Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
08.10.2009 at 23:23 #660884
Nú er ég ekki lögfræðingur, en ég er næstum alveg viss um að lokun sem þessi sé ólögleg. Rétt eins og ef ég setti hlið við endann á götunni hjá mér og merkti hana sem einkaveg og meinaði öðrum að aka hana. Spurning hvort hægt sé að kæra Símann fyrir þetta eða hvort það þurfi að klippa á lásinn og vonast eftir að fá á sig kæru til að fá prófmál.
Kv – Skúli
05.10.2009 at 09:21 #660150Þarf ekki einfaldlega að senda fyrirspurn á stjórnendur fyrirtækisins hvort þeir vilji í ljósi þessa losna við viðskipti við félagsmenn 4×4 og afnema þennan afslátt. Ef það er ekki þeirra vilji þurfa þeir auðvitað að ræða við starfsmenn sína um þjónustuhlutverkið og framkomu við viðskiptavini, en ef þetta er sjónarmið fyrirtækisins sem maðurinn var að túlka getum við auðvitað farið annað með viðskipti okkar. Kannski ekki rétt að dæma fyrirtækið fyrr en þetta liggur fyrir.
Kv – Skúli
03.10.2009 at 21:31 #659946Það var gott að þau vöruðu við þannig að maður færi ekki að gera einhverja vitleysu. Í ljósi þessara alvarlegu viðvarana fór ég einbíla inn í Kerlingafjöll í morgun og hefði ég ekki vitað þetta fyrirfram hefði ég misst af ófærðinni, enda á 38 tommum.
Kv – Skúli
01.10.2009 at 09:37 #658970Hefði verið gaman að hafa þig með, gengur kannski næst :o)
Kv – Skúli
30.09.2009 at 10:30 #658964Ja Rúnar náttúrulega ekki eins skemmtilegur eins og að kljást við krefjandi verkefni eins og hrunin tölvukerfi ;op. Sést líka á svipnum á mönnum á myndunum, en það eru komnar myndir inn á [url=http://utivist.is/utivist/myndasogur/?cat_id=1062&ew_0_a_id=346101:1rnconzw]vefinn hjá Útivist[/url:1rnconzw]
Kv – Skúli
29.09.2009 at 09:38 #658956Já kannski orðið tímabært að Hlynur fari að nota flösusjampó.
[img:1zqoty0i]http://lh3.ggpht.com/_f98o4z-EXsA/SsEBMbZMs3I/AAAAAAAACMA/BJ3uMqNO-5s/s640/IMGP6167.JPG[/img:1zqoty0i]
Allavega væri ágætt ef hann léti vera að klóra sér í hausnum beint yfir bílnum hans Ladda:
[img:1zqoty0i]http://lh3.ggpht.com/_f98o4z-EXsA/SsEBFDqhbnI/AAAAAAAACLc/dlK6Yji2X40/s720/DSC_0056.JPG[/img:1zqoty0i]
Bestu kveðjur norður ;o)
Skúli
25.09.2009 at 11:50 #658066Ég get reynt að svara einhverju af þessu.
[i:13h1vmra]En veit einhver HVERS VEGNA þeir Áshreppingar vilja loka þessum vegum og slóðum?[/i:13h1vmra]
Ég held að stjórnin sé að kalla eftir svörum við þeirri spurningu. Þetta er sjálfsagt svolítið flókið mál, en það gæti verið að spila þarna inn í lagalegt spursmál um ábyrgð á ástandi vega ef þeir eru komnir á skipulag. En þetta væntanlega skýrist.[i:13h1vmra]Hafa þeir lögsögu um málið?[/i:13h1vmra]
Já það er nú bara svo einfalt að hreppurinn hefur skipulagsvald og þetta fellur undir það. Þegar Þórunn var umhverfisráðherra viðraði hún einhverjar hugmyndir um að skipulag hálendisins færi undir ráðuneytið í stað sveitarfélaga, en fann held ég fljótt að sú hugmynd myndi ekki ná fram að ganga. Svo má deila um hvort það væri gott eða slæmt.[i:13h1vmra]Er þá ekki öll umferð bönnuð, gangandi og ríðandi líka? [/i:13h1vmra]
Það gilda víst önnur lög um hestaumferð en vélknúna.G[i:13h1vmra]æti Kópavogur t.d. bannað fólki að aka um götur bæjarins?[/i:13h1vmra]
Já skipulagsyfirvöld gætu bannað akstur í götunni hjá mér ef þeim dytti það í hug. Ég gæti sjálfsagt mótmælt en valdið er hjá skipulagsyfirvöldum. Rétt eins og skipulagsyfirvöld í Reykjavík geta tekið ákvörðun um að gera Austurstræti að göngugötu.Valdið liggur því þarna hvernig sem á málið er litið, en þó er þetta kannski ekki alveg svo einfalt. Þetta þarf að fara fyrir skipulagsnefnd miðhálendisins til staðfestingar þar sem SAMÚT á fulltrúa, en ekki víst að hægt væri að stoppa þetta þar (einn fulltrúi á móti mörgum fulltrúum sveitarfélaga). Svo fellur hluti af þessu undir þjóðgarðinn og þegar verndaráætlun lítur dagsins ljós ræður hún.
