Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
20.06.2006 at 00:25 #554902
Þetta er góður punktur hjá Ofsanum með að það þarf að greina vandann til að skilja hvernig sé rétt að vinna að lausn hans. Þetta er eins og í öllu öðru, þegar Patrol vél hættir að ganga eða Toyota fer ekki af stað byrja menn ekki bara að skrúfa í sundur einhvers staðar heldur reyna að greina hvað sé bilað og hvers vegna það bilaði (svo ég noti nú samlíkingu sem jeppamenn skilja:o) Það sama gildir þarna, það þarf að skilja afhverju menn aka utan vega og hvernig sé hægt að breyta hegðaninni. Það er ekkert eitt sem leysir allt, það þurfa að vera leiðir sem hægt er að fara (t.d. af jökli), það þarf að stika, það þurfa að vera refsingar, það þurfa að vera upplýsingar um leiðirnar og það þarf að hafa áhrif á hugarfarið.
Það er ekkert að því fyrir okkur að tala um spjöll af völdum hestamanna, hjólamanna, gangnamanna og annarra. Við megum samt ekki gera það í þeim tilgangi að beina sjónum frá okkar syndum og ekki gleyma að líta í eigin barm. Ég get ekki með góðri samvisku sagt að ég hafi aldrei verið á gráu svæði og þá er full ástæða fyrir mig að velta því fyrir mér hvernig það kom til og forðast þær aðstæður. Það er baráttuleið gegn utanvegaakstri sem allir geta notað.
Baráttukveðjur – Skúli
18.06.2006 at 21:12 #554836Það er þarna eins og svo víða að hægt er að velja ýmis afbrigði. Þú hefur líklega farið inn á leiðina aðeins áður en komið er að Skeggjastöðum og þá hefurðu ekki farið framhjá skiltinu sem Slóðríkur Ofsans er við á neðstu myndinni. Við Jón sáum þennan veg á heimleiðinni frá Skeggjastöðum og er líklega vegur sem veiðimenn nota þarna. Þú hefur þá líklega farið inn á leið sem ekki var merkt lokuð en komið af henni á stað þar sem hún er merkt lokuð, þ.e. skiltinu á efstu myndinni. Svona er Ísland í dag.
Kv – Skúli
18.06.2006 at 11:50 #554762Það er einfaldlega mæting við Álfakirkjuna kl. 13 á laugardag. Sumir fara á föstudagskvöldið og koma upp tjöldum (í Strákagili), aðrir laugardagsmorgun, en málið er að vera komin fyrir kl. 13. Svo býður klúbburinn upp á grillmáltíð um kvöldið. Að henni lokinni er hægt að skella sér á kvöldvöku og varðeldinn hjá Útivist.
Kv – Skúli
18.06.2006 at 11:18 #554756Minna menn á að skrá sig í Landgræðsluferðina, því fyrr því betra. Þið sem eru þegar búnir að taka þá skynsamlegu ákvörðun að mæta endilega sendið póst á Dag og þið hin sem ekki hafa þegar tekið ákvörðun þá vil ég benda á að þetta eru alltaf mjög góðar ferðir. Gaman að taka þátt í uppgræðslunni þarna á Merkurrananum og Guðjón frá Landgræðslunni gerir þetta mjög skemmtilega.
