Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
17.02.2010 at 12:25 #683282
Það er auðvitað rétt að ferðaþjónustufyrirtæki eiga að vera með ákveðnar tryggingar en þær borga ekki kostnað við björgun. Það er hins vegar rétt að það er eðlismunur á því hvort um er að ræða fyrirtæki sem tekur greiðslu fyrir að fara með fólk á fjöll og svo einstaklingum sem ferðast á eigin vegum. Ferðir 4×4 eru svo aftur í raun það síðarnefnda, þar er ekki ágóði af ferðum heldur greiða menn beinan kostnað og þó klúbburinn setji upp eitthvað skipulag fyrir ferðina er hver og einn að ferðast á eigin vegum og á eigin ábyrgð (smá innskot utan við efnið).
Þrátt fyrir að eðlismunur sé á ferðum einstaklinga og ferðum í ágóðaskyni þá er það auðvitað hárrétt að það væri mjög vafasamt að taka upp björgunarlaun. Það býður þeirri hættu heim að peningaleg sjónarmið verði til þess að menn reyni of lengi að bjarga málum sjálfir og kalli of seint á hjálp. Það getur haft alvarlegar afleiðingar. Hins vegar ættu ferðaþjónustufyrirtæki að sjá sóma sinn í að styðja sem mest við bakið á björgunarsveitum og sjálfsagt gera mörg þeirra það með ýmsum hætti. Þetta atvik á Langjökli er auðvitað ágæt áminning á það.
Kv – Skúli
17.02.2010 at 09:33 #683358Ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu að segja frá því hér að það er búið að mynda aðgerðahóp til að vinna að auknu öryggi í jöklaferðum. Hópurinn er búinn að hittast einu sinni en á þeim fundi voru aðilar frá 4×4, Landsbjörg, Jöklarannsóknafélaginu og Útivist. Markmiðin eru annars vegar að vinna að fræðslu um öruggari ferðamennsku á jöklum, semsagt hvernig sé best að bera sig að, hvað þarf að varast, hvenær jöklar séu hættulegastir o.s.frv. Hins vegar á að skoða hvort hægt sé að merkja út svæði sem sérstaklega er varasamt að fara um. Þetta síðarnefnda er talsverð vinna því þetta er talsvert vandasamt og þarf að byggja á góðum gögnum og kostar peninga.
Ég hef fulla trú á að eitthvað gott komi úr þessu. Við þurfum klárlega áminningu um það að ferðalög um jökla fela í sér hættu og kalla á góðan undirbúning, góða þekkingu og kjark til að snúa við eða hætta við ef einhver vafi er í gangi.
Kv – Skúli
08.02.2010 at 09:53 #682176Þó svo vissulega séu til sprungur sem geta gleypt bíla þá er algengara að þær séu mjórri en svo og yfirleitt er það eitt dekk sem mátar sprunguna. Ég held að svona búnaður eins og Kristján Hagalín lýsir auki öryggið frekar en hitt, allavega í 99% tilvika. Ég hef haft það að venju að vera með belti og línu í bílnum en ekki svona vel útfært að það sé klárt undir sætum. Það að hafa þetta tiltækt og góðar festingar klárar nærri hurðum eykur líkur á að nota græjuna. Hafa svo klára stöng eða álkarl til að pikka og kanna umhverfið. Ég hugsa að margir séu núna með þær hugsanir í kollinum að hafa of lítið spáð í öryggið menn lenda inni á sprungusvæðum. Hárrétt hjá Sveinbirni að það er full ástæða til að endurhugsa þessa hluti aðeins.
Kv – Skúli
04.02.2010 at 23:20 #680722Alls ekki sammála því Dolli að þetta séu 100 póstar af væli. Þvert á móti með áhugaverðari umræðum sem komið hefur á vefinn lengi, smá krufning á starfi klúbbsins. Stundum þarf "leiðinlegar" spurningar til að koma slíku af stað.
