Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
06.11.2007 at 09:39 #602266
Einhvern tíman var ég búinn að díla við Fossberg um sérafslátt á Fini dælum til 4×4 félaga, en Fossberg er umboðsaðili Fini. Ef þeir kannast ekki við það, biðjið þá bara um Grettir, hann á að vita allt um málið.
Kv – Skúli
03.11.2007 at 09:36 #601730Heldur finnst mér þessi punktur vera austarlega til að vera Hnjúkurinn, þetta er einhvers staðar niðri á miðjum Hrútárjökli.
Kv – Skúli
01.11.2007 at 11:55 #601736Stórt er spurt og örugglega ekki allir sammála minni greiningu á þessu. Svarið fer kannski eitthvað eftir því hvaða týpu hann er að spá í, Defender eða Discovery. Ég gef mér að það sé Defenderinn, enda er hann hinn hreinræktaði LandRover.
Kostirnir eru náttúrulega að þetta eru eðal bílar framleiddir sem jeppar en ekki hraðbrautardrossíur, hagkvæmir í rekstri, einfaldir þannig að það er yfirleitt hægt að bjarga málum ef eitthvað bilar, hægt að troða ótrúlega miklum farangri í hann (110 týpuna allavega), auðvelt og einfalt að breyta þeim og að stærstum hluta þokkalega sterkt í þeim, þó helst öxlar sem mættu vera sverari. Vélarnar í síðustu árgerðum góðar jeppavélar með gott tork þó þær séu kannski ekki sprækar í upptaki. Þetta á sérstaklega við um tdi300 vélarnar sem eru 4 cyl og voru fram til 1997 eða 1998. Eftir það kom Td5 sem er 5 cyl vél með sama rúmtaki og hin eldri (2,5 lítra) sem er þýðgengari og snarpari upp en ekki með þetta yndislega tork sem sú 4 cyl er með. Í 2007 árg kemur svo vél sem á ættir sínar að rekja til Ford, þekki hana ekki en hef heyrt að hún sé bara býsna góð og torki vel. Einfalir og hráir, lausir við teppi, sjálfvirkni, óþarfa rafmagnsdrasl sem bilar og þannig hentugir í slark (þetta set ég með kostum þó sumir myndu sjálfsagt telja þetta galla). Alvöru stuðari sem hægt er nota sem ísbrjót ef á þarf að halda, ekki eitthvað andsk. plastdrasl sem öllu tröllríður í dag. Bílar með karakter.
Gallar. Léleg miðstöð, en búið að bæta það í 2007 árgerð. Þröngt um stóra menn í bílstjórasætinu (handleggjalangur þurfa helst að aka með opinn glugga en rindlar eins og ég geta látið fara vel um sig þarna, hef aldrei fundið fyrir óþægindum af þessu). Orginal aftursæti tæpast boðleg fullorðnu fólki til langferða (breytt í 2007 árg). Sum eintök óþétt, en þetta er nokkuð mismunandi eftir eintökum. En þetta eru nú svo veigalitlir gallar að það tekur því ekki að nefna það. Svo er það þetta með öxlana sem áður er nefnt, en sjálfum hefur mér ekki tekist að snúa í sundur öxul. Reyndar eru það frekar flangsarnir sem fara, sem er ágætt því það er lítið mál og ódýrt að endurnýja þá og svo er þetta alltaf spurningin um hvernig maður tekur á þeim. Á breyttum bílum er algengt að settir eru ástralskir öxlar sem eru sterkari og betri frágangur á þeim (fást hjá BSA).
2007 árgerðin er komin með nýja innréttingu sem er kannski svolítið nútímalegri (ef það skiptir menn máli!), ný sæti sem mátti vel breytast og sex gíra kassi með extra lágum 1. gír sem hljómar mjög promissing. Margt við þá sem hljómar mjög spennandi.
