This topic contains 47 replies, has 1 voice, and was last updated by Elvar Níelsson 20 years, 1 month ago.
-
Topic
-
Það er eitt sem ég er að furða mig á þessa dagana, og langar til að vekja máls á hér. Þetta litla atriði kristallast ágætlega í könnuninni sem er í gangi hér á síðunni. Þar finnst mér persónulega vanta valmöguleikann að setrið verði einfaldlega haft opið.
Kannski er þetta út af því að ég ferðaðist talsvert með mínum ágætu félögum á árunum fyrir og kringum 1990 þegar það var svo dásamlega frjálst að fara til fjalla, allir skálar opnir og sjaldnast nein vandamál kringum gistingar.
Trúlega er ég líka einn af þeim seku sem hafa drýgt þann glæp að gista í fjallaskálum án þess að gera heiðarlega skil á skálagjöldum í einhver skipti. Já jafnvel mörg ef út í það er farið. Talsvert hef ég samt greitt af þeim þrátt fyrir allt.
Mér finnst alveg gríðarlega sorglegt ef 4×4 klúbburinn ætlar að taka upp harða læsinga stefnu á öllum sínum húsum, í kjölfarið á öðrum félagasamtökum. Vissulega eru til „gild og góð“ rök fyrir því að það einfaldlega verði að læsta öllum skálum á hálendinu. Þau sem ég hef séð eru helst: Slæm umgengni, þjófnaðir, skálagjöld ekki greidd, og e.t.v skemmdir á búnaði.
Það er aftur spurning hverju er fórnað með því að hefta aðgengi að skálunum!? Ég þori að veðja að allir sem einhverntímann hafa stundað fjallaferðir að einhverju ráði kannast við að hafa þurft að gjörbylta ferðaplani sökum veðurs og/eða færðar. Hverjir hér muna eftir því frelsi sem fólst í því að geta einfaldlega tekið 90° þverun á kúrsinn þegar aðstæður voru slæmar og stungið sér í næsta opna hús til gistingar ef svo bar undir. Vissulega bjóða þær lausnir sem menn eru að velta fyrir sér núna upp á mögulega aðlögun að þessu vandamáli, þ.e ef þær þá á annað borð virka. Tækni gizmo sem á að funkera í fjallaskála þarf að vera ansi skotheldur búnaður til að virka í raun.
Mér kemur til hugar einn skáli á hálendinu sem ég hef oft gist í og raunar síðast í sumar. Þar er miði á innri hurð sem býður alla velkomna í skálann og þess er óskað að gengið sé vel um, ekki er getið á um skálagjöld en þar má finna kassa fyrir frjáls framlög ef ég man rétt. Þar er gas og jafnvel eldiviður á tyllidögum ef ferðalangar hafa þá ekki nýtt hann allann með veru sinni. Þetta hús er í eigu fárra einstaklinga og stendur við Þúfuvatn. Þetta hús hefur staðið opið allann tímann síðan það var reist. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvenær það var byggt, en ég hef gist þar ótal sinnum síðan 1990 og aldrei greitt krónu fyrir eitt né neitt. Við höfum haft það fyrir reglu að nota ekki gasið í húsinu, og reynt að koma með umframbyrgðir af eldivið í hina stóru kabyssu sem þarna er að finna. Ég hitti fyrir stuttu eiganda að þessu húsi og þakkaði honum fyrir allar gistinæturnar sem ég hef átt í hans ágæta húsi. Svarið var eitthvað á þessa leið : minnstu ekki á það vinur vertu velkominn meðan húsrúm leyfir.
Í þessu húsi er borðbúnaður, pottar og pönnur, gaseldavél og ýmis búnaður. Ég hef komið að þessum skála illa lokuðum og þurft að byrja á því að moka út snjó. Ég hef einnig „lent“ í því að taka til eftir aðra ferðahópa sem hafa yfirgefið skálann á undan mér. Aðrir hafa fengið að taka til eftir mig þegar ég hef farið á undan þeim, bara eins og gengur í mannlegu félagi…….Ég sé ekki betur en þúfuvatnaskáli eldist bara vel hann er byggður á praktískann hátt, einfaldur, ekki of fínn og hefur verið umgjörð ótal ánægjustunda fyrir mig og vonandi mína samferðamenn.
