This topic contains 0 replies, has 1 voice, and was last updated by Anonymous 19 years, 8 months ago.
-
Topic
-
Eins og félagsmenn hafa líklega fylgst með þá var fyrsta skrefið tekið í átt að Vatnajökulsþjóðgarði með því að stækka þjóðgarðinn í Skaftafelli þannig að hann næði yfir allan sunnanverðan jökulinn. Drög að reglugerð um þjóðgarðinn voru send Samút til umsagnar sem sendi inn ýmsar athugasemdir m.a. við fyrirhuguð akstursbönn sem kveðið er á um í 11. grein reglugerðarinnar (sjá http://www.ust.is/media/fraedsluefni/reglug_um_skaftafellstjodgard_281004.pdf). Ég er nú örugglega búinn að rekja þetta mál allnokkuð á fundum og eitthvað hér á spjallinu en í upphaflegu drögum var akstur bannaður á Öræfajökli sunnan Snæbreiðar tímabilið frá 1. apríl til 15. sept og sömuleiðis á Skeiðarárjökli. Samút komst að samkomulagi með að viðmiðunin væri frá 1. maí og línan væri dregin alveg við Hnjúkinn (64°01). Það væri semsagt alltaf hægt að aka að Hnjúknum en frá 1. maí til 15. sept væri bannað að aka suður fyrir hann. Mitt mat er að þetta hafi verið mjög eðlileg lending sem menn ættu að geta sætt sig við og en þjónar fullkomlega því markmiði að skilja að gönguleiðina á Hnjúkinn og akstursleiðir á þessu tímabili sem hvað mest er verið að ganga þarna. Eins og sést í núgildandi reglugerð sem vísað er í hér að ofan varð þetta ekki niðurstaðan en í staðin dregin einhver hnit upp sem afmarka línu norðan við hæsta tind Snæbreiðar. Tímabilið er þarna 15 apríl í stað 1. apríl í upphaflegu tillögunum og 1. maí í okkar tillögum. Það sem síðan hefur gerst í þessu máli er að fulltrúar Samút (undirritaður ásamt formanni Samút og fulltrúa Jörfís) fóru á fund í ráðuneytinu þar sem því var mótmælt að tillögur okkar væru ekki teknar til greina, enda værum við fulltrúar þeirra hópa sem varða málið hvað mest. Þar var okkur raunar sagt að þarna hafi orðið einhver mistök og okkur lofað að línan yrði sett eins og við leggjum til (64°01). Við lögðum líka áherslu á að leyfilegt sé að aka inn á Öræfajökulsöskjuna á páskum. Til þess að koma á móts við það var rætt um að tímamörkin verði sett á 20 apríl.
Skeiðarárjökull er svo sérstakt dæmi. Bannið þar þjónar raunar engum tilgangi og við eftirgrenslan get ég ekki séð að það sé byggt á neinum raunverulegum óskum. Málið hefur eitthvað verið orðað við Fjallaleiðsögumenn, en skv. því sem ég hef frá þeim er það engan vegin neitt hagsmunamál fyrir þá, enda nokkuð ljóst að Skeiðarárjökull er ófær a.m.k. bílum á því tímabili sem þeir eru með gönguferðir þar yfir. Þetta þarf kannski að skoða betur.Annað mál af svipuðum toga er Snæfellsjökull. Fyrir skömmu var haldinn fundur í Ólafsvík þar sem málefni jökulsins voru til umræðu og nokkuð rætt þar um mikla umferð og að göngufólk væri horfið af jöklinum vegna mikillar umferðar vélknúinna. Ég verð að segja að ég hef nokkuð góðan skilning á þessu máli því fyrir nokkrum árum gekk ég á Snæfellsjökul og hét því að gera það ekki aftur. Ég er hins vegar viss um að það er hægt að finna lausn á þessu, en til þess þarf að komast að einhverri málamiðlun, t.d. með því að marka ákveðin svæði sem leyfilegt er að aka upp og marka ákveðnar gönguleiðir. Sjálfsagt hafa menn mismunandi skoðanir á þessu, en það er óhjákvæmilegt að þessir hópar komist að einhverri málamiðlun og það er á allan hátt betra að þessi frjálsu félagasamtök í Samút móti þetta heldur en að það sé alfarið í höndum skriffinna. Það er ljóst að ef við reynum ekki að finna lausnir gera það einhverjir sem minna þekkja til aðstæðna og vita ekki hvaða þættir skipta mestu máli.
Kv – Skúli
You must be logged in to reply to this topic.