Baddi þegar þú nefnir Jeppavini þá er það náttúrulega þannig að það eru frekar nýleg samtök og raunar mjög stutt síðan menn á þeim bæ fóru að kveða sér hljóðs í þessum hagsmunamálum allra jeppaeigenda (eða öllu frekar eigenda breyttra jeppa). Fram að þessu hefur fókusinn verið aðallega á þrengri hagsmuni túristaökumanna. Hins vegar hafa ýmsir forsvarsmenn þar unnið að þessum málum á vettvangi 4×4. Nægir þar að nefna Þorvarð Inga sem hefur lengi verið viðloðandi þessi slóðamál innan klúbbsins og kemur nú fram á völlinn undir merkjum Jeppavina sem er fínt því þannig setur hann þessi mál í nýtt samhengi, þ.e. hagmuni ferðaþjónustunnar. Slóðavinir komu fram fyrir nokkrum árum, að sumu leiti eigum við samleið með þeirra hagsmunabaráttu en ekki að öllu leiti. Ég held ég geti því fullyrt að mestan hluta af 27 ára baráttusögu klúbbsins hefur hann verið eini málsvarinn. Stundum hafa þó breytingaverkstæði staðið með okkur þannig að því sé haldið til haga. Í baráttunni gegn 50 cm. ákvæðinu í reglugerðinni frá 2005 kom reyndar líka jeppadeild Útivistar að málinu og það hjálpaði örugglega til í því. En alltaf hefur það þó verið 4×4 sem hefur haft frumkvæðið í baráttunni og ég held ég geti fullyrt að hefði hann ekki verið til hefði lítið verið um varnir. Þó svo mönnum finnist stundum að við ofurefli sé að etja þá er ég nokkuð viss um að 4×4 er mun sterkari þrýstihópur en margir gera sér grein fyrir og það er fyrst og fremst að þakka málefnalegum og vel rökstuddum málflutningi.
Kv – Skúli
04.02.2010 at 11:02 #680688Þessi umræða er alltaf að verða áhugaverðari.
[quote:2nvaoux9]Klúbburinn hefur hins vegar ekki haft teljandi áhrif á þróun ferðamennsku á Íslandi, friðun stórra svæða, stækkun þjóðagarða og lokun fjölda slóða. Stjórnir klúbbsins hverju sinni hafa vissulega reynt að hafa á þá þróun sem mest áhrif. Þau hafa hins vegar því miður verið lítil á heildina litið hingað til.[/quote:2nvaoux9]
Ég held að það sé þess virði að skoða þessa fullyrðingu aðeins nánar. Það er oft erfitt að koma auga á árangurinn þegar baráttan er varnarbarátta. Ávinningar í slíkri baráttu felast í því að breytingar verði sem minnstar og fara því gjarnan hljótt. Þessir ávinningar eru samt umtalsverðir. Ég skal nefna einhver dæmi svona sem eru í kollinum.
Árið 2005 var sett ný reglugerð um umferð í náttúru Íslands af þáverandi umhverfisráðherra (Sigríði Önnu Þórðardóttur). Í drögum að þessari reglugerð voru ákvæði sem hefðu nánast gert útaf við akstur á snjó. Meðal annars var þar ákvæði um að þykkt snjóalagsins þyrfti að vera að lágmarki 50 cm (sic!). Það var fyrir úthugsuð viðbrögð klúbbsins sem öll slík ákvæði fengust út úr reglugerðinni og ákvæðið um akstur er algjörlega samhljóða lögunum (Heimilt er þó að aka vélknúnum ökutækjum á jöklum svo og snævi þakinni og frosinni jörð svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum). Þessi ávinningur fékkst ekki með neinum látum heldur með því að senda inn vel útfærða athugasemd og fundum með starfsmönnum ráðuneytisins þar sem það var útskýrt fyrir þeim í rólegheitum hvernig þetta ákvæði myndi gera það útilokað að ferðast um hálendið yfir vetrartímann. Allar tilraunir til að þrengja frekar að snjóakstri hurfu úr reglugerðinni eftir þá fundi.