Kannski segir [url=http://www.mountainfriends.com/html/jokes.html:kj166ye8][b:kj166ye8]þessi speki[/b:kj166ye8][/url:kj166ye8] meira en margt annað um Landrover ;o)
Kv – Skúli
29.10.2007 at 17:46 #601342Hárrétt Baldvin, líta á þetta úr aðeins meiri fjarlægð, nægjanlega mikilli fjarlægð þannig að persónur sjáist ekki. Meira út frá lengri tíma þróun heldur en akkúrat því sem er að gerast í dag, horfa amk áratug fram og aftur í tímann.
Úr því hér leggjast menn á sveif þess málstaðar að klúbburinn eigi að vera stór og mikill þá er best að ég taka hina hliðina aðeins upp á mína arma ;o) Ég held að það sé engin spurning að miðað við öll þau verkefni sem fyrir liggja í daglegum rekstri klúbbsins í dag veitir ekki af starfskröftum og það fyrirkomulag sem ég þekki í því þegar einn starfsmaður í hlutastarfi og lítt tengdur klúbbnum gengur örugglega ekki eins og staðan er. Allt upp í 10 umsóknir um aðild að klúbbnum er náttúrulega rosalegur vöxtur og þessum vexti fylgir auðvitað mikil vinna. En eins og ég sagði er spurningin ekki hvort við viljum hafa starfsmann á launum við að sinna verkefnunum og því sem til fellur í þessum vexti heldur öllu frekar hvort við viljum þennan mikla vöxt. Það er alveg þess virði að spyrja sig spurninga þegar félagsmönnum fjölgar dag frá degi og umfang starfseminnar að sama skapi. Mjög líklega bara hið besta mál en samt tilefni til að spá.
Benni dregur upp ákveðna framtíðarsýn sem er að stefna ótrauð áfram sama veg, stækka, auka starfsemina, fjórfalda félagafjöldann og vera stór og áberandi. Einskonar landssamtök jeppaeigenda. Þá vaknar ein spurning og hún er sú hvernig hagsmunir fara saman, hvar og hvenær getur klúbburinn tekið afstöðu. Verndum vonda vegi er slagorð sem stundum heyrist innan klúbbsins og vísar til þess að við viljum hafa fjallaslóða frumstæða og einfalda og gera sem minnst við þá, jafnvel varðveita ákveðnar leiðir sem erfiðar og krefjandi. Í stóra tíuþúsundmannaklúbbnum er kannski Rav og HondaCRV deildin ört vaxandi og þar telja menn til almennra mannréttinda að þeir komist allt sem stóru jepparnir fara og alveg lágmark að þeir fái að taka þátt í sömu ferðum. Þetta er kannski fjarlægt dæmi, en segir allavega að því fjölbreyttari og stærri sem hópurinn er, því minna geta menn sameinast um. Fyrir ekki svo löngu ályktaði klúbburinn gegn uppbyggingu Kjalvegar og tók þar verulega af skarið í náttúruverndarbaráttu ferðamanna í náttúru Íslands. Allt slíkt framtak er mjög jákvætt og gott en er það mögulegt í svona stóru félagi? Landvernd sem þó eru sérstaklega stofnað til að vinna að náttúruvernd á jafnvel í erfiðleikum með að vinna að þessu markmiði vegna þess hve fjölbreytt flóra er að baki þeim. Það sem ég er semsagt að draga fram er að umhverfið er allt öðru vísi þegar klúbburinn er orðinn 10 þús manna fjöldahreyfing heldur en er í dag og í dag er klúbburinn allt annar en hann var meðan félagafjöldinn taldist í þriggja stafa tölu. Er það betra eða verra? Kannski bara gott mál en samt rétt að gera sér grein fyrir því fyrirfram að vexti fylgja vaxtaverkir, breytingar og öðruvísi stemning. Það fer ekki saman íhaldsemi og nostalgía annars vegar og svo stórtæk vaxtamarkmið hins vegar.
