This topic contains 16 replies, has 1 voice, and was last updated by Anonymous 14 years, 7 months ago.
-
Topic
-
Nú hefur Páll Ásgeir lýst skoðun sinni að loka eigi Vonarskarði fyrir akandi umferð:
http://blog.eyjan.is/pallasgeir/2010/04/21/strik-i-sandinn/comment-page-1/#comment-1206Strik í sandinn
21.4 2010 | 09:43 | 12 ummæli
Um þessar mundir er verið að ljúka við gerð verndaráætlana fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Ekki er víst að alger sátt ríki um þær ákvarðanir sem þar verða teknar og þess vegna er ágætt hafa eftirfarandi í huga.
Vatnajökulsþjóðgarður var ekki stofnaður til þess að varðveita óbreytt ástand. Honum er ekki ætlað að standa vörð um stjórnleysi og sjálftöku sem of lengi hefur ríkt í óbyggðum Íslands. Þvert á móti er garðinum ætlað að skilgreina notkun lands og umgengni og draga strik í sandinn á hentugum stað.
Mín persónulega skoðun er sú að Vatnajökulsþjóðgarður hafi fundið góðan stað til þess að draga strik í sandinn, nánar tiltekið í Vonarskarði. Ég held að rétt sé að loka skarðinu fyrir vélknúinni umferð og skilgreina það sem svæði fyrir göngufólk.
Um þetta ætti að geta tekist ágætt samkomulag því til skamms tíma var aldrei ekið um Vonarskarð að sumarlagi og því byggir slíkt leiðaval ekki á neinum hefðarrétti.
Vonarskarð er dýrmæt náttúruperla þar sem heitt vatn flæðir fram á vatnaskilum í skjóli jökla við svarta sanda. Við skulum geyma hana eins og hún er því það væru mistök að breyta Snapadal í aðrar Landmannalaugar.Skúli H Skúlason svarar honum mjög svo málefnalega:
Skúli H. Skúlason // 22.4 2010 kl. 14:40
Blessaður Páll
Vissulega rétt að þjóðgarður er stofnaður til að draga strik í sandinn, þá sérstaklega í því skyni að koma í veg fyrir að náttúran spillist og menn geti notið hennar áfram. Einnig er skilgreint markmið skv. lögum um þjóðgarðinn að gefa almenningi kost á að njóta náttúrunnar. Mér hefur hins vegar fundist þessi umræða um Vonarskarð svolítið undarleg á köflum og stundum gott dæmi um að fókusinn brenglast, menn setja fram sínar óska ákvarðanir út frá persónulegum draumum og búa svo til röksemdirnar eftir á.
Umræðan um verndun náttúrunnar í Vonarskarði snýst aðallega um það hvort leyfa eigi akstur eftir vegslóð sem liggur þarna í gegn, þá sérstaklega kaflann frá Gjóstuklifi að Svarthöfða. En er þessi akstur það sem ógnar helst viðkvæmri náttúru þarna? Þessi vegur liggur alfarið í sandi og sést afskaplega lítið (ef undan er skilinn kaflinn þar sem hann liggur eftir stíflugarði sem Landsvirkjun fékk illu heilli að hrúga upp hér um árið). Sjálfsagt er að loka fyrir akstur inn að Snapadal, enda er þar komið í gróður og viðkvæmasta hluta Vonarskarðs. En akstur um hefðbundna akstursleið í gegnum Vonarskarð ógnar ekki náttúrunni þarna. Það er miklu betra að sleppa tilbúnum og veikburða skýringum og segja það beint út að þessi hugmynd snýst um að þarna sé hægt að ganga um án þess að verða fyrir truflun af vélknúinni umferð, að göngumenn hafi svæðið fyrir sig. Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr því markmiði í sjálfu sér ef menn bara tala hreint um hlutina. Víða í náttúrunni má finna svæði þar sem málum er þannig háttað að akstursleiðir liggja ekki að þeim eða um þær og hægt er að ganga um án þess að sjá nokkurs staðar bíl eða mótorhjól og það hefur vissulega sitt gildi. Þarna er vel hægt að ná þessu markmiði með því að fara ákveðna millileið sem allir sæmilega víðsýnir ferðamenn ættu að geta sætt sig við, þ.e. að yfir hásumarið sé akstur bannaður um svæðið, en þegar líður að hausti og dregur úr gönguumferð verði opnað fyrir umferð, enda akstur þarna hingað til verið aðallega bundinn við haustmánuði. Til þess að menn sjái gildi þessarar lausnar þarf hins vegar þann hæfileika að sjá út fyrir eigin bæjarhól, bæði af hálfu fulltrúa göngumanna og jeppamanna og raunar held ég að í þeim hópum sé ekki sérstaklega skortur á því þegar vel er að gáð.
