This topic contains 23 replies, has 1 voice, and was last updated by Sigurður Sveinn Jónsson 19 years, 1 month ago.
-
Topic
-
Hér er smá saga af breytingu á Landcruiser HJ-60 bíl árgerð 1988.
Í upphafi keypti ég bílinn breyttan fyrir 38 tommu dekk og lengdan milli hjóla. Bíllinn var með 4,0 turbo diesel vél, beinskiftur og á 4,88 hlutföllum.
Ég fór nokkrar ferðir á honum og líkaði mjög vel við bílinn. Hann var þó alveg ólæstur en var að komast ágætlega áfram. Bíllinn þótti mér ágætlega sprækur og líkaði vel við vélarafl og tog. Það var þó alltaf þetta púður sem orsakaði að ég dreif ekki neitt og 44 tommu hugsanir fóru að skjóta upp kollinum. Ég var ekki í vafa að ef ég setti hann á þannig dekk væri mér allir vegir færir og rúmlega það. Það hefur alltaf verið mér mikið kappsmál að þurfa ekki að keyra í sporum eftir aðra.
Eftir langa fundi með yfirvaldinu náðust loks samningar um það að fjárveiting fengist í stærri dekk og læsingar. Bíllinn fór inn í skúr og mörgum mánuðum seinna skreið hann út príddur þessum dásamlegu hjólbörðum sem við öll þekkjum sem Dick Cepek 44″. Þá var komið að því að prófa herlegheitin og skella sé á fjöll.
Leið lá upp að Langjökli og allt leit þetta vel út þar til að framdrifskaftið ákvað að yfirgefa bílinn og taka í leið með sér smápart úr millikassa og gírkassa. Jæja það var bara að fara heim í skúr aftur, laga þetta smotterí og reyna aftur.
Jæja næsta ferð var á svipuðum nótum, ég braut einn framöxul og einn afturöxul. Enn einu sinni var hann kominn inn í skúr.Allt er þegar þrennt er og nú var haldið upp í Setur og þaðan yfir á Hveravelli, Langjökul og heim. Allt gott og blessað með það….. nema að ég var eiginlega aldrei fremstur. Fjögura cylindra bensín beyglur á 38 tommu togleðurshringjum voru að gera mér lífið leitt. Þetta þótti mér ekki mikið afrek af gamla Cruiser og ljóst var að eitthvað yrði að gerast til að ég fengist á fjöll aftur á þessari bifreið.
Ég man ávalt eftir ákveðinni setningu sem spratt fram að vörum mér á langaskafli í þessari ferð og þar var ég að byðja samferða menn mína að aka aðeins hægar því ég hafði ekki við þeim. Reyndi að sjálfsögðu að kenna lélegu skyggni um og þess háttar. Sannleikur var allt annar, bíllinn hafði hvorki vélarafl eða fjöðrun til að fylgja þessum fisksalabílum eftir og hana nú. Þegar heim kom spurði ég konuna um það hvort ekki væri nauðsynlegt að setja bara skriðgír í og þá væri ég agalega ánægður með farartækið. Jú það mátti vel vera en kemst hann þá hraðar spurði hún. Uhmmm .. nei það er líklega engin lausn.
Eftir margra mánaða grátur í öxl konunnar gaf hún sig loks og leyfði mér að kanna með verð á 6,5 turbo diesel vél. Einhvern veginn fór ég að því að misskilja hana og pantaði vél með öllu sama dag.
Enn var haldið inn í skúr og nú var tekið á því. Túr framundan og alles. Jæja ekki meira um það en ári seinna skreið hann út úr skúrnum príddur þessari yndislegu vél með sjálfskiftingu og tveimur millikössum. Ég ók smá hring á malbikinu og náði að sannfæra mig um það að þessar blaðfjaðrir sem voru undir honum að framan væru ekki að höndla þessa vél. Næsta dag var druslan aftur kominn inn í skúr. Undir bílinn setti ég gormafjöðrun, málaði og gerði fínt. Þetta tók einhvern agalega langan tíma en hafðist á endanum. Jæja þá var loks hægt að prófa þetta allt saman. Ferð var farinn upp í Setur og reyndist þetta allt príðilega fyrir utan það að ég beygði afturhásingu í þeirri ferð. Og án spaugs þá bognaði hún ekki niður eins og venjulega heldur gekk kúlan aftur þannig að bíllinn varð innskeifur.
Já, já inn í skúr er gaman að vera. Allt rifið undan að aftan og sett gormafjöðrun undir hásingin rétt og styrkt. Þetta var á svipuðum nótum og allt hitt, tók óratíma og ætlaði aldrei að klárast. Var farinn að vakna með martraðir á næturnar og dreymdi skúrinn illa.Eftir þessa síðustu lagfæringu hefur druslan keyrt og bara hangið ótrúlega saman fyrir utan það að boddíið er að detta í sundur af ryði. Það verður næsta mál milli mín og skúrsins.
Bíllinn er að reynast mjög vel í snjó og drífur bara alveg ágætlega og vasaklúturinn er ekki lengur nauðsynlegasta áhaldið í bílnum.
Kveðja, Theodór.
You must be logged in to reply to this topic.