Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
28.08.2010 at 21:43 #701256
Þarft og gott verk hjá umhverfisnefndinni að stika þessa leið. Vonandi flækist skiffinska hans Opinbera Geira ekki fyrir því að hægt verði að stika Breiðbak næsta ár, þar er líka full þörf á að endurnýja stikurnar sem Sigurjón Rist setti niður á sínum tíma. Flott hjá Ólafi hjá Ust að bregðast snöggt við og hagnýta vinnusemi 4×4 í þágu umhverfisins.
Rétt að taka fram að frágangi á Dalakofanum er ekki lokið að fullu, eitthvað sem eftir er að fínpússa og syðri burstin ókláruð. Eins á eftir að græja til vatn, rafmagn og ýmis þægindi. Þó er komin bráðabirgðalausn á vatnsmálin sem byggja á því að handdæla vatni í 200 l tank úr Markarfljóti, púlvinna en ætti ekki að standa í kröftugu stikuliði umhverfisnefndar. Bara muna að opna krana sem eru ofan og neðan við dæluna og loka þeim aftur eftir að dælingu er lokið. Vatnsklósett er því virkt. Svefnrými er þannig að í rúmum er pláss fyrir 10 (5xtvíbreitt), svefnloft þar yfir tekur 6 og svo er "hanabjálkasvefnloft" þar sem allt að 10 sáttir geta komið sér fyrir. Auk þess er eitthvað af auka dýnum.
Myndir af skálanum má sjá hér:
http://www.utivist.is/utivist/frettir/? … _id=366742
Kv – Skúli
P.s. Þeir sem ekki komast í stikuferðina en vilja fara í góða vinnuferð á fjöll eru velkomnir í vinnuferðina helgina eftir stikuferðina. Og auðvitað líka þeir sem fara í stikuferðina en vilja komast aftur í Dalakofann :o)
25.08.2010 at 22:20 #700904Ekki alveg víst að það sé sparnaður í því að spara sér ballanseringu á sköftunum. Fyrir utan leiðinlegan titring getur það skilað sér í ótímabæru sliti á pinjonslegum og pakkdósum og hjöruliðskrossum.
20.08.2010 at 09:54 #700596Það er rétt að þessi vinna er í gangi og er hluti af verkefni sem gengur út á að gera það sem hægt er til að auka öryggi í jöklaferðum. Verkefnið var sett af stað af vinum og ferðafélögum Halldóru Benediktsdóttur sem lést í hörmulegu slysi á Langjökli núna í byrjun árs en þátttakendur í því er m.a. Landsbjörg, 4×4, Útivist, Garmin á Íslandi og Jöklarannsóknafélagið (leiðréttið mig ef upptalningin er ekki rétt). Einn þátturinn í þessu og líklega sá erfiðasti er að kortleggja hættulegustu svæði jöklanna. Það eru ákveðin svæði á jöklum sem er alltaf best að halda sig fjarri og það gera menn ekki nema þeir hafi upplýsingar um þau. Klárlega er með þessu ekki verið að segja að annars staðar geti menn þvælst um án þess að spá neitt í málin, heldur verið að reyna að stuðla að því að menn geti ferðast á meðvitaðan hátt um jöklana. Strákarnir sem störtuðu þessu fóru í að safna fé í verkefnið og það gekk allavega nógu vel til þess að hægt var að byrja á þessu í sumar. Jarðvísindastofnun (Magnús Tumi sem jafnframt er formaður Jöklarannsóknafélagsins) skaffar aðstöðu og sá um að finna starfsmann í verkefnið. Það sem ég hef heyrt af þessu lofar góðu. Ég held að menn geri sér alveg grein fyrir þeim varnöglum sem þarf að hafa á svona gögnum, en klárlega er betra að menn hafi upplýsingar um jöklana jafnvel þó það kalli á smá hugsun við að lesa úr þeim. Á sama hátt og það er betra að sjá veðurspá fyrir ferðir og það losar mann ekkert undan því að vera vel búinn til að mæta hverju sem er.
Aðrir þættir í þessu verkefni snúa að fræðslu og auka þekkingu manna á eðli jökla og hvernig sé best að bera sig að við ferðalög á þeim. Löngu tímabært að taka saman eitthvað slíkt.
Kv – Skúli
10.08.2010 at 09:52 #699656Gaman að sjá þetta þar sem ég ætlaði að fara þessa heiði um síðustu helgi á heimleið úr Ófeigsfirði. Þegar við komum að gatnamótunum var lágskýjað og þoka niður í miðjar hlíðar þannig að heiðinni var slegið á frest. Hins vegar þegar leið á daginn létti til og var orðið léttskýjað þegar við komum á Bjarnarfjarðarháls. Tókum því smá rúnt áleiðis, ca. fimmtung af heiðinni. En þarna sé ég semsagt af hverju við misstum.
Kv – Skúli
20.07.2010 at 16:12 #698388Ja þarf ekki bara að hafa opinbert uppboð á góssinu þannig að það komi svolítið af tilboðum. Spurning hvort sýsli á Selfossi væri ekki rétti maðurinn í að bjóða hana upp. Þetta er náttúrulega ein frægasta olíutunna landsins, mér finnst eiginlega hálfgerð synd að brenna innihaldinu úr svona frægri tunnu.
