ssaman frá vél út í drifsköft, sem þýðir ekkert kostnaðarsamt mix. Þá er mjög ódýrt og aðgengilegt að ná upp hrossafjöldanum í þessari vél ásamt endalausu framboði af fyrirtækjum (í UK) sem sérhæfa sig í öllu er þeim við kemur. Þessi tiltekna V8 sem Bretarnir fengu frá Bandaríkjamönnum sem gátu ekki framleitt hana í lagi og á verði sem gekk upp er einhver vanmetnasta vél allra tíma, þ.e.a.s. meðal almennings. Keppniskallarnir og bílasmiðir muna hinsvegar þegar hún vann F1 í kringum ’70 og þessi vél er notuð í einhverjum magnaðasta sportbíl sem framleiddur er í dag TVR og einnig í Bowler Wilcat jeppann.
Kveðja
Steini
26.03.2007 at 10:56 #586116Það ku vera rétt heyrt að nýlegur Patról hafi "drukknað" á Gjábakkavegi. Gerðist þetta á Völlunum austan-megin ef ég hef tekið rétt eftir hjá kollega mínum, leiðsögumanni sem var í umræddri ferð. Þetta mun hafa gerst þann 24. 3. . Horfðu menn á eftir Patrólinum renna hægt á glæru á bólakaf, en vindur kom honum, kyrrstæðum, af stað. Stóð rétt toppurinn uppúr. Bíllinn var í gangi (með rúðuþurkurnar á skv. lýsingunni). Tókst öllum að bjarga sér og varð engum meint af. Patrólinn var sem sagt á ferð með erlenda ferðamenn og var í hópi annara jeppa sem allir snéru við áfallalaust og komu aftur niður á Laugarvatni.
Í framhaldi af þessu velti ég því fyrir mér hvort ekki séu sjálfvirkir ádreparar í þessum bílum eða jeppum almennt. Ef ekki er ákaflega einfalt að útbúa bílana þannig að ef vatn kemst inn fyrir loftsíu þá drepi vélarnar á sér, strax, eftir einhvern tíma eða háð einhverjum öðrum skilyrðum.
Vonandi er eigandin með tryggingar sem ná yfir svona óhöpp.
Steini
18.01.2007 at 21:01 #576216Sæll þjáningabróðir
Eins og þú eflaust veist þá eru einungis tvær stillingar á miðstöðinni í Land Rover, þ.e.: hátt og fáranlega hátt (hefur ekkert með hita að gera en stjórnar hávaðanum) Flestir Defendereigendur sem ég þekki eru með olíufíringu ásamt aukamiðstöð afturí. En þetta vandamál sem þú lýsir gæti verið upphafið af miklum hörmungum ef þú bregst ekki rétt við strax. Ef vélin ofhitnar alltaf eða undir álagi t.d. upp úr Hvalfjarðagöngunum ásamt því að þú ert að tapa kælivökva þó í litlum mæli sé er líklegt að kerfið leki. Ekki þarf stærra gat en nálargat á hosu til að valda þrýstingsfalli með tilheyrandi lækkun á suðumarki, ofhitnun og hugsanlega vindingu á heddi. Sjálfur lenti ég í eltingaleik við leka sem virtist augljós. Gat eða sprunga á yfirfalls/þrýstikút, þannig að ég leitaði ekki frekar. En seinna kom í ljós nálargat á miðstöðvarslöngunni sem er milli hvalbaks og hedds. Þegar upp var staðið hafði ég keypt nýtt hedd og skipt um hringi vegna ofhitnunar á vélinni. En aldrei varð nógu heitt inní farþegarýminu vegna lekanns sem ekki var hægt að sjá vegna þess að vökvinn bunaði beint á sjóðheitt heddið og gufaði jafnharðan upp. Ég fann þetta gat með því að lýsa með vasaljósi í myrkri, með kerfið nýáfyllt og vélina fullheita. Þá sá ég örlítin úða sem strax varð að gufu og rauk í burt svo að aldrei sást merki um leka /bleyta. Skoðaðu allt kerfið vel eða farðu á gott verkstæði eins og t.d. SS Gíslason en fáir þekkja LR betur en þeir snillingar, snöggir og sanngjarnir að auki. Þér er einnig velkomið að hringja í mig ef þú vilt heyra frekar af þessum hörmungum. En allt er gott sem endar vel. Allir Land Roverarnir í fínu formi og á kafi í snjó að sjálfsögðu.