24.09.2009 at 00:13 #658048Eiki, það er ekki svo að við höfum ekkert fyrir okkur í því sem við höldum hér fram. Áður en ég kem að því verð ég þó að leiðrétta eitt hjá þér. Þú segir að við fullyrðum að “mál væru ekki í svona "góðu horfi" ef klúbburinn hefði ekki tekið þátt í þessu verkefni”. Það hefur enginn fullyrt það, hins vegar höldum við því fram að málum væri verr komið ef klúbburinn hefði ekki tekið þátt. Á þessu er talsverður munur.
En það sem við höfum fyrir okkur í þessu eru eiginlega þessi atriði sem þú dregur út úr textanum hjá mér:
"Upplýsingarnar hefðu ekki borist"
Það sem við höfum fyrir okkur í þessu er að upplýsingarnar berast í gegnum vinnu okkar í þessu verkefni, það er ástæða þess að Jón fékk þessar upplýsingar í hendur."örugglega ekki strax"
Nei við hefðum væntanlega fyrst fengið þetta í almennri kynningu og hún er ekki komin á dagskrá ennþá. Önnur félagasamtök sem eiga hagsmuna að gæta á sama hátt og 4×4 hafa aðeins fengið upplýsingar um þetta frá okkur."Umhverfisráðuneytið hefði ekkert hætt við málið"
Augljóslega ekki, ef eitthvað er öruggt í þessu þá er það þetta. Það var búið að taka ákvörðun um þetta ferli á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu hjá LMI. Við hins vegar mótmæltum því og bentum á að þetta yrði að byggja á upplýsingum um alla þá slóða sem til eru. LMI óskaði þá eftir gögnum og fengu þá ferla sem klúbburinn bjó yfir þá (hefur bæst mikið við þá síðustu ár). Þá kom í ljós að við höfðum upplýsingar um mikið af slóðum sem ekki voru til í gögnum LMI (kom ekki á óvart) og þá var fallist á að bæta við gögnin með þessum hætti, þessu samstarfi LMI og klúbbsins. Hefðum við ekki farið af stað eða hlaupið út af skaftinu og neitað að taka þátt hefði upphaflega planið einfaldlega farið af stað, hugsanlega með einhverjum lítilsháttar viðbótar ferlum."sennilega gengið hraðar fyrir sig"
Já samanber hér að ofan. Sjálfsagt einhverjir sem kunna okkur litlar þakkir fyrir að koma þessu á þetta flækjustig því þá var ekki hægt að keyra málið eins hratt í gegn og einhverjir létu sig dreyma um, aðrir sem vilja vönduð vinnubrögð eru hins vegar sjálfsagt ánægðir með okkar framlag."ekki þurft að ferla nærri eins mikið"
Það er skýrt hér að ofan. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr vinnubrögðum eða þekkingu LMI, þar er fólk sem vill vinna þetta sem allra best, en það er ekki hægt að ætlast til þess að þau hafi þá þekkingu og reynslu í þessu sem Jón og fleiri eru búnir að viða að sér.Þetta eru ekki getgátur sem við byggjum þetta á heldur staðreyndir.