Kv – Skúli
19.07.2010 at 23:31 #698382Var uppi á hálsi og sá hvergi neina tunnu, hallast að því að hálsinn sé núna oílutunnulaus. Þori þó ekki að fullyrða að tappinn liggi ekki einhvers staðar. Fann líka samsláttarpúða ef einhver hefur týnt slíku.
Kv – Skúli
16.07.2010 at 20:41 #698366Strákar er möguleiki að þið hafið tekið vitlausa tunnu? Spurning hvort er betra brúnn eða rauður en miðað við myndirnar er þetta ekki sama tunnan og á myndinni hjá Palla, þetta er myndin á blogginu hans:
[img]http://blog.eyjan.is/pallasgeir/files/2010/06/Copy-of-Fimmvörðuháls-027-300×225.jpg[/img]
Kv – Skúli
16.07.2010 at 11:15 #698470Á ég að vera leiðinlegur aftur og koma með svar strax? Mér sýnist þetta vera Hornbjarg, Jörundur og Kálfatindur teygja sig þarna upp og svo Hornvíkin fyrir innan.
Kv – Skúli
15.07.2010 at 09:20 #698464Veit ekki nafn hans ef hann hefur þá nafn en þessi foss er efst í Hólmsá, rétt neðan við Hólmsárlón og innan við Rauðabotn. Gríðarlega fallegur staður.
En ef einhvern veit fyrir víst nafn á honum væri fróðlegt að heyra það.
Kv – Skúli
14.07.2010 at 10:03 #698436Það er eiginlega fyndið að sjá þau standa þarna í röð í hvítum sloppum að framkvæma þessa merkilegu tilraun, vitandi að fyrir norðan er einn ágætur Landrover sem fær varla nokkuð annað að borða en notaða matarolíu frá skyndibitastöðum og hann er bara svona made-in-sveitin. Skv. því sem ég hef heyrt er í honum eldsneytistankur (matarolíutankur) með hitaelementi sem forhitar olíuna þannig að hún verði hæfilega þunn en það sé u.þ.b. allur galdurinn. Svo er bara að sía olíuna vel fyrir notkun.
Kv – Skúli
13.07.2010 at 21:16 #698348Get því miður ekki fullyrt um hvort ein eða fleiri af tunnunum sem voru við skálann hafi passað við lýsinguna, þetta var eitthvað samansafn minnir mig. Man þó eftir bláum tunnum en ekki svona Mobil tunnu, en það útilokar ekkert því minnið er farið að leka eins og Landrover.
Kv – Skúli
13.07.2010 at 15:19 #698342Gott að tunnan er komin til byggða og veldur ekki framar áhyggjum, þó auðvitað sé tilvist hennar þarna óupplýst. Ég setti fram kenningu í athugasemdunum hjá Páli, sem ég veit svosem ekki hvort sé rétt. Fyrir nokkrum árum fengum við hjá Útivist snjóbíl til að flytja góðan skammt af olíu í tunnum fyrir okkur í skálann. Það sem komst á tankinn fór á hann en restin stóð fyrir utan skálann í tunnunum í sjálfsagt vel á annað ár. Mögulega hefur einhver ætlað að nappa einni tunnu, skellt henni á pallinn hjá sér en lent svo í vandræðum við að drífa og losað sig þá við kvikindið. Tunnan hafi svo fennt í kaf. Ég hef svosem ekkert fyrir mér í þessu annað en að þetta sé möguleiki, það tók enginn eftir að tunnu vantaði, en þær voru svosem ekki taldar reglulega.
Ekki svo að skilja að ég ætli að gera tilkall til innihaldsins, enda liggur engin sönnun fyrir og innihaldið hlýtur að vera björgunarmanna eða klúbbsins.
Kv – Skúli
05.07.2010 at 19:37 #697574Það er lengra síðan ég var þarna þannig að lýsing Páls á aðstæðum á örugglega betur við. Sennilega ríflega hálfur mánuður síðan ég var þarna. Þá var ennþá talsverð bleyta og snjór neðan við Baldvinsskála. Ef vegurinn er fínn þangað er það semsagt ekki vandamálið en vel hægt að koma sér í vandræði í fönnunum þar norður af, hægt að lenda í hliðarhalla og veseni á þessum tíma. Þá gæti komið sér vel að vera með annan bíl með og kannski spil. Ég skal játa að stundum hef ég þvælst þarna einbíla en það hefur oft orðið til þess að ég fer styttra en ég hefði þurft og meðan snjór er notum við í dag aðra leið til að komast upp að skála, en sú leið nýtist ekki til að nálgast tunnuna.
Kv – Skúli
05.07.2010 at 17:07 #697570Ég myndi ráðleggja þér að fara þá á tveimur bílum, allavega miðað við þær aðstæður sem ég sá þarna síðast. Síðasti spölurinn getur verið blautur eða var það minnsta kosti þá. Og helst sleppa kerru, fá einhvern pikka með í för.