Kv – Skúli
29.10.2007 at 11:19 #201060Athyglisverðar tölur sem bent er á hér, en þurfa kannski ekki að koma á óvart. Það má benda á að þó kostnaður klúbbsins af skrifstofuhaldi hafi hækkað þá er ég ekki viss um að aðstöðukostnaður hafi hækkað svo mjög. Fyrir ekki svo mörgum árum voru mánudagsfundir haldnir á Hótel Loftleiðum og aðstaðan þar var talsvert fyrirferðamikill liður í kostnaði klúbbsins. Ég er ekki með í kollinum hvað mikið sparaðist við að flytja fundina þaðan en það var umtalsvert. Hlutfallslega miðað við fjölda félagsmanna gæti ég trúað að aðstöðukostnaður sé lægri í dag.
Svo er alltaf þessi spurning hvert og hvernig við viljum að klúbburinn þróist og hvernig kúrsinn sé tekinn. Þetta hefur verið aðeins í umræðunni og er kannski kjarninn í umræðu sem Ella setti af stað fyrir nokkrum vikum með aðeins öðrum formerkjum, en týndist kannski í þeirri umræðu (ég á kannski meðal annarra sök á því að umræðan snérist út í annað, en það er annað mál). Það er ekkert sjálfgefið að málið sé að klúbburinn vaxi og dafni og starfsemin aukist og víkki út í allar áttir, það heyrast líka þau sjónarmið að það sé bara gott og blessað að halda honum ‘low profile’ og hann sé svona eins og stór klíka fólks sem þekkist vel og vinnur saman að hagsmunamálum okkar. Þannig sé betra að halda utan um klúbbinn, minni hætta á að eitthvað sé gert í nafni klúbbsins sem ekki samræmist markmiðunum og mórallinn betri og skemmtilegri. Kannski bara eigingjarnt sjónarmið gamalla hunda sem vilja hafa klúbbinn fyrir sig, en það má alveg sjá punkta í röksemdinni. Ég er þó ekki að segja að þetta sé það rétta, en sjálfsagt að velta fyrir sér andstæðum kostum. Á móti þessu sjónarmiði má benda á að slagkrafturinn í hagsmunabaráttunni verður meiri eftir því sem meiri fjöldi og öflugra batterí er að baki, auk þess sem það hlýtur að vera markmið okkar að ná eyrum sem flestra með okkar sjónarmið. Það skiptir t.d. miklu máli í umhverfismálunum, því ég held að þeir sem ganga í klúbbinn verði meðvitaðri gagnvart utanvegaakstri. Stjórnvöld hlusta líka frekar á samtök með þúsundir félagsmanna að baki, en einhverja litla klíku upp á nokkur hundruð félagsmanna. Þess vegna viljum við að allir séu velkomnir og því fleiri sem ganga í klúbbinn og starfa fyrir hann, því betra. Þar fyrir utan samrýmist ‘low profile’ afskaplega illa jeppamennsku þar sem allt gengur út á að stækka og hækka!!! En svo ég haldi áfram að tala í hringi og gegn eigin röksemdum þá má líka benda á að á fyrstu árum klúbbsins náðu menn miklum árangri í að hafa áhrif á stjórnvöld þrátt fyrir smæð klúbbsins þá miðað við í dag. Það var einfaldlega með því að setja fram góðar röksemdir og mikilli og markvísri vinnu. Kannski má segja að smæðin hafi nýst í þessu tilfelli, því klúbburinn kom fram sem ein skýr rödd og full samstaða. Það var í raun á þessum tíma sem stóru sigrarnir voru unnir, núna erum við aðeins að reyna að verja þá sigra.
Vildi bara varpa þessari umræðu út í loftið innan klúbbsins. Eiginlega er ekki málið að spyrja hvort rétt hafi verið að ráða starfsmann í fullt starf, frekar spurning hvort þörfin fyrir starfsmanninn eigi að vera til staðar. Ég er ekki að spyrja af því ég haldi að við séum endilega á vitlausri leið, heldur af því að það er alltaf holt öðru hvoru að líta aðeins á gps tækið og vita hver stefnan er og afhverju við stefnum þangað sem við stefnum.