Kveðja
Steini
Þorsteinn Svavar McKinstry 698 9931 eða mckinstry@tomcat.is
11.12.2006 at 23:45 #570984Ætli að það megi ekki skýra verðið á marga mismunandu vegu. Haustið 1997 stóð ég í sömu sporum og þú líklegast. Þá stóð valið í mínum huga á milli Defender Patrol. Munaði óverulega á verði. Á endanum keypti ég Land Rover Defender 110 CSW og sé ekki eftir því. Á þeim tíma kostaði Defender nánast uppá krónu það sama og staðalbúinn dísel Discovery. Í dag munar einhverjum milljónum á þessum tveimur bræðrum, enda ólíkir bílar orðið. LR Defenderinn er einn af fáum fjöldaframleiddum bílum sem er settur saman í höndunum. (handsmíðaður) það gerir hann ma. kostnaðasamari í framleiðslu. Þá þykir mér það hughreystandi að vita að maður fær eingöngu nauðsynlega hluti eins og kram og fjöðrun, þegar maður kaupir LR. Það fer engin hluti kaupverðsins í "nauðsynlegan" annan jeppabúnað eins og rafmagnsrúðuupphalara, og hvað þetta allt heitir. Heldur er hverri krónu varið í það sem skiptir máli. Etv. er þarna komin skýringin á endingu og styrk þessara jeppa. Berið td. saman grind og stýrisgang við annað sem í boði er. Etv. ætti spurningin að hljóða hvar er hægt að spara í hinum jeppunum þannig að þá má búa svona miklu betur þegar kemur að huggulegheitadeildinni. Eitthvað kostar leðrið, öll elektrónikin og dippedútarnir sem prýða plussjeppana. Ekki ætla ég að reyna að sannfæra þig um að LR Defender sé þægilegri, hljóðlátari eða hraðskreiðari en Asíu-jepparnir sem þeir oftast eru bornir saman við. En þeir verða örugglega eldri og eru sterkari en flest ef ekki allt sem hingað kemur og verða með þér á fjöllum löngu eftir að búið er að framleiða niðusuðudósir úr brotajárninu úr Asíujeppunum. (þetta ætti að koma af stað líflegri umræðu)
Santana jeppinn er reyndar einungis örlítið móderniseraður LR framleiddur á Spáni. Hann hefur etv. betur leyst boddý en hefur blaðfjaðrir og eldri útfærslu á hlutum eins og hjólalegum og fl.Kveðja
Steini
18.11.2006 at 13:32 #568438Flest slys vegna rafgeyma verða reyndar vegna vankunnáttu eða rangra vinnubragða á kyrrstæðum bílum. Þetta gerist helst við ísetningu eða þegar verið er að vesenast með kappla. Þá sá ég eitt sinn festingu sem hafði sennilega losnað og runnið til, kortslúttað milli pólanna með tilheyrandi eyðileggingu. En hættulegasta staðsetning á rafgeymi hefur sýnt sig vera í framhorni undir vélahlíf (þar sem flestir geymar eru). Vegna þess að við harðann árekstur getur geymasýra komist úr oft brotnum eða sprungnum geymi gegnum brotna framrúðu í andlit ökumanns og farþega. Lokið á rafgeymahólfi LR Defender er tryggilega lokað og er með þéttikannti þess utan er stálbotn í sessunni. Menn þurfa einungis að gæta þess að lokið sé tryggilega lokað (ath hægt að læsa eða splitta)
Steini
17.11.2006 at 21:31 #568426Það er rétt hjá þér öll rými í Land Rover eru með innbyggðu vökvunarkerfi, loftræstingu og dreni. Að auki er gott að safna drykkjarvatni í gólfin á þeim. þetta eru líklegast svona – survival fídusar! Þá er fátt jólalegra en nýfallin mjöll á sætunum nema ef vera kynni skaflarnir á gólfunum! En mikið aga- og gasalega hljóta þetta að vera góðir jeppar úr því maður lítur framhjá þessum smávægilegu göllum.