Kv – Skúli
17.06.2010 at 21:28 #696540Já þessi fer í "bókahilluna" í jeppanum. Svo þarf ég eiginlega eina til að hafa heima og eina á skrifstofuna.
Svo þarf Jón að fara að hætta þessu,sá breski er orðinn svo þungur í ferðum með öllum þessum ómissandi bókum, leiðarbækurnar, laugabókin og svo þessi. Maður verður að fara að sleppa varaöxlunum til að geta verið með bækurnar.
Kv – Skúli
22.05.2010 at 11:52 #694088Tek undir með Gunna að þó svo skemmdir eftir hestaumferð sé víða vandamál er það engin réttlæting fyrir náttúruskemmdir af völdum hjóla eða jeppa ef því er að skipta. Ég held að allir viti innst inni að þetta er raunverulegt vandamál, óháð því hvort skipuleggjendur þessarar ferðar sem myndirnar eru af eigi sér málsbætur eða ekki.
Kv – Skúli
20.05.2010 at 12:47 #694076Held að það sé rétt að gera skýran greinarmun á hjólaumferð og jeppaumferð hvað þessa hluti varðar og eins og málin standa er full ástæða fyrir okkur á jeppunum til að skerpa sem mest á þeim mun og alls ekki tala um þetta tvennt í sömu andrá. Enda held ég að fyrir flestum sem fjalla um þessi mál eða velta þeim fyrir sér séu þetta tveir aðskidir hópar. Efa það ekki að það er fullt af hjólamönnum sem bera fulla virðingu fyrir náttúrunni og leggja sig fram um að ekki sjáist ummerki eftir þá, en það breytir því ekki að náttúruskemmdir af völdum hjólanna eru raunverulegt vandamál og ekki skrýtið að menn hafi áhyggjur af þeim.
Með þessu er ég ekki að halda fram að allir jeppamenn séu hinir fullkomnu englar, en það liggur alveg ljóst að vandamál vegna utanvegaaksturs jeppa er af allt öðru kaliberi en það sem verið er að horfa á varðandi hjólin.
Kv – Skúli
15.05.2010 at 15:21 #693664Samkvæmt mínum skilningi er ekkert sem bannar að fara inn í Þórsmörk yfir Markarfljót, nema hvað það er lokun á veginum undir Þórólfsfelli. Hins vegar hefur Markarfljót verið nokkuð vatnsmikið síðustu 10 daga eða svo og ekki árennilegt. Heyrði að nokkuð öflugur bíll hafi flotið þar upp á dögunum.
Því miður bendir allt til þess að Þórsmerkurvegur verði ekki opnaður fyrir almennri umferð meðan gos stendur yfir. Þar óttast menn flóðahættu undan Gígjökli, þó lítið vatn sé að koma núna er talið að það geti breyst án mikils fyrirvara. Eins hafa menn í huga hættu á gaseitrun inn í skoltinum hjá jöklinum.
Kv – Skúli
29.04.2010 at 22:29 #692242Ég fór niður Breiðamerkurjökul um páskana sem er náttúrulega að verða mánuður síðan. Hafði það hins vegar á tilfinningunni þá að leiðin ætti ekki langan tíma eftir þetta vorið þó það væri ekki kominn klaki þá. Nokkuð af sprungum voru komnar fram neðst á jöklinum og á kafla greinilegir svelgir að koma í ljós.
En ítreka að þetta er orðið nærri mánuður síðan og ég veit ekkert um hversu mikið hefur breyst síðan.
Kv – Skúli
27.04.2010 at 19:33 #691694Get verið sammála tveimur síðustu skrifurum hérna. Það er engum til framdráttar að mismunandi ferðahópar fari í eitthvert skítkast sín á milli, en menn geta samt verið ósammála um eitt og annað. Björn Ingi er líka að benda á mikilvægan punkt, þ.e. að það þarf að koma í veg fyrir að náttúran skemmist við átroðning og þar þarf að horfa til fleiri þátta en aksturs. Það er ekki sjálfsagt mál að ekið sé hvar sem er og það er ekki sjálfsagt mál að það sé gengið hvar sem er. Dimmuborgir t.d. gott dæmi um stað þar sem virkilega þarf að stýra því hvar sé gengið og hvar ekki og hefði líklega mátt grípa til aðgerða þar fyrr en gert var. Álag á göngustígum inn í Goðalandi er komið á það stig að það þarf að huga að einhverri skynsamlegri stýringu á gönguferðum þar og líklega eru einhverjir blettir í nýju gígunum á Fimmvörðuhálsi sem menn vilja ekki láta sparka út. Með Vonarskarð eða öllu heldur sérstaklega Snapadal held ég að það þurfi að hugsa svolítið vel um ef göngutraffík þar eykst. Ég held hins vegar að aðrir staðir í Vonarskarði séu ekki í sérstakri hættu. Það er alveg rétt hjá Birni að fótaátroðningur mættu alveg vera meira áberandi í opinberri umræðu um náttúruvernd, en engu að síður er heilmikið verið að spá í þessa hluti og friðlýsingar beinast mjög oft meira "gegn" göngumönnum en jeppamönnum.
Kv – Skúli
-
AuthorReplies