FERÐAKLÚBBURINN 4X4

Menu
  • Ganga í Klúbbinn
  • Innskráning
Ferðaklúbburinn 4x4 Valmynd   ≡ ╳
  • Forsíða
  • Um F4X4
    • Greiða félagsgjald
    • Ferðaklúbburinn
      • Skilmálar vefs Ferðaklúbbsins 4×4
      • Lög Ferðaklúbbsins 4×4
      • Markmið Ferðaklúbbsins 4×4
    • Bókasafnið
    • Vefsíðan
    • Hagsmunamál
      • Öryggismál í ferðamennsku
      • Ferðafrelsi
      • Samstarf við hagsmunaaðila
      • Upplýsingar til ferðafólks
      • Verðlag á búnaði til jeppaferða
    • Umgengni
    • GPS grunnur
      • Sprungukort af jöklum
    • Jöklakort
    • Ferðast á fjöllum
      • Gátlistar
      • Öryggismál í ferðamennsku
    • Afslættir
    • Ganga í Ferðaklúbbinn 4×4
  • Viðburðir
  • Deildir
    • Austurlandsdeild
    • Eyjafjarðadeild
    • Hornafjarðardeild
    • Húnvetningadeild
    • Húsavíkurdeild
    • Skagafjarðardeild
    • Suðurlandsdeild
    • Suðurnesjadeild
    • Vesturlandsdeild
    • Vestfjarðardeild
  • Nefndir
    • Stjórn
    • Ferðafrelsisnefnd
    • Ferlaráð
    • Fjarskiptanefnd
    • Húsnæðisnefnd
    • Hústrukkanefnd
    • Litlanefnd
    • Ritnefnd
    • Skálanefnd
    • Skemmtinefnd
    • Tækninefnd
    • Umhverfisnefnd
    • Ungliðanefnd
    • Vefnefnd
  • Skálar
    • Fjallaskarð
    • Leppistunguskáli
    • Réttartorfa
    • Setrið
    • Skiptabakki
    • Sultarfit
  • Spjall
  • Augl.
  • Ljósmyndir
    • Setja inn myndir

Umsögn JÖFRÍ

by Dagur Bragason

Forsíða › Forums › Spjallið › Umhverfismál › Umsögn JÖFRÍ

This topic contains 7 replies, has 1 voice, and was last updated by Profile photo of Skúli Haukur Skúlason Skúli Haukur Skúlason 18 years, 3 months ago.

  • Creator
    Topic
  • 18.02.2007 at 14:38 #199719
    Profile photo of Dagur Bragason
    Dagur Bragason
    Participant

    Tekið af heimasíðu Jöfrí
    Umsögn um frumvarp um vatnajökulsþjóðgarð.

