This topic contains 16 replies, has 1 voice, and was last updated by Davíð Karl Davíðsson 17 years, 8 months ago.
-
Topic
-
Eftirfarandi Bréf sendi ég á alla helstu fjölmiðla í dag:
_________________________________________
Ágæti fréttamaður,
Helgina 10. – 11. mars gekk slæmt veður yfir landið lentu nokkrir útivistarmenn í hremmingum þá helgi þannig að björgunarsveitir þurftu að aðstoða þá. Um var að ræða hóp vélsleðamanna við Skjaldbreið og síðan hóp jeppamanna á Langjökli, síðar hefur komið í ljós að þessir jeppamenn óskuðu ekki eftir aðstoð heldur var þar um aðstandanda að ræða sem ekki náði sambandi við mennina.
Í kjölfarið á þessum atburðum var mikið fjallað um þetta í fjölmiðlum og var umfjöllunin að flestu leiti á þá leið að þarna hefðu verið á ferðinni óvitar sem önuðu af stað í slæmri veðurspá og illa búnir í þokkabót. Og eina af þeim umræðum sem kom upp var að réttast væri að sekta þetta fólk sem fór svona óvarlega og var mikið fjallað um þann gríðarlega kostnað sem björgunarsveitir urðu fyrir og jafnvel talað um milljónatjón á tækjum þeirra.
Nú í gær skall svo aftur á vitlaust veður á hálendinu, og var reyndar búið að spá því líka. Nú bregður hins vegar þannig við að almennir vegfarendur á þjóðvegi 1 og víðar lenda í hremmingum og þurfa á aðstoð björgunarsveita að halda. Ég beið því nokkuð spenntur eftir því að heyra umfjöllun fjölmiðla um þessa atburði í dag. En þar er ekki minnst einu orði á það að fólk sé að halda vanbúið upp á fjallvegi þrátt fyrir vondar veðurspár, það er ekki heldur fjallað um að það hafi verið byrjað að vara við slæmri færð og skyggni snemma dags í gær en fólk hélt eftir sem áður af stað á illa búnum farartækjum. Og síðast en ekki síst, það er ekkert fjallað um að það eigi að sekta þetta fólk fyrir að fara vanbúið af stað í slæmri veðurspá og þrátt fyrir viðvaranir. Og það er ekkert talað um kostnað björgunarsveita í þetta skiptið.
Reyndar er þetta líka á þennan vegin þegar björgunarsveitir þeytast um borgina í fyrstu haustlægðunum og negla þök, týna saman garðhúsgögn og binda niður trampolín. Þá er ekkert rætt um að sekta skussana sem ekki gættu að sér og sínum hlutum – og þá er ekki heldur fjallað um kostnað sem af þessu hlýst fyrir björgunarsveitir.
Það sem ég er að reyna að benda á með þessu er að umfjöllun fjölmiðla um það þegar útivistarfólk á í vanda eru oft uppfullar af, að því er virðist fordómum í garð þeirra er kjósa að ferðast um hálendið að vetri. Þessi fréttaflutningur hefur nú þegar orðið til þess að fólk veigrar sér við að hringja í björgunaraðila þegar á þarf að halda til að forðast fjölmiðlasirkusinn sem því fylgir – ég þekki nokkur dæmi um slíkt nú þegar og það er ljóst að fréttaflutningur síðustu vikuna er ekki til að bæta ástandið.
Að lokum vil ég svo geta þess að um síðustu helgi veit ég um hátt í 100 jeppa sem voru á fjöllum, og áræðanlega hafa þeir verið fleiri. Eins sá ég til vel á fimmta tug vélsleða á Gjabakkavegi og í kringum Skjaldbreið í gær (sunnudag). Þetta var á sama tíma og allt var lokað á Hellisheiði.
Í gær var ekki leitað að neinum Útivistarmanni né þurfti að aðstoða þá á nokkurn hátt. Svona er þetta um nánast allar helgar ársins, þrátt fyrir að oft séu þúsundir á fjöllum, og því verður að telja útivistarfólk á Íslandi nokkuð vel búið og að það kunni sitt fag fyrst ekki þarf að kalla eftir aðstoð oftar en raun ber vitni.
Kveðja,
_____
Benedikt Magnússon
Formaður Ferðaklúbbsins 4×4
You must be logged in to reply to this topic.