Kv – Skúli
23.09.2009 at 14:59 #658030Hefði hugmyndum Eika verið fylgt og klúbburinn ekki komið nálægt þessu væri staða mála núna þannig að við myndum ekki hafa hugmynd um þessar skipulagshugmyndir Ásahrepps. Upplýsingarnar hefðu ekki borist okkur fyrr en komið væri að almennri kynningu og það er örugglega ekki strax. Ef Eiki heldur að núna sé að koma í ljós að hann hafi haft rétt fyrir sér þá er það mikill misskilningur, þetta sýnir einmitt hvað skiptir miklu máli að vera inni í málum og með fingur á púlsinum. Umhverfisráðuneytið hefði ekkert hætt við málið þó 4×4 hefði ekki komið að því, það hefði þó sennilega gengið hraðar fyrir sig því það hefði ekki þurft að ferla nærri eins mikið.
Kveðja – Skúli
11.09.2009 at 17:23 #656966Mælirinn í Lóninu er hins vegar virkur (Gígjökull) og hann gefur kannski vísbendingu. Þar hefur vaxið nokkuð í dag. Mín reynsla er að ef hann sýnir undir 90-100 cm vatnshæd sé fært flestum jeppum en þegar komið er þar yfir þarf allavega þokkalega vel útbúna bíla. Núna er hann að sýna 122 cm. Svo með Steinholtsá og Hvanná ræðst þetta alltaf talsvert af því hvernig þær dreifa sér og hvernig þær liggja. Þær geta alveg verið færar þó mikið vatn sé ef þær bara skipta sér nóg og hafa ekki grafið sig of mikið.
Kv – Skúli
11.09.2009 at 14:55 #656958Samkvæmt því sem ég hef heyrt er Krossáin ófær. Það er víst eitthvað verið að reyna að finna vað til að koma rútu úr Langadal, hópur sem þarf að komast í bæinn í dag. Steinholtsá er líka orðin erfið, en hvort hún sé beinlínis ófær er matsatriði. Ég veit allavega um fólk sem ætlar inn í Bása í dag. Það á að stytta upp um miðnætti og þá er vatnsmagnið fljótt að sjatna, tekur ekki nema 2-3 tíma. Þannig að á morgun myndi ég spá að þetta verði orðið fínt.
Kv – Skúli
08.09.2009 at 16:25 #656386Nú veit ég og sjálfsagt fæstir aðrir neitt um málsatvik í þessu tiltekna máli, Jakob virðist þó vita hvar þeir voru að keyra. Enda kom ekkert fram í fréttinni annað en að grunur væri um utanvegaakstur. En þetta einstaka tilvik skiptir kannski ekki öllu máli þó svo sú lýsing sem komið hefur fram af því gangi fram af flestum. Nú veit ég ekki hvort það beri að túlka þennan pistil Jakobs þannig að Slóðavinum finnist bara allt í lagi það sem hefur verið að gerast á Reykjanesinu síðustu ár. Efast þó um að svo sé, allavega miðað við fyrri kynni af hjólamönnum. Mér finnst það allavega ekki og er ábyggilega ekki einn um það. Stærsta eða alvarlegasta hættan sem stafar að ferðafrelsinu er ekki stjórnsýslan eða fjölmiðlar eða yfir höfuð utanaðkomandi þættir. Hún liggur í hegðun og umgengni þessara ferðahópa sjálfra og ekki síður því að loka augunum eða þræta fyrir þau vandamál sem eru í gangi.
Það er auðvitað rétt að jeppamenn og hjólamenn eiga að nokkru leiti samleið í sinni hagsmunabaráttu. Þó kannski ekki í AUKNU frelsi til að aka heldur að viðhalda núverandi ferðafrelsi. Ég hef allavega ekki skilið baráttu jeppamanna sem baráttu fyrir nýjum landvinningum í þeim efnum heldur að sporna við því að góðum og gildum leiðum sé lokað. Samstarf um þessi mál þarf þó að vera unnið af sæmilegu raunsæi og án þess að málstaður þessara aðila hljóti skaða af.