    395. mál. Frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð
    Athugasemdir Jöklarannsóknafélags Íslands
    12. febrúar 2007
    I. Inngangur
    Jöklarannsóknafélagið er samstarfsvettvangur vísindamanna og áhugamanna og hefur í yfir 50 ár starfað á og við Vatnajökul. Sjálfboðaliðar félagsins mæla árlega legu margra skriðjökulssporða og fylgjast þannig með jöklabreytingum. Þessi gögn ru síðan hagnýtt af vísindamönnum í rannsóknum á áhrifum loftslags á jökla. Einnig hefur félagið staðið fyrir rannsóknaleiðöngrum á Vatnajökul einu sinni til tvisvar á ári. Í þessum ferðum var grunnurinn að þekkingu á Vatnajökli lagður. M.a. hefur náðst fram góður skilningur á hegðun Grímsvatna, virkustu eldstöðvar Íslands. Þessi þekking gegndi m.a. mikilvægu hlutverki þegar lagt var á ráðin um lagningu vegar yfir Skeiðarársand upp úr 1970 og í umbrotunum samfara Gjálpargosinu haustið 1996.
    Þessi árangur hefur náðst vegna þess að Jöklarannsóknafélagið hefur komið upp húsum á nokkrum stöðum á og við Vatnajökul: Á Grímsfjalli, í Jökulheimum, í Kverkfjöllum, Esjufjöllum og Goðahnjúkum. Húsin hafa öll verið smíðuð í sjálfboðavinnu og flutt á sinn stað af félaginu með nokkrum stuðningi opinberra aðila. Skálar JÖRFÍ eru eina ferðamannaaðstaðan inni á Vatnajökli.
    Stór hluti ferðamanna sem leggur leið sína um jökulinn gistir í húsum félagsins, en ferðamönnum eru leyfð afnot þegar húsin eru ekki í notkun vegna rannsóknaferða á vegum félagsins eða annarra rannsóknaraðila. Félagið hefur starfað innan Skaftafellsþjóðgarðs í yfir 20 ár og átt gott samstarf við þá þjóðgarðsverði sem veitt hafa honum forstöðu. Vonast félagið til að samstarfið haldist jafn gott í nýjum og stærri þjóðgarði.
    Jöklarannsóknafélagið fagnar því eindregið að að stofna skuli Vatnajökulsþjóðgarð á næstunni.
    Jafnframt hvetur félagið til þess að garðurinn verði stækkaður og látinn ná til alls áhrifasvæðis jökulsins og Ódáðahrauns í heild sinni.
    II. Almennar athugasemdir
    Stjórnkerfi garðsins með sérstakri stjórn, fjórum svæðisráðum og nokkrum þjóðgarðsvörðum virðist þungt í vöfum. Einnig er svo að sjá að enginn einn þjóðgarðsvörður skuli vera yfirmaður alls garðsins. Þá einkennist frumvarpið af framsali valds til ráðherra um öll atriði sem máli skipta, m.a. hvað varðar verndaráætlun fyrir garðinn, sbr. heimild ráðherra til að leyfa mannvirkjagerð sem ekki er á verndaráætlun (2. málsgr. 13. greinar). Vafamál er að heppilegt sé að umhverfisráðherra á hverjum tíma sé svo áhrifamikill um stjórn garðsins.
    III. Athugasemdir við einstakar greinar og breytingartillögur
    1. Tillaga að breytingu á 4. grein
    Jöklarannsóknafélagið gagnrýnir að ekki skuli reiknað með beinni aðkomu samtaka ferðamanna að stjórnun þjóðgarðsins. Skv. 4. grein frumvarpsins er gert ráð fyrir að í stjórn þjóðgarðsins sitji formenn svæðisráða, fulltrúi frá umhverfisverndarsamtökum og tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra.
    2
    Hafa ber í huga að hér er ráðist í að gera verulegan hluta hálendisins að þjóðgarði. Á því svæði sem vernduninni er ætlað að ná til eru nokkuð fjölfarnar ferðamannaslóðir þar sem jeppamenn hafa verið langstærsti hópurinn í áratugi. Þessi tegund ferðamennsku styðst við hefðir sem fela í sér frelsi til að fara um landið en um leið að skemma það ekki. Eigi hálendið vestan og norðan Vatnajökuls að vera þjóðgarður í raun, er ákaflega mikilvægt að íslenskir ferðamenn og þjóðgarðsyfirvöld séu samstiga um þær reglur sem gilda eiga í garðinum. Það verður best tryggt með beinni aðkomu fulltrúa ferðamanna, t.d. með því að samtök útivistarfélaga skipi einn fulltrúa í stjórn, eins og samtökin gera nú fyrir skipulagsnefnd miðhálendisins. Því leggjum við til að orðalag 4. greinar breytist og verði svohljóðandi:
    ….. Í stjórn skulu sitja: formenn allra svæðisráða þjóðgarðsins, einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum, einn fulltrúi skipaður af samtökum útivistarfélaga og tveir fulltúar skipaðir af ráðherra án tilnefningar, þ.e. formaður og varaformaður, eða átta fulltrúar alls.
    Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Ef átta þykir óheppileg tala, má fækka fulltrúum skipuðum af ráðherra í einn, og yrði þá fjöldi
    stjórnarmanna sjö eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    2. tillaga að breytingu á 15. grein
    Í 15. grein lagafrumvarpsins er talað um hvar heimilt sé að aka innan þjóðgarðsins.
    Jöklarannsóknafélagið leggur áherslu á að vetrarakstur á snjó verði almennt leyfður á hálendinu við vestan- og norðanverðan jökulinn. Svo til öll umferð um þessi svæði að vetrarlagi fer fram á breyttum jeppum og vélsleðum. Því leggjum við til að í 2. málsgrein verði orðalaginu: „Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og leyfðum vetrarakstursleiðum, sbr. 3. málsgrein“ breytt í:
    „Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og leyfðum vetraraksturssvæðum“
    Með þessu móti hyrfi ósamræmi milli 2. og 3. málsgreinar þar sem talað er um svæði þar sem
    heimilt er að aka á snjó að vetrarlagi. Einnig yrði það í samræmi við venjur í vetrarakstri, þar sem
    snjóhula og aðstæður eins og stærðir og lega krapabláa ræður leiðum en ekki hefðbundnar
    aksturslínur eða vegir. Rétt er að hafa í huga í þessu samhengi að ekki er kunnugt um skemmdir af
    vetrarakstri á þessum svæðum, þó svo þar hafi sumstaðar farið hundruð bíla á hverjum vetri í 15-20 ár.
    3. tillaga að breytingu á 19. grein
    Í 19. grein lagafrumvarpsins eru ákvæði um hverjir hafi kærurétt til umhverfisráðherra. Ekki er ljóst
    samkvæmt greininni að ferðamenn eða samtök þeirra hafi rétt til að kæra ákvarðanir. Orðalagið um
    lögvarða hagsmuni mun útiloka langflesta landsmenn frá kærurétti. Í ljósi þess að í hópi
    ferðamanna eru helstu notendur hálendishluta svæðisins væri eðlilegt að taka af vafa um kærurétt.
    Við leggjum því til að lagagreinin hljóði svo:
    Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til umhverfisráðherra.
    Úrskurður ráðherra er endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi. Kærurétt hafa allir þeir sem eiga
    lögheimili á Íslandi.
    3
    Ef af einhverjum ástæðum er talið nauðsynlegt að takmarka kærurétt, viljum við til vara leggja til
    eftirfarandi breytingu:
    Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til umhverfisráðherra.
    Úrskurður ráðherra er endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi. Kærurétt samkvæmt þessari grein
    eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og umhverfisverndar- eða
    ferðamannasamtök sem varnarþing eiga á Íslandi, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri
    og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.
    Umhverfisverndar- eða ferðamannasamtök teljast samtök sem hafa umhverfisvernd eða ferðalög að
    meginmarkmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og
    hafa endurskoðað bókhald.
    4. tilllaga að breytingu á 21. grein
    Í 21. grein er fjallað um heimildir til að taka gestagjöld innan þjóðgarðsins. Þessi heimild virðist
    mjög víðtæk og ekki er samræmi milli frumvarpsins og greinargerðar um þetta atriði. Í greinargerð
    er eftirfarandi texti: „Gert er ráð fyrir að um hefðbundið þjónustugjald sé að ræða og ekki er gert ráð
    fyrir að það verði innheimt annars staðar en þar sem þjónusta á vegum þjóðgarðsins er veitt.“ Við
    leggjum til að texta lagagreinarinnar verði breytt til samræmis og hljóði eftirfarandi:
    Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu.
    Fjárhæð gjaldsins skal birt í reglugerð ……
    IV. Lokaorð
    Að lokum viljum við vara eindregið við því að hugmyndir um upphleyptan heilsársveg inn í
    Jökulheima við Tungnaárjökul verði að veruleika. Slíkur vegur myndi draga mjög úr sérstæðum
    áhrifamætti Tungnaáröræfa en þau eru einhvert eyðilegasta svæði hálendisins. Félagið setur sig að
    sjálfsögðu ekki upp á móti endurbótum á sumarvegi þessa sömu leið. Vilji yfirvöld þjóðgarðsins hafa heilsársveg að jöklinum myndi nægja að halda opnum þeim vegi sem þegar er til að Skálafellsjökli. Það myndi einnig efla ferðamannaiðnað tengdan jöklinum í Austur-Skaftafellssýslu meðan heilsársvegur frá Hrauneyjum í Jökulheima myndi fyrst og fremst tengjast ferðamannaiðnaði
    á suðvesturhorni landsins.
    Fyrir hönd Jöklarannsóknafélags Íslands,
    Magnús Tumi Guðmundsson, formaður Magnús Hallgrímsson, varaformaður Þóra Karlsdóttir, gjaldkeri Þorsteinn Þorsteinsson, ritari
    Árni Páll Árnason, meðstjórnandi

