Forsíða › Forums › Spjallið › Innanfélagsmál › "Lausatök yfirvalda" í FÍB blaðinu
This topic contains 19 replies, has 1 voice, and was last updated by Skúli Haukur Skúlason 12 years, 8 months ago.
-
CreatorTopic
-
20.10.2011 at 10:41 #220879
Það er grein á bls. 28 og 29 í nýjasta FÍB blaðinu, sem er jeppamönnum og jeppabreytingum ekki til góða. Rætt er við Snorra Konráðsson bifvélavirkjameistara um bílabreytingar.
Að mínu mati er þessi grein er illa skrifuð, staðreyndir úr lausu lofti teknar og svo virðist sem hann (Snorri) hafi lítið vit á jeppum, jeppabreytingum og lögunum í kringum það. Sem dæmi er mynd með greininni, þar sem skrifað er, að þetta sé breyttur Econoline en er í raun mynd af Chervolet Van í Bandaríkjunum. Svona sjást jeppar ekki hér á landi.
Nefnir hann m.a. ameríska pallbíla og Econoline og fer þar með fleipur svo ekki sé meira sagt, og þá aðallega varðandi undirárrekstrarvarnir. Ég veit ekki betur en að bílar sem eru yfir 3,5t að heildarþyngd og viss hæð upp í stuðari þeirra, að þeir séu skikkaðir til að setja undirárrekstrarvörn. Þekki ég dæmi um óbreyttan Dogde RAM 3500, sem settur var á 35″ og þurfti eigandi að láta setja undirárrekstrarvörn til að standast skoðun.
Vissulega eru til gamlir og úrsér gengnir jeppar, jafnvel illa breyttir, sem ættu líklega ekki að fá skoðun en ég tel að þeir séu undantekningarnar en ekki viðmiðið eins og kemur fram í þessari grein.Þetta er mál sem bæði tækninefnd og stjórn þurfa að taka á og svara að mínu mati, svo almenningur láti ekki blekkjast af þessum skrifum hans Snorra.
Fyrst ráðast þeir á ferðafrelsið, svo á farartækin, hvað næst ?
-
CreatorTopic
-
AuthorReplies
-
20.10.2011 at 19:23 #739869
Sællir, flott að vekja máls á þessu menn eiga að lesa greinina vel, því það er ótrúlegar rangfærslur í greininni og þessu annars ágæta blaði til vansa. Ég held að menn ættu að senda pósta á blaðið til að láta skoðun sína í ljós. Sem einstaklingar.
Kveðja
Sveinbjörn
16.04.2012 at 12:45 #739871Sæl öll. Í nýútkomnu blaði Fíb, 1 tbl. 2012 er svargrein við ofanræddri grein Snorra Konráðssonar bifvélavirkjameistara. Ég vil vekja athygli á þessari vel skrifuðu grein þeirra félaga, Vals Sveinbjörssonar, Benedikts Magnússonar, Atla Karls Ingimarssonar, Guðna Ingimarssonar, Rúnars Sigurjónssonar, Arnar Inga Jónssonar og Snorra Inigmarssonar. Fimm þessara manna eru verkfræðingar, einn er tæknifræðingur og einn er tölvunarfræðingur. Held að’ hér með hafi ofanræddri grein verið svarað á þann hátt að ekki þurfi mikið að minnast á þetta mál meira. Vel gert félagar.
kv. Logi Már.
16.04.2012 at 20:42 #739873Sammála.
Þetta er virkilega vel skrifuð grein.
16.04.2012 at 22:46 #739875Sælir
Þetta er gríðalega vel skifuð grein og okkur til mikils sóma.
Langar mig að þakka þessum mönnum fyrir að svara fyrir okkur á svona hnitmiðaðann og faglegan hátt.
Einnig er flott hjá FÍB að birta þessa svargrein hjá sér.Kveðja
Friðrik
17.04.2012 at 08:24 #739877Ég á eftir að lesa greinina þar sem ég hef ekki komist yfir blaðið enn. Mjög ánægjulegt að sjá þessi skrif hér og ég tek fyllilega undir orð þeirra sem þakka Tækninefnd og öðrum þeim sem komu að skrif greinarinnar.
Kveðja,
Hafliði
09.05.2012 at 22:59 #739879Hérna er linkur á greinina sem kom fyrst frá Snorra Konráðssyni.
Fara á bls 28 þar er greinin.
[url:1248oeks]http://fib.is/myndir/FIB-3.2011.pdf[/url:1248oeks]
11.05.2012 at 14:05 #739881Gaman væri nú að fá að sjá svargreinina, blaðið með henni er ekki ennþá komið inn á vefinn hjá FÍB.