Steini
17.11.2006 at 15:51 #568422Ég er með tvo 70ah geyma undir sætinu ( sem er original staðsetningin fyrir einn 70 ah í LR Defender 110 CSW. Hólfið er loftræst original ) Í hólfinu eru einnig tengingar og bakhliðarnar á höfuðrofum sem taka sitt pláss ásamt sjálfvirkum hleðsludeili sem sér um að báðir geymar eru ávalt í topphleðslu. Aukageymirinn er þannig tengdur að ég þarf að slá inn höfuðrofan til að nýta hann. þannig er aukageymirinn alltaf ósnertur ef ég td. gleymi ljósum á eða olíufýringunni ásamt miðstöð, sem vill henda. Ég er með 3 höfuðrofa: einn fyrir allt rafmagn, annan fyrir aukageyminn og þann þriðja fyrir spiltengi/kaplatengi. Hleðsludeilirinn býður upp á sjálfvirka tengingu við aukageyminn og/eða fjarstýrða. Það verður að segjast eins og er að það er óttaleg pína að koma geymunum fyrir og þurfti ég að smíða nýjar festingar (spennuna yfir geymana)
Kveðja
Steini
05.11.2006 at 00:06 #566616Á móti 4×4 í Húsafelli sumarið 2005 sá ég einfaldan úrhleypibúnað á Toyota jeppa. Þennan búnað hafði eigandinn sett saman sjálfur úr sennilega bremsurörum og tengjum (loftbremsubúnaður) sem fá má t.d. í Landvélum og eflaust fl. stöðum fyrir lítið. mér fannst þetta einfalt og snjallt. Menn hafa verið að nota sömu lausn í Baja, Raid, og Safari-Rally keppnum í söndum Norður-Afríku fyrir jeppa eins og Landróverættuðu Bowler- og Tomcat-jeppana og svo framv. með góðum árangri. Kann ekki einhver frá að segja um reynsluna af þessu hér heima og etv. uppskriftina (íhlutalista).
Kveðja
Steini
19.08.2006 at 17:13 #558124Hefurðu skoðað skápana og reyndar verkfærin frá FACOM? Fæst í ÍSÓL. Virkilega gæðalegir skápar og verkfæri, skúffurnar með lausum bökkum þar sem hvert verkfæri á sinn stað.
Steini
26.07.2006 at 01:18 #556760Snæfellsnesið er skemmtilegt að heimsækja. Þar er að finna fjölbreytta náttúru, jarðfræði og mannlíf. Fyrst þarf að ákveða hvorn hringinn á að fara og hvort taka sig á upp fyrir hvern dag eða skoða út frá einum stað. ef gera ætti lista yfir það sem maður verður að sjá gæti hann litið þannig út í réttsælis röð:
1. Eldborg fallegur gosgígur líklega gosið síðast f. u.þ.b. 1000 árum gönguleið frá Snorrastöðum 1-2 tímar*
Ekki gleyma að benda á Skyrtunnu, Hest og Sátu og segja börnunum söguna af skessunni eða rifja hana upp fyrir sjálfum þér.
2. Gerðuberg fallegt stuðlaberg akfært
3. Ölkelda heilsubætandi sopi fyrir þyrsta ferðamenn
4. Búðarkirkja og ströndin (hvítur sandur)
Axlar Björn bjó á Öxl og myrti næturgesti sína og faldi líkin í tjörn rétt hjá bænum (fyrsta bændagistingin?)
5. Sönghellir Jeppafær slóði upp hjá Stapafelli
6. Arnarstapi höfnin, fuglabjargið, stuðlaberg, Bárður Snæfellsás og jafnvel ganga að Hellnum.
7. Hellnar, þar er nú búið að opna skemmtilegt safn um Snæfellsþjóðgarðinn.
8. Lóndrangar
9. Djúpalónssandur akfært sérð allt á 40 min göngu smá hringur en getur einnig gengið ínn í Dritvík 1-2 tímar* með öllu
10. Hólahólar hægt að aka inn í stóran gíg
11. Gufuskálavör / Írskrabrunnur menjar um sjósókn og búsetu Írskra munka.
12. Þorvaldarbúð við Gufuskála/Hellissand safn tileinkað sjómönnum og sjósókn
13. Ingjaldshóll Þar er talið að Kristófer Kólumbus hafi dvalið einn vetur og aflað sér heimilda um Ameríku.
14. Frá Ólafsvík má komast upp á Jökulsháls og reyndar yfir til Stapa F570 (Sönghellir)
15. Fróðárheiðin suður yfir til Búða. Heiðin vetvangur margra dulafullra atburða og sagna. draugagangur og tröllasögur við hvert fótmál.
