This topic contains 1 reply, has 1 voice, and was last updated by Magnús Guðmundsson 15 years, 2 months ago.
-
Topic
-
Hér er svar Svandísar Svavarsdóttur við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um kortlagningu vega á hálendinu
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 180 — 49. mál.Svar
umhverfisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um kortlagningu vega og slóða á hálendinu.
1. Hve mikið hefur verið kortlagt af vegum og slóðum á hálendinu og hve mikið er eftir af þeirri vinnu?
Nú hafa um 7.000 km af vegum og slóðum á miðhálendi Íslands verið GPS-mældir, innan svokallaðrar miðhálendislínu. Þar af hefur Vegagerðin mælt um 3.600 km og Landmælingar Íslands um 3.400 km. Ráðuneytið telur, að fengnu áliti Landmælinga Íslands, að búið sé að mæla mjög stóran hluta vega og slóða á hálendinu í samræmi við það átaksverkefni sem ráðist var í árið 2007 og miðaði að kortlagningu vega á hálendinu. Nú er því lokið sérstöku átaki Landmælinga sem unnið var í samvinnu við Ferðaklúbbinn 4×4 við mælingar vega á hálendinu. Umhverfisráðuneytið telur að hægt sé að halda áfram þeirri vinnu sem hófst á síðasta ári, þ.e. að ákvarða í samvinnu við sveitarfélögin hvaða vegir og slóðar eiga að vera opnir og hverjum þarf að loka. Í því vinnuferli hafa sveitarfélögin jafnframt tækifæri til að koma að upplýsingum um vegi eða slóða sem ekki hafa verið mældir ef um slíkt er að ræða.2. Hvaða ferli tekur við þegar kortlagningu er lokið og hvað er áætlað að það taki langan tíma að skýra hvaða vegir og slóðar eiga að vera opnir og fyrir hvaða notkun?
Áfram verður unnið að því í samvinnu við sveitarfélög sem eiga lögsögu innan hálendislínunnar að ákvarða hvaða vegir eiga að vera opnir og hverjir ekki. Fyrir sveitarfélögin sem fara með skipulagsmálin getur þetta orðið mikil vinna, sér í lagi hjá mjög víðfemum sveitarfélögum, auk þess sem algengt er að margir komi að þessari vinnu. Hjá þeim sveitarfélögum sem liggja að Vatnajökulsþjóðgarði er unnið að verkefninu að hluta til í samvinnu við þá aðila sem vinna að gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn. Samráðsferli við hagsmunaaðila er einnig hluti af vinnuferlinu. Í ljósi reynslunnar sem komin er af vinnunni má reikna með að um eitt ár taki að ljúka þessu ferli.3. Munu útivistarhópar sem leggja stund á ferðalög um hálendið koma að framangreindu ferli?
Útivistarhópar, sem og aðrir hagsmunahópar, koma að framangreindu ferli. SAMÚT, Samtök útivistarfélaga, hafa til að mynda tilnefnt fulltrúa sem gefst kostur á að sitja komandi fundi með sveitarfélögunum þar sem umræðuefnið er verkefnið og tillögur um leyfilega vegi og slóða. Á þann hátt geta samtök útivistarfélaga komið sínum áherslum á framfæri við viðkomandi sveitarfélög. Þá hafa sveitarfélögin haft samráð við útivistarsamtök, sem og aðra hagsmunahópa, við vinnslu tillagna sinna. Í þeirri vinnu sem nú fer fram við gerð verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs er fjallað um vegi og slóða en í svæðisráði þjóðgarðsins situr einnig fulltrúi SAMÚT. Á þessum vettvangi hefur SAMÚT komið sínum áherslum á framfæri og m.a. lagt fram kort með slóðum sem jeppamenn hafa safnað. Slóðavinum hefur einnig verið boðið að leggja fram ferla af vélhjólaleiðum. Sveitarfélög hafa haldið opna kynningarfundi þar sem öllum gefst kostur á að koma sínum áherslum á framfæri. Fyrri umhverfisráðherrar hafa rætt við fulltrúa útivistarsamtaka, m.a. Slóðavina, þar sem þessi samtök hafa kynnt þeim sína hagsmuni. Fulltrúar hagsmunahópa, svo sem vélhjólamanna, Ferðaklúbbsins 4×4 og SAMÚT, hafa að auki kynnt sín sjónarmið á fundum með starfsmönnum ráðuneytisins. Starfsmenn umhverfisráðuneytisins hafa einnig kynnt starfsemi ráðuneytisins á vettvangi fræðslu- og samráðshóps Umhverfisstofnunar þar sem mjög breiður hópur hagsmunaaðila á fulltrúa. Nýlega var haldið Umhverfisþing þar sem töluverð umræða var um þessi mál og þar kynnti sérfræðingur umhverfisráðuneytis m.a. aðgerðir ráðuneytisins gegn utanvegaakstri.4. Telur ráðherra að eðlilegt samráð hafi verið haft við útivistarhópa í þessu sambandi?
Í upphafi vinnunnar lagði ráðuneytið á það áherslu við sveitarfélögin að þau hefðu víðtækt samráð við sem flesta hagsmunahópa. Sveitarfélögin eru mjög sammála þeirri nálgun enda nánast útilokað að vinna slíkar tillögur án aðkomu hagsmunahópa. Eitt sveitarfélag hefur endanlega lokið við tillögur sínar og hélt það opinn fund með breiðum hópi hagsmunaaðila og telur ráðuneytið að þar hafi vel verið staðið að málum. Auk þessa fékk SAMÚT tillögurnar til skoðunar.
Önnur sveitarfélög eru að vinna að sínum tillögum í samráði við útivistarsamtök og breiðan hóp hagsmunaaðila. Vinna nefndar um skilgreiningu vega og slóða hefur verið í mótun og án efa er hægt að læra af þeirri vinnu sem fram hefur farið. Samráð og góð samskipti eru nauðsynleg til að sem mest sátt skapist um málið og mikilvægt er að allir leggi sitt af mörkum til að sameiginleg og góð niðurstaða fáist. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa í huga í því samráðsferli að útivist á Íslandi hefur ýmsar hliðar og taka þarf tillit til mismunandi hagsmuna við þessa vinnu. Má í því sambandi nefna ferðir gönguhópa um landið, umferð á hestum og umferð á farartækjum. Ljóst er að þessir hagsmunir fara ekki alltaf saman og taka þarf tillit til þess þegar ákvörðun er tekin um það hvaða vegir eða slóðar verði í framtíðinni opnir fyrir umferð farartækja. Lög og reglur eru nauðsynlegar en umhverfisvitund og virðing ferðamanna fyrir náttúrunni þarf að aukast til að hægt sé að ná tökum á því vandamáli sem því miður er til staðar. Ljót för í landinu sjást því miður of víða og það virðist fara vaxandi að vélknúnum ökutækjum, sérstaklega vélhjólum, sé ekið utan vega í skjóli þess að eftirlit með reglum um bann við utanvegaakstri er erfitt á mörgum stöðum fjarri mannabyggð. Slíkt virðingarleysi er óþolandi og þarf að berjast gegn því með öllum tiltækum ráðum. Vitundarvakning þarf að eiga sér stað hjá mörgum ökumönnum miðað við þær upplýsingar sem við fáum um landskemmdir af völdum vélknúinna ökutækja.
You must be logged in to reply to this topic.