12.05.2012 at 19:02 #739883Ég var að enda við lesa greinina í blaði FÍB og mér er skapi næst að segja að annan eins lestur hafi maður ekki séð í áraraðir. Það er engu líkara en þessum Meistara sé ekki kunnugt um þær reglur sem gilda um breytta bíla og þær kröfur sem þeir verða að uppfylla. Hann talar um að breytingar á stýrisbúnaði séu framkvæmdar án alls eftirlits; allar breytingar þar að lútandi þurfa að vera vottaðar og jafnvel röntgenmyndaðar.
Þó svo að einhverjum kappaksturskalli þyki undarlegt að sjá breytta jeppa á Íslandi er það ekki næg ástæða til að frussa út úr sér vanhugsuðum yfirlýsingum sem stangast algjörlega á við þann veruleika (lagaumhverfi) sem við þekkjum þegar kemur að skoðun breyttra jeppa og þeim kröfum sem gerða eru til breyttra ökutækja á Íslandi.
Kv. Steinmar
13.05.2012 at 00:08 #739885Já þessi náungi er greinilega ekkert óskaplega vel að sér um þær reglur sem gilda um breytingarnar, þó hann telji sig færan um að fjalla um þær. Hann virðist eiginlega standa í þeirri meiningu að reglurnar séu ekki til. Þekkingarleysið kemur nokkuð víða fram, en mest áberandi í því sem hann segir um stýrisgang og undirakstursvörn.
Spenntur að sjá svargreinina. Þið kappar sem skrifuðu hana, væru þið fáanlegir til að pósta henni hérna inn.
Kv – Skúli
13.05.2012 at 22:49 #739887Hér er textinn sem var sendur til FÍB og ég held að hann hafi verið birtur óbreyttur:
Í FÍB blaðinu, sem kom út í október 2011, var viðtal við Snorra Konráðsson bifvélavirkjameistara um bílabreytingar. Þar komu fram ýmsar rangfærslur sem Tækninefnd Ferðaklúbbsins 4×4 vill leiðrétta.
Íslenskar jeppabreytingar eru byggðar á viðamiklum rannsóknum, áratuga langri reynslu og gríðarlegri þekkingu. Þetta er tækninýjung sem ekki hefur þurft opinbera styrki en er að skapa miklar gjaldeyristekjur. Íslensk jeppabreytingafyrirtæki hafa undanfarin ár selt sífellt fleiri breytta bíla úr landi, til dæmis til Noregs, Svíþjóðar, Rússlands, Úkraínu, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Suður-Afríku o.fl. Einnig má nefna að nú eru notaðir í rannsóknarverkefnum á Suðurskautslandinu á annan tug jeppa sem breytt hefur verið af Íslendingum og eru þar notaðir við gríðarlega krefjandi aðstæður. Þessir bílar væru ekki þarna ef þeir stæðust ekki kröfur um áreiðanleika og rekstraröryggi og þeir eru margfalt ódýrari í rekstri en önnur farartæki sem hingað til hafa verið notuð á þessum slóðum. Þetta eru skýr dæmi um það hvernig frelsi almennings til að spreyta sig á krefjandi viðfangsefnum leiðir af sér stórkostlegar framfarir. Auðvelt hefði verið að kæfa þessar framfarir með óþarfa forsjárhyggju.Í upphafi jeppabreytinga á Íslandi fóru fram viðamiklir útreikningar á álagsbreytingum, t.d. vegna stærri hjóla, og áhrifum breytinga á aksturseiginleika og stöðugleika. Í stuttu máli eru niðurstöðurnar þær að aukin þyngd veldur meiri álagsaukningu en stækkun hjólbarða. Í bílabreytingum þekkjum við mörg dæmi um verulega þyngdaraukningu, t.d. við brynvörn bíla og þegar stórir snjóplógar eru settir framan á bíla, með mun meiri álagsaukningu heldur en ef viðkomandi bílar eru settir á stærri hjól.
Í mörgum tilvikum sýndu íslenskir verkfræðingar fram á að álag á stýrisbúnað var minna með stærri hjólum. Þeir sem draga þær niðurstöður í efa geta sannreynt þær með því að aka barnavögnum með misstórum hjólum upp á kantstein, eða eftir ójöfnu undirlagi. Til dæmis var athugað sérstaklega fyrirbæri sem algengt er á þjóðvegum með malarslitlagi, krappar og slæmar holur við brýr. Ferðaklúbburinn 4×4 keypti u.þ.b. árið 1990 sérhannaðan mælibúnað til að mæla álag á stýrisbúnað. Með þessum búnaði var sýnt fram á að stærstu kraftarnir sem stýrisbúnaður verður fyrir er þegar beygt er í kyrrstöðu eða á mjög lítilli ferð og var það meðal annars skýrt með því að aukinn hverfiþungi stærri hjóla gleypir krafta þegar ekið er yfir ójöfnur.