Nokkuð síðar þegar þessi sami ráðherra var í þann veg að kveðja ráðuneytið (kosningar voru í nánd) var gefið út af ráðuneytinu kort sem var sett á vefinn sem sýndi “löglegar slóðir” á landinu. Að vísu var gefið til kynna að ekki væri víst að þarna væru allar slóðir sem mætti aka enda enginn lagagrunnur á bak við þetta kort. Það kom svosem ekki sérstaklega á óvart að stóran hluta slóða landsins vantaði þarna inn. Hugmyndin var að þetta kort yrði sá grunnur sem notaður yrði og lög sett um að allar aðrar leiðir teldust utan vega. Klúbburinn brást við með því að sýna fram á marga mjög alvarlega galla á kortinu og að þetta gæti aldrei virkað sem grunnur til að byggja á. Vinnubrögðin yrðu að vera vandaðri og gögnin betri ef hugmyndin væri að lögbinda leyfilegar vegslóðir. Útkoman úr þessu er sú ferlunarvinna sem klúbburinn undir forystu Ofsa hefur unnið með LMI. Hver endanleg útkoma verður þarna er kannski of snemmt að segja, en aðeins eitt sveitarfélag af þeim sem taka þátt í þessu ferli hefur klárað þetta slóðaskipulag (og í því tilfelli var mjög lítið um lokanir og menn vel sáttir við útkomuna þar). Það er framundan mikil vinna við að fylgjast með þeim tillögum sem eiga eftir að koma fram og vaka yfir því að leiðir sem skipta máli séu ekki að lokast.
Við getum því sagt að ef starfi klúbbsins nyti ekki við væri ekki hægt að stunda vetrarakstur á hálendinu nema á bestu snjóavetrum og lítill hluti slóða á hálendinu væru opnar. Í staðin hefur tekist að verja rétt okkar til að aka á snjó og frosinni jörð og enn sem komið er hefur lítið verið lokað af slóðum. Ógnunin er samt jaft til staðar og því þarf að vera stöðugt á varðbergi.
Hvað tæknimálin varðar gildir raunar sama. Á upphafsárum klúbbsins fengu menn í gegn mjög góðar reglur um breytingar á jeppum sem allt þetta stúss grundvallast á. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hafa komið fram vangaveltur um að þrengja þessar reglur. T.d. kemur slík umræða gjarnan upp þegar bílslys verða þar sem breyttir jeppar koma við sögu, alveg óháð því hvort breytingin hafi haft nokkuð með slysið að gera. Þá hefur þurft að fara á fundi, útskýra, ræða málin o.s.frv. Þá hefur klúbburinn notið góðs af þeirri miklu tækniþekkingu sem er til innan hans. Það er því ekkert út í hött að segja að ef klúbbsins nyti ekki við væri allavega búið að þrengja verulega að jeppabreytingum, hugsanlega setja reglur um að aðeins viðurkennd verkstæði mættu breyta jeppum, hugsanlega setja takmarkanir á dekkjastærð eða eitthvað annað sem mönnum dettur í hug.
Í mínum huga er þetta hér að ofan nægjanleg ástæða til að borga félagsgjaldið, en það metur náttúruleg hver fyrir sig. VHF kerfið er enn ein ástæða, ekki bara til þess að fá aðgang að rásunum heldur líka þar sem það sýnir að peningarnir eru að fara í eitthvað sem gagnast manni. Allir endurvarparnir eru kostaðir með þeim hætti að klúbburinn borgar það sem þarf að borga og félagsmenn leggja fram vinnu og bíla til að koma dótinu fyrir. Ef opinber aðili hefði kostað þetta kerfi hefði það kostað tugi ef ekki hundruð milljóna en þar sem menn hafa frá upphafi verið ötulir við að finna ódýrustu leiðirnar (án þess að það komi niður á gæðum) og vinna svo ómælda vinnu í sjálfboðavinnu, þá er óhætt að segja að þarna séum við að fá mikið fyrir lítið. Svo má auðvitað ekki gleyma Sigga Harðar í þessu sambandi sem hefur verið lykillinn að því að þetta var hægt og sparaði klúbbnum margar milljónir.