  • Creator
    Topic
Viewing 7 replies - 1 through 7 (of 7 total)
  • Author
    Replies
  • 18.02.2007 at 15:09 #580816
    Profile photo of Dagur Bragason
    Dagur Bragason
    Participant
    • Umræður: 57
    • Svör: 1058

    Þessi umsögn er ágæt að flestu leiti en ég vil vekja athygli á þessu:

    "Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og leyfðum vetraraksturssvæðum"

    Þarna er vísað til þess hugtaks sem ég vil ekki taka upp eða "ALLT ER BANNAÐ NEMA AÐ ÞAÐ SÉ SÉRSTAKLEGA LEYFT"

    Þessi leyfðum vertaraksturssvæðum er sett í staðin fyrir leyfðum vetraraksturleiðum.

    Mun betra væri að banna umferð sérstaklega á svæðum sem rík ástæða er fyrir lokun á og ástæður rökstuddar,





    18.02.2007 at 16:01 #580818
    Profile photo of Jón G Snæland
    Jón G Snæland
    Participant
    • Umræður: 58
    • Svör: 4513

    Það væri nú fróðlega að vita hvort félagsmenn í Jöklarannsóknarfélaginu séu sammála stjórn sinni að fara norsku leiðina. Einhvern veginn hef ég ekki trú á því. Þarna held ég að Magnús Tumi og félagar séu búnir að skjóta undan sér báða fæturna. Nema hérna séu einhvern misskilning að ræða eða, eða orðarugl.





    18.02.2007 at 16:20 #580820
    Profile photo of Jón G Snæland
    Jón G Snæland
    Participant
    • Umræður: 58
    • Svör: 4513

    Athugasemdir varðandi frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð
    SAMÚT – Samtök útivistarfélaga
    C/O Útivist
    Laugavegi 178
    105 Reykjavík

    Allar aðgerðir til verndunar náttúru Íslands eru fagnaðarefni fyrir útivistar- og ferðafólk. Stofnun þjóðgarðs felur í sér að tiltekin landssvæði eru tekin til sérstakar verndunar þannig að náttúruunnendur geti um ókomin ár ferðast um viðkomandi svæði og notið þeirrar náttúru sem þau hafa að geyma.

    Það skiptir því megin máli að lög og reglugerðir um þjóðgarða og öll stjórnun þeirra taki tillit til þarfa þeirra hópa sem sækja í að njóta þeirrar náttúru sem þar er að finna. Löng hefð er fyrir ferðalögum um Vatnajökul og nágrenni hans, bæði jeppaferða, vélsleðaferða, gönguferða og skíðaferða. Vaxandi áhugi er á þessari tegund ferðamennsku. Þeir ferðahópar sem um svæðið hafa farið síðustu áratugi kalla ekki eftir miklum framkvæmdum eða þjónustu, heldur leggja þeir megin áherslu á frelsi til að haga sinni ferðamennsku eftir eigin áætlunum í samræmi við aðstæður hverju sinni og í sátt við náttúrna. Það er mikilvægt að þjóðgarðsstofnun sé í sátt við þessa hópa og slík sátt er vandséð nema fulltrúar þessara hópa hafi sem mesta aðkomu að ákvörðunum er þjóðgarðinn varðar. Þetta á bæði við um lög og reglugerðir er þjóðgarðinn varðar og einnig stjórnunarlegar ákvarðanir er hann varðar eftir stofnun.