Varðandi fullyrðingar um lakari hemlunargetu breyttra bíla er rétt að benda á að hemlunargeta þeirra er mæld árlega eins og í öðrum bílum og þurfa þeir að uppfylla nákvæmlega sömu kröfur og standast allar sömu prófanir viðurkenndra skoðunarstöðva. Statískir útreikningar sýna að þrýstikraftur á hemlaklossa eykst í réttu hlutfalli við þvermál hjóls, hins vegar minnkar sú vegalengd sem klossinn rennur eftir disknum að sama skapi, þannig að það segir ekki alla söguna. Raunveruleg álagsaukning, og þar með hitamyndum, fer eftir þyngdaraukningu og þar með hreyfiorkuaukningu bílsins, sem í þessu samhengi er óveruleg í jeppabreytingum. Þrýstingur í hemlarörum eykst reyndar í réttu hlutfalli við þvermál hjóls, en allur þessi búnaður er hannaður til að þola margfalt það álag sem hann getur orðið fyrir vegna t.d. nauðhemlunar. Hámarksþrýstingur í hemlarörum verður heldur aldrei meiri en ökumanni tekst að framkalla við nauðhemlum og er alveg óháður stærð hjóla.
Í greininni lýsir Snorri áhyggjum sínum yfir því að ummál hemladiska sé minnkað. Þessi breyting var fyrst gerð á breytingaverkstæði Toyota, síðar Arctic Trucks, og héldu þeir bílar fullri ábyrgð með samþykki verksmiðjuframleiðanda. Hemladiskar voru heldur ekki gerðir minni en þeir sem minnstir komu frá framleiðenda miðað við sömu þyngdir af bílum. Líklegt er að stærð hemladiska hafi gjarnan miðast við stærð á felgum, frekar en útreikningum á minnstu mögulegu stærð hemladiska, enda eru slíkir útreikningar augljóslega óframkvæmanlegir eins og allir betri verkfræðingar vita.
Grindarbreytingar eru byggðar á áratugalangri reynslu manna hérlendis á lengingu vörubíla og stórra fólksflutningabíla, sem hófust fljótlega eftir að byrjað var að flytja bíla til íslands. Þekkingin hefur í áranna rás þróast mann frá manni og nýst vel. Sem dæmi um öryggi burðarhluta gagnvart álagsaukningu frá stærri hjólum má nefna að allir jeppar eru með yfirstærð af framhjólalegum vegna þess að koma þarf öxlinum fyrir framdrifið út í gegnum leguna. Við hvetjum alla til að kynna sér mun á framhjólalegum á t.d. amerískum pallbílum sem koma með eða án framdrifs en eru eins að öðru leyti. Niðurstöður útreikninga sýndu að slík yfirstærð vegur mun meira en stækkun hjóla.
Fullyrðingar um að breytingar á stýrisgangi séu ekki athugaðar eru rangar. Bannað er að sjóða saman stýrisgang án þess að suður séu skoðaðar og röntgenmyndaðar af viðurkenndum rannsóknaraðila með sérfræðiþekkingu. Auk þess gilda reglur um það hvar í stýrisgang megi sjóða. Frá því að jeppabreytingar voru lögleiddar á Íslandi, árið 1986, hafa allar breytingar á stýrisgangi verið háðar slíkum skoðunum.
Fullyrðingar um að þyngdarpunktur breyttra bíla hafi ekki verið skoðaður eru einnig rangar. Gerðar voru umtalsverðar athuganir á þessu hjá Ferðaklúbbnum 4×4 og síðar á breytingaverkstæði Toyota. Niðurstöður leiddu ótvírætt í ljós aukinn stöðugleika vegna þess að við breytingar breikka bílarnir og það vegur upp á móti hækkun þyngdarpunkts og gott betur. Í þessu samhengi er rétt að benda á að breyttir jeppar á Íslandi eru gerðir til að nota við erfiðar aðstæður og hækkun því haldið í lágmarki til að fá betra og jafnara grip fyrir hjólin í ójöfnum. Í reglum um breytingar er kveðið á um hámarkshækkun og þarf því að víkka hjólaskálar frekar en hækka bílinn meira til að koma stærri hjólum undir. Þetta er ólíkt því sem tíðkast t.d. í Bandaríkjunum þar sem bílar eru yfirleitt hækkaðir mun meira en hér á landi, enda tilgangurinn annar.
Hvað undirakstursvarnir varðar gilda sömu ströngu reglur um undirakstursvarnir fyrir breytta jeppa og önnur stór farartæki sem flest vega margfalt á við breytta jeppa.
Hið sama gildir um breytta jeppa og alla aðra bíla að stýrisgangur, stýrisdemparar og hjólastilling þurfa að vera í lagi til þess að hjólbarðar endist og skjálfi ekki á vissu hraðabili.