Það heyrist oft að ávinningurinn af þessu starfi sé lítill og að sú aðferðafræði sem notuð hefur verið hjá klúbbnum á undanförnum árum og áratugum hafi ekki skilað okkur neinu. Vissulega er þetta alltaf varnarbarátta, en þegar grant er skoðað held ég það sé öruggt mál að raunveruleikinn væri talsvert öðruvísi ef þessa starfs hefði ekki notið við.
Kv – Skúli
03.02.2010 at 22:42 #681282Já verð að taka undir með Atla með þetta. Hugurinn hefur verið við þetta skelfilega slys síðustu daga og Kristján og aðrir aðstandendur eiga alla mína samúð. En eins og Atli segir er manni einnig talsvert brugðið í ljósi þess að þetta gerist á slóðum sem margir hafa farið um án þess að hafa sérstakar áhyggjur. Þetta hefði því getað hent flesta, en er okkur áminning um að bera virðingu fyrir hættum á jöklum.
Kv – Skúli
03.02.2010 at 16:46 #680640Þetta með félagsgjöld stjórnar- og nefndarmanna er tæpast viðkvæmt mál og bara besta mál að spurningin kom fram, því eins og Benni segir þá borga allir félagsgjöldin, jafnt formenn, nefndarmenn sem aðrir. Og ekki nóg með það því mjög margir af þeim sem eru að starfa fyrir klúbbinn taka á sig umtalsverðan kostnað til þess að gera það og þá sérstaklega aksturskostnað. Menn eru því oft að borga með vinnu sinni. Það er því mesta furða hvað menn endast í þessu, en áhuginn á málefnum klúbbsins getur fengið menn til ýmissa fórna.
Kv – Skúli
01.02.2010 at 20:34 #680548Helgi, ég ætla svosem ekkert að blanda mér í þessa umræðu þannig séð en má til með að benda þér á skemmtilegan misskilning hjá þér. Þegar Sindri titilar sig "óþverra" er það ekki vegna þess að hann sé að gera þér upp þá skoðun á sér, enda held ég að vart sé hægt að heimfæra þann titil upp á Sindra í eiginlegri merkingu. Hann er hins vegar í ferðaklíku sem kallar sig "óþverragengið". Skal ekkert segja um hversu vel þeir standa undir nafni, eiga nú samt góða spretti í þvi.
Kv – Skúli
31.01.2010 at 12:33 #680342Þessi niðurstaða tímaritsins Times er ekki svo vitlaus, þó kannski sé ósanngjarnt að Explorer sé þarna gerður að blóraböggli fyrir alla sambærilega bíla. Það var á margan hátt slæm þróun að stórir, fyrirferðamiklir og eyðslufrekir jeppar urðu að tískufyrirbæri sem allir sem vildu lúkka rétt þurftu að eiga, hvort sem þeir hefðu þörf fyrir svona bíl eða ekki. Við þekkjum þetta vel hér á landi, hérna er fullt af stórum jeppum sem sinna ekki merkilegri þörfum en að vera innkaupakerra og snatttík og svo kannski einu sinni á ári skíðaferð til Akureyrar. Þetta var slæm þróun út frá umhverfissjónarmiðum og var líka mjög slæm þróun fyrir okkur sem erum á jeppa út af notagildi. Þetta hefur bara spillt fyrir okkar málum og aukið á neikvæðni gagnvart jeppum. Ég hugsa að ef það væru ekki aðrir á jeppum hér en þeir sem eru að nota jeppa sem jeppa, þá væri mun minna um neikvæðni gagnvart þessum mjög svo gagnlegu tækjum.
