This topic contains 10 replies, has 1 voice, and was last updated by Rúnar Sigurjónsson 12 years, 1 month ago.
-
Topic
-
Sælir félagar.
Skálanefnd fór í vinnuferð um liðna helgi og var ætlunin að ná þeim áfanga fyrir veturinn að færa gáminn á sinn framtíðarstað inni í sökkli skemmunnar. Vitað var að það þyrfti tvo vörubíla með krana til að færa gáminn og var vörubíllinn sem flutti nýja olíutankinn uppeftir annar þeirra en svo fengum við Man bílinn úr Kerlingarfjöllum til brúks og þurfti að sækja hann upp í Reykholt. Fimm bretti af hellum þurfti einnig að flytja uppeftir og tók vörubíllinn með tankinn þær úr bænum en skildi fjögur bretti af þeim hellum eftir við skeiðaafleggjarann þar sem Man bíllinn tók þær á pallinn. Geiri í skálanefnd ásamt Magga Magnum og Steina Lödu fóru úr bænum seinni partinn og náðu í Man-inn og var Steini búinn að taka að sér að koma honum upp í Setur. Þeir lestuðu svo hellurnar og héldu upp Gljúfuleitaveginn. Hinn vörubíllinn hafði lagt af stað úr bænum um hádegi og var eltur af Stebba Baldvins sem var með Magga MHN með sér en hlutverk hans var að vera einskonar hirðljósmyndari atburðanna sem í vændum voru um helgina. Þeir náðu vörubílnum og eltu hann í rólegheitum áleiðis upp í Setur. Við Rúnar komumst svo úr bænum um hálffimm leytið og var Mussóinn staðinn flatur á eftir Stebba og fyrri vörubílnum. Náðum við þeim þegar þeir áttu um það bil hálftíma eftir í skálann og varð að ráði að við brunuðum fram úr þeim til að byrja að kynda skálann. Komum við í skálann um níuleytið. Vörubíllinn kom svo rúmlega hálf tíu og var þá sest yfir snæðing. Þegar menn voru svo um það bil að taka á sig náðir um tólfleytið hringdi Sammi stjórnarmaður í okkur og tjáði okkur að Man-inn sem Steini var að keyra hefði lent í því, skömmu eftir að þeir komu yfir Sandafellið að vegkantur gaf sig og hann hafði farið út af og munaði minnstu að hann færi á hliðina. Hellurnar á pallinum höfðu við þetta skutlast út í hliðina á pallinum og gert ástandið enn verra. Báðu þeir um aðstoð en í fylgdarliði vörubílsins voru þegar hér var komið þeir Geiri og Maggi, Einar Berg á Mjallhvít og Sammi og Sólmundur. Báðu þeir um aðstoð og varð úr að við Rúnar lögðum af stað niður Gljúfurleit og vorum komnir til hinna um þrjúleytið. Þá var búið að hengja tvo jeppa í vörubílinn til að varna því að hann færi á hliðina, hengja bíl með spili fram í hann á ská og afferma allar hellurnar á handafli. Var nú spilið á Musso sett í framhásinguna og blökkað og tókst að láta vörubílinn keyra upp úr þessu með þessari aðstoð og náðist hann óskemmdur upp. Úr varð svo að við Rúnar fórum aftur upp í skála til að ná smá svefni því við þurftum að byrja að undirbúa flutning gámsins strax um morguninn. Hinir urðu eftir og komu hellunum á bretti og hífðu á pallinn aftur. Við Rúnar komum í skála upp úr fimm og náðum að sofa til átta en fórum þá strax í að undirbúa verk dagsins. Hinir komu í hús um hálf níu leytið um morguninn og fóru í koju. Fram að hádegi á laugardeginum náðist að aftengja olíuleiðslu og blása úr henni olíunni, aftengja rafmagn, dæla olíu milli tanka og undirbúa flutninginn. Eftir hádegi, þegar búið var að borða og menn voru vaknaðir var svo gámurinn dreginn upp fyrir sökkulstæðið og tekið til við að koma nýja olíutankinum inn í hann. Var hann síðan hífður inn í sökkulstæðið á sinn stað, rafmagn tengt af Árna Bergs, Samma og Sólmundi og fjarræsibúnaðinum komið inn í hús á nýjum stað. Nýja olíuleiðslan var tengd og gamli dagtankurinn fjarlægður af húshliðinni og verður hann ekki settur upp aftur fyrr en skemman er tilbúin. Einnig var efni keyrt í sökkulinn og hann fylltur og jafnað í honum til bráðabirgða. Um kvöldið var hefðbundið grill að hætti skálanefndar og menn voru glaðir með afköst dagsins. Sunnudagurinn var svo notaður í að ganga frá og taka til á svæðinu og lögðu síðustu menn af stað til byggða um fjögurleytið. Sammi og Sólmundur notuðu svo tækifærið á heimleiðinni og afmáðu ummerkin eftir vörubílinn frá föstudagskvöldinu. Það má geta þess að tveir menn komu færandi hendi í skálann en það voru þeir Einar Sól, sem kom með áprentaðar kaffikrúsir í tilefni 25 ára afmælis skálans á næsta ári og Stefán Balvinsson, sem færði skálanum forláta kolagrill sem hann hafði smíðað upp úr gömlu gasgrilli og er það skapara sínum til mikils sóma og nýttist vel um helgina. Eru þessum tveimur heiðurskörlum bornar hinar bestu þakkir fyrir. Þakkir fyrir vinnuframlag sitt og ómetanlega aðstoð fá þeir Heiðar og Bjarni á vörubílum, Steini „Lada“, Einar Berg, Sammi, Sólmundur, Maggi „Magnum“, Stebbi Baldvins, Maggi „MHN“ og Árni Bergs. Einnig fá „Kerlingafjallabændur“ bestu þakkir fyrir þeirra farmlag.Logi Már. Skálanefnd.
You must be logged in to reply to this topic.