Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
08.02.2006 at 09:53 #541890
Það er svipuð viðmið varðandi okkar afslætti, þ.e. þeir eru mismunandi eftir vörum. Ég hef hins vegar ekki samanburð á okkar afsláttum og því sem fyrirtæki eru að fá, hvort þeir séu sambærilegir við meðal fyrirtæki eða hvað en á sumum vörum eru þeir talsverðir. Allavega borgar sig örugglega að nota skírteinið þarna.
Kv – Skúli
08.02.2006 at 09:48 #541834Þegar gamla aðferðin er notuð, þ.e. festa kuldagalla eða annað slíkt á kaðalinn, hvað er það sem raunverulega stoppar spottann. Er það þyngd gallans eða kemur loftmótstaða líka við sögu? Ég er bara að velta fyrir mér hvort sé nokkur hætta á að sandpokar eða pokar með blýkúlum skapi aukna hættu ef spottinn slitnar. Nú er ekki mikil þyngd í þessum göllum en þeir gera það samt að verkum að spottinn dettur dauður niður.
Kv – Skúli
07.02.2006 at 15:21 #541414Nú bregður svo við að ég tek að nokkru allavega undir með Verkfræðingnum. Þá með það að vekja athygli á að þeir sem lokað var á eru ekki lengur í aðstöðu til að svara fyrir sig og því ekki rétt að fjalla um þeirra persónur hér.
Þess vegna hef ég t.d. ekki viljað rekja nánar hvers vegna lokað var á aðgang þessara einstaklinga en ekki annarra, umfram það sem stendur í fréttinni um lokunina. Get þó sagt að það hafði ekkert með skoðanir þeirra að gera né óvægna gagnrýni eins og nefnt er hér að ofan.Kv – Skúli
06.02.2006 at 09:32 #541678Það er rétt Lella, það er fundur í kvöld með fullt af spennandi efni. Hún kemur vonandi von bráðar á vefinn, get ekki reddað því þar sem ég hef hana ekki hér hjá mér en þetta er í vinnslu.
Kv – Skúli
05.02.2006 at 12:49 #541540Þetta er alveg tveggja kaffibolla ritgerð hjá Ofsa og margt athyglisvert í þessu. Kannski enginn þrælað sér í gegnum þetta nema ég. Persónulega vona ég að það sé rétt mat hjá honum að framkvæmdin sé óraunhæf með þessum hætti, þ.e. alfarið í einkaframkvæmd og kostuð með veggjöldum. Fyrir einhverju síðan var skoðanakönnun hér á vefnum þar sem var spurt nákvæmlega um afstöðuna til þessa:
Ert þú sáttur/sátt við uppbyggða hálendisvegi með veggjöldum
Já 11,8%
Nei 85,9%
Alveg sama 0,7%Fjöldi atkvæða: 135
(Sjá https://old.f4x4.is/new/polls/)Það væri vægast sagt sérstakt ef stór hluti hálendisins væri tekin undir samgöngumannvirki sem þetta með þeim hætti að ekki aðeins stór hluti náttúrunnar á svæðinu yrði eyðilögð heldur einnig að við þyrftum að borga “skemmdarvörgunum“ fyrir að fá að njóta þess sem eftir væri. M.a. að við þyrftum að borga þeim ef við ætluðum Kerlingafjallaleiðina inn í Setur.
Það er margt athyglisvert þarna. Jón vitnar þarna í einhvern sem sagði það frekju í jeppamönnum að vilja njóta hálendisins einir. Þetta er afskaplega grunnt sjónarmið. Fyrir það fyrsta nýtur maður ekki hálendisins í vegkantinum á uppbyggðum vegi með þungaflutningum eins og þarna er verið að tala um. Það er talað um að áhrifasvæði svona vegar sé 5 km. til hvorrar áttar og það er held ég ekkert ofmat nema síður sé. Svona vegur verður því aldrei til þess að fjölga þeim sem fara þarna til að njóta hálendisins. Í öðru lagi geta allir sem vilja farið inn á Kjöl eins og hann er í dag og notið þeirrar náttúru sem þar er. Það þarf hvorki stórkostlega breytta né dýra jeppa til þess. Í þriðja lagi er langur vegur frá að þetta snerti bara jeppamenn. Menn ferðast um náttúruna á Kili ekki síður gangandi eða ríðandi og svona vegur snertir þessa hópa ekki síður. Hjá Útivist höfum við ekki verið mikið á þessu svæði en þó eitthvað, en Ferðafélagið er með mjög skemmtilega gönguleið þarna um Kjalveg hinn forna. Þetta hefði því veruleg áhrif á FÍ. Það er því verulega stór hópur sem er á ferðinni á Kili til að njóta náttúrunnar. Á Kili er þröngt á milli jökla þannig að uppbyggður vegur þarna er nánast að hafa áhrif á svæðið allt. Ég ætla ekki að tala gefa neinum þá einkunn af stýrast af frekju en það að að taka þetta svæði undir sig með þeim hætti sem þarna er fyrirhugað og í ofanálag krefjast greiðslu fyrir að fara þarna um flokkast tæplega undir að taka tillit til hagsmuna annarra.