Kv – Skúli
26.10.2007 at 09:52 #600658Þarna kom Einar Elí með réttu lausnina, bara góðan kraftmagnara og hátalara í stíl. Ef hávaðinn er of mikill, þá er bara að yfirgnæfa hann með skemmtilegri hávaða. Þetta líkar losar mann við allt vesen með handfrjálsan búnað við símann, þú heyrir hvort eð er ekki hringinguna og þarft því ekki að svara. Og samræður í akstri eru bara til að trufla ökumann.
Teppi á ekki heima í Landrover, það hindrar eðlilegt flæði jökulfljóta í gegnum bílinn þegar farið er yfir djúpar ár og er bara til vandræða. Bara góðar gúmmímottur með filti undir, þá er hægt að spúla út úr honum skítinn. Gólfdúkur getur líka virkað vel. Það þarf nefnilega ekki rolluflutninga til að gera hann skítugan, eins og haustið hefur verið þarf ekki mikið að fara til fjalla til að allt verði í skít.
Kv – Skúli
24.10.2007 at 10:48 #600704Það er ljóst að 4×4 hefur eignast hirðskáld við hæfi. Að ólöstuðum öðrum misgóðum kveðskap sem hér hefur birst, þá bera drápur Loga af. Fyst var það Jariss drápan sem var nú bara eins og sjálfur Egill Skalla hefði ort hana og svo núna þessi snilld.
Kv – Skúli
22.10.2007 at 16:18 #598370Þessir listar eru sjálfsagt mismunandi og alltaf að bætast við í hvert skipti sem maður lendir í því að að eitthvað vantar. Hvað varðar varahluti þá fer það reyndar svolítið eftir því hjá mér hvað ég á til hverju sinni, en ég reyni gjarnan að vera með sett af hjólalegum og hjöruliðskrossa. Gamall stýrisendi liggur gjarnan í kassanum hjá mér, einhver sem ég tók úr bílnum eftir athugasemd í skoðun, en myndi duga til að bjarga sér heim. Eitthvað meira er af slíku dóti fær að liggja þarna Millibilsstöng í Rover virðist vera veikur punktur þegar komið er á 38 tommu þrátt fyrir styrkingar og því er ein slík að staðaldri í bílnum, þannig að listarnir eru sjálfsagt mismunandi eftir tegundum. Svo er ég alltaf með dollu með einhverjum graut af boltum, róm og skinnum sem hægt er að leita í eftir þörfum. Kemur sér oft vel.
Með verkfæri þá eru það auðvitað helstu lyklar, topplyklasett, skrúfjárnin, lítill meitill, splittistangir, krafttöng, stór skiptilykill og fleira slíkt. Rörtöng, slaghamrar (ágætt að hafa tvo ef þarf að rétta felgu), felgujárn og/eða kúbein, strappa, járnsög. Örugglega eitthvað fleira af þessum staðalbúnaði sem ég er að gleyma, en mikið af þessu á bara sinn fasta stað í bílnum hjá mér.
Með að skipta niður búnaði þá getur það verið sniðugt með þunga og fyrirferðamikla hluti eins og spil eða drullutjakk. Allavega óþarfi í góðum hóp að slíkt sé í hverjum bíl, en samt þarf að hafa í huga að það ýmislegt getur breyst í túrum og hugsanlegt að einhverjir þurfi að taka sig út og fara t.d. fyrr til byggða. Því ekki alltaf víst að þú getir fengið lánað hjá Sigga eða Jóni.
Kv – Skúli
22.10.2007 at 11:27 #600616Það sem mér finnst standa upp úr eftir þennan fund er að ég held að við séum alltaf að færast nær því að líta á klúbbinn sem eina heild þó svo hann skiptist niður í deildir. Það voru þarna góðar pælingar um það hvernig við getum unnið betur saman og aukið samskiptin, ekki bara móðurfélagsins við deildirnar heldur líka deildir við móðurfélag og deildir sín á milli. Ekki svo að skilja að þetta sé eitthvað alveg nýtt, deildir á norð-austur horninu hafa t.d. átt gott samstarf og margt ágætt verið gert í þessu en ég held (vona) að þessi fundur hafi verið enn eitt lóð á þá vogarskál að minnka skil milli deilda og skil milli Rvk og landsbyggðar.