    SAMÚT , samtök útivistarfélaga, er sameiginlegur vettvangur allra helstu útivistarfélaga landsins. Það er sjálfsögð krafa þessara félagasamtaka að SAMÚT hafi góða aðkomu að gerð reglugerða um þjóðgarðinn. Þannig er hægt að virkja þá sem best þekkja til ferðalaga á Vatnajökli og nágrenni hans. Jafnframt hlýtur að vera eðlilegt að SAMÚT fái fulltrúa í stjórn þjóðgarðsins og sé þar sem fulltrúi stórs hóps notenda.

    Hér á eftir eru athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

    4 grein:
    Ekki er gert ráð fyrir að notendur þjóðgarðsins eigi aðild að stjórn hans líkt og aðrir hagsmunaaðilar og er þó óumdeilanlegt að hér er um verulega hagsmuni að ræða. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að SAMÚT tilnefni fulltrúa í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs, en slíkur fulltrúi væri sameiginlegur fulltrúi Ferðaklúbbsins 4×4, Ferðafélags Íslands, Vélhljólaíþróttaklúbbsins, Útivistar, Jöklarannsóknafélags Íslands, Landssambands Íslenskra Vélsleðamanna og fleirri félagasamtaka. Að baki þessara félagasamtaka eru um 30.000 félagsmanna og innan þeirra er meginþorri þeirra Íslendinga sem í dag stunda ferðalög á Vatnajökli.
    12 grein:
    Hér gildir sama og áður að eðlilegt er að fulltrúi Samút komi að gerð verndaráætlunar frá upphafi. Þar ber að geta að kunnátta á svæðinu liggur hjá ferðafólki og mikilvægt að tryggja umferðarétt almennings um svæðið. Verndunaráætlun þarf að miða að því að vernda náttúruna, en jafnframt að taka tillit til þess að almenningur hafi tækifæri til að njóta hennar. Mikilvægt er að almenn og góð sátt ríki um verndaráætlun og er það best tryggt með því að rödd ferðafóllks hafi áhrif á gerð hennar..

    15. grein
    Hér er fjallað um umferð í þjóðgarðinum og er því sú sem hvað mest snertir hagsmuni þeirra sem í dag ferðast um það svæði sem fellur undir þjóðgarðinn eftir stofnun hans.
    Í náttúruverndarlögum er bann við akstri utan vega með undanþáguákvæði um akstur á snjó og frosinni jörð. Samkvæmt ákvæðum greinarinnar er gengið nokkuð lengra innan þjóðgarðisins. Eðlilegt og nauðsynlegt er að vel sé gætt að því að ekki hljótist skemmdir á náttúru innan þjóðgarðsins af völdum umferðar. Á hinn bóginn þurfa reglur að vera þannig úr garði gerðar að þær setji ekki óþarfa takmarkanir á ferðalög innan þjóðgarðsins og samrýmist þeim ferðavenjum sem hafa verið viðhafðar síðustu áratugi í sátt um náttúruna. Besta leiðin til að tryggja góða sátt um reglur um umferð er að þeir sem stunda þá ferðamennsku sem um ræðir komi að gerð reglanna og tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra. Hugmyndir um sérstakar leyfðar vetrarakstursleiðir stinga verulega í stúf og samræmast illa ferðalögum á snjó að vetri til. Á hinn bóginn getur vel komið til álita að tiltekin afmörkuð svæði séu lokuð fyrir akstri tiltekin tímabil í því skyni að halda umferð frá vinsælum gönguleiðum, en heppilegast er að tillögur að slíku komi frá útivistarfólki sjálfu og SAMÚT er vettvangur slíkrar umræðu.

    19 grein
    Sérstaklega er tiltekið að umhverfisverndarsamtök eigi kærurétt varðandi ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna. Það skýtur mjög skökku við að útivistarsamtök virðast ekki eiga sambærilegan kærurétt, enda eru þau hagsmunasamtök notenda þjóðgarðsins.

    20 grein
    Eins og rökstutt hefur verið hér að framan er full ástæða til að fulltrúar útivistarsamtaka komi að gerð reglugerðar um þjóðgarðinn, enda er innan þeirra veruleg þekking á þessu landsvæði. Aðkoma SAMÚT að þessu hlýtur því að vera verulegur fengur fyrir framgang þessa máls.

    21 grein
    Gjaldtaka af ferðafólki á Íslandi hefur einkum verið fyrir veitta þjónustu en ekki fyrir aðgang að sjálfri náttúrunni. Vatnajökulsþjóðgarður verður víðfemur og stór og væntingar þjóðgarðsgesta um þjónustu af hálfu þjóðgarðsins mismunandi. Æskilegt er að lög um Vatnajökulsþjóðgarð kveði skýrt á um að gjaldtaka í þjóðgarðinum sé með þeim hætti að greitt sé fyrir aðgang að aðstöðu í þjóðgarðinum, upplýsingar og fræðslu, en áfram verði hægt að njóta náttúrunnar á eigin forsendum án þess að fyrir það eitt og sér þurfi að greiða. Á hinn bóginn er eðlilegt að þjóðgarðurinn taki gjald fyrir veitta þjónustu og nauðsynlegt að þau ferðafélög og rekstraraðilar sem reka skála innan þjóðgarðsins geti innheimt sanngjarnt gjald fyrir þjónustu sína.