Annað sem ég hjó eftir þarna í grein Ofsa er afstaða Páls í Fannborg, rekstraraðila Kerlingafjalla. Páll hefur talsvert reynt að vinna í því að auka notkun okkar jeppamanna á aðstöðunni í Kerlingafjöllum, bæði með því að bæta aðstöðuna á margvíslegan hátt og eins vekja athygli okkar á því sem þarna býðst. Að mínu mati eiga þeir heiður skilinn fyrir tilraunir sínar til að rífa staðinn upp. Það kemur því nokkuð á óvart að hann lýsi yfir stuðningi við þessa framkvæmd, því tæplega tel ég jeppa- og vélsleðamenn verða markhópur fyrir gistingu í Kerlingafjöllum eftir að þessi vegur er kominn. Til þess verður þetta allt of stutt frá byggð og hefur ekki lengur þann sjarma sem við erum að leita eftir. Hugsanlega sér hann fyrir sér að þetta opni á nýja markhópa og hugsanlega er það rétt mat. Ég hef grun um að þrátt fyrir ágæta viðleitni þeirra í Fannborg séu allavega 4×4 félagar ekki að nýta aðstöðuna í Kerlingafjöllum neitt rífandi mikið, enda staðurinn stutt frá okkar eigin skála.
Það er örugglega rétt að það rennur talsvert jökulvatn niður Kjöl til sjávar áður en þessi framkvæmd verður að veruleika. Ég held samt að það sé full ástæða fyrir alla sem hafa áhuga á hálendinu að fylgjast vel með framþróun þessa verkefnis.
Kv – Skúli
04.02.2006 at 14:15 #541500Þetta er örugglega rétt hjá Óskari og á Land Rover sem hitnar seint og illa í köldu veðri væri þetta draumabúnaður. Ég er búinn að setja spjald framan við vatnskassann hjá mér og breytti það miklu. Það lokar langleiðina fyrir kæliriflurnar, rétt um 5 cm efst sem eru opnir. Sú kæling sem ég fæ úr því dugar vel að vetri til þó ekki sé neitt hörkufrost, en við álag í þungu færi kippi ég spjaldinu burt.
Ég held ég fari rétt með að á gamla Moskvich hafi verið strimlagardína og sjálfsagt fleiri bílum hér áður. Þetta held ég hafi líka verið hugsað eða allavega notað í skafrenning til að draga úr hættu á að kveikjan blotni.
Kv – Skúli
01.02.2006 at 16:35 #541002Það er nú þannig með okkur Land Rover eigendur að skrápurinn er þykkur og því ekki auðsæranlegir, rétt eins og að farartækjunum okkar má misbjóða með ýmsum hætti. Þetta er auðvitað alveg rétt sem Bjarni segir og góður Land Rover verður ekki ónýtur fyrr en löngu eftir að hann er orðinn ónýtur. Beygla hér og dæld þar er ekkert sem skiptir máli þegar um er að ræða svona vinnuþjarka, meðan suma aðra fjórhjóladrifsrennireiðar er hægt að afskrifa um það leiti sem fyrsta gatið kemur á sætisáklæðið. Þess vegna nenna menn yfirleitt ekkert að gera grín að Land Rover og því verðum við eigendur þeirra að gera það sjálfir, sbr. t.d. þessar játningar hér:
http://www.mountainfriends.com/html/jokes.htmlKv – Skúli
31.01.2006 at 22:10 #197207Einhvern tíman setti ég hér inn ágrip af sögu Land Rovers. Hér er vídeóklippa sem er einskonar lofsöngur um Roverinn með sögulegu ívafi.
Kv – Skúli
29.01.2006 at 20:06 #540650Þetta er ljóta skítaveðrið að verða, smá léttur svali og snjókoma nokkra daga og svo bara endalaus hlýindi.