Fyrir utan þetta flugu ýmsar aðrar góðar hugmyndir þarna um ýmis málefni sem stjórnin getur metið og unnið úr, örugglega ekki allar sem verða að veruleika eða virka, en allavega hægt að spá í.
Mér fannst virka vel að vera annars staðar en í Setrinu, Setrið er staður sem maður er vanari að fara á sér til skemmtunar en að vinna. Ekki frá því að einbeitingin sé betri með því að fara í annað umhverfi.
Kv – Skúli
21.10.2007 at 20:27 #600420Félagsgjaldið er þessi upphæð einfaldlega vegna þess að félagsmenn klúbbsins ákváðu það sjálfir, þ.e. þeír félagsmenn sem sáu ástæðu til að mæta á aðalfund og hafa þannig áhrif á ákvarðanatöku innan klúbbsins um þetta og margt fleira. Þannig varð þessi tala einfaldlega til.
Fyrir mig og mjög marga félagsmenn hefur félagsgjadið í raun lækkað milli ára að teknu tilliti til þess að ég nota VHF talstöð. Í fyrra borgaði ég 4500 í félagsgjald og 2600 af talstöðinni, samtals 7100. Núna hefur gjaldheimta Póst og fjar verið færð af mér sem einstakling yfir á klúbbinn þannig að ég losna við það gjald og klúbburinn sér um það fyrir mig og ég sit eftir í gróða upp á heilar 850 krónur. Spurning hvað maður gerir við þær.
Þá segir kannski einhver, en ég nota ekki VHF en þannig er þetta, þá eru bara einhver önnur útgjöld sem nýtast þeim en kannski ekki mér.
Kv – Skúli
19.10.2007 at 07:59 #600322Þakka Tryggva greinargóð svör og skýringar, margt í þessu upplýsandi fyrir umræðuna. Þetta fyrirkomulag hjá stjórninni með tengilið starfsmanns er góð hugmynd, bæði til þess að stjórn hafi sinn aðila til að meta störf starfsmannsins og eins og ekki síður til þess að starfsmaðurinn hafi eitthvað backup í sínum störfum. Það finnst mér ekki síður skipta máli. Varðandi hagsmunaárekstra þá held ég allir sem þekki Agnesi hljóti að vita að fyrir henni eru hagsmunir klúbbsins númer eitt. Sú pæling er því frekar theorísk en eitthvað áþreifanlegt áhyggjuefni í stöðunni. Þetta fyrirkomulag að hafa formann starfandi fyrir félagið er ekki óþekkt í félagsstarfi og hefur vissulega bæði kosti og galla eins og allt annað system.
Kv – Skúli
18.10.2007 at 23:55 #600306Ég verð að bæta við hérna af því Ella er hér á öðrum þræði (á opnum vettvangi sem ég enn og aftur skil ekki hvers vegna) að túlka þessi sjálfsögðu viðbrög vefnefndar sem árás á tjáningarfrelsið. Opinská umræða og vangaveltur fram og til baka um hvernig sé rétt að haga hlutunum þurfa í sjálfu sér ekki að vera persónulegar árásir, þær geta verið holl pæling og kveikt hugmyndir og svo er bara að meta síðar hvort rétt sé að fara eftir þeim. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fullyrða um hvort það sé rétt hjá Halldóri og Erling að túlka þetta sem persónulega árás, kannski er ég bara svona grænn og kannski hvarflaði það ekki að mér því það er svo langur vegur frá að Agnes eigi slík neðanbeltishögg skilið. Um það er ég sannfærður og þarf ekki að vera Eyfirðingu til að sjá það ;o) Hins vegar er alveg fráleitt að það eigi heima á opnum vettvangi þegar bornar eru fram spurningar eins og þær hver starfsmannakostnaður félagsins sé, hve margir greiði félagsgjöld og hvaða verkefni framkævmdastjóri klúbbsins sé að sinna. Ella, það hefur ekkert með tjáningafrelsi að gera þó klúbburinn ákveði að þetta sé eitthvað sem utanaðkomandi aðilum komi ekki við og þetta eru spurningarnar sem þú berð fram. Ég er jafn gáttaður og Halldór á að þú látir þér detta annað eins í hug. Og þessi skoðun mín á ekkert erindi fyrir augu utanfélagsmanna eða þessi umræða yfir höfuð og því set ég þetta hér en ekki á ‘ritskoðunarþráðinn’. Umræða um svona hluti getur verið ágæt innan klúbbsins ef rétt er að henni staðið, en á opnum vettvangi gerir hún ekkert annað en vinna klúbbnum ógagn ef ekki beinlínis grafa undan honum.