Kv – Skúli
30.01.2010 at 22:27 #680096Hárrétt Björn Ingi, þetta sjónarmið sem þarna kemur fram er af sama meiði. (Nú veit ég ekki hvort búið sé að taka út bloggfærsluna sem Björn Ingi vitnar til eða hvað, allavega virkar hún ekki núna, en hún var í tilefni slysins á Langjökli í dag og gekk út á að það þyrfti að „koma stjórnun“ á þessi ferðalög.) Þessi skrifræðishyggja sem gengur út á að það sé ómögulegt að fólk ferðist um eða yfir höfuð geri nokkur skapaðan hlut án þess að á því sé einhver stjórnun. Það er eðlislægt markmið stjórnsýslunnar að stjórna öllu. Samskonar sjónrarmið komu fram þegar slysið varð í Öræfajökli þegar tveir erlendir ísklifrarar hurfu þar. Þá vildu ýmsir að mönnum væri bannað að fara þangað og klifra nema fá til þess sérstakt leyfi á honum Opinbera Geira. Alltaf þessi hugmynd að koma opinberri stjórnun á hlutina eins og það leysi einhver vandamál. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að slys sem þessi eru alltaf hörmuleg, en lausnin liggur ekki í því að banna eða færa ríkisvaldinu meiri völd yfir fólki. En þarna erum við kannski komin aðeins á hliðarbraut við efnið.
Kv – Skúli
30.01.2010 at 21:24 #680090Helgi, ótrúlega margir göngumenn eiga Landrover eða aðra næstum eins góða jeppa til að komast á spennandi gönguslóðir. Ég hef haldið því fram og geri enn að þó svo oft sé talað um göngumenn og jeppamenn sem aðskilda hópa þá jeppast flestir göngumenn eitthvað og flestir jeppamenn gangi eitthvað. Þeir sem skrifa svona bréf eins og þarna birtist gera líklega hvorugt, eiga kannski í besta falli óslitna gönguskó inn í geymslu. Svona skriffinska hefur því ekkert með meint átök mismunandi ferðahópa að gera, heldur tilhneigingu embættismanna til að stjórna. Reyndar hallast ég frekar að því að þessi meintu átök ferðahópa sé tilbúningur embættismanna til að sundra okkur, því þannig eiga þeir auðveldara með að fá útrás fyrir stjórnunartilhneiginguna.
Spurning hvort kenning Ólsarans sé rétt. Þeir sem til þekkja þarna vita að þessi för eru gömul leið þarna sem líklega varð til löngu áður en Þjórsárverin urðu friðland og hefur aðallega viðhaldist við sporðamælingar. En út um glugga á skrifstofubyggingu á Suðurlandsbraut gæti þetta litið út sem alveg ný för eftir jeppakallana.
Annars á maður líklega ekki að vera að skrifa um þetta meðan maður er enn bæði sár og reiður.
Kv – Skúli
30.01.2010 at 18:51 #680074Það má hugsanlega vera að þetta sé hugsað sem einhver umhyggjusemi hjá Ust eins og Jón Garðar veltir fyrir sér, en það fer samt ekki hjá því að þetta ber vott um mikla fordóma gagnvart klúbbnum og embættishroka. Það er verið að gera því skóna að klúbbnum sé ekki treystandi til skipuleggja ferðir án þess að hætta sé á að náttúran verði fyrir skemmdum. Menn hafa bent á margar ágætar samlíkingar, t.d. ef starfsmenn Ust halda árshátíð og Umferðastofa myndi senda þeim áminningu um að ölvunarakstur væri bannaður. Fullkomlega sambærilegt.
Helgi, sem göngumaður frábið ég mér að spyrða þessa embættismenn við minn hóp. Skrifstofublækur í stofnunum í Reykjavík er engan veginn málsvarar eða fulltrúar göngumanna og þetta hugarfar sem þarna kemur fram er í raun árás á alla hópa ferðafólks í náttúrunni, sama hvernig þeir ferðast.
