This topic contains 6 replies, has 1 voice, and was last updated by Ólafur Magnússon 12 years, 2 months ago.
-
Topic
-
Það er með miklum trega og eftirsjá sem við félagsmenn í Ferðaklúbbnum 4×4 kveðjum Vilhjálm Frey Jónsson eða Freysa eins og hann var jafnan kallaður. Hann var einn af stóru nöfnunum í klúbbnum, allir litu upp til hans; mannsins sem ávallt var í fremstu víglínu í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var búinn að vera félagi í klúbbnum í fjölda ára og get ég hiklaust fullyrt nú að leiðarlokum að fáir ef nokkrir lögðu starfinu mikilvægara lið en einmitt hann.
Freysi var lengi í tækninefnd 4×4 og var algjör frumkvöðull á heimsvísu varðandi endurbætur og tækninýjungar á jeppum. Hann var ófeiminn við að fara nýjar leiðir og prófa nýja hluti. Vakti það að vonum heimsathygli þegar hann ók breyttum jeppa á Suðurskautslandið árið 1997 og ekki síður þegar hann ásamt fleirum, fór fyrstur manna á slíku farartæki þvert yfir Grænlandsjökul, tveimur árum síðar. Til þess þurfti áræði og dug en ekki síður þol og þrek. Freysi bjó yfir öllum þessum eðlisþáttum umfram aðra menn.
Hér heima fyrir var Freysi nánast persónugervingur fyrir okkur jeppakalla og öflugur málsvari Ferðaklúbbsins 4×4 fyrir viðurkenningu á breyttum farartækjum. Hann var mikill áhugamaður um ferðafrelsi og taldi það sjálfsögð mannréttindi að almenningur hefði tækifæri til að ferðast um hálendi Íslands. Jafnframt gerði hann ríkar kröfur til okkar um að ferðast með ábyrgum hætti því fáa þekktum við sem bar eins mikla og djúpa virðingu fyrir íslenskri náttúru. Hann var einlægur í baráttunni gegn utanvegaakstri og við skynjuðum sterkt hvað honum þótti miður þegar einhverjir óábyrgir ökumenn höfðu ekið utan slóða og sært landið djúpum sárum.
Freysi var ljúfmenni og taldi aldrei eftir sér að leggja öðrum lið. Við jeppamenn kveðjum góðan félaga og forvígismann með sárum söknuði og sendum fjölskyldu hans og aðstandendum hans okkar dýpstu samúðarkveðjur.Hafliði S. Magnússon
formaður
You must be logged in to reply to this topic.