This topic contains 6 replies, has 1 voice, and was last updated by Guðmundur Sigurðsson 13 years ago.
-
Topic
-
Það er okkur flestum venja að staldra við og líta um öxl á þeim tímamótum sem nú nálgast óðfluga og fara yfir það sem gerst hefur á liðnu ári, hvað hefur áunnist og hvað mætti betur fara. Horfa svo fram á við og gera sér í hugarlund hvað framtíðin kann að bera í skauti sér, velta því fyrir sér hvað hvert og eitt okkar getum gert til að ná þeim markmiðum sem við kunnum að hafa sett okkur.
Minnug þess að innan raða f4x4 hafa ötulir félagsmenn lagt á sig ómælda vinnu og erfiði í baráttunni fyrir sameiginlegum markmiðum klúbbsins til að mynda ferðafrelsinu. Það eru dæmi þess að félagsmenn hafi árum og jafnvel áratugum saman háð þessa baráttu og alltof oft án þess að fá þakkir eða þann stuðning sem þeir svo sannarlega eiga skilið fyrir mikið og óeigingjarnt hugsjónastarf.
Við eigum því ekki að spyrja okkur að því hvað við teljum að aðrir geti gert betur til að ná árangri í baráttunni, heldur eigum við að spyrja okkur sjálf hvað við getum gert til að styðja og hugsanlega lagt málstaðnum lið, því margar hendur vinna létt verk. Verum minnug þess að markmiðin eru þau sömu.
Annað sem er nauðsynlegt að hafa í huga er mikilvægi þess að upplýsa félagsmenn um gang mála. Því ansi oft er uppspretta tortryggni og óeinigar sú að það skortir upplýsingar um framvindu í einstökum málum og kann það því að líta svo út að ekkert sé verið að aðhafast. Skýr stefnumótun er mikilvæg og getur aukið einingu og samstöðu. Það er sárt að við höfum tapað út virkum og mikilvægum einstaklingum úr okkar röðum vegna skorts á skýrri stefnu. Við því megum við ekki, því hver og einn er svo sannaralega mikilvægur hlekkur.
Við getum aldrei verið sammála um allt, enda að takast á um hlutina og rökræða er af hinu góða. Verum þó meðvituð um að vera málefnaleg í gagnrýni og tilbúin að færa fram rök fyrir skoðunum okkar og komum fram við aðra af virðingu. Þannig fæst í flestum tilfellum í sátt, bestu og heiðarlegustu niðurstöðurnar.
Ég sendi öllum félagsmönnum f4x4 mínar bestu óskir um gæfuríkt nýtt ár og þakka kærlega fyrir gefandi og lærdómsríkt samstarf á árinu sem senn er liðið. Hlakka til að vinna og ferðast meira með f4x4 á nýju ári.
Laila Margrét Arnþórsdóttir
You must be logged in to reply to this topic.