Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
22.06.2011 at 23:56 #219534
Hitti fyrir tökulið frá BBC í dag. Hafði verið inn við Gígjökul í gær. Skv. myndatökum þá hefur myndast lítið lón við jökulsporðinn. (Tekið skal fram að ég gaf mér ekki tíma til að líta inn að jökli svo ég sá þetta bara á tölvuskjá). Nú er talsverð umferð þarna upp að jökli. Langar mikið að vita hvenær þessi pollur fór að myndast? Sjálfur hef ég ekki komið þarna upp að í hálft ár.
Hvet menn sem fara þarna upp að jökli að fara mjög varlega. Þetta á reyndar við allt Lónstæðið gamla. Þetta er meir og minna ís huldur þunnu malarlagi. Ef menn fara fram á bakka „nýja Lónsins“ og falla í vatnið þá er glæra ís neðan við vatnsborðið. Litlar líkur er á því að maður nái að krafla sig upp úr slíku nema vopnaður broddum og ísöxi. Menn eru venjulega ekki vopnaðir slíku. Vatnið er venjulega mjög kalt á svona stöðum. Þetta er því dauðans alvara.
Þetta tökulið BBC hafði enga hugmynd í hvaða hættu þeir voru. Þeir voru í hálfgerðu sjokki eftir að ég benti þeim á þetta.
Að hafa langan spotta eða línu er það sem helst er til bjargar ef illa fer. Best er þó að koma sér ekki í vandræði.
Gígjökull hefur sennilega tekið flest mannslíf íslenskra skriðjökla. Látum hann ekki taka fleiri að ástæðulausu.
Kv. Árni Alf.
P.S. Ítreka, hvenær fóru menn að taka eftir þessum nýja polli eða Lóni?
31.03.2011 at 12:39 #723996Grjótin eru enn á sínum stað.
Kv. Árni Alf.
31.03.2011 at 00:35 #725391Venjulega talað um Stakk. Stakkholtið og Stakkholtsgjá draga nafn sitt væntanlega af honum. Hvort Stakur hafi einhvern tíma verið notað þekki ég ekki.
Kv. Árni Alf.
21.03.2011 at 17:05 #723988Ef farið er á Google og slegið inn leitarorðið Guðnasteinn þá kemur upp "Guðnasteinn og Goðasteinn á Eyjafjallajökli" sigsiggi. blog.
Þar lenda menn inn á bloggi hjá Sigurði Sigurðarsyni sem geymir gamla grein mína úr Lesbók Moggans um steinana á Eyjafjallajökli. Hef reyndar síðar skrifað skárri greinar en þessa um örnefnin þarna uppi. Er með þumla á öllum þegar kemur að tölvum og kann því ekki að tengja þetta. Látum þetta nægja í bili.
Kv. Árni Alf.
14.03.2011 at 17:43 #723108Eflaust lítið um CB stöðvar í notkun núna en sammála Olgeiri að það mátti bjarga sér ágætlega með þessu hér áður fyrr. Þetta byggðist auðvitað á því að einhverjir væru að hlusta og nota þetta.
Þessu tengt. Fyrir nokkrum árum var ég við rannsóknar og eftirlitsstörf um borð í japönsku túnfiskveiðiskipi djúpt suður af landinu. Reglulega allan sólarhringinn þá glumdi mors um allt skip. Þessu var útvarpað um skipið og var nokkuð þreytandi á að hlusta. Mér skildist að menn væru í stöðugu sambandi við útgerðina heima í Japan með þessu.
Vikulega fékk maður 15 mín. samtal heim gegnum gervihnattasíma. Loftskeytamaðurinn stóð yfir allan tímann með skeiðklukkuna. Reyndar datt Immarsat gervihnattasambandið út suma daga sem gat verið óþægilegt því það hringdi eins og eðlilegt samband væri.
Reyndar gat loftskeytamaðurinn pluggað manni í samband við önnur túnfiskveiðiskip í mörg hundruð km. fjarlægð gegnum langbylgju. Tekið skal fram að ég náði mjög litlu sambandi við þessa japani enda kunnu þeir ekki staf í ensku og ég ekki staf í japönsku né morsi. Vissi sjaldnast hvað var að gerast.
Hef það eftir fróðum manni að morsið sé það sem menn geta treyst á ef öll önnur kerfi hrynja. Það er a.m.k. enn notað af túnfiskveiðiflota japana sem fer hringinn kringum hnöttinn árlega. Kannski þetta komi hér með kreppunni enda ódýrt og öruggt.
Kv. Árni Alf.
