Þetta greinarkorn er ekki stefna, markmiðasetning eða einhverskonar manifesto Ferðaklúbbsins 4×4 varðandi umgengni við náttúruna heldur er því ætlað að vekja fólk til umhugsunar, um umgengni við náttúruna.
Hvað er átt við með „umgengni við náttúruna“?
Það felst margt í orðunum umgengni við náttúruna. Skilningur orðanna er breytilegur á milli fólks. Algengur skilningur er hirðing rusls, að ganga vel um, valda ekki spjöllum en orðin geta einnig varðað framkvæmdir eins og línulagningu, uppgræðslu, húsbyggingar og jarðboranir.
Umgengni við náttúruna varðar margar fræðigreinar, náttúrufræði, heimsspeki, guðfræði og landafræði. Margar lærðar ritgerðir og stúdíur þar um þetta áhugamál undirritaðs.
Nýting náttúrunnar
Umgengni um náttúruna felur í sér það að nýta hana. Þó ekki væri til annars en að horfa á hana, sér til ánægju. Til ferða, bygginga, veglagningar, námavinnu, ferðaiðnaðar, aðstöðunýtingar. Jafnvel heyrist talað um um sölu aðgangs inn á svæði, sem er eldfimt umræðuefni. Afleidd nýting (óbein) hefur einnig verðmætasköpun í för með sér. Dæmi um það er ferðamannaþjónusta, matvörusala, eldsneyti, gisting og samgöngur.
Sameiginleg sýn á hvað er leyfilegt – og hvað ekki
Að ofangreindu sögðu þá er það þannig að ferðamenn hafa – flestir – sameinast um hugtakaskilning eða skilning á inntaki orðanna „umgengni við náttúruna“, sem flestir eru sammála um. Þetta eru viðteknar reglur eða viðmið varðandi fyrir hvað er leyfilegt og ekki leyfilegt, sameiginlegur skilningur og mörk. Þetta virðist þó ótrúlega oft skolast eitthvað til hjá fólki, jafn einfalt og það virðist öðrum.
Maður hirðir eftir sig.
Utanvegaakstur á jörð – utan slóða – er bannaður. Það er óþarfi að snúa eitthvað út úr því.
Bílhlutar sem losna eða detta af, púst og annað, er hirt upp – allavega af næsta bíl.
Það vita allir að við getum ekki skilið rusl eftir, uppi á hálendi. Ef maður grefur það niður þá kemur það upp um síðir, með einum eða öðrum hætti. Til dæmis við jarðrof. Maður tekur ruslið með sér til baka.
Pappír sem er “falinn” í sprungu eyðist eða brotnar niður á jafnvel mörgum árum, ekki klukkutímum eins og sumir virðast halda.
Maður reytir ekki upp mosa, eða skemmir hann. Hann er jafnvel áratugi að jafna sig, gróa aftur.
Það má ekki missa olíu í jarðveg. Ef það gerist þá er hún hreinsuð upp. Olía brotnar hægt niður á/í jörðinni. Olíubrák á lindum og gróðri er ekki ásættanleg.
Það gengur ekki að keyra olíulekandi bíla. Sóðaskapur fyrir utan mengunina.
Maður hellir ekki niður vökva sem eyðist hægt, mengar eða skilur eftir sig litarefni.
Þegar þarf að leysa salernismál úti í náttúrunni er ekki nóg að setja grjót ofan á það sem skilið er eftir. Það þarf að grafa holu, fylla hana aftur og grjót ofaná. Pappírinn er einhver ár að brotna niður.
Það krefst tilskilinna leyfa og aðkomu fagaðila að fara út í mannvirkjagerð eða slóðalagningu sem hefur áhrif á land, gróður eða útsýni.
Náttúruupplifun er einnig þögnin eða náttúruhljóðin. Það er vita að þriggja tommu púst virkar almennt betur en minna púst – allavega í dísel bílum – aflaukning við stærra púst er ekki það sama og að taka pústið af. Opið púst eða það að taka pústið af skilar litlu öðru en hávaðaframleiðslu. Þau fáu prósent sem gætu verið í þessu eru stórlega ofmetin í virkni.
Rykmengun og öskuský eykst mikið við hraðakstur. Þetta veldur öðrum óþægindum og dreifir ryki yfir umhverfi vegsins. Það að hleypa úr á malarvegi og keyra svo á 100 ber ef eitthvað er meira vott um dómgreindarleysi heldur en „flottan“ bílstjóra.
Menn keyra alltaf sem mest í förum annarra, eins og hægt er, þegar keyrt er í snjó. Fyrir utan að það sparar eldsneyti þá er er ástæðulaust að skilja eftir sig meiri för en þörf er á. Þó stundum fenni hratt yfir förin þá eru þau einnig oft vel sjáanleg það sem eftir er vetrar.
Vafamálin við framkvæmdir
Óþarfi er að nefna umræðu varðandi umgengni við náttúruna við virkjanagerð. Þar þarf meira til en þetta greinarkorn.
Umgengni við náttúruna varða atriði eins og það að gát sé höfð við veglagningu. Algengt er að eldra vegarstæði er látið standa þegar nýr vegur er lagður við hlið gamals. Jafnvel með með brúm og upphækkuðum vegi. Vegstæði sem síðan rennur úr og verður illfært. Er þetta góð umgengni við náttúruna?