Kv – Skúli
P.s. þetta ritskoðunarpíslavætti er nú að verða þreytt þema.
18.10.2007 at 18:58 #600298Þetta nefnilega skýrir málið ágætlega og nú getur hver svarað fyrir sig spurningum eins og er líklegt að þessi verkefni rúmist í 25% starfi. Einnig, er vinnusvigrúmi (eða hvað maður kallar það) stjórnarmanna sem vinna fyrir klúbbinn í sjálfboðavinnu vel varið í að hlaupa undir bagga með starfsmanni í alltof litlu starfshlutfalli.
Það er því engin spurning í mínum huga að þetta var komið á villugötur og um leið og nískupúkinn ég gekk úr stjórn tóku nýjir menn sig til og bættu úr því (ég var semsagt í þeirri villu að reyna að halda starfsmannakostnaði niðri).
Svo er bara aðalmálið að hlutirnir séu að virka og ég held að þeir hafi gert það all þokkalega í vetur og starfsemi klúbbsins á margan hátt orðið meira ‘pro’ en var.
Kv – Skúli
18.10.2007 at 15:53 #600330Verði umræddum þræði breytt aftur í opinn þráð vil ég hins vegar að svar mitt sé tekið út því að mínu mati á sú umræða sem þarna fór fram ekkert erindi á opinn þráð. Það er engum félagsmanni ofrausn að skrá sig inn til að fylgjast með innri málefnum klúbbsins.
Ella, ég dró þá ályktun að þetta hefði verið mistök hjá þér að setja þetta þarna inn, líkt og hjá mér. Veit ekki hvort sama ályktun var að baki hjá vefnefnd, en burt séð frá því, ef eitthvað á heima undir lokaða svæðinu þá eru það fjármál klúbbsins. Það er eitthvað sem klárlega aðeins félagsmönnum kemur við.
Kv – Skúli
18.10.2007 at 14:32 #600290Þetta eru í sjálfu sér verðugar spurningar sem gott er að velta fyrir sér. Þegar ég sat í stjórn var einn starfsmaður í 25% starfi fyrir klúbbinn þannig að það er von að spurt sé. Mín skoðun er hins vegar sú að sá sparnaður sem í því fólst hafi ekki verið skynsamlegur sparnaður eða allavega komið að þeim tímamörkum að þetta var ekki sniðugt. Það dugði kannski fyrir nauðsynlegum verkum eins og að senda út félagsskírteini eða slíkt, en ekki meira en svo. Með því að auka þetta erum við að auka möguleika klúbbsins til að sinna hlutverki sínu með sómasamlegum hætti. Það er gott mál að félagsmenn vinni í sjálfboðavinnu að ýmsum verkefnum fyrir klúbbinn, en eigi klúbburinn að vera öflugur málsvari okkar og geta sinnt öllum þeim fjölda mála sem upp koma í dag, er það eitthvað sem menn gera ekki í sjálfboðavinnu samhliða brauðstritinu. Þekki það á eigin skinni þar sem í formannstíð minni fannst mér langur vegur frá að ég væri að sinna öllu því sem hefði þurft og margar góðar hugmyndir féllu dauðar út af tímaleysi. Þetta leiðir líka til þess að formenn eru fljótir að brenna út hjá okkur, menn reyna að þrauka í tvö ár en eru komnir út fyrir þolmörkin á seinna árinu.