Kv. – Skúli
18.06.2006 at 11:12 #554372Nokkrir punktar sem er rétt að muna í þessari umræðu. Fyrst af því menn tala um kort LMÍ þá skil ég þetta þannig að þetta sé sett fram í nafni Umhverfisráðuneytisins en LMI vinnur verkið fyrir ráðuneytið. Ábyrgðin á því liggur hjá ráðuneytinu og þar með ábyrgð á áræðanleika þess. Ef í þessu korti felst eitthvað ákvörðunarvald er það spurning um ákvörðunarvald ráðuneytisins. Hins vegar liggur það alveg fyrir að ráðuneytið hefur ekki ákvörðunarvald um hvar sé slóði og hvar ekki eins og bent hefur verið á hér, heldur liggur það vald hjá sveitarfélögum. Það þýðir væntanlega að hafi sveitarfélag ákveðið að loka og fella brott einhvern slóða þarna, þá gildir það jafnvel þó slóðinn sé á þessu korti. Ef einhver væri tekinn fyrir að aka slíkan slóða, búinn að henda burt grjóti sem lokar honum og klippa á keðjur og hengilása, allt í nafni þess að slóðinn er merktur á þetta kort, þá væri hann engu að síður brotlegur og væntanlega hægt að dæma hann fyrir þetta. Spurning aftur á móti hvort viðkomandi geti farið í mál við ráðuneytið fyrir að gefa sér villandi upplýsingar.
Sama gildir á hinn veginn, vegslóðir sem ekki eru þarna en eru góðir og gildir. Ég held að þeir bjúrókratar sem þarna starfa (ráðuneytinu og UST) viti að þetta kort sé enginn endanlegur sannleikur og menn verði ekki kærðir fyrir að keyra t.d. nyðri hluta Breiðbaks eða Klakksleiðina inn í Setur. Allavega mun ég keyra þessar leiðir og margar fleiri áfram svo lengi sem viðkomandi sveitarfélag auglýsir ekki lokun á þeim. Það má velta því fyrir sér hvort þetta kort sé sett fram núna vegna sérstakra aðstæðna í pólitík og þeir sem að þessu unnu hafi einfaldlega fengið skipun að ofan um að þetta verði að fara í loftið strax, hvað sem öðru líður. Ætla ekkert að fullyrða um það hér, bara svona velta upp óábyrgum vangaveltum.
En ég er sammála Tryggva að það er ábyrgðarhlutur og þá hjá ráðuneytinu að setja fram kort sem sagt er vera leiðbeinandi fyrir almenning um hvar megi keyra, þar sem á eru slóðar og leiðir sem eru lokaðar. Eins er raunar fráleitt að setja svona kort fram þar sem eru leiðir sem eru mjög torfærar og aðeins færar verulega vel búnum bílum, án þess að þær séu merktar sérstaklega. Ef ég væri slyddujeppaeigandi og langaði að fara á fjöll myndi ég draga þá ályktun af þessu sem þarna er að þetta séu allt leiðir sem ég gæti skroppið með fjölskylduna í sumar. Það er bara alls ekki málið, þarna eru leiðir sem vart eru á færi nema 38+.
Kv – Skúli
15.06.2006 at 13:19 #198093Sælir. Á einhver feril að slóðanum norðan við Langasjó, s.s. ekki sjálri Breiðbaksleið heldur slóðanum af Breiðbak í átt að jökli? Ef einhver á slíkt væri ég þakklátur fyrir að fá það sent á skuli@utivist.is
Kv – Skúli
14.06.2006 at 21:06 #554356Finn ekki viðtalið við Jón í Dægurmálaútvarpinu en hins vegar var því útvarpað á Rúvak, hægt að hlusta á það hér:
http://dagskra.ruv.is/streaming/akureyri/?file=4290166Ég hef það eftir starfsmanni Ust að það sé ekki ástæða til að taka þessu korti sem neinn úrskurð um hvar megi aka og hvar ekki, enda er það sveitarstjórnir sem ákveða það, heldur sé þetta hugsað til leiðsagnar. Það er hins vegar kannski alvarlegasti hlutinn í þessu þegar með þessu er mönnum beint á leiðir sem hafa verið lokaðar og eru tæplega færar og/eða þola enga umferð. Þau dæmi sem þarna eru um slíkt sýna kannski öðru fremur að birting kortsins er gjörsamlega ótímabær og nauðsynlegt að vinna þetta mun betur. Klúbburinn hefur reyndar verið tilbúinn að leggja þeirri vinnu lið og átt von á að eftir því væri kallað, en einhverra hluta vegna hefur ekki þótt ástæða til þess að þyggja það. Skýringin á þvi er greinilega ekki sú að ekki hafi verið þörf á þeirri liðsinni.
