This topic contains 2 replies, has 1 voice, and was last updated by Agnar Benónýsson 18 years, 1 month ago.
-
Topic
-
Skúli Alexandersson, fv. alþingismaður og stórútgerðarmaður á Hellissandi hefur í tvígang skrifað greinar í Moggann um veg yfir Arnarvatnsheiði og Stórasand. Hann vill ganga í lið með Halldóri Blöndal og koma á malbikuðum, uppbyggðum þjóðvegum yfir hálendið sem víðast svo „allir“ geti farið um hálendisvegi og það séu ekki „forréttindi þeirra sem aka um á rándýrum, reykspúandi eldsneytishákum“ að fara um hálendið. Nú mega þeir auðvitað hafa sínar skoðanir og þeim er það að sjálfsögðu frjálst eins og öðrum. Það sem hinsvegar er til athugunar í þessu sambandi að þessir menn eru talsmenn hóps, sem hefur vald og möguleika til að gera sínar hugmyndir að veruleika. Nú þegar er kominn uppbyggður þjóðvegur um Kjalveg að norðan inn undir Dúfunefsmela og að sunnan er hafin vegagerð með bundnu slitlagi og stefnt inn undir Grjótá alveg á næstunni. Ekki er manni kunnugt um að farið hafi fram mat á umhverfisáhrifum eða neitt annað í þeim dúr varðandi þessa vegi. Rekstraraðilar ferðaþjónustu í Skálpanesi og Kerlingarfjöllum munu vafalaust þrýsta á um þessar framkvæmdir og hafa sitt fram býst ég við. Nú, við þekkjum öll að kominn er malbikaður vegur upp á virkjanasvæðið við Tungnaá/Þjórsá og vafalítið verður haldið áfram með veg norður af fyrr en varir án þess að nokkur taki eftir því. Sjálfur Ómar Ragnarsson er talsmaður malbikaðs vegar yfir Kjöl og reyndar hefur manni skilist að hann vilji að vegurinn fari til austurs sunnan við Blöndulón, yfir Eyvindarstaðaheiði og Hofsafrétt niður í dalina inn af Skagafirði svo Akureyringar þurfi ekki að horfa á Húnavatnssýslur nema í fjarlægð þegar þeir fara í milli. Mikið réttlætismál væntanlega.
You must be logged in to reply to this topic.