Kv – Skúli
07.09.2009 at 17:24 #656372Mér var nú hugsað til þess þegar ég sá þessa frétt að það er mikil blessun fyrir 4×4 að vera ekki í þeirri stöðu að þurfa að berjast fyrir rétti hjólamanna. Eins og Helgi reyndar tekur skýrt fram er ekki hægt að dæma alla hjólamenn út frá vitleysingunum, en það eru hins vegar alltof margir í þeim hóp sem virðast einsetja sér að spilla fyrir þeim málstað sem hjólamenn eru að reyna að ná fram. Þetta er ekki bara skemmdarverk á bílnum og á náttúrunni því þetta er líka skemmdarverk á málstað hjólamanna. Hvernig á að vera hægt að samþykkja að hjólin fái að keyra einstigi þegar gjörsamlega ábyrgðarlausir vitleysingar eru svona áberandi. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvernig það myndi enda. Þetta er langt frá því að vera eina dæmið á síðustu árum þó svo þetta sé óvenju gróft. Svo eru fjölmörg dæmi svipuð því sem Helgi lýsir sem ekki rata í fjölmiðla en sjá til þess að hjólmenn safna andstæðingum í stað stuðnings. Ég vill meina að sú mikla umræða á síðustu árum um utanvegaakstur og nauðsyn þess að banna allan akstur á tilteknum svæðum þannig að einhvers staðar sé hægt að vera laus við vélagný, hafi í raun afskaplega lítið með okkur jeppamenn að gera heldur stafi fyrst og fremst að mikilli aukningu hjólaumferðar. Þetta hins vegar kemur til með að bitna á okkur. 4×4 er í fjölda ára búið að berjast fyrir ferðafrelsi og alltaf hamrað á því að frelsi fylgi ábyrgð og íslenskir jeppamenn upp til hópa skilja það, þó sjálfsagt megi finna undantekningar. Það er hábölvaður andskoti hvað óábyrg notkun torfæruhjóla á síðustu árum er að grafa undan þessu frelsi. Ég ætla því að vona að jeppamenn fari ekki að stökkva til hér og verja þessa menn og reyndar er ég nokkuð viss um að forystumenn samtaka hjólamanna falla ekki í þá gryfju.
Kv – Skúli
04.09.2009 at 10:51 #656128Lella þetta er náttúrulega skortur á hugmyndaleysisvöntun að finna ekki upp á einhverjum góðum titli! En þar fyrir utan er ég afskaplega sammála þessu. Það er ekki einu sinni hægt að finna út á síðnunni hver sé formaður klúbbsins, hvað þá hverjir sitja í stjórn. Þetta var þó allt nokkuð ljóst og aðgengilegt á gömlu síðunni.
Kv – Skúli
03.09.2009 at 21:37 #652402Takk fyrir þetta Sverrir, þessa kenningu er ég tilbúinn að samþykkja. Allt frekar en þessa óvirðingu við fallegan foss að kalla hann nafnleysingja. Lýsingur, þetta er meira að segja nokkuð fallegt nafn og vel viðeigandi. Gaman væri að grafa upp meiri upplýsingar um þetta ágæta nafn. Svolítið pirrandi samt að hafa sýnt þónkkuð af fólki þennan ágæta foss án þess að nefna hann réttu nafni af tómri fávísi.
Eins er ég sammála Sverri um Hattfell, ég hef aldrei séð úr því hatta í fleirtölu og þess vegna hefur þessi fleirtölumynd á kortum og sumum bókum vafist fyrir mér.
Kv – Skúli
02.09.2009 at 11:34 #652398Já það er kannski erfitt að greina hvað er rétt. Árni Böðvarsson notar Hattfell í Árbók FÍ 1976 um Fjallabaksleið syðri, ég hef haft tilhneigingu til að taka mark á honum. En þessir vitnisburðir sem þú nefnir benda óneitanlega til þess að Hatta-útgáfan sé það sem fjallmenn hafi notað. Á gömlu Atlaskortunum (eintakið sem ég er með er með endurskoðun 1987) er skrifað Hattafell, en ég tek alltaf varhug á því sem stendur á kortum.
Kv – Skúli
02.09.2009 at 00:16 #652392Nei nei, þetta með að hann heiti nafnlausi foss með stórum staf er bara upprunið sem ritvilla í einhverri skáldsög… nei ég meina leiðarbókinni hans Ofsa. Örugglega allt honum að kenna eins og svo margt.
Kv – Skúli
01.09.2009 at 17:21 #652388Olgeir af því þú nefnir Hattfell, hvaða kenningu aðhyllist þú þar? Minn skilningur hefur verið að í Fljótshlíð, Hvolhreppi og Rangárvöllum noti menn Hattfell en Eyfellingar tali um Hattafell. Úrskurður um hvort sé rétt hljóti svo að fara eftir því hverjir eigi afrétt þar sem fellið er.