04.03.2011 at 09:46 #721620Þakka málefnalega umræðu og upplýsingarnar. Nokkuð ljóst að það eru brotalamir á samskiptum og samráði aðila í þessu ferli öllu. Alveg rétt hjá Skúla, þessir hópar eru varla svo stórir og fjölmennir að til árekstra þurfi að koma. Sennilega ekki svo ólíkir hópar og skoðanir þegar öllu er á botninn hvolft. Enda margir í þessu öllu í bland. Menn þurfa bara að tala saman á sanngirnisgrundvelli.
Tek sérstaklega undir það sem Agnar Benónýsson sagði hér að ofan. Er eins og mælt úr mínum munni. Endalaus fjölgun ferðamanna er áhyggjuefni. Ísland á fyrst og fremst að vera fyrir Íslendinga. Flokkast líklegast undir þjóðrembu og rasisma.Kv. Árni Alf.
03.03.2011 at 22:44 #721612Um margt ágæt umræða en auðvitað eru margar hliðar á málinu. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fara um landið á skíðum, oftast laus við hávaða ökutækja eða för eftir þau. Þetta hefur verið draumi líkast. Enginn annar ferðamáti sem ég hef upplifað get ég sett í samanburð við þetta. Frá Fjallabaki og Suðurjöklasvæðinu eru mögnuðustu minningarnar. Ferðir á jeppa, fólksbíl, vélsleða eða snjóbíl yfir jökla og öræfi landsins hafa flestar verið frábærar en skilja lítið eftir í samaburði við góða gönguskíðaferð á sömu slóðir.
Að vera á skíðum í mikilli umferð vélsleða og jeppa er lítt skemmtilegt og fer illa saman. Fólk á ökutækjum tekur kannski lítið eftir þessu en göngumaðurinn kemst ekki hjá því að upplifa hávaðann.
Þá er um tvennt að velja. Að velja sér leið þar sem þú rekst ekki á umferðaræðar eða reyna að halda þessu aðskildu með öðru móti. Aksturbann á Öræfajökli hefur að mínu mati komið vel út. Einfaldlega af þeirri ástæðu að það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að arka fótgangandi neðan úr byggð til þess eins að mæta vélknúinni umferð á síðustu metrunum.
Það er ekki sjálfgefið að mínu mati að vélknúin ökutæki eigi umgengnisrétt um allt landið allan ársins hring eins og verið hefur. Hvað um rétt hinna sem vilja fá að fara um, laus við hávaða og mengun ökutækjanna a.m.k. einhvern smá tíma ársins á einhverjum smá snepli af landinu?
Ég hef ekki kynnt mér þetta Vatnajökulsþjóðgarðsmál mikið. Óháð því og án þess að vilja skerða ferðafrelsi jeppamanna að óþörfu þá tel ég að einhverjar takmarkanir á vélknúinni umferð séu eðlilegar í nánustu framtíð. Tíðarandinn er þannig og 2007 er líka liðið.
Tekið skal fram að ég er enginn talsmaður FÍ eða annarra ferðaþjónustuaðila sem ég tel reyndar að séu með verstu óvinum öræfanna í sumum málum. T.a.m. með of miklum byggingaframkvæmdum á öræfunum , stuðning við byggingu uppbyggðara heilsársvega, lagningu varnargarða o.s.fr. Snúast með og á móti náttúruvernd eftir því hvað þjónar fjárhagslegum hagsmunum þeirra. Þórsmörkin er gott dæmi.
Menn verða seint sammála um alla hluti en málefnaleg umræða án mikilla upphrópana leiðir venjulega til skástu niðurstöðu. Sumir klúbbfélagar þyrftu að tileinka sér aðeins meiri víðsýni. Rörsýnir menn fara venjulega halloka í rökræðum. Vonum að það verði ekki jeppamönnum að falli.
Kv. Árni Alf.
07.02.2011 at 12:59 #718666Dálítið ónákvæmt orðalag hjá þeim Útivistarmönnum að snjóbíllinn hafi átt "fullt í fangi" með að komast áfram. Það er varla til það færi sem dregur niður ferðahraða svona tækis. Boli heitir apparatið og það er ástæða fyrir nafninu. Hins vegar er bíllinn oft með fullt fangið af snjó enda snjótroðari hannaður fyrir miklar ýtingar.
Kv. Árni Alf.
01.02.2011 at 19:35 #718128Oddur lét mig einhvern tíma hafa greinargerð um hvað teljist jökull og ekki jökull skv. vísindalegri skilgreiningu. Þykist muna að þar sé talað um ísinn sé orðinn þjáll, skríði því undan eigin þunga og ryðji þarafleiðandi efni upp (jökulgarður eða ruðningur).
