This topic contains 4 replies, has 1 voice, and was last updated by Jack Hrafnkell Daníelsson 19 years, 4 months ago.
-
Topic
-
Stjórn stóð núna um helgina fyrir þingmannaferð sem aðeins hefur verið rædd hérna á vefnum. Við buðum semsagt öllum þingmönnum upp í Setur til að gefa þeim kost á að upplifa jeppaferð á hálendinu og kynnast klúbbnum. Að vísu voru aðeins fjórir þingmenn sem áttu heimangengt þegar til kom. Hefði verið gaman að hafa fleiri, en þessir fjórir bættu það vel upp þar sem þau reyndust eðal ferðafélagar á fjöllum. Þetta voru þau Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Pétur Blöndal og Siv Friðleifsdóttir. Auk þeirra komu með okkur Sigurður Jónsson eiginmaður Önnu Kristínar, Einar Örn Stefánsson eiginmaður Ástu, Hákon Þorsteinsson sonur Sivjar, Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands og Sigurbergur Björnsson skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu.
Farin var Klakksleið inn í Setur með viðkomu við Svínárnesskála og Klakksskála, auk þess sem Kisugljúfur voru skoðuð. Ég komst að því að þessi gljúfur eru vel þess virði að skoða. Á heimleiðinni var farið um Sóleyjarhöfða, inn á Sprengisand og tekið matarhlé í Rottuholunni í Illugaveri. Kom í ljós að rottur geta verið býsna gestrisnar.
Þessi ferð tókst í stuttu máli frábærlega vel og var held ég megi segja fróðleg og skemmtileg fyrir alla sem tóku þátt, bæði okkur og gesti okkar. Ég held ég geti líka fullyrt að okkur tókst að koma því vel til skila út á hvað starfsemi klúbbsins gengur og hvaða mál séu öðrum fremur mikilvæg fyrir okkur.
Kv – Skúli
You must be logged in to reply to this topic.