    18.02.2007 at 18:04 #580822
    Profile photo of Dagur Bragason
    Dagur Bragason
    Participant
    • Umræður: 57
    • Svör: 1058

    Tilvitnun úr [url=http://www.althingi.is/raeda/133/rad20070123T182724.html:udz7kseh][b:udz7kseh]andsvari[/b:udz7kseh][/url:udz7kseh] Jónínu Bjartmarz:
    "Vatnajökull og nágrenni hans er perla sem þjóðin á sameiginlega. Það er auðvitað grundvallaratriði að tryggja öllum jafnan aðgang að svæðinu, hvort sem við erum að tala um göngufólk, jeppafólk eða vélsleðamenn, að allir geti notið þess sem svæðið hefur upp á að bjóða og allir geti notið frjálsræðisins og víðáttunnar á hálendinu innan ákveðinna marka svo ekki gangi á auðlindina."

    Hér er andsvar Jónínu í 1. umræðu um Vatnajökulsþjóðgarinn og er henni umhugað að aðgengi almennings sé virt.

    Hér er 1 [url=http://www.althingi.is/altext/133/01/l23153647.sgml:udz7kseh][b:udz7kseh]umræðan[/b:udz7kseh][/url:udz7kseh]

    Hér er tilvitnun úr [url=http://www.althingi.is/raeda/133/rad20070123T154600.html:udz7kseh][b:udz7kseh]andsvari[/b:udz7kseh][/url:udz7kseh] Rannveigar Guðmundsdóttur:
    "Ég hef ferðast mjög mikið um óbyggðir á Íslandi og finnst það það eftirsóknarverðasta sem hægt er að hugsa sér hvað varðar ferðamáta og frí. Hvergi er betra að eiga unaðsstundir en á fjöllum eða inni í óbyggðum. Ég fer líka stundum á jökla en í jöklaferðir mínar hef ég farið akandi. Ég átti þess kost að fara í ferð á Vatnajökul fyrir tveimur árum. Það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma, að aka upp á þennan víðfeðma jökul og dveljast þar og keyra hann allan í norður og keyra hann allan í suður og eiga þar næturgistingu undir bláhimni í unaðsveðri. Það er auðvitað alveg einstakt að eiga þess kost að upplifa þetta.

    Mér finnst mikilvægt að áfram verði hægt að fara í slíkar ökuferðir inn á jökla, bílar eru eins og smádeplar í íshafinu og eftir þá fennir fljótt í slóðir. En jafnframt verður að taka alveg sérstaklega á því að allir sem eru á gönguferð, hvort sem það er á göngu eða skíðum, lendi ekki í því að bílar séu á þeirra slóðum. Það er grundvallaratriði, enda í þeirri ferð sem ég fór voru mjög ströng skilyrði um það hvert bílar mættu aka vegna þess að á sama tíma var mjög mikið fjölmenni að ganga á Hvannadalshnjúk og truflaði þar hvorugt annað, ef hægt er að orða það þannig.

    Ég tek eftir því að í 15. gr. er ákvæði um akstur vélknúinna ökutækja utan vega í þjóðgarðinum. Þá vaknar spurningin: Á þetta líka við jökulinn sjálfan? Er verið að setja þarna inn ákvæði sem lokar á eitthvað sem gífurlegur fjöldi fólks lítur á sem eitthvað það eftirsóknarverðasta í ferðum á okkar einstaka landi, en það er möguleikinn að keyra á jöklum? Er þarna strax í upphafi verið að loka á að vélknúin ökutæki, vel útbúnir jeppar eða önnur ökutæki megi fara á jökul? Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram og ég mun leggja mikla áherslu á að við skoðum það í nefndinni. Ég er alveg sannfærð um að ef hugsunin er þannig á bak við ákvæði 15. gr. að þarna eigi að loka á eitthvað sem er orðin mikil hefð á Íslandi þá séum við að fara villur vega, það er mín skoðun."

    [url=http://www.althingi.is/raeda/133/rad20070123T162604.html:udz7kseh][b:udz7kseh]ræða[/b:udz7kseh][/url:udz7kseh] Arnbjargar sveinsdóttur:

    "Ég átti þess kost að sitja í þingmannanefndinni svokölluðu sem kom með grunninn að þeim tillögum sem hér eru orðnar að frumvarpi. Hér hafa margir aðrir komið að málum. Ég hafði mjög mikla ánægju af því að vinna í þessari nefnd og taka þátt í störfum hennar með öðrum ágætum þingmönnum. Við höfðum mjög mikið samráð við umhverfissamtök, ferðamálasamtök, heimamenn, sveitarstjórnarmenn og alla þá sem við gátum ímyndað okkur að hefðu skoðun á því með hvaða hætti við ættum að byggja upp Vatnajökulsþjóðgarð."
    Henni virðist ekki hafa dottið í hug í útvistarfélög hefðu eitthvað um málið að segja, enda var ekkert talað við þau.