Ummerki eins og jökulgarðar eða ruðningar sýna einna best hvort ísinn hreyfist. Þessu fylgir gjarnan jökullitað vatn. Ef þetta er ekki til staðar þá er ólíklegt að nokkur hreyfing sé á ísnum.
M.ö.o. ísinn verður að hreyfast svo fyrirbærið kallist jökull. Annað er bara stór skafl eða fönn skv. þessari skilgreiningu.
Kv. Árni Alf.
31.01.2011 at 21:21 #717336Vestanverður jökullinn hefur verið ansi misjafn vægast sagt skv. minni reynslu. Stundum er þetta frekar flatt og auðfarið. Líka að sumri og hausti. Sprungur eru samt alltaf til staðar. Í annan tíma er mjög erfitt að komast um. T.d. haustið 1995 að mig minnir þá var vestanverður jökullinn neðan 1400 m. alveg ófær. Sprungin þvers og kruss mjög stórum sprungum. Loftmynd frá 8 ágúst árinu áður sýnir jökulinn sprungulausan. Þá hylur snjór einfaldlega flestar sprungur.
Margt spilar saman sem gerir þetta svona breytilegt milli ára. Ísinn er á hreyfingu og sprungur víkka, lengjast o.s.fr. Snjóalög aldrei eins og mjög misjafn er milli ára hvort, hversu vel og hvernig sprungur opnast og/eða lokast aftur þegar vetrar. Þessi þáttur snjóalaga er það sem hefur mest að segja. Þó loftmyndir séu mjög gagnlegar verða menn að hafa augun opin.
Svæði sem voru kolsprungin fyrir nokkrum árum eru mörg orðin sprungulaus vegna hlánunar og kyrrstöðu. Svæði sem verið hafa sprungulaus síðan ég man eftir eru skyndilega orðin kolsprungin. Svona er þetta a.m.k á brattari svæðum jökulsins norðanmegin. Það eru einmitt ófyrirséðar breytingar sem gerir svæðið enn áhugaverðara.
Það er eiginlega ekkert nýtt á loftmyndinni sem þráðurinn hófst á nema sjálf gígskálin. Myndin er tekin í júlí og því eiga sprungur eftir að stækka og lengjast, m.ö.o. þak þeirra á eftir að gefa eftir og þær opnast.
Kv. Árni Alf.
28.01.2011 at 20:26 #717332Þessar sprungur hafa alltaf verið þarna. Hef alltaf blöskrað umgengni jeppamanna á þessum slóðum gegnum tíðina og varað við henni m.a. hér á spjallinu. Náttúrunni gefið langt nef eða hrein heimska. Á erfitt með að trúa að menn á ferð um þetta svæði hafi aldrei tekið eftir sprungum.
Þessi gervihnattamynd sem þráðurinn byrjaði út frá nýttist vel í leitinni í nótt. Loftmynd tekin 1945 af þessu sama svæði hef ég notað í áratugi til að skoða breytingar á svæðinu. Slíkar myndir eru til frá sama tíma af stórum hluta landsins en eru óvenju skýrar frá þessu landsvæði.
Svona gervihnattamyndir og loftmyndir sýna hins vegar aðeins heildarmyndina og menn skyldu varast að setja lífið og tilveruna að veði í einhverjum tölvuleik.
Kv. Árni Alf.
19.01.2011 at 23:29 #708372Sé að strandlína á suðurlandi hefur verið uppfærð. Kemur sér vel fyrir skipstjórann á Herjólfi . Strandlína suðurlands og jöklar breytast jú stöðugt en varla svo hratt. Er nokkur sérstök þörf að láta plokka af sér pening við hverja uppfærslu?
Kv. Árni Alf.
12.01.2011 at 22:52 #715320Gott að fá einhverja skýringu af hverju það er læst þarna upp. Ég er sammála Klemma hvað einstrengingslegur málflutningur er hér oft áberandi. Ef ÉG kemst ekki það sem MIG langar og hentar MÉR þá skrifast það t.d. á ofstæki í náttúruvernd o.fl. Þetta skaðar klúbbinn þegar til lengdar lætur. Það geta verið eðlilegar skýringar á lokunum þó eflaust megi deila um þessa tilteknu lokun.
Það er ekki lengur 2007 sem betur fer. Margt er að breytast í samfélaginu. Heimtufrekja og yfirgangur í anda 2007 er lítt vænleg leið til að koma málum í höfn.
Ef slóða er lokað þá verður líka það sama yfir alla að ganga. Ólíðandi að þeir séu eingöngu opnir fyrir einhverja forréttindahópa.
