This topic contains 1 reply, has 1 voice, and was last updated by Anonymous 13 years, 8 months ago.
-
Topic
-
Mig langar til að deila með ykkur bráðfyndinni lausn á vandamáli, sem ég lenti í um daginn.
Ég hafði verið að vinna í Patrolnum mínum, sem ég keypti í vetur og er af árgerð 2002. Ég slátraði mælaborðinu að hluta til þess að skipta um talstöð, leggja fyrir GPS tækinu og fjarlægja ýmislegt, sem ég hafði ekki not fyrir svo sem kapla fyrir NMT og fleira. Ég tók einnig bílstjórasætið úr til þess að komast betur að til að fjarlægja gömlu talstöðina, sem er í tvennu lagi, þ.e. stöðin sjálf var undir sætinu, en framhliðin uppi á mælaborðinu.
Þegar framkvæmdum var lokið og öllu hafði verið raðað saman á ný, setti ég bílinn í gang til að keyra hann út. Þá blikkaði Airbag ljósið í mælaborðinu án afláts og vildi ekki slokkna. Ég bölvaði í hljóði og hugsaði með mér hvort ég hefði virkilega gleymt að tengja eitthvað eða þá að ég hefði slitið einhvern vír úr sambandi. Ég sá fyrir mér að ég þyrfti ef til vill að rífa mælaborðið aftur til þess að leita að lausum tengingum. Það hvarflaði líka að mér að kannski þyrfti ég að fara á verkstæði til þess að láta tengja tölvu við bílinn og núllsetja Airbag ljósið.
Ég ákvað samt að fara heim og „gúgla“ vandamálið ef ske kynni að einhver byggi yfir töfralausn á því hvernig ætti að fá ljósið til að hætta að blikka. Ég fann nokkrar síður með ýmsum tillögum og uppástungum og á einni þeirra var kynnt lausn, sem hljóðaði þannig:1. Opna bílstjórahurðina.
2. Setja lykilinn í svissinn, snúa honum á ON en ekki starta bílnum.
3. Innan 7 sekúndna með lykilinn í ON stöðu, ýta a.m.k. 5 sinnum á hurðarrofann, sem kveikir og slekkur inniljósið.
4. Nú ætti Airbag ljósið að loga stöðugt og síðan að slokkna í 2 sekúndur og loga í 3 sekúndur sitt á hvað.
5. Snúa lyklinum til baka á OFF og fjarlægja lykilinn.
6. Setja lykilinn aftur í og setja bílinn í gang, bíða svo eftir að Airbag ljósið slokkni til að staðfesta að aðgerðin hafi virkað.Þegar ég las þetta yfir vissi ég ekki hvort ég átti að taka þessum leiðbeiningum alvarlega eða hvort einhver væri hreinlega að fíflast. Það vantaði eiginlega ekki annað en að bæta þarna inn einum lið þar sem manni hefði verið sagt að ganga 3 hringi kringum bílinn klæddur í aðra buxnaskálmina eða eitthvað álíka.
Ég ákvað samt að gefa þessu tækifæri og prófaði að fara eftir leiðbeiningunum. Og viti menn, ÞETTA VIRKAÐI og ljósið hefur hagað sér eðlilega síðan.Skýringin á því að ljósið vildi ekki hætta að blikka eftir framkvæmdirnar hefur trúlega verið sú að við það að aftengja bílstjórasætið hefur einhver tölvubúnaður ruglast í ríminu þar sem ekki var hægt að skynja hvort einhver sæti í framsætinu eða ekki.
Patrol eigendum er velkomið að geyma þessa sögu með sér ef einhver skyldi eiga eftir að lenda í svipuðu og ég með þetta blessaða Airbag ljós.
Kv. Sigurbjörn.
You must be logged in to reply to this topic.