Við fórum nokkur Kaldadal í gær og inn að Langjökli. Það voru sæmileg snjóalög fyrri hluta leiðarinnar þó snjórinn væri vissulega blautur, en krapinn og bleytan jókst eftir því sem á leið og snjórinn minnkaði. Sennilega lítið eftir núna af hvítagullinu á þessum slóðum. Jörð var þó vel frosin í gær en hætt við að núna sé efsta lag jarðar ófrosið og blautt þarna.
Kv – Skúli
29.01.2006 at 11:52 #540560Þetta er ágæt hugmynd og er ekki bara málið að stjórnin ríði á vaðið.
Á næsta aðalfundi verður kosið í stjórn um tvo meðstjórnendur, einn varamann og formann. Meðstjórnendur og varamenn eru kosnir til tveggja ára en formaður alltaf til eins árs.
Stjórnin fundar vikulega eða á tveggja vikna fresti eftir þörfum, en milli funda er tölvupóstur mikið notaður til samskipta. Stjórnarmenn þurfa því að fylgjast vel með tölvupósti. Flest málefni klúbbsins koma eitthvað til umfjöllunar í stjórn þannig að stjórnarstörfin eru býsna fjölbreytileg. Töluverður tími fer í mál sem snúast um samskipti klúbbsins út á við, s.s. við stjórnvöld, stofnanir, önnur áhugamannafélög og ýmis fyrirtæki. Stjórnin sér líka um að undirbúa mánudagsfundina og setja upp dagskrá fyrir þá.
Til að gefa einhverja hugmynd er best að telja upp nokkur mál sem komið hafa á borð stjórnar. Sum þessara mála heyra undir einhverja af nefndunum en stjórn vinnur í sumum tilfellum með nefndunum í einstaka málum:
Samstarf við Ingvar Helgason
Funda með hinum ýmsu nefndum
Fjármál klúbbsins
Fundir með umhverfisstofu og umhverfisráðuneyti um slóðir á hálendinu.
Þátttaka í fundum um utanvegaakstur, viðbrögð við málum sem koma upp varðandi utanvegaakstur.
Fundir með ráðuneytinu um Skaftafellsþjóðgarð
Fundur með rannsóknanefnd umferðaslysa um bílabreytingar.
Undirbúa Landsfund.
Sýningar og þátttaka á sýningum (s.s. sýningin í húsnæði Benna í fyrra og Sumarið 2005)
Myndbandasamkeppnin
Þingmannaferðin
Ferðamál (nýliðaferðir og aðrar ferðir klúbbsins). Setja ferðareglur.Þetta er nánast handahófskennd upptalning af málum sem stjórnin hefur verið að vinna í síðustu tvö árin eða svo. Get sagt við þá sem eru að velta fyrir sér að bjóða sig fram að það er oft skemmtilegt að starfa í stjórn en auðvitað tekur það tíma og menn þurfa að vera tilbúnir til að gefa tíma í þetta.
Svo er boltinn hjá nefndum.
Kv – Skúli
26.01.2006 at 21:01 #540190Ég skála í Tuborg fyrir Freysa, það kom þarna loksins einn pistill á þráðinn um efnið sem var upphaflegt tilefni hans.
Kv – Skúli
26.01.2006 at 00:33 #540284Ég er á því að formaður vefnefndar (Bjarni Gunnarsson) hafi mikið til síns máls hérna að ofan, með að virk hunsun sé áhrifaríkust í þessu.
Það er hins vegar slæmt þegar vel meintar fyrirspurnir frá almennum félagsmönnum eins og kom fram um myndir af tilteknum skála eru notaðar fyrir hótfyndni af þessum toga. Með því er verið að eyðileggja þráðinn fyrir viðkomandi. Þetta er svosem ekkert nýtt hér á vefnum og var kannski meira áberandi fyrir nokkrum árum þegar sakleysilegum spurningum um tilteknar bílategundir var nær undantekningalaust svarað með þreyttum tegundabröndurum. Þetta var á tímabili blátt áfram yfirgengilegt. Það er sjálfsögð tillitsemi að halda sig við það efni sem upphafsmaður þráðsins leggur upp með eða allavega hafa hann á svipuðum nótum og reyna að hemja fyndni sína þó erfitt sé. Brandarakarlar fá nóg af tækifærum til að láta ljós sitt skína á öðrum þráðum.
Kv – Skúli
25.01.2006 at 14:53 #540244Jú Benni þetta er örugglega rétt hjá þér, þetta er líklega Skálpanes en ekki Jaki. Lítið betri en Moggi í skálafræðum, var þó búinn að átta mig á að það skálinn sem verið er að spyrja um sé með þaki.