Kv – Skúli
30.01.2010 at 12:53 #680060Ég held ég geti sagt að almennt hafi ég tilhneigingu til að trúa á góða meinngu fólks, hvort sem það eru embættismenn eða aðrir, en þegar ég las þetta bréf yfir var ég kjaftstopp. Er eitthvað sem hægt er að segja að gefi tilefni til þess að senda þetta bréf? Eru brögð að því að ekið sé utan vega á auðri jörð í ferðum klúbbsins? Ég held ekki. Er þetta kannski ný vinnuregla hjá stofnuninni, munu kannski ferðafélög almennt fá sambærileg bréf þegar ferðir inn á friðlönd verða á dagskrá. FÍ er t.d. með ferð inn á friðlandið í sumar, ætlar Ust að senda þeim samskonar bréf fyrir þá ferð? Eða getur verið að þetta sé í einhverju samhengi við það að klúbburinn hefur sótt það að fá aðkomu að ákvörðunum sem varðar stækkun friðlandsins? Er hægt að lesa út úr þessu að stofnunin sé að gefa einhver skilaboð í því sambandi, að það þyki full frekt að fá að fylgjast með ákvörðunum sem varða landsvæðið þar sem stærsta og verðmætasta eign klúbbsins er? Eða er sá vilji sem klúbburinn hefur sýnt til samstarfs um hin ýmsu umhverfisverndarmál illa séður á þessum bæ og því stefnan tekin á að reyna að spilla fyrir þeim samstarfsvilja? Spyr á sem ekki veit, það er hægt að láta sér detta ýmislegt í hug, en ég held að forsvarsmenn Ust þurfi að útkýra þetta furðlega útspil. Þetta er eins og blaut tuska framan í það starf sem klúbburinn hefur unnið í baráttu gegn utanvegaakstri og umhverfismálum.
Kv – Skúli
28.01.2010 at 12:15 #210279Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með jeppafelgur í óskilum. Þetta eru 6 gata felgur, nokkuð breiðar og merktar VJV. Ef einhver hefur tapað felgum sem passa við þessa lýsingu er málið að hafa samband við óskilamunadeild lögreglunnar.
Kv – Skúli
25.01.2010 at 22:33 #678688Já rétt er það að miðað við fyrstu forsendur sem eru 80 pláss í Sigurðarskála, þá gefur það svigrúm upp á 40 bíla. Þetta eru náttúrulega viðbrögð fram úr björtustu vonum sem er bara frábært og þá þurfum við bara að finna lausnir til að fleiri komist með. Við í undirbúningshóp erum með nokkur varaplön í erminni og munum leggjast aðeins yfir þau á morgun. Kannski ekki víst að allir séu öruggir inni en það er mjög líklegt til árangurs að vera á biðlista því það verða alltaf einhverjar afbókanir.
Semsagt, ekki fyllast örvæntingu strax en þó ætla ég ekki að gefa út einhver loforð hér og nú.
Kv – Skúli
25.01.2010 at 20:33 #678680Kl. sló átta og allt varð vitlaust. 80 pláss ruku út á innan við hálftíma. Sýnist skráningakerfi stoppa skráningar sjálfkrafa þegar er orðið "uppselt" en það var ekki meiningin því menn eiga að geta skráð sig á biðlista (ekki óhugsandi að einhverjir detti út)og svo höfum við einhver úrræði með að geta hleypt með fleirum en þessum áttatíu. Örvæntið því ekki þó þið komist ekki í skráninguna, það er verið að laga þetta, en verið tilbúnir þegar það verður komið í lag.
Kv – Skúli
25.01.2010 at 14:08 #679294Gústi hvaða svartsýni er þetta, ekki taka mark á þessum könum sem allt þykjast vita best. Endilega shanghæiði fjórða mann í hópinn og skráið ykkur. Og þó það verði ekki klárt í kvöld þá getið þið skráði ykkur engu að síður og svo bætir þessi fjórði sér í hópinn síðar.
