Sumarhátíð Ferðaklúbbsins 4×4 verður haldin með pomp og pragt á Þórisstöðum í Svínadal 17. júlí. Farið er yfir Dragann frá Hvalfirði í áttina að Skorradal til að komast á Þórisstaði í Svínadal eða til hægri áður en farið er yfir Borgarfjarðarbrú (að sunnan). Hátíðin sjálf verður 17. júlí, en tjaldstæði er frátekið á ákveðnum stað fyrir félagsmenn Ferðaklúbbsins frá 16. júlí til 18. júlí.
Tjaldstæðin eru ókeypis fyrir félagsmenn frá föstudegi til sunnudags, en greiða þarf kr. 400 á sólarhring fyrir rafmagn. Hægt er að fá gistingu í svefnpokaplássi (kr. 3000 fyrir manninn í tveggja manna herbergi, kr. 4000 fyrir einn í herbergi).
Hægt er að spila golf (10 eða fleiri saman fá afslátt) og veiða í vatninu gegn gjaldi (frítt fyrir aðila með Veiðikortið). Margar skemmtilegar gönguleiðir eru á svæðinu. Seinagengið (Hjörtur og félagar) hefur umsjón með framkvæmd á dagskrá. Heimasíða Þórisstaða með nánari upplýsingum og vegakorti er á vefsíðunni http://thorisstadir.is/)
Dagskrá laugardaginn 17. júlí
Kl. 10:00 – Hátíðin sett
Kl. 11:00 – Bíltúr í nágrenninu (óvissuferð)
Kl. 15:00 – Leikir og fjör fyrir alla fjöldskylduna
Kl. 18:00 – Kveikt í grillinu (gert ráð fyrir að gestir komi með á grillið)
Kl. 18:30 – Sameiginlegt borðhald
Kl. 22:00 – Hljómsveitin Króm með létt barna- og unglingaball í samkomuhúsinu
Kl. 23:30 – Hljómsveitin Króm með dansleik fyrir fullorðna í samkomuhúsinu