This topic contains 7 replies, has 1 voice, and was last updated by Skúli Haukur Skúlason 17 years, 11 months ago.
-
Topic
-
Tekið af heimasíðu Jöfrí
Umsögn um frumvarp um vatnajökulsþjóðgarð.395. mál. Frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð
Athugasemdir Jöklarannsóknafélags Íslands
12. febrúar 2007
I. Inngangur
Jöklarannsóknafélagið er samstarfsvettvangur vísindamanna og áhugamanna og hefur í yfir 50 ár starfað á og við Vatnajökul. Sjálfboðaliðar félagsins mæla árlega legu margra skriðjökulssporða og fylgjast þannig með jöklabreytingum. Þessi gögn ru síðan hagnýtt af vísindamönnum í rannsóknum á áhrifum loftslags á jökla. Einnig hefur félagið staðið fyrir rannsóknaleiðöngrum á Vatnajökul einu sinni til tvisvar á ári. Í þessum ferðum var grunnurinn að þekkingu á Vatnajökli lagður. M.a. hefur náðst fram góður skilningur á hegðun Grímsvatna, virkustu eldstöðvar Íslands. Þessi þekking gegndi m.a. mikilvægu hlutverki þegar lagt var á ráðin um lagningu vegar yfir Skeiðarársand upp úr 1970 og í umbrotunum samfara Gjálpargosinu haustið 1996.
Þessi árangur hefur náðst vegna þess að Jöklarannsóknafélagið hefur komið upp húsum á nokkrum stöðum á og við Vatnajökul: Á Grímsfjalli, í Jökulheimum, í Kverkfjöllum, Esjufjöllum og Goðahnjúkum. Húsin hafa öll verið smíðuð í sjálfboðavinnu og flutt á sinn stað af félaginu með nokkrum stuðningi opinberra aðila. Skálar JÖRFÍ eru eina ferðamannaaðstaðan inni á Vatnajökli.
Stór hluti ferðamanna sem leggur leið sína um jökulinn gistir í húsum félagsins, en ferðamönnum eru leyfð afnot þegar húsin eru ekki í notkun vegna rannsóknaferða á vegum félagsins eða annarra rannsóknaraðila. Félagið hefur starfað innan Skaftafellsþjóðgarðs í yfir 20 ár og átt gott samstarf við þá þjóðgarðsverði sem veitt hafa honum forstöðu. Vonast félagið til að samstarfið haldist jafn gott í nýjum og stærri þjóðgarði.
Jöklarannsóknafélagið fagnar því eindregið að að stofna skuli Vatnajökulsþjóðgarð á næstunni.
Jafnframt hvetur félagið til þess að garðurinn verði stækkaður og látinn ná til alls áhrifasvæðis jökulsins og Ódáðahrauns í heild sinni.
II. Almennar athugasemdir
Stjórnkerfi garðsins með sérstakri stjórn, fjórum svæðisráðum og nokkrum þjóðgarðsvörðum virðist þungt í vöfum. Einnig er svo að sjá að enginn einn þjóðgarðsvörður skuli vera yfirmaður alls garðsins. Þá einkennist frumvarpið af framsali valds til ráðherra um öll atriði sem máli skipta, m.a. hvað varðar verndaráætlun fyrir garðinn, sbr. heimild ráðherra til að leyfa mannvirkjagerð sem ekki er á verndaráætlun (2. málsgr. 13. greinar). Vafamál er að heppilegt sé að umhverfisráðherra á hverjum tíma sé svo áhrifamikill um stjórn garðsins.
III. Athugasemdir við einstakar greinar og breytingartillögur
1. Tillaga að breytingu á 4. grein
Jöklarannsóknafélagið gagnrýnir að ekki skuli reiknað með beinni aðkomu samtaka ferðamanna að stjórnun þjóðgarðsins. Skv. 4. grein frumvarpsins er gert ráð fyrir að í stjórn þjóðgarðsins sitji formenn svæðisráða, fulltrúi frá umhverfisverndarsamtökum og tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra.
2
Hafa ber í huga að hér er ráðist í að gera verulegan hluta hálendisins að þjóðgarði. Á því svæði sem vernduninni er ætlað að ná til eru nokkuð fjölfarnar ferðamannaslóðir þar sem jeppamenn hafa verið langstærsti hópurinn í áratugi. Þessi tegund ferðamennsku styðst við hefðir sem fela í sér frelsi til að fara um landið en um leið að skemma það ekki. Eigi hálendið vestan og norðan Vatnajökuls að vera þjóðgarður í raun, er ákaflega mikilvægt að íslenskir ferðamenn og þjóðgarðsyfirvöld séu samstiga um þær reglur sem gilda eiga í garðinum. Það verður best tryggt með beinni aðkomu fulltrúa ferðamanna, t.d. með því að samtök útivistarfélaga skipi einn fulltrúa í stjórn, eins og samtökin gera nú fyrir skipulagsnefnd miðhálendisins. Því leggjum við til að orðalag 4. greinar breytist og verði svohljóðandi:
….. Í stjórn skulu sitja: formenn allra svæðisráða þjóðgarðsins, einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum, einn fulltrúi skipaður af samtökum útivistarfélaga og tveir fulltúar skipaðir af ráðherra án tilnefningar, þ.e. formaður og varaformaður, eða átta fulltrúar alls.
Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
Ef átta þykir óheppileg tala, má fækka fulltrúum skipuðum af ráðherra í einn, og yrði þá fjöldi
stjórnarmanna sjö eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
2. tillaga að breytingu á 15. grein
Í 15. grein lagafrumvarpsins er talað um hvar heimilt sé að aka innan þjóðgarðsins.
Jöklarannsóknafélagið leggur áherslu á að vetrarakstur á snjó verði almennt leyfður á hálendinu við vestan- og norðanverðan jökulinn. Svo til öll umferð um þessi svæði að vetrarlagi fer fram á breyttum jeppum og vélsleðum. Því leggjum við til að í 2. málsgrein verði orðalaginu: „Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og leyfðum vetrarakstursleiðum, sbr. 3. málsgrein“ breytt í:
„Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og leyfðum vetraraksturssvæðum“
Með þessu móti hyrfi ósamræmi milli 2. og 3. málsgreinar þar sem talað er um svæði þar sem
heimilt er að aka á snjó að vetrarlagi. Einnig yrði það í samræmi við venjur í vetrarakstri, þar sem
snjóhula og aðstæður eins og stærðir og lega krapabláa ræður leiðum en ekki hefðbundnar
aksturslínur eða vegir. Rétt er að hafa í huga í þessu samhengi að ekki er kunnugt um skemmdir af
vetrarakstri á þessum svæðum, þó svo þar hafi sumstaðar farið hundruð bíla á hverjum vetri í 15-20 ár.
3. tillaga að breytingu á 19. grein
Í 19. grein lagafrumvarpsins eru ákvæði um hverjir hafi kærurétt til umhverfisráðherra. Ekki er ljóst
samkvæmt greininni að ferðamenn eða samtök þeirra hafi rétt til að kæra ákvarðanir. Orðalagið um
lögvarða hagsmuni mun útiloka langflesta landsmenn frá kærurétti. Í ljósi þess að í hópi
ferðamanna eru helstu notendur hálendishluta svæðisins væri eðlilegt að taka af vafa um kærurétt.
Við leggjum því til að lagagreinin hljóði svo:
Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til umhverfisráðherra.
Úrskurður ráðherra er endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi. Kærurétt hafa allir þeir sem eiga
lögheimili á Íslandi.
3
Ef af einhverjum ástæðum er talið nauðsynlegt að takmarka kærurétt, viljum við til vara leggja til
eftirfarandi breytingu:
Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til umhverfisráðherra.
Úrskurður ráðherra er endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi. Kærurétt samkvæmt þessari grein
eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og umhverfisverndar- eða
ferðamannasamtök sem varnarþing eiga á Íslandi, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri
og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.
Umhverfisverndar- eða ferðamannasamtök teljast samtök sem hafa umhverfisvernd eða ferðalög að
meginmarkmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og
hafa endurskoðað bókhald.
4. tilllaga að breytingu á 21. grein
Í 21. grein er fjallað um heimildir til að taka gestagjöld innan þjóðgarðsins. Þessi heimild virðist
mjög víðtæk og ekki er samræmi milli frumvarpsins og greinargerðar um þetta atriði. Í greinargerð
er eftirfarandi texti: „Gert er ráð fyrir að um hefðbundið þjónustugjald sé að ræða og ekki er gert ráð
fyrir að það verði innheimt annars staðar en þar sem þjónusta á vegum þjóðgarðsins er veitt.“ Við
leggjum til að texta lagagreinarinnar verði breytt til samræmis og hljóði eftirfarandi:
Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu.
Fjárhæð gjaldsins skal birt í reglugerð ……
IV. Lokaorð
Að lokum viljum við vara eindregið við því að hugmyndir um upphleyptan heilsársveg inn í
Jökulheima við Tungnaárjökul verði að veruleika. Slíkur vegur myndi draga mjög úr sérstæðum
áhrifamætti Tungnaáröræfa en þau eru einhvert eyðilegasta svæði hálendisins. Félagið setur sig að
sjálfsögðu ekki upp á móti endurbótum á sumarvegi þessa sömu leið. Vilji yfirvöld þjóðgarðsins hafa heilsársveg að jöklinum myndi nægja að halda opnum þeim vegi sem þegar er til að Skálafellsjökli. Það myndi einnig efla ferðamannaiðnað tengdan jöklinum í Austur-Skaftafellssýslu meðan heilsársvegur frá Hrauneyjum í Jökulheima myndi fyrst og fremst tengjast ferðamannaiðnaði
á suðvesturhorni landsins.
Fyrir hönd Jöklarannsóknafélags Íslands,
Magnús Tumi Guðmundsson, formaður Magnús Hallgrímsson, varaformaður Þóra Karlsdóttir, gjaldkeri Þorsteinn Þorsteinsson, ritari
Árni Páll Árnason, meðstjórnandi
You must be logged in to reply to this topic.