Kv – Skúli
14.06.2006 at 15:09 #554348Jón Ofsi Snæland verður í viðtali um málið í Dægurmálaútvarpinu á Rás 2 á eftir, einhvers staðar milli kl. 16 og 18.
Kv – Skúli
13.06.2006 at 09:52 #554472Flestir vegir á hálendinu eru lokaðir, þ.m.t. Landsvirkjanavegurinn upp með Þórisvatni. Slóðinn á Búðarháls er ekki á vegum Vegagerðarinnar þannig að hann er ekki merktur á [url=http://www.vegagerdin.is/umferd-og-faerd/faerd-og-astand/faerd-og-vedur/faerd-um-allt-land/island1.html:1k081xys][b:1k081xys]kortið[/b:1k081xys][/url:1k081xys] hjá þeim, en mér finnst líklegt að það sé ekkert sniðugt að fara þarna núna.
Hins vegar er búið að opna inn í Landmannalaugar og býsna mikið á vestanverðu hálendinu.
Kv – Skúli
12.06.2006 at 00:46 #554150Ég er með einhvern kubb eða drif á hraðamælisbarkanum sem gerir hann nokkuð réttan á 38". Veit ekkert hvaðan hann kemur né hvort skekkjan á 35" sé innan marka. Hún má vera 10% og þú getur einfaldlega mælt hana með gps tæki, þ.e. keyrt á ákveðnum hraða skv. hraðamæli og lesið hvað gps tækið segir.
Með sídrifið þá virkar það bara mjög vel. Það er mismunadrif í millikassanum sem þú læsir með einu handtaki, lipurt og fínt.
Kv – Skúli
11.06.2006 at 22:42 #554248Ég labbaði þarna í gegn á laugardag og það var tvennt sem mér fannst skemmtilegt að sjá. Annars vegar var það að í hvert skipti sem ég labbaði framhjá 4×4 básnum þurfti ég að taka smá sveig framfyrir hann. Það var til að skemma ekki fyrir þeim sem voru að mynda Hummerinn, hann er örugglega í hópi mest mynduðu bílanna þarna enda virkilega röff. Hitt var það að mér fannst mest traffíkin vera við básin okkar. Þetta var líka flott útfært hjá þeim, þarna voru myndasýningar á tveimur skjáum og uppstillingin á bílunum og básnum flott. Og allavega þegar ég var þarna nóg af manskap til að taka á móti fólki, sem annars var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Reyndar alveg rétt hjá Eyþór með lýsinguna hún hefði víða mátt vera betri, sérstaklega ofan í húddið á Patrol/Mustang (Mustrol?) hans Óskars, en það er alltaf gott að finna eitthvað sem má bæta næst.
Kv – Skúli
11.06.2006 at 13:05 #554318Það verður að segjast eins og er að þetta lítur ekki út fyrir að vera mjög trúverðugt og einkennilegt að þetta sé sett í loftið án þess að leita neinna umsagna. Það getur eiginlega ekki verið ætlunin að beina mönnum frekar á blautar leiðir með drullu og sandbleytum en loka þeim sem eru þurrar, greiðfærar og öruggar. Dæmi um þetta er að á leið inn í Jökulheima er leiðin sem liggur upp undir Drekavatn á þurrum ásum, stikuð af Jörfí, er ekki á kortinu og mönnum þá beint ofan í sandbleytuna í Vatnakvíslinni. Sandbleytuleiðin að vísu sjálfsagt yngri en það skiptir ekki máli því það er engin skynsemii í þessu. Líka sumstaðar sem leiðir eru bara hálfa leið eins og t.d. Breiðbaksleiðin þar sem bara syðri hlutinn er. Ég á erfitt með að sjá rökin fyrir þessu.
