This topic contains 19 replies, has 1 voice, and was last updated by Georg Aspelund Þorkelsson 20 years, 6 months ago.
-
Topic
-
Fátt þykir mér jafn leiðinlegt og það að skrifa kvörtunarbréf nema ef vera skildi það að fá slæma þjónustu.
Slíkt henti mig á dögunum. Ég hringdi í R. Sigmundsson og bað þá um að senda fyrirtæki mínu kapal.
Hingað til hef ég átt góð viðskipti við R.Sigmundsson. Er mér nú ljóst að það er sennilega helst einum starfsmanni að þakka. Umræddur starfsmaður er kallaður Rikki og var því miður í fríi þegar þessi viðskipti fóru fram. Honum þakka ég góð samskipti gegnum tíðina og hvet hann í leiðinni til að setja á laggirnar sitt eigið fyrirtæki.
Eftir töluverða reikistefnu og augljósa vanþekkingu starfsmanns á því hverskonar kapal ég þyrfti fór ég þess að sjálfsögðu á leit að fá besta hugsanlegt verð og minntist í því samhengi á hvort ekki væru góð kjör fyrir félaga í Ferðaklúbbnum 4×4. Það voru nú dræmar undirtektir við því, þrátt fyrir að ég hefði séð á heimasíðu 4×4 að fyrirtækið veitti 8% afslátt til félagsmanna. Jú jú verð fékk ég uppgefið og lofaði viðkomandi að senda mér kapalinn um hæl.
Næsta dag þegar ekkert var farið að bóla á kaplinum vildi svo til að ég átti leið á pósthúsið. Þar lá kapallinn og beið þess að verða leystur út úr póstkröfu. Kapallinn hafði við þennan flutningsmáta hækkað um 25%.
Nú er það svo að fyrirtækið sem ég starfa hjá fær daglega tugi sendinga og aldrei hef ég heyrt um að póstkröfur tíðkist í viðskiptum milli fyrirtækja. Algengast er að sendir séu reikningar til vörukaupa en ef eitt fyrirtæki treystir ekki öðru þá er einfaldlega beðið um kreditkort eða millifærslu enda ekkert að því að fyrirtæki vilji tryggja sér greiðslu fyrir vörur sínar og þjónustu. Það er hinsvegar óásættanlegt að vörur hækki um 25% í flutningum og þar með heildarkostnaður vörukaupa.
Því kom þetta mér á óvart. Til að bæta gráu ofan á svart þá hafði ekki aðeins póstkröfugjaldið bæst við heldur var kapallinn einnig nokkru dýrari en upp hafði verið gefið.
En gott og vel, ég vildi hafa þetta snúrudót með í páskaferðina og var því alveg tilbúinn til að greiða það sem þyrfti.
Áður en ég leysti út kapalinn hringdi ég samt vongóður í RS svona til að kanna hvort einhver mistök hefðu átt sér stað nú og ef ekki þá til að kanna hvort hægt væri að koma eitthvað til móts við mig þegar ég kæmi til þeirra í GPS hugleiðingum, enda á döfinni að skipta gamla Garmin GPS-inu út fyrir nýtt Garmin.
Því hefði ég nú betur sleppt. Var mér nánast sagt að hoppa þangað sem sólin skín ekki –
„ég er nú félagi í ýmsum félögum en ætlast ekkert til þess að fá neinn afslátt fyrir það eitt
að vera í einhverju félagi“. . . var meðal annars það sem ég fékk að heyra frá starfsmanni RS sem skildi ekkert í því að ég væri vonsvikinn yfir því að þurfa greiða meira en um var samið, að ég tali nú ekki um þá ósvífni mína að forvitnast um 4×4 afsláttinn.
Seinna meir komst ég svo að því að kapallinn sem ég þegar átti nægði fullkomlega til að tengja GPS-inn við tölvuna og sennilega hefði heiðarlegur starfsmaður með lágmarksvitneskju um vörurnar sem hann selur gert viðskiptavini sínum grein fyrir því að ég þyrfti ekki að kaupa nýjan kapal.
Hugsanlega er þetta full langt tuð út af einni snúru . . . veit ekki með aðra en ég sætti mig ekki við svona þjónustu.
Mun hér eftir versla Garmin búnað á e-bay og hvet menn eindregið til að skoða það sem er í boði þar. A.m.k. fá menn nasaþefinn að því hversu svakaleg álagningin er á þessum búnaði hjá RS.
Jóhann K. Kristjánsson
Skagabraut 27
300 Akranesi.
You must be logged in to reply to this topic.