Það er mín skoðun að það sé svolítið undarlegt ef félagsskapur sem telur þúsundir getur ekki rekið fjallaskála á svipuðum slóðum með svipuðum hætti og 3-4 einstaklingar gera. Mér vitanlega hafa nöfn eigenda Þúfuvatnaskála ekki prýtt forsíðu lögbirtings eða annara sorprita, þannig að fjárhag þeirra virðist ekki hafa verið stefnt í voða með athæfinu.
Umræðan um þessi mál hefur endurspeglast af smáborgaralegri umræðu um að einhverjir vitleysingar komist hjá því að greiða skálagjöld, þeir gætu stolið pottum, pönnum, koppum og öðru dótaríi sem kann að finnast í skálunum. Að ekki sé minnst á hina dýrmætu hráloíu sem þeir kunna að sóa við að kynda upp sinn kalda glæpamannakropp, og stöku kvendi sem gerist meðsekt í glæpnum með því að lúra hjá þeim án þess að greiða skálatollinn. Já, og ekki nóg með það heldur kunna þessi kvikindi ekki að taka til og þrífa. Jesús pétur sé oss næstur félagar.
Án þess að fella sleggudóma (varúð það er einmitt það sem ég er að gera) þá skil ég vel að þeir sem standa í skálanefndum séu ergilegir. Það þarf að berja saman budget, laga þetta og hitt og reka skálann. Þeir þurfa að sinna viðhaldi og endurbótum líka… það er verulega auðvelt fyrir menn sem hafa af áhuga og krafti sinnt starfi fyrir klúbbinn að setja hnefann í borðið og kvarta sáran yfir skilum á skálagjöldum slæmri umgengni og svo fram…. Þegar maður heyrir kvartanir frá slíku fólki fyllist maður réttlátri reiði í garð slóðanna sem eru að malbikla yfir „óeigingjarnt sjálboðaliðastarf þeirra sem sinna skálunum“. Spurningin er kannski, hversu óeigingjarnt er starfið ef menn lenda í þessum skotgröfum.
Mig langar að velta upp eftirfarandi pælingu. Hversu hræðilegt er það þó að einhver fífl gisti fjallaskála án þess að greiða skálagjöld. Getur verið að menn séu á rangri leið ef fjallaskálar þurfa að vera undir sérstöku eftirliti vegna þess hversu fínir þeir eru og hversu dýran búnað er að finna innan veggja þeirra. Hvaða máli skiptir fyrir 4×4 batteríið þó að það hverfi x-hundruð lítar af olíu? Hvaða máli skiptir þó að það þurfi að endurnýja borðbúnað, potta og pönnur, koppa og kirnur? Hversu stór er þessi fórnarkostnaður? Hvað er mikið mál að taka til í einum fjallaskála eftir eitthvað „lið“ sem hefur gengið illa um.. Til hvers er barist í raun? Hvar er félagsandinn í þessum klúbbi eiginlega, eru sérhagsmunir búnir að valta yfir allt sem heitir umburðarlyndi?
Maður veltir því fyrir sér hversu rismikill félagsskapur 4×4 klúbburinn kærir sig um að vera. Ætlum við að verða félagsskapur sem sinnir engu nema þröngum sérhagsmunum, eða höfum við áhuga á því að hlúa að lifandi ferðamennsku á fjöllum fyrir okkur sjálfa og aðra sem gaman hafa að slíku.
Í mínum huga er hér á ferðinni prinsippmál, ég nenni ekki að leita uppi lykla að 3 fjallaskálum fyrir eina gistinótt, þ.e einum fyrir áfangastaðinn og tveimur til vara. Pantanir á gistirými eru misnotaðar líka. Það er ekki eins og öll mál séu leyst með aðgangstýringum eins og umræður hér bera vitni.
Kv
Óli
You must be logged in to reply to this topic.