This topic contains 8 replies, has 1 voice, and was last updated by Valdimar Nielsen 22 years ago.
-
Topic
-
Góðir félagar, ég get ekki orða bundist eftir fundinn í gærkveldi, satt að segja langaði mig að standa upp og leggja orð í belg en þar sem ég hafði ekki t.d. lög félagsins fyrir framan mig þótti mér rétt að bíða með fullyrðingar. Þessar umræður spunnust allar útaf ?árshátíðinni? okkar, en þar mætti ég eins og á nær allar árshátíðir sem haldnar hafa verið síðan ég gekk í klúbbinn, árshátíðin var vel heppnuð nema hvað of fáir mættu, matur var góður, skemmtileg atriði bæði aðfengið og frábært atriði sem nokkrir félagar komu með, hið hefðbunda happdrætti og hljómsveitin var feiknafjörug og var mikið dansað. Sem sagt alls ekki ?kolómöguleg? eins og einn fundargesta, sem ekki mætti á hana, hélt fram.
En hvað var að, mér sýnist þetta allt snúast um ósætti og stífni sem kom upp á milli okkar ágæta Einars Sól. og stjórnar, en þegar tveir deila er annar sjaldnast saklaus en hinn alvondur og ekki hef ég nokkra aðstöðu til, né áhuga á, að dæma um hvor aðilinn var þverari í þessu tilviki. En á fundinum komu fram ýmsar fullyrðingar sem mér fundust skrítnar og því leit ég aðeins í bókasafnið á vefsíðu klúbbsins áður en ég settist við tölvuna.
Óeining virðist hafa verið um tímasetningu árshátíðar og landsfundar, ef við skoðum gögnin á vefsíðunni kemur í ljós að þessir atburðir hafa verið á hinum ýmsu tímum í október, þannig að þetta hefur blessast hingað til. Að landsfundur eigi sér enga stoð í lögum félagsins er alveg rétt, en að hann eigi að víkja fyrir árshátíð þess vegna er út í hött, ef við viljum fara í hártoganir, þá er ekki heldur minnst á árshátíð í lögunum hvað þá hin rómuðu bjórkvöld, nei ekki einu sinni skemmtinefnd, ef við gerðum ekkert annað en það sem tiltekið er og niðurnjörfað í lögum klúbbsins væri ekkert gert. Og að stjórn hafi ekki heimild til að skipta sér neitt af því sem nefndir ákveða er náttúrlega hlægileg. Í lögum félagsins segir svo í 8. gr.? Stjórn félagsins kemur fram fyrir hönd þess milli aðalfunda og ræður málefnum þess með þeim takmörkunum sem lög þess setja? Meira að segja í 9. grein sem fjallar um fastanefndir sem hafa afmörkuð verksvið í lögunum segir ?Innan félagsins og undir HANDLEIÐSLU stjórnar starfa að jafnaði fjórar fastanefndir auk hjálparsveitar?. Að lokum 10. grein: ?Stjórn félagsins er heimilt að stofna til annarra nefnda en taldar eru í 9. gr. og jafnframt að fela fastanefndum sérstök verkefni önnur en þar er tilgreint? Sem sé stjórnin ræður bara ansi miklu. En aðgát skal höfð í nærveru sálar og einhvern veginn finnst mér á öllu að nokkuð harkalega hafi verið valtað yfir Einar í þessu máli.Sérstaklega slæmt fannst mér að hlusta á þær skammir sem dundu á skemmtinefnd sem engan þátt átti í þessum deilum, heldur kom mjög seint að málinu og þeir gerðu það besta sem hægt var á þeim nauma tíma sem til stefnu var og í því ömurlega andrúmslofti sem þessar deilur orsökuðu, húrra fyrir þeim Lúter og félögum. Svo sannarlega hefði átt að standa miklu betur að kynnigu á árshátíðinni, en sökin á þeim mistökum liggur ekki hjá skemmitnefnd, þeir komu einfaldlega of seint að málinu.
Í kaffihléi og eftir fund heyrðust svo fullyrðingar eins og ?Þetta er kolómöguleg stjórn? og ?Það þarf að losa sig við hana?. Og þegar spurt var hvað væri svona slæmt voru svörin fremur tæp. ?Þeir stjórna með tilskipunum? hér er trúlega átt við að þeir vildu ráða hvenær árshátíðin var haldin og þær leiðbeinandi reglur um störf nefnda sem samin voru á Landsfundinum 13.-15. október 2000, eftir ítrekaðar óskir nefnda um að fá verksvið sín nánar skilgreind, þá var allt önnur stjórn og ekki minnist ég þess að hún fengi neinar skammir fyrir, né heldur sú stjórn sem sat í fyrra og sendi þessa snepla út þá. Og ?Það er alltaf með þeim varamaður, situr meira segja við háborðið hjá þeim, ræður of miklu?. Come on, drengir hvenær varð það glæpur að vera virkur í félagsstarfinu og taka að sér verkefni. Þessi stjórn er ekki algóð að mínu mati, t.d. er út í hött hve seint greiðsluseðlarnir eru að koma núna, forfallist starfsmaðurinn þá vinnur maður verkin sjálfur, en hún á engan veginn skilið þá óvægnu og grófu umræðu sem var í gangi.
Félagar, slíðrum sverðin er þetta ekki stormur í vatnsglasi. Ferðaklúbburinn 4×4 er miklu meira virði en smásærindi sem við verðum persónulega fyrir. Klúbburinn hefur ávallt haft á sér orð fyrir að vera sterkur og að félagar standi þétt saman, það er klárt að sundraðir meigum við okkur lítils í þeim átökum sem gætu verið framundan vegna nýrra reglugerða um breyttar bifreiðar. Síðan er bara að mæta á næsta aðalfund og kjósa sér stjórn að skapi.
Ásgeir
Félagi R-1605
You must be logged in to reply to this topic.