Það kann að vera að það sé einhver pólitík á bak við það hjá ráðuneytinu að ferða- og útivistarfólk eigi ekki að hafa neitt um þessa hluti að segja og því ekki leitað neinna umsagna hjá þessum hópum, en þá þarf að vinna þetta almennilega. Það þarf að vera vit í því sem er verið að gera og það er slæmt að góðum og gildum leiðum sem menn hafa ferðast um í áratugi sé lokað eftir tilviljanakenndum leiðum og ekki síður slæm þessi dæmi sem Ofsi nefnir þar sem inn rata leiðir sem þegar hefur verið lokað til að hlífa náttúrunni. Sýnir raunar að vinnubrögðin eru algjörlega tilviljanakennd.
Hugmyndin á bak við þetta kort er í sjálfu sér ágæt, því þó í eina tíð hafi verið hægt að hafa það algjörlega opið hvað sé slóði og hvað ekki er veruleikinn orðinn annar í dag. En það sem maður óttaðist strax var að menn væru ekki að gera sér grein fyrir umfangi verksins og þetta yrði ekki unnið á fullnægjandi hátt. Átti samt ekki von á þessu í loftið svona hráu.
Kv. – Skúli
10.06.2006 at 17:37 #554224Ég verð að segja að það er eitt öðru fremur sem dregur mig á þessari sýningu og það er Hummerinn hans Þóris. Mjög spenntur að sjá þetta vígalega verkfæri. Sjálfsagt líka gaman að sjá þessar tugmilljónkróna malbiksdollur, en fyrirfram er ég sannfærður um að einu almennilegu farartækin þarna eru þau sem eru á okkar vegum og að borga 1200 spesíur fyrir sjá þá fallega uppstillta og tækifæri til að skoða þá í krók og kima er nú ekki mikið mál.
Kv – Skúli
08.06.2006 at 22:01 #554130Margar góðar sögur af Landanum. Svosem að það sé skilaréttur ef það vantar orginal dældir. Einni get ég deilt með ykkur sem er sönn. Ég keypti á dögunum hjá snillingunum í BSA (hjá þeim fær maður ekki aðeins allt í Land Rover heldur fylgir iðulega gríðarlegur fróðleikur með í kaupbæti sem því miður er alltof sjaldgæft) túbu af sérstakri feiti í liðhúsin. Túban inniheldur 370 ml af feiti passlega þykkri til að tryggja góða smurningu þarna og í passlegu magni, ein túba í hvort liðhús. Á henni stendur “Formulated for all Land Rover and Range Rover models 1951-2001“. Það eru ekki allar tegundir sem bjóða upp á að sami hluturinn passi fyrir allar árgerðir á hálfrar aldar tímabili.
Ég er kannski heppinn með eintak en eini lekinn hjá mér er meðfram hurðunum að neðanverðu sem kemur þá aðeins í ljós þegar ég fer djúpt í ár. Það þýðir auðvitað bara að hann verður stöðugri í ánni, tekur strauminn ekki á sig heldur í gegnum sig.
Kv – Skúli
08.06.2006 at 20:28 #553792Ég hugsa að allir sem spá í þessi mál séu sammála um að þó svo aðstöðuleysi réttlæti ekki skeytingalausan utanvegaakstur, muni bætt aðstaða auðvelda lausn þessara mála. Við skulum ekki gleyma því að þegar 4×4 náði á sínum tíma að draga stórkostlega úr utanvegaakstri jeppamanna fór það saman með nýjum lagaákvæðum sem opnuðu á akstur á snjó og frosinni jörð sem í dag er grundvöllur þeirrar ferðamennsku sem við stundum í stórum stíl í dag. Það var semsagt eitthvað annað sem kom í staðin. Þetta er vissulega allt spurning um að ná fram hugarfarsbreytingu, en aðstæður ráða nokkru um hversu móttækilegir menn eru fyrir hugarfarsbreytingunni.