    Halldór Blöndal hafði meðal annars þetta að [url=http://www.althingi.is/raeda/133/rad20070123T173343.html:udz7kseh][b:udz7kseh]segja[/b:udz7kseh][/url:udz7kseh] :

    "Ég hygg að flestir Íslendingar séu sammála um að þessi öræfi eigi að fá að halda sér eins og þau eru. Ekki kemur til greina að breyta farvegi Kreppu og færa hana til Austurlands eins og suma hefur dreymt, það kemur auðvitað ekki til greina. En á hinn bóginn er nauðsynlegt í þessum þjóðgarði eins og öðrum að fólk geti komist um hann með auðveldum hætti því að reynslan sýnir að ef vel er frá stígum og vegslóðum gengið og þeir tryggilega merktir, ég tala ekki um ef hægt er að byggja þá eitthvað upp, þá kemur það í veg fyrir að ekið sé utan vegslóðanna."





    18.02.2007 at 19:19 #580824
    Profile photo of Dagur Bragason
    Dagur Bragason
    Participant
    • Umræður: 57
    • Svör: 1058

    Kolbrún Halldórsdóttir hafði aðalalega áhyggjur af því að UST stjórnaði ekki vatnajökulsþjóðgarði:
    "Það þýðir ekki endilega að sarga þurfi sundur æðarnar sem liggja til [url=http://www.althingi.is/raeda/133/rad20070123T180220.html:y31y2ytn][b:y31y2ytn]opinberra[/b:y31y2ytn][/url:y31y2ytn] stjórnsýslustofnana jafnvel þótt þær hafi verið svo óheppnar að vera settar niður í Reykjavík. "
    Svo minnist hún á [url=http://www.althingi.is/raeda/133/rad20070123T174952.html:y31y2ytn][b:y31y2ytn]fund[/b:y31y2ytn][/url:y31y2ytn] á Hornafirði þar sem Árni Bragason flutti ræðu.
    Einning telur hún að þjóðgarðurinn þurfi endilega að fylgja [url=http://www.althingi.is/raeda/133/rad20070123T160921.html:y31y2ytn][b:y31y2ytn]erlendri[/b:y31y2ytn][/url:y31y2ytn] fyrirmynd:
    "það að fylgja leiðsögn alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í þessum efnum. Allt sem lýtur að vinnu nefndanna sem hafa starfað að þessum undirbúningi sem varðar svæðisskiptingu IUCN og skilgreiningu þeirra samtaka á ólíkum svæðum sem geta heyrt til þjóðgarði, þó svo verndarkvöðin sé mismikil, allt er þetta til fyrirmyndar og í samræmi við þá nútímalegu hugmyndafræði sem IUCN hefur rutt braut í þjóðgarðamálum."
    Steingrímur J Sigfússon hafði mest [url=http://www.althingi.is/raeda/133/rad20070123T164648.html:y31y2ytn][b:y31y2ytn]áhyggjur[/b:y31y2ytn][/url:y31y2ytn] af því að hugsanlegir virkjunarstaðir væru ekki innan Þjóðgarðsins. en þetta hafði hann að segja um aðkomu að stjórn þjóðgarðsins:
    "Þau sjónarmið eru vissulega fullgild að eðlilegt er að hafa í huga þann mikla fólksfjölda sem býr á suðvesturhorni landsins og á landfræðilega beint aðild að málinu í gegnum það svæðaskipulag sem lagt er til grundvallar. Ég vil segja að ég held að einn vandasamasti partur þessa máls, sem enn er óþroskaður að ýmsu leyti, sé stjórnsýsluþátturinn. Það þarf að fara vel yfir það hvort þarna næst jafnvægi sem þarf að tryggja milli þess að heimaaðilar, landeigendur, sveitarstjórnarmenn og hagsmunasamtök, t.d. ferðaþjónustuaðilar og áhugamannasamtök svo sem náttúruverndarsamtök á viðkomandi svæðum, verði áfram fullvissuð um að verða höfð með í ráðum og hafi áhrif á umsýslu og stjórn einstakra svæða."





    18.02.2007 at 19:33 #580826
    Profile photo of Jón G Snæland
    Jón G Snæland
    Participant
    • Umræður: 58
    • Svör: 4513

    Enn einu sinn, sér maður þennan misskilning þingmanna að frjáls félagasamtök eru ekki sama og frjáls félagasamtök. Hérna verðum við að grípa inn í og koma útivistafélögum á framfæri.

    Hlynur Hallsson þingmaður:
    Nefndin hefur unnið skýrslu fyrir Umhverfisráðuneytið sem er afar ítarleg og góð og í sumum tilfellum hefði verið jafnvel betra að fara meira eftir þeirri skýrslu við samningu lagatextans, en í ráðgjafarnefndinni voru einmitt mjög margir heimamenn. Það voru fulltrúar Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps, Ásahrepps frá Rangárþingi ytra, frá Skútustaðahreppi, Þingeyjarsveit, Fljótsdalshreppi og Fljótsdalshéraði og einnig frá Skaftárhreppi og sveitarfélaginu Hornafirði. Og sérstaklega ánægjulegt var, og það á ekki alltaf við um svona nefndir, að í nefndinni sátu fulltrúar frjálsra félagasamtaka, þ.e. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, formaður Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi og varamaður hans var Ulla R. Pedersen. Þetta finnst mér allt vera til mikillar fyrirmyndar.