16. Búlandshöfði frábært útsýni til Vestfjarða og yfir breiðafjörð.
17. Kirkjufell við Grundafjörð skemmtilega jökulsorfið nánast yddað fjall. Illkeift en fallegt. Undir Kirkjufelli stendur Kvíabryggja fangelsi án rimla og girðinga. Þar er maturinn víst svo góður að það hvarlar ekki að nokkrum manni að flýja.
18. Berserkjahraun þar sem berserkir ruddu braut og voru svo heygðir. fallegir slóðar sem ná að botni Selvallavatns ágætis tittavatn fyrir börnin og aðra óþolinmóða veiðimenn.
19. Bjarnarhöfn heilsa uppá Hildibrand og fjölsk. skoða safnið og kirkjuna, smakka hákarl og harðfisk.
20. Stykkishólmur og jafnvel eyjaferð og bragða á því sem hafið hefur upp á að bjóða.Fara t.d. vatnaleiðina til baka og stoppa á útsýnisstaðnum yfir Selvallavatni og Berserkjahrauni
Þetta er aðeins brot af því sem gaman er að skoða. Snæfellsnesið er eins og kennslustofa í jarðfræði fyrir þá er hafa áhuga á slíku þá er nesið sögusvið Eyrbyggju og fl Íslendingasagna. Athugaðu að það getur verið sitthvort veðrið sunnan- og norðanmegin á nesinu og eins brjálað veður í Grundarfirði og logn og blíða í Hólminu.
*háð ástandi og þjálfun göngumanna
Góða ferð og góða skemmtun
Þorsteinn Svavar McKinstry
11.07.2006 at 12:36 #556192Mig minnir að ég hafi séð yfirbyggðar kerrur til leigu hjá SHELL á Gylfaflötinni í Grafarvogi. Einnig væri reynandi að spyrjast fyrir hjá Húsasmiðjunni og BYKÓ en áhaldaleigurnar þeirra leigja kerrur. Sennilega eru flestar alvöru trússkerrur í einkaeign í fullri vinnu þessa dagana. Alla vegana hefur aldrei verið jafn brjálað að gera hjá mér í leiðsögn, akstri og þh. vinnu með túrhesta og einmitt núna.
Kveðja
Steini
04.07.2006 at 22:48 #555740Vissulega má bera sig alla vegana að og nota mismunandi suður við að sjóða á hásingar. Muna bara að kæla vel því það er vel þekkt aðferð til að breyta camber á hásingum að hita eða sjóða á þær. Jeppinn gæti jafnvel orðið rangskreiður eða farið að slíta dekkjum. En það sem ég hef mestar áhyggjur af er öryggi suðumanns, ef réttar og viðeigandi varúðarráðstafanir eru ekki viðhafðar. Það getur verið mjög varasamt að sjóða á hásingar, sökum sprengihættu. Kveiknað getur í olíu og heitu gasi inní hásingunni og allt heila klabbið sprungið. Skýst þá gjarnan öxull úr eins og byssukúla. Þannig að; fara varlega, opna og hreinsa áður en suðuvinna hefst. Eða eins og sagt er á góðri Íslensku "Better safe than sorry".
Gott er að kæla með blautri tusku sem helst vel rök eins og t.d. handklæði Það leiðir vel hitan frá rörinu. þá sérðu einnnig þegar fer að gufa upp úr og eins þegar kælingin hættir að hafa áhrif. Gangi þér vel – og farðu varlega.Steini
22.06.2006 at 23:19 #555004Sælir allir. Ég hef reyndar opnað munnin áður hér á spjallborðinu vegna demparaumræðu m.a. og langar að draga fram örfá atriði.
Einhver spurði um nafn demparasnillingsins í Bílanaust. Hann heitir Bjarni og hefur oft aðstoðað mig við að breyta og gera við dempara.
Stillingarnar á dempurunum eru að miklu leiti hugsaðar til að mæta sliti en eru einnig góðar til að fínstilla aksturseiginleika bílsins. má oft ná úr þeim slæmum töktum eins og mikilli yfir- eða undirstýringu með því að stilla demparana eftir ákveðinni reglu. Hafi menn sett mikið stýfari gorma undir t.d. vegna þarfar á aukinni burðargetu t.d. vegna spils og svo frv. þarf að sjálfsögðu oft að auka dempunarkraftinn með því að stilla demparan stífari. þannig að hann vinni betur á móti í kröftugu sundurslagi.