kv – Skúli
24.01.2010 at 20:54 #678660Spurt er um haldbær rök fyrir þessu hópafyrirkomulagi. Þegar svona ferð er skipulögð er hægt að hafa tvenns konar fyrirkomulag. Annars vegar að leiða allan hópinn í einni lest eins og andamamma með unga sína og einhver fararstjórahópur ber þá ábyrgð á að þeir sem þurfi aðstoð fái aðstoð. Þetta getur virkað í ferðum sem eru 20-30 bílar eða svo og menn tilbúnir til að sætta sig við seinagang og langan ferðatíma. Hentar t.d. fyrir nýliðaferðir sem ganga raunar út á að gefa nýliðum tækifæri til að læra af reyndari ferðamönnum. Fyrir svona ferð eins og hér er í gangi væri þetta hins vegar út í hött og þætti bara nokkuð gott að ná inn í Nýjadal og til baka. Við erum að tala um nokkuð marga bíla ef fyllist í ferðina og langa vegalengd. Þetta er ekki nýliðaferð heldur ferð sem beinlínis byggir á að menn geti bjargað sér sjálfir úr öllum klassískum vandamálum, festum, bilunum, affelgunum, krapa, þungu færi o.s.frv. Það geta menn ekki gert einir, þú ferð ekki einbíla í svona ferð. Stakir væru því háðir aðstoð frá öðrum og þó menn telji auðvitað ekki eftir sér að kippa í bíl hér og þar, þá er það grundvallaratriði ef ferðaplanið á að ganga upp að þetta séu sjálfbjarga hópar sem geta leyst úr sínum málum án þess að tefja fyrir öðrum.
Svo er aftur annað mál hvort hægt sé að finna einhvern hentugan farveg fyrir þessa hópamyndun eins og Stefanía er að velta upp. Það fyrirkomulag þarf samt allavega að ganga út á að menn velji sér sína ferðafélaga sjálfir en séu ekki settir saman í hóp af einhverjum skipuleggjendum. Ekki á ábyrgð klúbbsins semsagt að setja menn saman í hópa.
Þátttökugjald er það sama á alla, óháð því hvort menn leggi sig í bílunum eða inni í koju. Gústi þú getur litið á það þannig að með því hefurðu aðgang að eldhúsaðstöðu til að sötra morgunkaffi og borða kvöldmat. Það er auðvitað lítill hluti skálagjalda sem félögin fá sem fer í kostnað vegna slits á dýnum þannig séð. Gas og kyndikostnaður vegur þar mun þyngra.
Kv – Skúli
P.s. Ofsi, við borgum ekki neitt nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
23.01.2010 at 13:30 #678622[quote:37oenxlr]ok þá þarf maður að smíða sér 1stk aukatank[/quote:37oenxlr]
Auðvitað mikil þægindi af því að vera með aukatank og þessi ferð gott tilefni til þess. Það þarf þó auðvitað ekki að stoppa menn af þó þeir komi því ekki í verk fyrir ferð. Það er hægt að fá mjög góða 60 l brúsa hjá Ölgerðinni fyrir lítinn pening. Þetta eru brúsar undan einhverju appelsínuþykkni, bara skola þá vel fyrir notkun. Einfaldast að vera með peninginn í lausu.
Til viðbótar mjög góðum útreikningum hjá Benna og Óskari, þá er hægt að gefa sér þá þumalputtareglu að fyrir drjúgan dag í erfiðu færi þurfi eina tankfyllu (að því gefnu að samræmi sé á milli stærð tanksins og eyðslu, þe. stærri bílar eru gjarnan með stærri tanka). Þessi þumalputtaregla leiðir til svipaðrar niðurstöðu og er hér að ofan.
Kv – Skúli
19.01.2010 at 23:39 #677754Mér sýnist þessi aðgerð vera frábær leið til að lífga upp á spjallið, þessi þráður er kominn í 30 pósta á einum degi. Langt síðan það hefur verið svona líflegt. Svo þegar þetta verður farið að dofna er hægt að finna einhverja nýja sprengju til að koma umræðu af stað, ætti ekki að vera vandamál í sjálfu sér.
Kv – Skúli
-
AuthorReplies