This topic contains 17 replies, has 1 voice, and was last updated by Bæring J. Björgvinsson 13 years, 6 months ago.
-
Topic
-
Hvert viljum við sjá klúbbinn okkar stefna?
Grunn hagsmunamál Ferðaklúbbsins 4×4:
..leggja grunn að innleiðingu á reglugerðum varðandi breytingar á bílum til ferðalaga á hálendinu.
..stuðla að viðhorfsbreytingu varðandi utanvegaakstur og fyrirbyggja skaða í náttúrunni sem því fylgir.
..byggja upp öryggi ferðafólks á hálendi Íslands með neti VHF endurvarpa um allt land.
..berjast fyrir frelsi félagsmanna og almennings til að ferðast um hálendi Íslands.Við eigum að vera ráðandi aðili um málefni hálendisins
Ferðaklúbburinn 4×4 á að vera öflugur hagsmunagæsluaðili í þeim málaflokkum sem hann stendur fyrir og til að skapa öflugan slagkraft þarf að hafa sterkt bakland með miklum fjölda félagsmanna. Staða í hagsmunagæslu á hverjum tíma er í beinu hlutfalli við fjölda meðlima, vinnu sem klúbburinn framkvæmir og ímynd sem hann hefur skapað í samfélaginu. Klúbburinn á að vera öflugur þátttakandi í stefnumótun um ferðamennsku, vinna að því að tryggja almannarétt til ferðalaga og leggja grunn að því að klúbbmeðlimir og annað ferðafólk geti notið íslenskrar náttúru á skynsamlegan og ábyrgan hátt. Ferðaklúbburinn á að vinna markvisst með stjórnvöldum að heildarstefnumótun um ferðaumhverfi hálendisins og í samvinnu við þau leggja grunn að stefnumarkandi verkefnaáætlun um hvernig eigi að umgangast okkar náttúruperlur af ábyrgð og skynsemi. Þetta hafa stjórnvöld reynt að gera í áratugi og algjörlega mistekist og á meðan hefur Ferðafélag Íslands tekið völdin og nánast fengið alræðisvald á hálendinu.Fleiri klúbbmeðlimir og markviss vinnubrögð gerir okkur áhrifameiri
Það er hægt er að ná miklu meiri árangri með því að efla starfsemi Ferðaklúbbsins 4×4, vinna markvissa stefnumótun í hagsmunamálum, setja metnaðarfull markmið og skipuleggja starfsemi klúbbsins faglega til að ná þeim markmiðum. Fleiri meðlimir skila auknum tekjum og meira afli til að berjast í hagsmunamálum. Stunda þarf markvissa sókn til að fjölga meðlimum og senda ákveðnum markhópum reglulega upplýsingar um klúbbinn og fræðslu um ábyrga ferðamennsku og hvernig hægt sé að stuðla að skynsamlegri náttúruvernd og tryggja almannarétt til ferðalaga með þátttöku í starfi klúbbsins. Leggja þarf grunn að faglegri hagsmunagæslu, stunda kerfisbundið áróðurstríð í hagsmunamálum og skapa góð tengsl við okkar fólk í opinberu umhverfi.Gott skipulag og fagleg vinna í hagsmunagæslu skilar meiri árangri
Klúbburinn hefði fyrir löngu átt að setja í gang málefnahópa um einstaka málaflokka í öllum hagsmunamálum og forgangsraða markvisst skammtíma og langtímaverkefnum. Láta þessa hópa hafa umsjón með einstökum verkefnum s.s. Vatnajökulsþjóðgarði, Þjórsárverum, náttúruverndarlögum, landnýtingaráætlun o.s.fr. Sumar nefndir hafa stundum verið með eitthvað af þessum málum, en flest þessi mál hafa flakkað fram og aftur á milli stjórnar og nefnda ár eftir ár. Sjálfboðastarf stjórnar- og nefndarmanna og klúbbmeðlima þarf síðan að styðja með aðgangi að starfsfólki hjá klúbbnum, en með því væri hægt að margfalda þeirra framlag.Við þurfum að:
• Skipta málefnum markvisst upp á milli stjórnar, nefnda og starfshópa
• Vinna samkvæmt ákveðnum markmiðum og áætlunum í öllum hagsmunamálum.
