This topic contains 18 replies, has 1 voice, and was last updated by Birkir Jónsson 18 years, 10 months ago.
-
Topic
-
Þá er óvissuferðin að baki. Langflestir skiluðu sér tiltölulega ótjónaðir til baka.
Hópurinn safnaðist saman í Hrauneyjum síðastliðið fimmtudagskvöld og þjófstörtuðu menn misjafnlega gleðinni. Það voru þó allir ferðbúnir á rétturm tima föstudags morguns og gífurleg gleði og eftirvænting í hópnum. Ekki síst í þeim rottum Gulla og Ofsa sem töldu sig komna inn í nýtt og betra umhverfi með Utangarðsmönnum. Hlakkaði þá þvílíkt til að sýna hópnum rottubælið í Illugaveri og ekki hlakkað þá minnst til að sýna sínum nýju félögum bælið. Jafnvel var talað um að nú yrðu Utangarðsmenn ekki lengur utangarðs á hálendinu. Til að gera langa sögu stutta þá var stoppað stutt í Illugaveri því Ofsa lá svo á að testa nýju félagana í Svartánni. Fann hann þar ódýra gildru (sennilega rottugildru) og þar veiddi hann einn lítinn Hummer bara strax. En, viti menn. Hann sá ekki fyrir afleiðingarnar því þarna bara missti hann allan hópinn sinn í burt niður á Selfoss að snapa varahluti og sást frekar lítið til Utangarðsmanna það sem eftir lifði ferðar. Upp sátum við fararstjórarnir með Gulla og Ofsa og var það ærinn starfi. Þeir ætla þó að freista þess að fá a ð ganga aftur í rottugengið. Vonandi gengur það eftir.
Áfram með smjörið. Héldum sem leið lá um Vonarskarð í mestu bongóblíðu vetrarins, ókum um Snapadal og stoppuðum við Hníflana til að þjappa hópnum saman. Þar næst stoppuðum við í Gæsavötnum en sökum veðurblíðu neyddumst við til að borða nesti utandyra. Þaðan var stefnan tekin niður með Skjálfandafljóti austanmegin og fyrsta stopp við Hitulaug sem Ofsi vildi endilega kalla Bárðarlaug og hafði það eftir Sverri Kr. Sel ekki þá sögu fyrir mikið. Þegar við komum svo niður að hrauninu þá var bara allur snjór búinn. Útlitið var mun skárra vestan við fljótið þannig að í snatri var fundin leið vesturyfir og melarnir og hraunið þrætt vestur í Kiðagil og svo áfram norður Sprengisandsleið. Úr Bárðardal var ekið stystu leið yfir hálsinn yfir á Mývatn og tékkað inn á flottasta hótelið þar, Hótel Gíg. Var það uþb 12 tímum eftir brottför frá Hrauneyjum. Laugardagurinn var tekinn snemma . Mættir voru félagar úr Húsavíkurdeildinni þeir Bjarni Eyjólfs og Oddur Icemann. Stjórnuðu þeir hópnum með glæsibrag þennan dag, sýndu okkur Dettifoss og þræddu okkur í gegn um Gjástykkið stórslysa laust. Reyndar tókst þeim að finna brekku þar sem undirritaður náði að brjóta í drifloku í góðu flugi. Þrátt fyrir mikið spól og spangól var aðeins einn gamall 2,8 Patrol sem komst þar upp. Skrýtið, eins og var þarna mikið af allskonar barbíum og ofurcrúserum og Wranglerum og 4runnerum og ég veit ekki hvað og hvað. En svona er lífið stundum ósanngjarnt. Seinna fundu þeir svo ansi flottan snjóskafl þar sem margir fengu að prófa spottana sína og spilin og var dundað þar dágóða stund. Eftir að hafa svo skoðað vítin tvö, litla og stóra var brunað í skála félagsins við Þeystareyki þar sem formaður Húsvíkinga Hallgrímur Óli beið með kaffi kakó og kleinur eins og menn gátu í sig látið. Kunnum við þeim félögum hinar bestu þakkir fyrir. Hallgrímur fylgdi svo hópnum niður á Kísilveg þ.e.a.s öllum nema þeim Gulla og Ofsa. Þeir fréttu af tækjum sem til eru víst á Húsavik og eru þeirrar náttúru að geta gert tvo járnbúta að einum með einskonar ljós eða eldgeisla. Töldu þeir sig þurfa að berja þessi tækniundur augum. Við sáum þá svo seinna um kvöldið skælbrosandi og sólbrunna.
Um kvöldið var frammreidd fyrir okkur þessi fína veisla á hótelinu og var síðan gerð einhver úttekt á skemmtanalífi þeirra Mývetninga. Ekki hefur fararstjórn enn borist áræðanleg og byrtingarhæf skýrlsa frá þeirri úttekt.
Sumir tóku svo sunnudagin snemma því fjallasýnin og veðurspáin lofaði góðu. Einhverjir laumuðust sjoppuleiðina, og ekki er alveg vitað hvað Utangarðmenn gerðu eða hvenær þeir vöknuðu og er hér með lýst eftir vitnum, en lungað úr hópnum lagði í hann til fjalla. Ofsi og Gulli urðu eftir til að vaska upp. Það var ekið upp með Skjálfandafljóti austanmegin og farið yfir á vaðinu við Hrafnabjörg. Ansi mikið var í fljótinu og þurfti að aka fyrst niður vaðið og síðan upp til að krækja fyrir ís. Sáu menn fljóta vel yfir 44 tommuna á köflum. Síðan var haldið áfram suður Sprengisandsleið og suður undir Bleiksmýrardrögum tekin stefnan á Laugarfell. Var þar kominn nægur snjór til að skella metalnum í botn og stýra. Stutt stopp við Landakot og svo beint í laugina í Lagafelli. Þar var líka hópurin fóðraður. Í miðri samloku brunuð tvær rottur í hlað með rauðglóandi túrbínur og ekki laust við smá skömmustusvip. Er talið að þeir hafi stungið af í miðju uppvaski. Enda greyin verið hálf hrædd að þurfa að rata ein heim.
Frá Laugafelli var stefnan tekin að miðju Íslands og hún skoðuð vel og vandlega. Hún var reyndar hulin snjó þannig að við vitum ekki alveg hvernig hún lítur út.
Héldum svo sem leið lá austur með Hofsjökli um Arnarfellsmúlana og þar inn á Kvíslaveituveg.
Það var svo bara kúludráttur niður allan Kvíslaveituveg og bara bætti í snjó eftir því sem sunnar dró. Menn kvöddust svo í Hrauneyjum eins og vera ber, og hélt hver til síns heima. Undirritaður vill þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við undirbúning þessarar ferðar svo Jóni Snæland úr ferðanefnd og Karen, einnig Wurth fyrir stuðninginn KEA Hótel fyrir sitt framlag Húsvíkingum fyrir ómetanlega aðstoð og þeim í Hrauneyjum sem aldrei klikka. Undirritaður vill svo þakka hópnum fyrir frábæra helgi.
Að lokum. Ef einhver veit hvað varð um Utangarðsmenn og Ellu þá vantar alveg upplýsingar til að geta gengið frá fullnaðar skýrslu. Einnig óskast upplýsingar um Fast og félaga. Eitthvað heyrðist af Wrangler haltrandi yfir Holtavörðuheiðina með fatla og plástra, og eins fréttist af ósigruðum snjósköflum á Langjökli.
Hætti núna
Kveðja
Pétur Blöndal Gíslason
You must be logged in to reply to this topic.