Kv – Skúli
25.01.2006 at 14:37 #540240Eitthvað er skálaþekking Moggans gloppótt sýnist mér. Þetta er væntanlega skálinn við Jaka sem þú ert að spá í.
Hér er ein mynd af skálanum, en að vísu þokkalega á kafi í snjó:
[img:2cwjpf5y]http://www.f4x4.is/new/files/photo/?file=files/photoalbums/1481/9290.jpg[/img:2cwjpf5y]Kv – Skúli
25.01.2006 at 14:12 #539570Varðandi GlobalStar þá erum við á jaðri þess að vera á þjónustusvæði þar:
http://www.globalstareurope.com/en/content.php?cid=300
Við erum semsagt of norðarlega til að vera trygg með gott samband. Annars væri þetta góður kostur.
Kv – Skúli
24.01.2006 at 23:58 #197155Félagi okkar í klúbbnum, Gísli Ólafur Pétursson, er með námskeið á vegum Ferðafélags Íslands í vatnasulli, sjá
hér.
Vildi bara benda mönnum á þetta ef einhver vildi notfæra sér þetta, Gísli er býsna reyndur í vatnasullari.Kv – Skúli
24.01.2006 at 12:24 #540054Nú ætlar semsagt ferðanefndin að draga okkur út í óvissuna. Það er svosem ekkert nýtt, allavega vaninn að heimkoma í svona ferð er óvissa þó svo allt sé skipulagt í þaula.
En hljómar vel engu að síður, skemmtileg tilraun hjá þeim.
Kv – Skúli
22.01.2006 at 22:04 #538380Kalli ég held að þú þurfir ekkert að vera spældur yfir að eignast Fini. Þó svo það sé hugsanlega kominn ódrýari kostur sem virkar líka vel, þá er það reynsla flestra að þessar Fini dælur þrælvirka og þola ýmislegt. Þetta er bara góð eign.
Kv – Skúli
20.01.2006 at 13:37 #539660Þetta er hugmynd sem Eik viðraði fyrst fyrir allnokkru síðan og er svo búin að dúkka upp relgulega. Í nóvember ákvað stjórn og umhverfisnefnd að setja í gang vinnu við að kanna þetta nánar, s.s. hvernig aðild félagasamtaka er háttað og hvað það kosti okkur. Þegar allar upplýsingar um þetta liggja fyrir verður málið tekið upp á félagsfundi til nánari skoðunar, en það tel ég vera rétta vettvanginn fyrir frekari vangaveltur og ákvörðun í þessu máli.
Kv – Skúli
19.01.2006 at 10:36 #539530Fyrir mér er þetta spurning um öryggismál, önnur atriði eins og möguleikinn á að liggja á vefnum inni í Setri og senda myndir er bara hugsanleg aukaafurð. Aðalatriðin varðandi það kerfi sem tekur við hlutverki NMT hjá okkur finnst mér vera tvennt.
Annars vegar að það sé nægjanlega landsdekkandi eða allavega dekki hálendi og óbyggðir þar sem GSM nýtur ekki við. Þetta skiptir auðvitað miklu því kerfi sem er verulega götótt og virkar ekki á stórum svæðum er falskt öryggi og jafnvel verra en ekkert. Þetta byggir á langdrægninni og svo hvað það eru settir upp margir sendar, hversu þétt netið er. Til þess að þetta sé í lagi þarf semsagt að setja mikið af peningum í uppbygginguna og kerfi sem er sett upp af vanefnum er verra en ekkert.
Hins vegar skiptir máli að þetta sé á viðráðanlegu verði fyrir notendur og þá sérstaklega áskriftargjöldin. Ef mánaðargjöldin eru fleiri þúsund krónur bætist of stór kostnaðarliður við rekstur fjallajeppans og margir myndu hreinlega sleppa þessum kostnaðarlið. Öryggiskerfi sem menn hafa ekki efni á að nýta sér er ekki að virka.Þetta eru aðal áhyggjuefni mín í þessu og það sem verra er þá stangast þessi atriði í sjálfu sér á. Sá sem byggir upp kerfið þarf fullt af peningum inn í það til að það verði almennilegt en svo þarf þjónustan að vera ódýr og markaðurinn er í raun ekki svo stór. En bæði þessi atriði skipta miklu upp á að kerfið virki sem raunverulegt öryggiskerfi. Ég veit hins vegar ekkert um það hvort það skipti miklu máli varðandi þessi atriði hvað tæknin sem slík heitir. Aðalmálið er að rekstraraðili kerfisins finni leið til að fullnægja þessum kröfum hér að ofan.
Kv – Skúli
-
AuthorReplies