• Finna okkar fólk í opinberu umhverfi og leiðbeina því um hvernig það geti stutt við okkar málstað.
• Skilgreina þá aðila sem eru mest á móti okkur og greina fyrir hvaða málstað þeir eru að berjast.
• Skilgreina aðila með sömu markmið í hagsmunagæslu og leggja grunn að öflugu samstarfi við þá.
• Koma upp PR hópi sem hefur það markmið að dæla út greinum, umsögnum og fara í viðtöl og fleira.
• Setja upp PR aðgerðaráætlun til næstu ára brotið niður á hvern mánuð. Vinna þetta markvisst og reglubundið og útbúa gögn fyrir þá aðila sem við ætlum að nota í fjölmiðlum.Nota innra starf klúbbsins til að styrkja ímyndina
Innra starf klúbbsins er kjörið til að kynna hann og koma honum á framfæri s.s. starf Litlunefndar og þær nýliðaferðir og námskeið sem hún stendur fyrir. Auglýsa þarf þessar ferðir og nota þær markvisst sem aðdráttarafl til að ná inn nýjum félögum. Hafa t.d. frítt í þessar ferðir fyrir klúbbmeðlimi, en láta aðra greiða fyrir þátttöku (félagsgjald) og hvetja með því þátttakendur til að ganga í klúbbinn.Setja ætti af stað nýja nefnd (Stórunefnd) sem tæki næsta skref á eftir Litlunefnd og stæði fyrir dagsferðum fyrir stærri og breytta bíla. Leggja grunn að öflugu framkvæmdaumhverfi í slíkum ferðum og nota frábæra skipulagsreynslu frá Litlunefndinni síðustu árin.
Skoða möguleika á að setja af stað sérstaka ferðaþjónustunefnd sem sinnti hagsmunagæslu fyrir ferðaþjónustuaðila og bjóða upp á markvisst námskeiðaumhverfi fyrir aðila í þessu umhverfi. Þessir aðilar fengju þá sterkari stöðu til að sinna sínum málum og klúbburinn fengi öfluga samstarfsaðila í sínum stærstu hagsmunamálum, ferðafrelsinu.
Öflugt og vel skipulagt starf skilar samstöðu og velvild félagsmanna
Setja þarf starfsemi nefnda í faglegan farveg og gera þær sjálfstæðari og öflugri. Setja upp heildarmynd um starfsumhverfi þeirra, vinna nákvæma verkefnaskiptingu, skipta hagsmunaumhverfi klúbbsins upp á milli þeirra og skilgreina starfs- og málefnaskiptingu. Allar nefndir ættu að skila starfsáætlunum mánuði eftir aðalfund, allir fundir nefnda ættu að vera boðaðir með fundardagskrá og fundargerðum ætti að skila eftir hvern fund. Allar fundargerðir nefnda og stjórnar ættu að verar aðgengilegar á netinu og öll starfsemi klúbbsins þyrti að vera aðgengileg og sýnileg. Með þessu væri hinn almenni félagsmaður betur upplýstur um starfið í klúbbnum, meira meðvitaður um þau verkefni sem væru í gangi á hverjum tíma og yrði jákvæðari gangnvart klúbbnum.Byggja þarf upp öflugt samstarf við deildir
Taka þarf upp öflugt og markvisst samstarf við og á milli landsbyggðadeilda og setja starfumhverfi þeirra og móðurklúbbsins í skipulagðan farveg um faglegt samskipti. Aðgengi að upplýsingar á hverjum tíma þyrfti að auka og móðurklúbbur og landsbyggðadeildir þyrftu að sameinast um heildarumhverfi á vefnum með aðgengi að upplýsingum á sameiginlegri vefsíðu.Leggja þarf grunn að spennandi og öflugri vefsíðu
