This topic contains 17 replies, has 1 voice, and was last updated by Olgeir Engilbertsson 16 years, 11 months ago.
-
CreatorTopic
-
07.12.2007 at 22:55 #201338
Einhverjir á leiðinni í Þórsmörk á morgun?
.
Langaði bara að forvitnast, ef einhver er að fara væri mér mikill greiði gerður ef þú skilur eftir NMT númer hérna sem ég gæti náð í þig í eða verið bara á 4×4 rás á VHF.
.
Er að fara þangað einbíla á morgun og það er líklega eitthvað að verða komið á tíma í framdrifinu hjá mér þannig að væri gott að vita af einhverjum á ferðinni ef það klikkar.
.
Veit að þetta hljómar ekki gáfulega, verð bara að fara og gat ekki komið því við í dag að fá þetta lagað :S
.
Kv. Baddi -
CreatorTopic
-
AuthorReplies
-
07.12.2007 at 23:31 #605970
Verð á þessum slóðum á morgun.
Kveðja,
JKK
8488080
08.12.2007 at 00:48 #605972Sæll Baldvin,
Var þarna síðustu helgi. Ágætis aðstæður þarna, sérstaklega fyrir breytta bíla, bara rólegt brölt á köflum yfir stórgríti. Passaðu þig því veginum hefur skolað burt á köflum. Það er búið að setja gula stiku þar sem fyrsta áin var alltaf, þar byrjar actionið. Það er góður bakki þar niður sem ekki væri gaman að fara framaf á hraða. Veit að 44" Pattin er ljúfur á svona vegum í 12 pundum, eins gott að hafa heimil á sér. Það var ekki mikið í ánum, Krossá var eins og lamb að leika sér við. Mig minnir að útivist sé með stóra jeppaferð þangað uppettir þessa helgi. Lítill fugl sagði að það væru 100 manns skráðir í gistingu í Básum !
En allavega, góða ferð..
08.12.2007 at 00:59 #605974Það er rétt að jeppadeild Útivistar er með stóra ferð í Bása um helgina, þéttfullir skálar og sjálfsagt um 30 bílar á ferðinni þarna inneftir kringum hádegi á morgun (laugardag). Þú ert því örugglega ekki einn á ferð.
Kv – Skúli
10.12.2007 at 22:43 #605976Hvernig var færðin þarna inneftir um helgina? Er þetta bara á mikið breyttra bíla færi?
11.12.2007 at 00:45 #605978Sæll Haffi, ég hef ekki verið þarna nýlega en ég er handviss um að þú getur rúllað inneftir- sé ekki hvað ætti að stoppa þig. Félagi minn var reyndar þarna fyrir stuttu síðan og þá var leiðin óvenju gróf og skorin. Árnar gætu vissulega orðið meiri en vant er ef það rignir áfram eins og í augnablikinu en fyrir mína parta er bara gaman að þurfa að vanda leiðarvalið en ekki sullast yfir víðast hvar eins og vanalega er hægt.
.
Kv. Freyr
11.12.2007 at 09:28 #605980Það er búið að lagfæra eitthvað vegin þarna inneftir. Það er í tengslum við varnargarðagerð sem nú er að fara í gang innan við Bása. Það fóru lítið breyttir bílar inneftir um helgina án vandræða.
Kv – Skúli
11.12.2007 at 11:41 #605982Hver stendur fyrir þeirri framkvæmd? Hefur farið fram umhverfismat?
Það er eðli vatnsfalla eins og Krossár, að breyta farvegi sínum reglulega. Ef Krossá fær ekki að renna óbeisluð þarna innfrá, fær nokkuð að vera í friði? Ég vona að formaður umhverfisnefndar 4×4 hafi beitt áhrifum sínum til þess að forða þessari óhæfu.-Einar
11.12.2007 at 14:33 #605984Eins merkilegt og það nú er, hefur heyrst að útivist standi á bakvið þetta.
Þeir hafi sótt um styrk til að laga veginn með þessu móti og hlotið 27mkr styrk í þetta "göfuga" verkefni í landspjöllum.
Væri gaman að fá þetta "staðfest".
11.12.2007 at 20:03 #605986Það er verið að setja varnargarð á krossána vegna þess að hún er ryðja burtu grónu landi. hún er nú þegar búin að taka burtu heilmikið af landi sem var gróið bæði af mosa/grasi og trjám fyrir framan strákagil og eins Bása. Þeir sem voru á ferðinni eithvað þarna í sumar hafa séð að það er ekki stingandi strá að sjá lengur fyrir innan strákagil. Menn ættu nú að kynna sér málið áður en þeir fara að tala um "("göfuga" verkefni í landspjöllum)"
11.12.2007 at 21:05 #605988Jökulárnar eru óaðskiljanlegur hluti af náttúru Þórsmerkur og Goðalands. Það er eðli jökulánna að hlaða undir sig og að skifta um farveg reglulega. Þar sem land er friðað fyrir sauðfjárbeit, gróa gömlu farvegirnir mjög fljótt upp. Með þessum vanhugsðuðu aðgerðum er verið að grípa inn í þetta ferli, misskilin gróðurvernd er notuð sem yfirskin til þess að raska náttúru sem er annars að ná sér eftir aldalanga ofbeit sauðfjár.