07.01.2011 at 16:15 #715312Hafa samband við FÍ eða Útivist og spyrja. Báðir aðilar eru með skála á Fimmvörðuhálsi og hljóta að vita þetta. Þeir eru kannski með lykil.
Venjulega eru það ekki bændur sem hafa verið að setja upp keðjur og banna mönnum umferð um land eða slóða. Oftast eru það einhverjar afætur af mölinni, sem hafa keypt upp hús og jarðir upp til sveita, sem setja boð og bönn. Vilja sölsa allt undir sig. Útivist og FÍ eru víða á gráu svæði þarna á þessum slóðum.
Kv. Árni Alf.
05.11.2010 at 19:31 #709098Takk fyrir þetta drengir. Læðist óneitanlega að manni að Suzuki þyki ekki nógu merkilegur bíll fyrir klúbbinn. Fátt um svör og svo er manni bara beint eitthvað annað. Er þetta einhver snobbsamkunda?
Kv. Árni Alf.
P.S. Takist hæfilega alvarlega.
05.11.2010 at 11:14 #709092Fékk ábendingu um að það væri skynsamlegt að setja bílinn á 15" felgur. Þannig væri hann á "stærri" dekkjum sem auðveldara væri að bæla og þarmeð fengist meira flot. Er einhver sem hefur reynslu af 15" felgum á Zúkku? Þetta er model 1997 TDI. Veit ekki hvort það skiptir máli. Aðalatriðið er að þetta rekist ekki í eitthvað bremsudót.
Kv. Árni Alf.
P.S. Er maður bara að tala þarna út í tómið
Eða eru kannski engir sem eru mér fróðari um þetta
04.11.2010 at 18:04 #708788Nokkurn snjó hefur bætt í þannig að búið er að leggja þessa fínu göngubraut á leirunum sunnan bílastæðisins á Suðursvæði. Vonandi láta jeppar og vélsleðar þetta svæði í friði. Skora í leiðinni á menn að skella sér á skíði og í leiðinni geta þeir haldið uppi eftirliti.
Ef vart verður við utanvegaakstur á svæðinu þá hringja menn einfaldlega í 112 og tilkynna slíkt. Eðlilegast er auðvitað að reyna að ná tali af mönnum en það er ekkert óeðlilegt að hringja bara í 112 og benda á þetta.
Kv. Árni Alf.
04.11.2010 at 11:48 #215589Þarf að kaupa mér vetrar dekk undir Suzuki Vitara. Þar sem ég hef ekkert vit á dekkjum (nema traktorsdekkjum) þætti mér vænt um leiðsögn mér fróðari manna. Nú eru undir honum 225/75R16. (Hann kom hann nýr út úr umboðinu á eitthvað belgmeiri dekkjum enda hækkaður um 2-3 tommur á boddýi að mig minnir). Dekkin mega því hugsanlega vera eitthvað örlítið stærri.
Keyri mjög mikið í hálku og ís oft í miklum vindi. Góðir (stórir) naglar sem tolla vel og lengi í eru eitt það mikilvægasta.Ég vil getað hleypt úr þessum dekkjum þegar svo ber undir. Ég er þá ekki bara að tala um að mýkja þetta fyrir malarvegi heldur til að fljóta í snjó. Það er nefnilega ekkert síður mikilvægt að geta hleypt vel úr litlum dekkjum og eins og einhverjum tunnudekkjum eins og afi minn kallaði stór dekk.
Eru einhverjar tegundir dekkja í þessari stærðarflokki heppilegri til úrhleypinga en önnur? Hvað þarf að varast? Eru þetta eitthvað missterk dekk? Þau sem eru undir núna eru minnir mig 2ja laga á hliðum en 4ra laga í bana. Hvert er helst að leita með kaup á dekkjum? Hvar gerir maður hagkvæmustu kaupin?
Kv. Árni Alf.
P.S. 99% af keyrslunni verður samt sem áður á malbiki oft mjög ísuðu.
19.09.2008 at 20:56 #629626Það er spáð mikilli rigningu á þessu svæði í nótt og fyrramálið. Það er a.m.k. ekki leiðinlegt að þvælast um á þessu svæði þegar allt er á floti. Ætluðum reyndar að smala á morgun en höfum frestuð því til sunnudags.
Kv. Árni Alf.
18.09.2008 at 23:04 #629622Var að heyra að nú renni Markarfljótið austan við Litlu-Dímon. Fljótið hefur víst brotið sér leið gegnum varnagarðinn neðan gömlu brúarinnar og liggur að Þórsmerkurveginum. Ef til vill áhugavert að fara inn á Mörk um helgina og skoða atganginn undanfarið.
Kv. Árni Alf.
-
AuthorReplies