Stjórn Ferðaklúbbsins 4×4 hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna staðfestingar á verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Stjórn Ferðaklúbbsins 4×4 mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur að skrifa undir og samþykkja þá gerræðislegu ákvörðun stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs að takmarka verulega aðgengi almennings að þjóðgarðinum.
Stjórn Ferðaklúbbsins 4×4 telur að stjórn þjóðgarðsins hafi hunsað allar ábendingar og tillögur sem hefðu getað stuðlað að sátt um málið. Að stofna til stærsta þjóðgarðs í Evrópu án samráðs við þá aðila sem hafa hvað mest nýtt náttúru landsins sér til ánægju og yndisauka eru forkastanleg vinnubrögð og ekki sú stjórnsýsla sem á að sjást á Íslandi nútímans.
Öll undirbúningsvinna að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er fráfarandi stjórn garðsins til vansa og hefði ráðherra án tafar átt að senda málið til nýrrar stjórnar garðsins og óska eftir að málið yrði unnið í sátt þá fjölmörgu útivistarhópa sem nýta vilja garðinn svo sem jeppamenn, vélsleðamenn, hestamenn, skotveiðimenn, stangaveiðimenn, ferðaþjónustuaðila og fleiri.
Það er skoðun stjórnar Ferðaklúbbsins 4×4 að það ferli sem viðhaft hefur við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sé ámælisverð og standist ekki stjórnsýslulög Ferðaklúbburinn 4×4 mun því kæra meðferð þessa máls.
Öll svona mál á að vinna í sátt og samlyndi. Ferðaklúbburinn 4×4 er nú sem áður tilbúinn að vinna að sátt um þjóðgarðinn, ef raunverulegur vilji er til slíks samráðs hjá stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisráðherra.
Stjórn Ferðaklúbbsins 4×4