Síðastliðið sumar mátti sjá í Goðalandi ummerki eftir flóð sem urðu í desember 2006. Þá urðu víða á suðurlandi mestu vatnavextir síðan 1968. Slík flóð eru hluti á náttúru Íslands.
Það eru ekki nema rúmlega 15 ár síðan Goðaland var friðað fyrir rollunni. Ef svæðið fær að þróast eftur lögmálum náttúrunnar, án vanhugsaðra inngripa eins og hér er um að ræða, þá verða aurarnir að mesu skógivaxnir, þrátt fyrir að Krossáin flæmist um þá Birkið er nefnilega ótrúlega fljótt að festa rætur í gömlu farvegunum, þegar árnar hafa flutt sig.-Einar
12.12.2007 at 00:44 #605990Áhrif sauðkindarinnar á gróðurfar hafa stundum stórlega verið ýktar. Ofbeit var vandamál snemma á síðustu öld á Goðalandi og Þórsmörk en mun lengur á Almenningum.
Sá skaði sem sauðkindin hefur valdið er hins vegar lítt sambærilegur við þær hamfarir sem fylgt hafa ferðaþjónustunni þarna innfrá.
Um 1976 man ég eftir útilegu sem fjölskyldan fór inn í Bása. Tjaldað var á fallegri flöt undir Bólhöfði og dvalið í viku. Þarna var mikill friður enda Básar þá lítt þekktir samanborið við Langadal og Húsadal. Þetta var eftirminnileg útilega.
Síðan þetta var hefur mikið vatna runnið til sjávar. Þar sem flötin stóð standa nú skálar Útivistar. Þetta var nú hitamál man ég á sínum tíma og margir ósáttir við að byggt væri á þessum ósnortna bletti.
Ferðafélögin þarna innfrá hafa í raun haft frjálsar hendur hvað þau hafa gert gegnum tíðina enda lögmál frumskógarins gilt þarna. Það sem er mest áberandi nú að undanförnu eru tröllauknir varnagarðar. Gríðalegt mannvirki er vestur af Húsadal nánast upp í Grænafjall. Hvers vegna þarfa garðurinn að vera svona óskaplega langur?
700 metra langur garður var nýlega reistur út frá Stakk við Hvanná. Hann stíflar nánast Krossána enda nær hann nánast upp í Valahnjúk. Þó þetta sé unnið á er á vegum Vegagerðarinnar er a.m.k. einhver sem biður um þessi mannvirki. Ég hef ekki heyrt neinn þarna innfrá mótmæla.
Ef byggður verður einhver risagarður til að vernda Bása þarf annan eins fyrir Langadal. Þá þarf ekki annað en að koma með plankann og komin er brú yfir Krossá.
Það er ljóst að ekki verður bæði sleppt og haldið. Mér sýnist að menn hafi farið offari í að vernda nokkra húskofa og vegspotta. Það væri ólíkt ævintýralegra ferðaleg að fara inn í Bása og Langadal ef Krossáin fengi að valsa óbeisluð þarna. Auk þess eru þessir garðar einfaldlega landspjöll af verstu gerð.
Útsýn af Valahnjúk er ólíkt sem áður var. Jökulár sem sveiflast í bugðum á milli landa sjást varla. Núna sjást bara bein strik út um allt. Allt gert fyrir ferðamanninn væntanlega.
Kv. Árni Alf.
13.12.2007 at 19:26 #605992Verð að játa að þessi umfjöllun hér fór framhjá mér. Ég ætla svosem ekki að fjölyrða mikið um áhrif sauðfjár og manna á Þórsmörk og Goðaland, en auðvitað eru þau allnokkur. Það verður ekki hjá því komist á stöðum sem verða fjölsóttir ferðamannastaðir. Það að gera ekkert er ekki endilega það sem felur í sér mesta náttúruvernd því ummerki eftir umferð, hvort heldur er gangandi eða akandi eru alltaf talsverð, en aðgerðir geta dregið úr þeim áhrifum. Það er auðvitað rétt að uppbygging Útivstar á skálasvæðinu í Básum hefur haft áhrif á umhverfið þarna eins og alls staðar þar sem skálar og aðstaða fyrir ferðamenn er byggð upp. Þetta er þessi klassíska spurning hvort eigi að vernda með því að sporna við umferð eða hvort málið sé að almenningur geti notið náttúrunnar. Ekkert eitt rétt í því en þetta svæði nýtur auðvitað mikilla vinsælda og margir sem fá að njóta.