    19.02.2007 at 10:27 #580828
    Profile photo of Skúli Haukur Skúlason
    Skúli Haukur Skúlason
    Participant
    • Umræður: 86
    • Svör: 2442

    Hér er umsögn Ferðaklúbbsins eins og hún fór inn. Mjög svipuð og umsagnirnar að framan en þó farið dýpra í 15. gr. enda varðar hún okkur umtalsvert.

    Athugasemdir varðandi frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð

    Sendandi:
    Ferðaklúbburinn 4×4
    Mörkinni 6
    105 Reykjavík

    Ferðaklúbburinn 4×4 fagnar áformum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Lítt snortin náttúra Íslands er líkleg til að verða í framtíðinni mestu verðmæti Íslendinga og verðum við því að umgangast hana með fyllstu gát. Verndun náttúrunnar sem miðar að því að halda mannvirkjagerð á hálendinu í lágmarki en jafnframt gefa hinum ýmsu ferðahópum kost á að stunda ferðalög og útivist á svæðinu, er að okkar mati mikilvæg

    Frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð stuðlar í megin dráttum að þessum markmiðum. Þó veldur það óneitanlega vonbrigðum þegar horft er til þess að það ferðafólk sem í dag nýtir til ferðalaga svæðið sem fyrirhugað er að verði þjóðgarður skuli ekki vera með í ráðum við mótun frumvarpsins. Kunnátta þessara hópa og ást þeirra á svæðinu hlýtur að vega þungt og því ætti rödd þeirra að hafa áhrif. Á þetta ekki jafnt við um þá sem stunda jeppaferðir á jöklinum, vélsleðaferðir, gönguferðir eða gönguskíðaferðir, en samtök allra þessara hópa eiga aðild að SAMÚT.

    Sérstök ástæða er til að vekja athygli á því sem segir í 2.gr. frumvarpsins um markmið þjóðgarðsins:
    Auðvelda skal almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unt er án þess að náttúra hans spillist og veita fræðslu um náttúru , sögu og mannlíf svæðisins.
    Samhliða því sem aðgengi er opnað fyrir nýjum hópum að þeim náttúruperlum sem þjóðgarðurinn inniheldur hlýtur að vera kappsmál að þeir sem í dag ferðast um Vatnajökul og nágrenni hans geti haldið því áfram, enda hafa þessir hópar kappkostað að ferðast í sátt við náttúruna og án þess að spjöll eigi sér stað.

    Hér á eftir eru athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

    4 grein:
    Ekki er gert ráð fyrir að notendur þjóðgarðsins eigi aðild að stjórn hans líkt og aðrir hagsmunaaðilar og er þó óumdeilanlegt að hér er um verulega hagsmuni að ræða. Ferðaklúbburinn 4×4 er ásamt öðrum útivistar- og ferðafélögum aðili að SAMÚT, Samtökum útivistarfélaga. Við teljum að eðlilegt væri að SAMÚT tilnefni fulltrúa í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Að baki þeirra félagasamtaka sem mynda SAMÚT eru um 30.000 félagsmenn og innan þeirra er meginþorri þeirra Íslendinga sem í dag stunda ferðalög á Vatnajökli.

    12 grein:
    Við leggjum til að fulltrúi SAMÚT komi að gerð verndaráætlunar frá upphafi. Þar ber að geta að kunnátta á svæðinu liggur hjá ferðafólki og mikilvægt að tryggja umferðarétt almennings um svæðið. Verndunaráætlun þarf að miða að því að vernda náttúruna, en jafnframt að taka tillit til þess að almenningur hafi tækifæri til að njóta hennar. Mikilvægt er að almenn og góð sátt ríki um verndaráætlun og er það best tryggt með því að rödd ferðafóllks hafi áhrif á gerð hennar..