Auðvitað ekki sami hiti í þessu eins og í örnefnaumræðum Mývetninga, en samt gaman að spá í þetta.
Kv – Skúli
P.s. verð að játa að ég hef örlítið gaman að nafninu Ónefndavatn, sem er kannski andstætt rökum mínum varðandi fossinn Rúdolf.
01.09.2009 at 10:53 #652384Ef við göngum að því að kalla þennan foss nafnlausa foss þá er hann þar kominn í hóp fjölda annarra nafnlausra fossa sem flestir eru mun ómerkilegri, því þeir eru margir fossarnir sem eru nafnlausir. Væri ég spurður til vega að nafnlausa fossinum myndi ég geta bent í hvaða átt sem er, menn kæmu fyrr eða síðar að nafnlausum fossi. Leyndardómur þessarar nafngiftar (ef nafngift skyldi kalla) er ekki meiri en svo. Með flesta þessara nafnlausu fossa skiptir þetta ekki máli því þeir eru lítið meira en rétt rúmlega stór flúð. Að fossinn Rúdolf sé að lenda í kategoríu með þeim er ótækt með öllu, bæði vegna þess að hann er afspyrnu flottur foss, tignalegur í fallegu umhverfi og svo er þetta einn af örfáum fossum í Markarfljóti. Í fljótu bragði man ég bara eftir einum öðrum í Markarfljóti og sá er mun lægri en Rúdolf, þó ég lasti þann foss hreint ekki. Að svona merkilegur foss sé bara einn af öllum þessum nafnlausu er náttúrulega ótækt með öllu.
Kv – Skúli
31.08.2009 at 23:15 #652378Ég sé að ég hef misskilið eitthvað, hélt að kortin ættu að vera gerð eftir landinu en ekki öfugt. Datt þess vegna ekki í hug að færa skálann, en bölvaði þess í stað óvandaðri kortagerð. Jón er kannski þarna komin skýring á þessum skoðanaskiptum á slóðum upp á síðkastið, fólk sé ekki að fatta það að landið þurfi að aðlaga að kortunum?
En vinna við Dalakofann er loksins að komast á skrið og gerðist slatti í síðustu vinnuferð. Þó svo verkið sé unnið þannig að gömlu húsin séu gerð upp þá er svo komið að það er varla spýta í þeim sem ekki hefur verið endurnýjuð, þannig að húsin eru endurbyggð nánast algjörlega. Í síðustu vinnuferð voru gaflarnir rifnir niður og smíðaðir aftur. Milli þeirra er svo komin þessa fína tengibygging þar sem verður góð eldhúsaðstaða, borðsalur og klósett, ásamt rúmgóðri forstofu. Já Ingi, hugmyndin er að nota hverinn til að kynda og í tengibyggingunni var sett lögn fyrir gólfhita. Ekki slæmt á köldum vetrarmorgni að stíga framúr á upphitað gólf. Þetta er líklega fyrsta húsið í Rangárvallasýslu sem var kynt með hitaveitu og sjálfsagt að halda því ef einhver möguleiki er til þess. Við eigum þó eftir að sjá hvort dampurinn á hvernum sé nægjanlegur. Næsta vinnuferð er helgina 11.-13. sept. og eru allar vinnufúsar hendur velkomnar, bara senda póst á annað hvort skuli@utivist.is eða gylfi@asi.is. Eina sem eftir er utan húss er að setja klæðingu, en annars er þetta bara innivinna og næs. Alveg möguleiki að hægt verði að hafa einhver afnot af skálanum í vetur ef góður mannskapur fæst núna í haust, þó hugsanlega verði ekki allt frágengið. Lyklavöldin verða svo hjá undirrituðum eða á skrifstofu Útivistar.
Varðandi nafnlausa fossinn þá kannist þið kannski við það strákar að börn sem ekki er búið að skíra eru stundum skrifuð óskírð, t.d. óskírður Jónsson. Það þýðir ekki að þau þurfi að bera slíkt ónefni um aldur og ævi og enginn er skráður með slíkt nafn í þjóðskrá. Sama er með fossinn, þó hann hafi til bráðabirgða verið kallaður nafnlausi fossinn af því engum datt neitt sniðugt í hug, er ekki þar með sagt að hann þurfi að bera þessa nafnleysu um alla eilífð.
Kv – Skúli
-
AuthorReplies