Hvað varðar þessa varnargarða til verndar gróðurlandi í Básum þá eru þeir ekki nýjir af nálinni. Menn hafa reynt um allnokkurn tíma reynt að sporna við því að jökulárnar eyði upp þessu gróðurlendi, t.d með varnargarði út frá göngubrúnni yfir Hruná og víðar. Þær aðgerðir hafa skilað allnokkrum árangri, en stundum hafa fljótin haft betur. Það gerðist einmitt síðasta vetur og þá reif vatnselgurinn burtu sennilega hundruð fermetra af grónu landi. Eftir stóðu berir áraurar með dauðum hríslum á víð og dreif, þetta var svolítið eins og eftir sprengjuárás. Það að reynt sé að sporna við þessu má sjálfsagt flokka sem inngrip í náttúruna, en í mínum huga eru það jákvæð inngrip. Auðvitað skiptir miklu máli hvernig þau inngrip eru útfærð. Sú hugmynd sem núna er í gangi gengur einfaldlega út á það að styrkja bakkana, þ.e. setja vörn eftir núverandi ‘strandlengju’. Í það á að nota grjót sem er stórgerðara en það sem hingað til hefur verið notað í þessa varnargarða og því líklegra til að halda. Þetta er það sem menn kalla bakkavörn. Önnur leið væri að gera varnargarða sem liggja á ská yfir aurana og beina ánni frá svæðinu, en sú leið er ekki valin m.a. vegna þess að slíkir garðar væru mun meira áberandi. Miðað við það sem ég hef heyrt um þessar fyrirætlanir tel ég þetta vera lang besta kostinn og mun betri kost heldur en að leyfa ánni að rústa þessari frábæru útivistarperlu. Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki svo gegnheill náttúruverndarsinni að ég sé andsnúinn því að vernda náttúruna fyrir sjálfri sér. Það að gera ekkert myndi leiða tl þess að gróðureyðing héldi áfram með enn meiri hraða og áður en menn vissu væri aðeins eftir gróður uppi hlíðum. Má líka benda á að 4×4 hefur stundað stórfelld inngrip í náttúruna þarna um árabil með uppgræðslustarfi í Merkurrananum, öll uppgræðsla og varnaraðgerðir gegn gróðureyðingu eru auðvitað inngrip í náttúruna.
Rétt að það komi fram að þessi aðgerð er á vegum Landgræðslunnar, en Landgræðslan fékk sérstaka fjárveitingu til þess. Útivist tengist henni ekki að öðru leiti en því að félagið vakti athygli á því hvað væri að gerast þarna innfrá og hvert stefndi og styður þessar framkvæmdir. Svona framkvæmdir eru hins vegar langt umfram það sem félagið hefur ráð á og kannski ekki okkar hlutverk í sjálfu sér.
Kveðja
Skúli H. Skúlason
Framkvæmdastjóri Útivistar og formaður umhverfisnefndar 4×4
14.12.2007 at 01:33 #605994Þakka Skúla greinargóða skýringu á hvað nákvæmlega er í gangi. Rétt hjá Skúla að Landgræðslan borgar enda allir varnagarðar á svæðinu gerðir í nafni landgræðslu, landverndar, gróðurverndar, náttúruverndar o.s.fr. Vegagerðin sér hins vegar venjulega um framkvæmdina. Ég á hins vegar erfitt með að koma auga á nokkra náttúru eða landvernd í þessu. Þetta er skammtíma hagsmunavernd fyrir fáa aðila.
Það hefur í gegnum tíðina verið nánast útilokað að fá að vita hvað stendur til á svæðinu. Það er farið með allar áætlanir og framkvæmdir eins og mannsmorð. Eðlilega vita ferðafélögin FÍ, Útivist og Kynnnisferðir vel hvað til stendur enda eru það sömu aðilar sem biðja um þessar varnir og vegbætur. Ég held að sumir sjái ekki orðið skóginn fyrir trjánum, búnir að gleyma hvað það er sem gerir eða gerði svæðið sérstakt.
Kv. Árni Alf.