    15. grein
    Hér er fjallað um umferð í þjóðgarðinum og er því sú sem hvað mest snertir hagsmuni þeirra sem í dag ferðast um það svæði sem fellur undir þjóðgarðinn eftir stofnun hans.
    Í náttúruverndarlögum er bann við akstri utan vega með undanþáguákvæði um akstur á snjó og frosinni jörð. Samkvæmt ákvæðum greinarinnar er gengið nokkuð lengra innan þjóðgarðisins.
    Annars vegar er kveðið á um að gerð sé grein fyrir öllum vegum sem heimilt er að aka á innan þjóðgarðsins. Þetta þýðir að þjóðgarðsyfirvöld ákveða hvaða vegir og vegslóðar eru viðurkenndir og hverjir ekki. Vissulega má segja að hér sé um nokkra þrengingu að ræða þar sem þetta ákvæði opnar á að vegum sem notaðir eru til umferðar í dag sé lokað til frambúðar af þjóðgarðsyfirvöldum. Engu að síður er það okkar mat að þetta ákvæði sé nauðsynlegt til að unnt sé að koma með markvissari hætti í veg fyrir utanvegaakstur innan þjóðgarðsmarkanna.
    Hins vegar er ákvæði sem þrengir að heimild til akstur á snjó og frosinni jörð þar sem slíkur akstur virðist vera bundinn leyfðum vetrarakstursleiðum. Þetta ákvæði er veruleg atlaga að frjálsri ferðamennsku og verður ekki séð að þjóni þeim tilgangi að vernda náttúruna. Auk þess er þessi leið ekki framkvæmanleg og tekur ekki tillit til margbreytilegra aðstæðna í vetrarríki hálendisins.
    Ferðamennska hefur breyst mikið síðustu tugi ára. Í árdaga voru menn að ferðast frá A til B, en nú ferðast fólk til að njóta náttúrunnar. Í því felst að fara víða um og skoða það sem fyrir augu ber. Til þess þarf að fara víða um til að geta notið þess sem þjóðgarðurinn hefur upp á að bjóða. Að aka um að vetri gefur okkur tækifæri til að njóta náttúrunnar án þess að hætta sé á náttúruskemmdum enda skal aka á snævi þakinni og frosinni jörð.
    Þess ber að geta að snjóalög leggjast mismunandi eftir árstíðum og veðurfari og þessvegna verður að vera möguleiki að velja mismunandi leiðir eftir hvernig snjór leggst. Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið virðist ætlunin með þessu ákvæði vera að stýra vetrarumferð þannig að hún sé einungis á þeim svæðum sem þola slíka umferð. Það má hins vegar vera ljóst hverjum þeim sem þekkir til vetrarferða á hálendinu að með þessu skapast þvert á móti hætta á að umferð sé stýrt á svæði sem síður þola umferð, þ.e. svæði þar sem skyndileg hlánun hefur átt sér stað. Í dag leitar ferðafólk að leiðum þar sem aðstæður til aksturs eru góðar og þannig stýrist umferðin sjálfkrafa. Það er með öllu óvinnandi vegur fyrir þjóðgarðsverði að hafa þá yfirsýn sem þarf til að stýra þessu með vitrænum hætti.
    Jöklar hlaupa reglulega og verða ófærir og hættulegir, sprungur eru misjafnlega opnar eftir árstíðum og eftir hvernig jöklabúskapur hefur verið og því þarf að velja leiðir upp á jökla eftir aðstæðum hverju sinni. Það er í alla staði farsælla að ferðafólk velji sér leiðir sjálft en að slíkt val eigi sér stað af yfirvöldum.
    Þegar hlýindakaflar hafa verið að hausti eða vetri safnast vatn og krapi í lægðir og verður því að geta valið vetrarleiðir eftir landslagi og hættu á náttúruskemmdum.
    Það er mat allra sem þekkja til vetrarferða að framangreint ákvæði sé ekki aðeins óframkvæmanlegt heldur geti beinlínis verið hættulegt bæði ferðafólki og náttúrunni.

    Við leggjum því til að þetta ákvæði verði fellt út og í staðin gildi ákvæði náttúruverndarlaga um akstur á snjó og frosinni jörð, enda er það besta leiðin til að skapa aðgengi að náttúrunni án þess að henni stafi hætta af umferðinni.

    18 grein
    Í greininni er þjóðgarsverði gefið vald til að loka svæðum fyrirvaralaust ef hætta er á að umferð geti spillt náttúrunni eða lífríkinu, enda geta þær aðstæður komið upp að slíkar lokanir séu óhjákvæmilegar. Ekki virðast vera tímamörk á slíkum lokunum en æskilegt væri að þær þurfi að staðfesta af stjórn þjóðgarðsins inna ákveðinna tímamarka.

    19 grein
    Sérstaklega er tiltekið að umhverfisverndarsamtök eigi kærurétt varðandi ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna. Það skýtur mjög skökku við að útivistarsamtök virðast ekki eiga sambærilegan kærurétt, enda eru þau hagsmunasamtök notenda þjóðgarðsins.

    20 grein
    Eins og rökstutt hefur verið hér að framan er full ástæða til að fulltrúar útivistarsamtaka komi að gerð reglugerðar um þjóðgarðinn, enda er innan þeirra veruleg þekking á þessu landsvæði. Aðkoma SAMÚT að þessu hlýtur því að vera verulegur fengur fyrir framgang þessa máls.

    21 grein
    Það telst til verulegrar stefnubreytingar í ferðamennsku á Íslandi að ferðafólki sé gert að greiða fyrir það eitt að njóta náttúrunnar (svonefnt glápgjald). Væntanlegur Vatnajökulsþjóðgarður kemur til með að ná yfir 15% af landinu og 70% af jöklum landsins. Við vörum stórlega við öllum hugmyndum um að selja aðgang að þessari náttúru. Gjaldtaka skal vera fyrir veitta þjónustu en ekki fyrir það eitt að njóta náttúrunnar. Það má benda á að ferðafólk á stærsta hluta þess svæðis sem fer undir þjóðgarðinn er ekki að njóta neinnar þjónustu og æskir ekki neinnar þjónustu, heldur er þvert á móti að sækjast í einfaldleikann og ósnortna náttúru.

    F.h. Ferðaklúbbsins 4×4

    Benedikt Magnússon
    formaður





  • Author
    Replies
Viewing 7 replies - 1 through 7 (of 7 total)

You must be logged in to reply to this topic.

RSS mbl.is – bílar

  • Villa kom upp sem bendir til þess að veitan liggi niðri. Reyndu aftur síðar.