Taka þarf vefsíðu klúbbsins og endurvinna útlit og uppbyggingu hennar. Nýta fyrri vinnu við skipulag í uppbyggingu eins og kostur er, en setja á hana nýtt andlit (sjá möguleika). Hafa tengingar inn á sem flesta þætti í starfsemi klúbbsins. Hafa innskráningu félaga á netinu og geta tekið á móti greiðslu með kreditkortum fyrir félagsgjöld og vegna sölu á kynningarvörum félagsins. Kynna á síðunni starfsemina í Setrinu og birta pöntunardagatal um lausan tíma fyrir gistingu. Setja ritnefnd yfir vefin sem vinni eftir vel skilgreindum markmiðum um framsetningu og virkni hans.Möguleg framtíðarmarkmið fyrir Ferðaklúbbinn 4×4
• Hafa 10.000 greiðandi félagsmenn innan næstu fimm ára
• Hafa tvo til þrjá starfsmenn í fullu starfi til að sinna daglegum rekstri og hagsmunamálum
• Bjóði upp á öflugt námskeiðaumhverfi fyrir klúbbmeðlimi og almennt ferðafólk á hálendinu
• Hafa framboð á ferðum fyrir félagsmenn á öllum stærðum hálendisbíla
• Efla verulega hagsmunagæslu klúbbsins í málefnum almannaréttar og ferðafrelsis á Íslandi
• Sameina klúbbinn, almenning og ferðaþjónustu í skynsamlegri hagsmunagæslu um ferðafrelsi
• Byggja upp sameiginlega upplýsingaveitu móðurfélags og landsbyggðadeilda á sameiginlegri vefsíðu
• Setja upp faglegt og markvisst samstarfsumhverfi allra deilda og móðurfélags FerðaklúbbsinsHugsum málin upp á nýtt og sköpum nýja framtíð
Það er kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt og taka stóra/litla klíkuklúbbinn okkar og gera hann að alvöru afli í baráttu fyrir betri framtíð í ferðamennsku, skynsamlegu ferðafrelsi og almannarétti til að ferðast um landið.Setja þarf umræðu um starfsemi og rekstur klúbbsins í faglegan og vel skipulagðan farveg til að leggja grunn að þeirri framtíð sem við viljum ná fram fyrir klúbbmeðlimi og almenning í ferðamennsku á Íslandi.
Við getum stuðlað að breytingum á aðalfundinum í maí. Hugsum því vel hvaða aðilar eru best til þess fallnir að leiða nýja tíma og leggja af mörkum það sem þarf til að stýra starfinu í klúbbnum inn á árangursríkari brautir. Gerið kröfu til þess að þeir sem þið ætlið að kjósa, hafi hugsjónir til að byggja klúbbinn upp og gera hann að alvöru afli í íslensku samfélagi. Skoðið ekki bara hverjir gefa kost á sér í stjórn, heldur einnig hverjir gefa kost á sér í nefndir. Ekki kjósa aftur sömu aðila, ef ykkur finnst þeir ekki hafa staðið sig nógu vel.Að lokum langar mig að segja frá ummælum góðs samstarfsaðila innan klúbbsins sem í raun var kveikjan að því að setja saman þennan pistil. Hann sagði að “ef ég hefði ekkert jákvætt um málin að segja, þá ætti ég að gera eitthvað annað” og þetta var hárrétt honum. Mitt svar við þessu var að setjast niður og skilgreina persónulegt mat á stöðunni og síðan að koma með jákvæðar tillögur til breytinga.
Ég hef mikinn metnað fyrir hönd klúbbsins okkar og vona að þessi pistil leggi grunn að árangursríkum breytingum á starfi klúbbsins. Til að það gerist þarf að skapa uppbyggilega og málefnalega umræðu og alls ekki tengja hana persónulega einstaklingum eða hópum innan klúbbsins. Ég hef kynnst og unnið með mörgum frábærum einstaklingum í mínu starfi innan klúbbsins síðustu árin og aldrei fundið annað en að þeir aðilar væru að vinna klúbbnum vel og samkvæmt þeirri sannfæringu að vera gera góða og heiðarlega hluti. Ég vill færa þeim öllum góða kveðju og þakka fyrir ánægjulegt samstarf og einstaka upplifun síðustu þrjú árin.
Guðmundur G. Kristinsson
Félagsmaður nr. R3846 í Ferðaklúbbnum 4×4
You must be logged in to reply to this topic.