14.12.2007 at 09:40 #605996Bara svona til að forða misskilningi þá er varnargarðurinn niður frá við Merkurkerið ekki sama framkvæmd og sú sem Landgræðslan stendur fyrir inni á Goðalandi. Ég skil vel að mönnum finnst sá garður stinga í augu, allavega svona á framkvæmdatímanum. Ég veit hins vegar ekki nógu mikið um þá framkvæmd til að geta tjáð mig um hana, aðeins heyrt af henni í fjölmiðlum og veit ekki hvernig endanlegt útlit verður þarna. Væntanlega hugsuð til að halda Markarfljótinu frá gróðurlandinu í Langanesi sem hefur verið að étast upp. Þetta er mikill garður að að sjá og annars konar framkvæmd en bakkavörnin sem hugsuð er á Goðalandi.
Kv – Skúli
14.12.2007 at 10:39 #605998Umræddur varnargarður sem Skúla finnst stinga í stúf við landslagið er einmitt svonefnd bakkavörn. Þessi garður eða vörn er reyndar innan við Lága, miklu innar en Merkurkerið. Grjótið í þessari vörn er smágert, kemur úr Innra Akstaðagilinu og ætti því að falla betur inn í landslagið en stórgert grjótið sem fara á í bakkavörn innan við Bása.
Hringdi austur í Stóru-Mörk rétt í þessu. Flug í Fljótinu og því ætti að vera áhugavert fyrir sanna jeppamenn og náttúrverndamenn að fara inneftir um helgina. Menn geta í leiðinni skoðað allar þessar lífsnauðsynlegu framkvæmdir ferðaþjónustunnar.
Kv. Árni Alf.
14.12.2007 at 18:27 #606000Það eru einkum hinar miklu andstæður sem hafa heillað menn á þessu svæði. Svartir aurar, með kolmórauðum jökulám sem sífellt breyta um farveg, grænn birkiskógur og iðagrænar grundir, hamraveggjir og hausar undir hvítum jökli. Öll þessi náttúra tekur sífelldum breytingum, reyndar mishröðum og eftir aðstæðum. Veður og árstíðir spila þarna stóra rullu. Þetta hafa menn kunnað að meta.
Það sem breytist einna hraðast eru jökulárnar og aurarnir. Eitt aðalsmerki ferðar þarna innúr var óvissan um hvernig vötnin lágu og hvað var mikið í.
Þegar komið er innfyrir Steinsholtsá opnast dalur sá er Krossá rennur um. Til að komast í Bása eða Langadal, þarf að fara inn þennan dal. Áður fyrr sáu menn Krossá hlykkjast þarna um svarta aura með birkiskóg á báðar hendur. Það kom fyrir að fara þurfti yfir Krossá eða hluta hennar til að komast í Bása. Slíkt var þó sjaldgæft. Þessi óvissa eða það að allt væri ekki alltaf eins gerði þetta sérstakt.
En nú er öldin önnur. Erfitt er orðið að koma auga á Krossána vegna sífellt fleiri og stærri varnargarða. Búið er að setja alla læki í ræsi og hækka veginn upp á köflum. Lækurinn úr Stakkholtsgjá er þarna undanskilin. Þetta eru allt nýlegar framkvæmdir. Hver bað um þetta? Voru allir samþykkir. Eru þessi landspjöll réttlætanleg til þess að bjarga nokkrum birkihríslum og að tryggja að fellihýsi komist örugglega inn í Bása?
Ég tel að nú ættu menn að staldra við og hugsa málið til enda. Einn varnargarður enn kallar bara á annan í viðbót og svo koll af kolli.
Kv. Árni Alf.
14.12.2007 at 22:12 #606002Ekki veit ég hvað er verið að gera núna þarna en mér finnst ekki skrítið þó að landeigendur á leiðinni inn að Lóni vilji verjast frekara landbroti Markarfljóts. Ég fór í haust inn í Húsadal ásamt fleirum með skólabörn og þá var Markarfljót búið að taka veginn tvisvar og í bakaleiðinni næstum komið að síðasta slóða enda lentum við í mikilli rigningu. Ég fylgdi barni framyfir Krossá á göngubrúnni á mánudagskvöldi og morguninn eftir var malarvarnargarðurinn við brúna farinn. . Fyrir nokkrum áratugum var Jökulgilskvíslin næstum búin að eyðileggja allt í Landmannalaugum. Hún kom alveg heimundir húsvegg og eftir það var farið í að gera varnargarð sem síðar var lengdur og styrktur. Ég er viss um að Kvíslin væri búin að kaffæra mýrina og laugina ef henni hefði ekki verið bægt frá því á tímabili hlóð hún undir sig og sótti svo að húsinu .Svona jökulvötn haga sér svona að hlaða undir sig í einn tíma og færa sig svo annað eins og í sumar þá lá Jökulgilskvíslin austurvið Barm eins og hún gerði reyndar í tvö sumur um 1960. Með kveðju Olgeir
-
AuthorReplies
You must be logged in to reply to this topic.