Svo er auðvitað spurning hvort rétt sé að starfsmaður sé jafnframt formaður. Það háttar til þannig núna kannski vegna þess að Benni þurfti nokkuð óvænt að draga sig í hlé. Þetta er reyndar ekki óþekkt hjá félagasamtökum og getur virkað ágætlega. Ég held samt að það væri æskilegra að hafa þetta aðskilið og starfsmaðurinn starfi í umboði formanns og sem hans undirmaður. Þá nýtast líka kraftar beggja betur.
Kv – Skúli
P.s. takk vefnefnd fyrir að flytja þráðinn, ég gekk út frá að þetta væri í innanfélagsmálum og hefði hagað skrifum mínum öðruvísi og jafnvel ekki svarað hefði ég áttað mig á að þetta væri á opnum þræði.
18.10.2007 at 00:04 #600228Kók hefur verið notað til að þrífa framrúður og tyggjó til að stoppa leka bensíntanka og jafnvel vatnskassa. Annað trikk við bensíntanka er að setja handsápu fyrir gatið og svo kannski silocon lag yfir til að halda henni. Bensín leysir ekki upp sápuna. Fyrir einhverjum áratugum notaði ég þetta trikk á bíl sem ég átti og dugði lengi. Grænsápu er líka hægt að smyrja inn í bremsudælur ef silenderinn er orðinn pollóttur. Hins vegar notar sjáflsagt enginn svona brellur í dag, einfaldara og öruggara að kaupa nýtt
Muna menn eftir fleiri gömlum húsráðum (bílskúrsráðum) af þessu tagi?
17.10.2007 at 11:58 #600154Þetta er örugglega erfitt mál og erfitt að fullyrða að brotið sé að kenna þeim sem ók. Ég veit um nokkur dæmi þess að drif hafi brotnað við eðlilegan akstur og án átaka. Þá getur verið að veikleiki hafi myndast jafnvel löngu áður við einhver átök og svo fari tönnin endanlega í rólegheitaakstri. Eins ef drifið er ekki rétt stillt inn eða hliðarlegur lélegar. Þetta getur verið með svo margvíslegum hætti að það er erfitt fullyrða neitt um það.
Kv – Skúli
17.10.2007 at 01:09 #600078Það er örugglega rétt hjá Rúnari að stöðugleiki er ekki sama og hliðarhallaþol. Að vísu skiptir hliðarhallaþol okkur ekki síður máli því á fjöllum reynir oft á þann eiginleika, en það er kannski annað mál. Bíllinn hjá mér er sjálfsagt hátt í 40 cm breiðari en orginal mælt frá ytri brún dekkja og það hugsa ég að geri meira en vega upp á móti hærri þyngdarpunkt (án þess að hafa mælingar á því)
Varðandi þetta viðtal þá hefur Tómas auðvitað lög að mæla að það þjónar engum tilgangi að taka menn eða fyrirtæki af lífi fyir skoðanir þeirra. Hins vegar virkar það á mig sem ansi mikill hroki að tala um ‘skynsemismörk’ í jeppabreytingum og miða þar við það framboð sem þeir bjóða. Gagnvart samkeppnisaðilum sem hafa til að bera kunnáttu og getu til meiri breytinga en 35 tommu finnst mér þetta vera neðanbeltishögg. Svo skýtur hann í leiðinni á bílskúrsbreytingar sem ef vel er að gáð er líklega grundvöllurinn að þeirri starfsemi sem þeir stunda. Það er allavega í góðu lagi að ræða fullyrðingar hans, en vissulega óþarfi að fara í einhvern varnarleik.