Það er vissulega rétt að stórfyrirtæki og þá sérstaklega orkufyrirtæki fá að skemma ótrúleg flæmi í íslenskri náttúru og spurningar vakni. Þær skemmdir eru í skjóli skipulags, þessar framkvæmdir eru inni á skipulagi. Segir okkur einfaldlega að svæði fyrir hjólin að spóla á þurfa að vera inni á skipulagi, þá verða allir sáttir. Auðvitað er manni samt ekki sama um hvaða svæði séu skipulögð þannig, rétt eins og við höfum ákveðnar skoðanir um hvaða svæði séu skipulögð undir orkuöflun.
Það má svo bæta við að þessi þáttur leysir ekki það vandamál sem snýr að okkur sem er að enn og kannski í vaxandi mæli eru að sjást för eftir jeppa. Vonandi getum við hresst upp á hugarfarsbreytinguna innan okkar raða og ég held að við megum alveg líta í eigin barm og vera svolítið vakandi gagnvart eigin akstri, sérstaklega á vorin.
Kv – Skúli
08.06.2006 at 18:34 #554126Varðandi spurningu þína þá er það rétt að þú getur sloppið með upphækkunarklossa og dekk og felgur til að fara á 35 tommu, og svo kanta ef þeir sem eru fyrir eru ekki nógu sverir (sem mér sýnist þó á myndunum). Hins vegar setur þú ekki 38 tommu undir með aðeins þessa hækkun eða allavega þarf þá að klippa hressilega. Ég mátaði dekkin undir að framan hjá mér áður en ég fór í að hækka og það var ekki mikill beygjuradíus sem það bauð upp á. Ég veit ekki til þess að þeir séu hækkaðir á boddýi.
Varðandi þægindi þá er auðvitað allt afstætt. Stórir og miklir menn eiga örugglea erfitt með að fíla sig undir stýri á Defender þó rindill eins og ég fíli þetta vel, en að því slepptu er ég engan vegin sammála því að það fari betur um mann í Hilux. Ég var áður á 4Runner og fannst mikill munur að sitja undir stýri með fætur í nokkuð réttri stöðu í stað þess að hálfliggja eins og í fólksbílstík. Á langkeyrslu fer bara nokkuð vel um mig þarna og það að hafa stýrið og pedalana svona vinstra megin, ja eiginlega finnst mér núna allir bílar hálf fáránlegir með þetta þarna lengst til hægri. Þetta semsagt venst eins og annað og maður finnur sér bara réttu stöðuna. Orginal aftursætin eru hins vegar ekki boðleg fullorðnu fólki til langs tíma, það er auðvitað staðreynd. Lipur í bæjarsnatti??? Ef ég ætti jeppa sem væri lipur í bæjarsnatti myndi ég draga þá ályktun að ég þyrfti að skipta, þetta gæti ekki verið almennilegur fjallabíll. En ég fer nú samt allra minna ferða á honum, hvort sem er í Kringluna eða niður í 101. Legg kannski ekki í hvaða stæði sem er.
