This topic contains 2 replies, has 1 voice, and was last updated by Magnús Guðmundsson 20 years, 3 months ago.
-
Topic
-
Stjórn 4×4 barst þetta erindi Hellu júlí 2004. Efni bréfs: Töðugjöld 2004.
Ágæti félagi í ferðaklúbbnum 4×4!
Fyrir rúmum tíu árum þegar menn veltu fyrir sér hvernig best væri að koma framleiðslu heimamanna og fyrirtækja í Rangárþingi á framfæri varð héraðshátíðin Töðugjöld til. Þar sameinuðu menn bæði uppskerulok hjá stærstum hluta bænda, að fornum sið, og skemmtun fyrir alla aldurshópa.
Rangárþing er eitt blómlegasta landbúnaðarhérað landsins og þar af leiðandi rómað á landsvísu fyrir matvælaframleiðslu sína. Hér er einnig að finna blómlega ferðaþjónustu sem er fyllilega samkeppnisfær við önnur landssvæði, auk þess sem hið víðfræga svið Brennu-Njálssögu er í héraðinu. Það má því með sanni segja að í Rangárþingi sé mannlífið afar fjölbreytt og skemmtilegt.
Á Töðugjöldunum í ár má finna marga áhugaverða dagskrárliði má þar nefna að á föstudeginum 13. ágúst verður Hvolsvelli umbreytt í Víkingabæ með tilheyrandi fjöri. Um kvöldið stendur Sögusetrið þar í bæ fyrir ?Njálsbrennu?. Að Njálsbrennunni afstaðinni verða tónleikar og harmonikkuball á Gaddstaðaflötum við Hellu. Á laugardeginum 14. ágúst verður þétt skipuð dagskrá og margt á döfinni á Gaddstaðaflötum og Hellu. Slegið verður upp markaði, búvélasýningu, ýmsar keppnir og þrautir verða fyrir unga sem aldna og um kvöldið verður að sjálfsögðu boðið upp á kvöldvöku með brekkusöng og balli. Á sunnudeginum 15. ágúst verða fyrirtæki í héraðinu með opið hús og þá er einnig tilvalið að nýta sér þá afþreyingu sem er í boði á svæðinu eða fá sér eitthvað gott í gogginn á veitingastöðum Rangárþings. Dagskránna í heild og nánari upplýsingar um Töðugjöldin má finna á vefslóðinni http://www.atvinnuferda.is
Fyrir Landsmót hestamanna var svæðið að Gaddstaðaflötum við Hellu mikið lagað og endurbætt, m.a. er búið að malbika geysi stórt plan þar sem markaðstjöld og ýmsar sýningar hafa gott pláss. Það var mál manna að aldrei hefði verið haldið jafn glæsilegt landsmót og í ár. Það væri því okkur mikill heiður ef einhverjir meðlimir í ferðaklúbbnum 4×4 sæju sér fært að koma á torfærutröllum sínum á Töðugjöldin og leyfa hátíðargestum að skoða farkostina.
Okkur langar einnig til að bjóða félögum í ferðaklúbbnum 4×4 2 fyrir 1 á tjaldsvæðum okkar á Gaddstaðaflötum á meðan Töðugjöldin standa yfir. Fyrir þá sem ekki hafa áhuga á tjaldbúðavist er engu að síður tilvalið að líta við í hressandi bíltúr og njóta dagskrárinnar. Vinsamlega komið þessu á framfæri við aðra klúbbmeðlimi.
Með kærri kveðju f.h. starfsmanna Töðugjalda 2004
Halla Eiríksdóttir
Netfang: todugjold@atvinnuferda.is
Sími 893-9850
You must be logged in to reply to this topic.