This topic contains 19 replies, has 1 voice, and was last updated by Magnús Guðmundsson 18 years, 9 months ago.
-
Topic
-
Ég vona að Morgunblaðsmenn fyrirgefi mér þó ég lími hér inn, leiðara blaðsins í gær, laugardag.
Norðmenn á fjöllum
Í bílablaði Morgunblaðsins í gær er sagt frá hópi 22 Norðmanna, sem komu hingað um liðna helgi til þess að aka á fjöll. Í umfjölluninni kemur fram að jeppamenning sé með allt öðru sniði í Noregi en hér á landi. Í Noregi er bannað að aka til fjalla eða upp á jökla til að láta reyna á jeppana, þótt fyrir hendi sé áhugi fyrir jeppamennsku við erfiðar aðstæður.
„Það er bannað að aka í skógum eða á fjöllum þótt það sé leyfilegt á Íslandi,“ segir Trygve Haug, sem var í för með Norðmönnunum. Hann byrjaði á að taka félaga sína með sér og aka í skíðabrekku fyrir utan Ósló. Fyrir þremur árum stofnaði hann jeppaklúbb og eru nú 170 félagar í honum. „Við leikum okkur ekki lengur í skíðabrekkunni heldur hefur verið útbúið torfærusvæði fyrir okkur í Svastad þar sem við fáum að leika okkur í skóginum og fjöllunum,“ segir Haug í greininni.Það hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni þegar Norðmenn eru farnir að leita til Íslands til að gera það, sem þeim er bannað að gera heima hjá sér. Það er ekki að ástæðulausu, sem Norðmenn banna akstur í skógum og á fjöllum. Það er gert til þess að vernda umhverfið og náttúruna. Hér komast menn hins vegar í feitt á jeppunum sínum.
Íslensk náttúra er ekki síður viðkvæm en norsk og hún hlýtur því að eiga skilið sömu vernd og sú norska. Og náttúran er ef til vill ekki síst viðkvæm þegar vetur eru mildir eins og nú og jörð er víða auð þar sem í venjulegu árferði mætti búast við snjó. Þá má búast við því að jarðvegurinn sé sérstaklega viðkvæmur vegna þess að það er frost í jörðu þannig að vatnið kemst ekki niður í jörðina og yfirborðið breytist í drullusvað, sem þungir jeppar spæna upp.
Það er athyglisvert að Trygve Haug og félagar geta þó fengið útrás fyrir áhuga sinn á því að aka jeppum í sínu heimalandi. Eins og kom fram hér fyrir ofan hefur verið útbúið handa þeim torfærusvæði þar sem þeir fá að leika sér, svo notað sé orðalag Haugs. Ef til vill er þetta leið til þess að eigendur jeppa geti fengið útrás, en umhverfið notið verndar. Hægt væri að útbúa sérstök svæði þar sem hentaði að aka um á jeppum hvernig sem árar. Markmiðið væri fyrst og fremst að vernda umhverfið fyrir ágangi, en einnig mætti líta á það sem öryggisatriði að á slíku svæði mætti gera ráð fyrir því að allar hættur væru kunnar og því öruggara að fara þar um, en utan þess.
© mbl.is/Árvakur hf, 2006
You must be logged in to reply to this topic.