Kv – Skúli
07.06.2006 at 23:12 #554116Ég get alveg mælt með honum. Ég er búinn að eiga minn í tæp 3 ár og hefur hann reynst vel, get ekki séð að það sé meira um bilanir á honum en öðrum þó auðvitað geti allt bilað. Það hefur verið talað um öxla, en aðal vandamálið við orginal öxla hefur eiginlega með að gera frágang á þeim. Það þarf að hugsa um að smyrja vel endana (laus flans sem gengur upp á öxulendann og svo gúmmíhetta yfir) en svo er hægt að fá í BSA ástralska öxla sem bæði eru sterkari og með gáfulegri frágangi, ég er kominn með þá að aftan en orginal að framan og svosem ekki lent í vandræðum með þá. Vatnsdæla fór hjá mér, en ég hef ekki heyrt að það sé neinn sérstakur veikleiki, sennilega bara tilfallandi. Fer örugglega létt með tjaldvagninn og hægt að stafla miklu aftur í. Eini gallinn sem ég finn fyrir er að miðstöðin er ekki sú öflugasta, á köldum dögum blæs hún bara svona rétt volgu, kuldagallinn ómissandi í vetrarferðir. Þessi sem þú ert að spá í lítur vel út, en nauðsynlegt að fá á hann snorkel. Loftinntakið er þarna á utanverðu frambrettinu sem er ekki heppilegt í ám þegar straumurinn er þeim megin.
Kv – Skúli
07.06.2006 at 21:16 #198061Ég ætla að leyfa mér að stofna nýjan þráð þó náskylt mál sé hér í öðrum áhugaverðum þræði sem kominn er með 66 pistla, ágætt að skipta þessu aðeins upp.
Umhverfisnefndin fékk í dag fund fulltrúa frá Vélhjólaíþróttaklúbbnum, umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins til að ræða hvort þessir aðilar sjái ekki möguleika á að vinna með okkur í áróðursstarfi um utanvegaakstur. Við viljum með þessu bregðast við þessum málum sem nú eru í sviðsljósinu og eins utanvegaakstri almennt. Þó það sé aðallega og af gefnu tilefni verið að tala um akstur torfæruhjóla á Reykjanesi, er það samt staðreynd að utanvegaakstur er hvorki aðeins bundinn við hjólinn né við Reykjanesið. Klúbburinn hafði forystu í þessari baráttu fyrir nokkrum árum og náði miklum árangri og núna er þörf á að bretta aftur upp ermarnar. Vonandi næst góður árangur með því að þessir aðilar leggi krafta sína saman við að setja af stað áróðursherferð. Fyrsta verk er auðvitað að afla verkefninu fjárstuðnings og í framhaldi af því þarf að leggjast vel yfir hverju við getum áorkað með þeim peningum sem úr verður að spila og hvernig þeir nýtast best.
Vonandi verður þetta byrjun á einhverju jákvæðu og umræður á fundinum í dag voru góðar.
Kv – Skúli
07.06.2006 at 21:14 #554106Mér finnst líklegt að þetta sé hægt Rúnar. Allavega eru menn að setja 44" undir þá með þessari 10 cm hækkun, þó þá þurfi kannski aðeins að semja við framstuðarann og boddýbita aftan við framhjólin. Veit þó ekki hvort menn losni undan því að síkka stífur og fara í stýrisbreytinguna.
Kv. – Skúli
07.06.2006 at 20:47 #554102Defender er rétt um 2 tonn og 35 tomma dugar vel í allar sumarferðir og örugglega hægt að komast ágætlega áfram í léttum vetrarferðum. Fyrir 35 tommu er raunar nóg að setja 2 tommur undir gorma og brettakanta í stíl, allavega var það allt og sumt sem hafði verið gert við minn þegar ég fékk hann, en þá var hann á 35. Virkaði bara býsna vel, að vísu með læsingum framan og aftan. Defender er orginal nokkuð lágt gíraður, háa drifið með niðurgírun 1:1,411 og lága drifið 1:3,320 (í stað 1:1 og 1:2 eins og algengt er), og því þarftu ekki að skipta um hlutföll, bíllinn verður bara betri í almennum akstri á 35 tommu dekkjum. Ef þú ferð hins vegar í 38 tommu er um nokkuð meiri aðgerð að ræða, en þó ekki svo óskaplega miðað við marga aðra. [url=http://www.mountainfriends.com/html/breti.html:xlnxp6ly]Breytingaferlið[/url:xlnxp6ly] fyrir 38 tommu í máli og myndum hér.
Kv – Skúli
-
AuthorReplies