Kv – Skúli
16.10.2007 at 22:00 #599794Það er nú svo gaman að segja frá því að ég er sammála öllum síðustu mælendum hér, þar með andmælendum mínum, allavega að nokkru leyti. Það er örugglega eftirspurn eftir ferðum yfir vetrartímann fyrir minna breytta bíla og örugglega líka fyrir meira breytta bíla. Benni segir, það þurfa allir leiðbeiningar til að byrja með og það er alveg hárrétt og klúbburinn hefur vissulega hlutverk í því (þar erum við jú að tala um nýliða). Það er mikil þörf fyrir nýliðaferðir og einhverjar þeirra þurfa að vera sniðnar að minna breyttum bílum. Fyrri stjórn litludeildarinnar tók þá stefnu að einbeita sér að dagsferðum og þó ég hafi haft aðeins efasemdir fyrst þegar ég heyrði þá hugmynd þá sannfærði Laugi mig fljótt um réttmæti hennar og þátttakan sýndi að það var rétt. Og reyndar töluverð þátttaka fólks á 38+.
Mitt point er hins vegar að klúbbstarfið getur virkað á sama hátt fyrir menn á litlum og stórum dekkjum og REYNDIR eigendur 29-35 tommu jeppa geta skipulagt sínar ferðir sjálfir rétt eins og þeir sem nota stærri dekk. Það er rétt Laugi, þeir þurfa að skipuleggja sig öðruvísi, leggjast betur yfir veðurspá og aðstæður og hafa meira svigrúm í sínum plönum. Þeir úr þessum hóp sem eru komnir með sæmilega ferðareynslu þurfa enga endalausa handleiðslu og gera þetta örugglega best sjálfir. Sumum vantar kannski eitthvað upp á, svosem staðbetri rötunarkunnáttu (og þá meina ég ekki bara að kunna á GPS svo ég komi því að) eða landafræði og þá eru námskeiðin góð. Í öðrum tilfellum eru það ferðafélagar sem vantar og þá hefur vefurinn einmitt verið að virka vel eða bara mæta á fundi, kíkja á opin hús á fimmtudögum og taka þátt í starfinu.
Það sem gert hefur verið innan klúbbsins í skipulagningu ferða er gott, bæði nýliðaferðir og þessar mánaðarlegu dagsferðir Litlu nefndarinnar voru frábært framtak. Ég er ekki að mæla því mót, þó vissulega sé rétt sem Hlynur bendir á að þetta er ekki skilgreint sem megin hlutverk klúbbsins. En þegar menn fara að tala um að eigendur bíla undir 38 t séu útilokaðir úr klúbbstarfinu og eigi ekkert erindi í klúbbinn ef þeir fá ekki sérmeðhöndlun, þá finnst mér umræðan komin á villigötur. Ef menn skoða málið vel sést að það er mjög lítið skipulagt sérstaklega fyrir stærri jeppa, eiginlega varla meira en 1-2 ferðir á ári. Ég tel mig samt fá heilmikið út á félagsaðildina, jafnvel þó ég láti flestar þessara ferða framhjá mér fara. Og þá er ég ekki bara að tala um afslættina.
Og svona að lokum. Laugi mér líst vel á hugmyndina hjá þér að skella upp ferð, væri jafnvel til í að taka þátt í þessu með þér ef tímaramminn leyfir.
Kv – Skúli
16.10.2007 at 17:34 #600060Þessi Björn fullyrðir að sé jeppum breytt innan þessara skynsemismarka sem hann setur (sic!) þá séu þeir stöðugri en óbreyttur bíll. Sennilega rétt en í orðunum liggur að ef farið er í 38 tommu breytingu gildi þetta ekki. Það væri fróðlegt að sannreyna þetta, taka 35 tommu bíl breytt af þeim og svo annan sömu gerðar á 38 tommum og kanna hvað þeir þoli mikinn halla. Mér segir svo hugur að 38 tommu bíllinn sé stöðugri. Svona test var gert fyrir sennilega ca 8 árum eða svo og leiddi í ljós að óbreytti bíllinn þoldi minni halla en 38 tommu bílinn.
Spurning hvort eitthvað breytingaverkstæði sem stundar jeppabreytingar út fyrir “skynsemismörk“ Björns sjái ekki hag í að hrekja þessa fullyrðingu samkeppnisaðilans.
Kv – Skúli
-
AuthorReplies