This topic contains 5 replies, has 1 voice, and was last updated by Anonymous 20 years, 2 months ago.
-
Topic
-
Heilir og sælir áhugamenn um ferðamennsku og umhverfismál.
Undirritaður hefur á liðnum árum farið ófáar ferðir um eina af náttúruperlum Sunnlendinga, Hellisheiðina. Er þá einkum um að ræða „Hellisheiðarhringinn“ sem má t.d. lesa greinargóðar lýsingu á í hinni ágætu Hálendishandbók Páls Ásgeirssonar, bls. 131-136. Um liðna helgi var ég þarna á ferð og hafði þá ekki farið um þessar slóðir um nokkurt skeið. Farið var á þremur bílum og í góðra vina hópi og veður eins og best gerist á haustdegi. Lagt var upp frá Hveragerði og beygt inn á heiðina til norðurs ofan við Kamba og slóðinn þræddur þar til komið er í mynni Fremstadals þar sem skyldi áð , drepa á ljósavélunum (2.8 Patrol) og njóta kyrrðarinnar. En ekki höfðum við fyr stigið út úr bílunum en við hröktumst inn aftur sökum hávaða frá dælumótorum sem stóðu þar á árbakkanum og dældu með látum Hengladalaánni upp úr pytti sem hefur verið grafinn í árfarvegin á þessum fallega stað og um pípur langt inn á Heiði. Mun hér um að ræða skolvatn vegna borhola vestast á heiðinni. Var því brugðið á það ráð að halda áfram sem leið liggur vestur og síðan beygt til norðurs upp Skarðsmýrarfjall og inn að flötunum í Innstadal þar sem engar voru dælur né borholur, enn sem komið er a.m.k . Eftir góðan stans og veitingar í boði þeirra sem voru svo forsjálir að taka með sér nesti til fararinnar var snúið til baka, niður Skarðsmýrarfjall og síðan til vesturs í átt að Stóra Reykjafelli og Hveradölum. Fór þá að draga til tíðinda þar sem gefur að líta framkvæmdir vegna fyrirhugaðrar Hellisheiðarvirkjunar. Öllum framkvæmdum fylgir jú jarðrask og jarðvarman verður að nýta. En að það sé gert með þeim endemum sem hér gefur að líta þá get ég ekki orða bundist. Lagðir hafa verið að nauðsynjalausu að mínu mati slóðar m.a. um gróið land og þar sem vantað hefur efni til að búa út t.d. borplön og slóða hefur verið farið í næsta hól, verandi með eina stærstu efnisnámu landsins, Lambafellið í fárra kílómetra fjarlægð!! En ekki höfðum við nú séð kórónu þessa sköpunarverks og birtist hún okkur ferðalöngum í formi tvíbreiðs, uppbyggðs vegar sem búið er að leggja þvert yfir hraunið, efst úr Smiðjulaut þar sem þessi vegur á vægast sagt vafasöm gatnamót þvert á þjóðveg eitt um Hellisheði, og norður á veg 379 að Sleggjbeinsskarði, en þar liggur vegurinn um bratta brekku og ekki árennilegur t.d. í hálku, sér í lagi þegar slitlögninni sem þarna var unnið að í hélunni verður lokið. Og í ljósi þess veltir maður fyrir sér tilganginum með þessari vegarlagningu. Einnig má á það benda að svæðið sem þessi vegur liggur um, Smiðjulautin og þar norðuraf er mikil snjóakista ef svo ber undir. Datt mér í hug að „trakka“ þessa nýju slóða og koma til slóðanefndar, ekki virðist það vera annmörkum háð að ryðja veg ef ekki er nógu stutt milli A og B og skýtur þar skökku við í ljósi umræðunnar um þessi mál upp á síðkastið.
Ekki er mér kunnugt um eignarhald á þessu landi sem hér um ræðir, gæti eins verið að við höfum ekki átt neitt með að vera að þvælast þarna hvað þá að hafa á þessum málum skoðun en eitt er víst að ekki eru þessi verksummerki málsaðilum til sóma og sinnuleysið gagnvart umhverfinu vekur furðu svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ekki má skilja orð mín svo að ég sé mótfallin nýtingu þeirrar auðlindar sem þarna er í formi jarðvarma, þvert á móti, tilgangur minn er einungis sá að benda á að ekki er sama hvernig að er farið.Með ferðakveðju, Geir Guðjónsson
You must be logged in to reply to this topic.