Það sem er hins vegar verst er að meðan fókusinn er á þessu eru menn að missa fókusinn á því sem raunverulega ógnar náttúrunni þarna. Eitt af því sem þar má nefna tengist vissulega akstri, en það er ekki akstur á vegum heldur akstur utan vega. Hann er vissulega bannaður alls staðar, en kannski vantar meira eftirlit þarna. Góð aðstaða fyrir landvörð inn á svæðinu gæti verið viðleitni til að bregðast við þessu. Svo er það umgengni um Snapadal og sjálft hverasvæðið. Það er án nokkurs vafa viðkvæmasta svæðið í Vonarskarði. Ógnunin þar er ekki hjólbarðar heldur gönguskór og raunar aðstöðuleysi. Það er leiðinlegt að koma að hveraleirnum útsporuðum um allar trissur og enn verra að rekast hvarvetna á hvítan og brúnann pappír gægjast undan hverjum steini. Kannski rétt að skjóta því inn í hér að þetta síðast talda vandamál vex ekki þó akstur sé leyfður þarna í gegn, því akandi ferðamenn eru yfirleitt í aðstöðu til að halda í sér þar til komið er að næsta kamri eða klósetti, en þetta er raunveruleg ógnun þarna. Þetta er sá staður sem fólk sækir í, ótrúlega flott umhverfi og í ofanálag þessi fína baðaðstaða sem alltaf hefur aðdráttarafl. Þær hugmyndir sem eru á lofti er að setja gönguskála sunnan við Svarthöfða sem líkega er um tveggja tíma gangur frá svæðinu. Það hjálpar ekki til við þetta og gerir afskaplega lítið fyrir svæðið. Raunar vandséð hvaða tilgangi sá skáli ætti að þjóna, langt úr leið fyrir þá sem þarna fara um. Með því að hafa skálann nær en í hæfilegri fjarlægð myndi hann án vafa draga úr þessu vandamáli, myndi nýtast þeim sem koma til að skoða svæðið og í ofanálag myndi hann nýtast við landvörslu sem er ekki síst mikilvægt. Það er einfaldlega þannig að stærsta ógnin við náttúru svæðisins er ekki akstur þarna í gegn eða bygging á nettum fallegum skála heldur er það aðstöðuleysi ferðamanna. Ég hef ekki svo ævintýralegt hugmyndaflug að sjá fyrir mér að þetta svæði breytist í „aðrar Landmannalaugar“. Inn í Laugar er fólksbílafær vegur, stöðug umferð af rútum alla daga og stórt tjaldsvæði, semsagt öll umgjörð utan um massatúrisma sem ekki er fyrir hendi í Vonarskarði og engar hugmyndir um að skapa.
Nú veit ég ekki hvers vegna margir virðast eiga erfitt með að skilja þetta en ég velti fyrir mér hvort þetta snúist um einhver skilgreiningaatriði á pappírum. Í þeim hugmyndum sem komið hafa fram um verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs eru miklar vangaveltur um víðerni og skilgreiningu á því hugtaki og þar eru einhver 5 km viðmið frá „mannvirki“ eins og skála eða vegslóða. Ef það er rétt kenning hjá mér þá ættu menn að athuga að það er miklu meira virði að upplifa náttúruna úti á mörkinni heldur en í einhverjum skilgreiningum á pappírum.
Úr því ég byrjaði að tala um tilhneigingu til að tala ekki hreint út um hlutina heldur búa til götóttan rökstuðning (sbr. að bann við akstri á vegslóðinni í Vonarskarði snúist um náttúruvernd), þá var annað dæmi um þetta í fréttum núna í dag (22. apr.). Umhverfisráðherra var að svara fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um veiðibann á austursvæði þjóðgarðsins þar sem ákveðið svæði er skilgreint þar sem allar skotveiðar eru bannaðar. Samkvæmt umhverfisráðherra er þetta gert til að hlífa gróðri og mosa! Nú spyr ég (og sjálfsagt skotveiðimenn sömuleiðis), skemmir göngumaður með byssu meira en göngumaður með göngustafi? Stafar gróðri á svæðinu hætta af rjúpnaveiðum sem fara fram í nóvember? Er það skoðun umhverfisráðherra að gróðri stafi meiri hætta af skotveiðmönnum en öðrum ferðamönnum? Nú er ég ekki skotveiðimaður en mér segir svo hugur að reiði skotveiðmanna stafi meira af svona útskýringum heldur en banninu sem slíku. Það eiginlega liggur í augum uppi að þessar reglur um veiðarnar eiga sér einhverjar aðrar rætur en þarna kom fram og ef menn settu þær hreinskilnislega fram má vel vera að víðsýnir skotveiðimenn myndu gangast sáttir inn á þetta bann, en þetta yfirklór ráðherrans er bara hreinlega móðgun við veiðimenn.En Páll Ásgeir svarar ekki rökum:
Páll Ásgeir // 22.4 2010 kl. 19:13
Sæll Skúli
Löng og ítarleg athugasemd kallar á stutt svar:
Vatnajökulsþjóðgarður var ekki stofnaður til að varðveita óbreytt ástand.kv
PÁÁ
You must be logged in to reply to this topic.