This topic contains 18 replies, has 1 voice, and was last updated by Freyr Þórsson 13 years, 1 month ago.
-
Topic
-
Frásögn af viðskiptum mínum við Benna og Kaupfélagið hans.
1. Í janúar 2010 hringdi ég í Benna og pantaði hjá honum H4-HID framljósasett. Uppsett söluverð millifærði ég á bankareikning hans eins og um var samið. Dagarnir liðu einn af öðrum en engin ljósin komu. Þegar ég rak eftir málinu fann hann ekki greiðsluna og vildi ekkert kannast við að hafa fengið hana fyrr en ég hafði gefið honum upp allar upplýsingar um millifærsluna.
2. Þegar ljósin loks komu setti ég þau í Subaru bíl sem ég á. Fljótlega kom í ljós að ljósin virkuðu illa því að endrum og eins kviknaði alls ekki á þeim. Þegar þetta gerðist varð að rjúfa alla spennu til þeirra og bíða smá stund áður en hleypt var á aftur. Ég hringdi í Benna og kvartaði en fékk ekkert út úr því annað en fyrirlestur um það hver þessi ljós hefðu reynst frábærlega vel og að þetta væri eitthvað sértilfelli. Ég nennti ekki að halda málinu til streitu og þegar í ljós kom að ég fékk ekki skoðun á bílinn með þessum ljósum þá tók ég þau úr og setti gömlu halógen perurnar í aftur.
3. Leið nú nokkur tími en svo fékk ég þá flugu að prófa ljósin aðeins betur og setti þau nú í Galloper jeppann minn. Eins og fyrr lýstu ljósin ágætlega þegar þeim þóknaðist, en dyntirnir voru alveg þeir sömu og fyrr.
4. Hófst nú röð af símtölum sem loks leiddi til þess að ég fékk senda nýja Hi/Low einingu, sem Benni taldi vera sökudólginn. Að vísu þurfti ég að greiða sjálfur fyrir flutninginn að norðan, en taldi mig samt vera kominn í góð mál.
5. Þegar á reyndi kom svo í ljós að einingin var af rangri gerð því að tengistykki fyrir perurnar pössuðu ekki. Hófust nú símhringingar enn á ný en hafa til þessa ekki leitt til neins. Að vísu er viðhorfið eitthvað að breytast því að í stað fyrirlestra um gæði vörunnar og hina frábæru reynslu af henni hefur hann síðustu skiptin hreinlega ekki viljað tala út um málið. Hann hefur á kurteisan hátt borið við annríki og lofað að hringja til baka innan tiltekins tíma – en ekki staðið við það.
Nú er ég hreinlega búinn að fá mig fullsaddan af þessu dæmi. Það er ekki nóg að bjóða lágt vöruverð ef bæði gæðin og þjónustan eru í molum. Ef ég reikna mér eðlilegt tímakaup fyrir allan þann tíma sem pex og vesen út af þessum ljósum hefur tekið þá eru þau alls ekki ódýr lengur.
Ég set þetta á vef f4x4 vegna þess að ég komst í kynni við Benna og vörur hans á þeim vef og ég er viss um að ég er ekki sá eini. Þetta er því sett inn sem aðvörunarorð fyrir aðra félagsmenn sem eru í leit að vörum á hagstæðu verði.
Áður hef ég skrifað um atvik og viðskipti sem ég hef verið ánægður með og það þarf enginn að fara í fýlu þótt ég segi líka frá viðskiptum sem ég er ekki ánægður með og nafngreini málsaðila.
Ágúst Úlfar Sigurðsson
The topic ‘Reynslusaga’ is closed to new replies.