Demparar mýkjast þegar þeir hitna. Þá hitnar olían í þeim og hún verður þunnfljótandi og veitir um leið minna viðnám á ferð sinni í gegnum ventlana ýmist í botnventli í bi-tube eða twin-tube dempurum eða og í stimpilventlum og framhjáhlaupsgöngum. Góðir "olíudemparar" eru twin-tube þ.e.a.s. hafa innri slíf og olíuforðan utanum hana. þannig eru einnig sumir gasdemparar. En flestir nútíma gasdemparar eru monotube þ.e.a.s. húsið er jafnframt slífin sem stimpillinn rennur í.
Ég myndi segja að fyrir jeppamenn sem eru að böglast og brölta í ísskörum og urð þá hljóti það að vera kostur að hafa twin-tube dempara og jafnvel enn praktískara að hafa þá viðgeranlega. Þá koma fáir aðrir til greina en KONI. Ég hef sjálfur dældað dempara á ferðum mínum um fjallvegi og kemur það ekki að sök í twin-tube dempurum. En mono-tube dempari sem dældast er í flestum tilfellum ónýtur. Þó með þeirri undantekningu að þeir þola að dældast neðst á gashólfinu og rykhettu að sjálfsögðu. Gasdempari á ekki að stífna við það að hitna. Tilgangurinn með gasinu er eingöngu sá að halda olíunni undir þrýstingi til að hækka suðumark hennar. Hliðstætt við t.d. kælikerfi í bílum sem er haft lokað og hækkar þá suðumark vatnsins oft í 118°C meðan þrýstingur helst. Ef hins vegar dempararnir eru í turrettum eða inní gormum vel varðir fyrir grjóti og þh. þarf engar áhyggjur að hafa hvort demparinn er af mono- eða twin-tube gerð vegna utanaðkomandi hluta sem gætu rekist í og skemmt.
Við hjá Tomcat á Íslandi erum búnir að vera með KONI undir öllum okkar bílum áfallalaust. Þetta eru breyttir framdemparar úr Patrol en þeir eru 2 cm styttri en original framdempari úr Defender. Við notum sama dempara allan hringinn vegna þess að bílarnir eru jafn þungir í hvert hjól. við erum með mýkri gorma að aftan en stillum demparana 15-30% stífari að aftan til að geta yfirstýrt með afli á stýrðan máta. Þ.e.a.s. ef kreppa þarf beyju í miðri beyju er einfaldlega aukin inngjöfin og töfin sem stífara sundurslagið gefur eykur yfirstýringuna. Við þurfum reyndar að skifta út öllum afturdempurum og fá okkur gas dempara vegna ofhitunarvandamáls að aftan. Ofhitun þýðir minkandi dempunarkraftur og þar hentar gasdemparinn sem lausn. Ætli að það verði þá ekki bráðlega til sölu 6-10 stk KONI framdemparar í Patrol á góðu verði að sjálfsögðu.
Það yrði líklegast til að æra óstöðugan að mæra KONI eitthvað frekar hér. Það þekkja þeir sem reynt hafa að menn sætta sig ekki við neitt annað sem einu sinni hafa reynt KONI.
Kveðja
Steini
Þorsteinn Svavar McKinstry
E.S:
Getum útvegað áhugasömum LandRover eigendum Deflex fjöðrunarfóðringar sem gjörbreyta aksturseiginleikum til hins betra og eru ódýrari en gúmídótið.
01.04.2006 at 11:11 #547986Sæll Stóri
Við hjá Tomcat á Íslandi eigum örugglega A stífu og trailingarma (neðri stífurnar) handa þér fyrir lítið. ca: kr. 10.000,-. Eigum meira að segja DEFLEX fóðringar í allt saman. Hef ekki nákvæma tölu við hendina en reikna með að stífurnar ásamt öllum fóðringum með tilh. leggi sig á kr. 20-25.000,- (sennilega nær lægri tölunni)
En ef þér er alvara með þessa breytingu og þú ferð út í hana ættirðu e.t.v. að líta á stífurnar frá EQUIPE. Þú finnur þá eflaust á netinu. Hef séð vörurnar þeirra á 4×4 sýningum úti og var hrifinn af lausnunum og vinnubrögðunum. Mig minnir reyndar að þetta hafi verið í dýrari kantinum, en mjög flott.Steini
mckinstry@tomcat.is
GSM 698 9931
-
AuthorReplies