This topic contains 5 replies, has 1 voice, and was last updated by Eiríkur Þór Eiríksson 20 years, 7 months ago.
-
Topic
-
Sælir félagar.
Vegna þeirra umræðu sem hefur verið hér á spjallinu okkar og víðar set ég saman þennan pistil. Held fyrst og fremst að við séum að hræra í lítilli skál þar sem örfáir eru í raun að segja sitt álit. Jú kannski má segja að þessir fáu sem hafa áhyggjur af hegðun jeppamanna og breyttu jeppunum hafa verið að láta heyra í sér uppá síðkastið. En athugið að varla er þetta samsæri allra þeirra sem hafa látið í sér heyra. Svo erum við á þessum litla vef okkar að væla út í eitt og æsa hvort annað upp með svörum okkar í milli. Af hverju eru þið ekki að svara mönnum beint í blöðin ? Á þessum vef eru mest bara við jeppafólkið.
Margt fróðlegt hefur komið í ljós í þessari umræðu, en áttið ykkur á einu, allt það sem við þurfum að hafa í friði, er bara tvennt: „Að mega breyta jeppum og mega ferðast á þeim“. Til þess að svo megi vera þarf bara eitt að vera í lagi og það er heilinn á okkur sjálf. Breyttur jeppi er ekkert hættulegur einn og sér, það hlítur að vera ökumaðurinn og hugarfar hans sem er hættulegt. Það sama hugarfar þarf líka að vera í lagi, þegar þessi sami ökumaður ákvað að láta breyta bílnum sínum á viðurkendu breytingarverkstæði, eða gera það sjálfur heima í skúr.
Einhver sagði hér á spjallinu að ekkert eftirlit væri í gangi með illa breyttum jeppum. Menn gætu jú fengið breytingarskoðun og haldið síðan áfram með að breyta bílnum að vild. Annar sagði að það vantaði löggur til að fylgjast með utanvegaakstri. Þetta má vera rétt, en af hverju gerum við ekkert í þessu sjálf ? Ætlum við þessir aðilar sem teljum okkur vera á vel breyttum bílum, ökum ekki utanvegar og erum til fyrirmyndar í umferðinni að láta þessa örfáu sem eru með allt niðrum sig í þessum málum skemma fyrir fjöldanum ? Gerum eitthvað sjálf, hringum í lögguna (eða Einar Sól okkar mann hjá Frumherja), ef við vitum um bíla sem eru illa breyttir. Hringjum í lögguna (eða beint í þennan aðila), ef við sjáum jeppamenn vera að haga sér eins og asnar í umferðinni, eða á fjöllum. Við bara verðum að taka þátt í þessu sjálf, ef „fjöreggið“ virðist vera að hverfa frá okkur.
Á mínum vinnustað starfa um 200 flutningabílstjórar, flestir mjög ábyrgir og góðir ökumenn. En það eru til í þessum hóp menn sem sjá ekki heildarmyndina við að haga sér vel í umferðinni. Og þessir örfáu búa til vont umtal er þeir hleypa ekki framúr, aka of hratt, víkja illa og eru mjög ógnandi á þjóðvegunum. Það er því verkefni allra hinna að benda á þessa menn, svo fyrirtækið geti brugðist við á réttan hátt. Sýnt mönnum fram á hlutina í réttu ljósi, því ekki vill fyrirtækið fá á sig ljótan stimpil vegna örfáa einstaklinga.
Hvað varðar breytingar almennt á bílum, vitum við það hér að þessi íslenski siður / iðnaður er í ágætum málum, svona almennt. Einhver vildi halda því fram að þetta væri nú meira bullið að breyta bílum hér á klakanum, sem bifreiðahönnuðir væru búinir að eyða miklum tíma og peningum í að hanna. Auðvitað vitum við betur, það er verið að breyta þessum bílum til þess að geta notað þá meira og betur en ella. Við íslenskar aðstæður. Get upplýst ykkur hér að fyrir nokkrum árum síðan voru hér á landi 10 æðstu stjórnendur MMC í Japan. Auðvitað var farið með liðið á fjöll og upp á jökla. Þeir spurðu út í hluti sem við öll þekkjum svör við. Af hverju er verið að hækka upp bílinn ? Af hverju er afturhásingin færð aftur ? Af hverju er hleypt úr dekkjunum ? Og í hvert einasta sinn er svar kom frá okkur, var tekinn upp stóri gerfihnattasíminn og hringt til Japans til að segja frá þessum undamönnum hér á Íslandi. Ég er því ekki í vafa að margt sem okkur hér á landi hefur dottið í hug vegna jeppabreytinga, fer til framleiðandans út í hinum stóra heimi. Enda þekkjum við dæmi þess.
Staðan er þessi og er bara nokkuð einföld. Þið sem eruð þarna úti og eruð að pirra ykkur á umræðunni í fjölmiðlunum, látið í ykkur heyra þar. Umfram allt verum málefnaleg og kurteis. Þið sem eruð að breyta bílunum ykkar, gerið það af skynsemi. Þið sem eruð að ferðast, sýnið tillitsemi, bæði á þjóðvegum og á fjöllum / jöklum.
Kv
Palli
You must be logged in to reply to this topic.