Snorra finnst að ábyrgðir framleiðenda á bílum ættu að falla úr gildi við breytingar. Það er hins vegar eingöngu ákvörðun framleiðenda og bílaumboða hvort ábyrgðir bíla haldi eða ekki eftir breytingar, en hefur ekkert með skoðanir fólks að gera. Íslensk bílaumboð hafa sjálf sett upp og rekið eigin bílabreytingaverkstæði, t.d. Toyota. Verkfræðingar frá Toyota hafa fylgst með bílabreytingum hér á landi af áhuga og komið hingað gagngert til þess að kynna sér breytingar sem þeir hafa síðan nýtt í fjöldaframleidda bíla. Hugtökin „þrautprófað“ og „viðurkennt“ eru stórlega ofmetin í þessu samhengi. Það skyldi þó ekki vera að það sé framleiðslukostnaður sem ráði útfærslu bílaframleiðenda en ekki ending og styrkur?
Hvað skoðanir Jean Todt á breyttum bílum varðar þá er það athyglivert að hingað séu fengnir mótorsportmenn utan úr heimi til að úttala sig um sínar skoðanir á því hvað okkur Íslendingum hentar í nýjungum í samgöngutækni hér á landi. Við drögum ekki í efa færni þessa manns á sínu sviði í kappakstri en sjáum ekki samhengið við betrumbætta bíla á borð við þrautreynda breytta björgunarsveitabíla, lögreglubíla og sjúkrabíla, sem hafa auðveldað þessum aðilum verulega störf sín við íslenskar aðstæður og lækkað þannig kostnað skattgreiðenda og aukið þjónustu og búsetuöryggi.
Okkur í Tækninefnd Ferðaklúbbsins 4×4 þykir það gleðiefni að góðir bifvélavirkjar eins og Snorri Konráðsson hafi áhyggjur af gæðum vinnu við jeppabreytingar. Það er nefnilega með jeppabreytingar eins og aðra fagvinnu, að þær verður að vinna af kostgæfni. Það eru til mýmörg dæmi um slægleg vinnubrögð í viðgerðum á algerlega óbreyttum bílum. Til dæmis er til skjalfest dæmi um að felguróm hafi verið snúið öfugt á fólksbíl eftir vinnu við bremsur á virtu verkstæði. Slíku og sambærulegu fúski verður ekki útrýmt með reglugerðum eða með blaðagreinum í upphrópunarstíl, heldur frekar með vönduðu iðnnámi og aukinni sjálfsvirðingu þeirra aðila sem taka að sér viðgerðir og breytingar. Það eru til verkstæði sem bæði vinna að almennum viðgerðum og hafa áratuga reynslu af jeppabreytingum. Það sem gert er á þessum verkstæðum er oft á tíðum afreki næst og margur ungur jeppamaðurinn hefur haft aðgang að þeim mönnum sem að þessu standa og þegið góð ráð án þess að rukkað hafi verið fyrir. Þetta leiðir til framfara. Það sem Snorri Konráðsson er hins vegar að ýja að, er svipað því að banna glugga á húsum vegna þess að þeir eiga það til að leka vegna lélegra vinnubragða. Það er ekki það sem við þurfum.
Benedikt Magnússon, tæknifræðingur
Atli Karl Ingimarsson, verkfræðingur
Guðni Ingimarsson, verkfræðingur
Rúnar Sigurjónsson, tölvunarfræðingur
Snorri Ingimarsson, verkfræðingur
Valur Sveinbjörnsson, verkfræðingur
Örn Ingvi Jónsson, verkfræðingur
13.05.2012 at 23:03 #739889[attachment=0:q9p2luts]MG_2588_50-1.jpg[/attachment:q9p2luts]
Þessi mynd var send með greininni en ég veit ekki hvort hún var birt í FÍB blaðinu.
13.05.2012 at 23:50 #739891Heyr heyr !!
Flott grein og faglega unnin hjá ykkur, Tækninefnd. Hlakka til að sjá útkomuna á prenti.
Það væri nú gaman að sjá Snorra Konráðsson lesa hana 😉
14.05.2012 at 07:23 #739893Sælir félagar
Þetta er flott og vel gerð svargrein, enda ekki við öðru að búast frá frábærri tækninefnd. Takk kærlega fyrir þetta strákar.
Kv. Steinmar
14.05.2012 at 12:04 #739895Snilld. Þessi grein á að vera skyldulesning fyrir alla sem hafa með þessi mál að gera, þarna eru hlutirnir settir í rétt samhengi. Snorri þessi er örugglega ekki síðasti besserwisserinn.
Kv – Skúli
14.05.2012 at 22:57 #739897Takk fyrir góða og málefnalega grein sem er skrifuð með góðum rökstuddum svörum.
Mér finnst oft bera á því að það sé verið að fjalla um okkar málefni með upphrópunum og sleggjudómum eins og Snorri Konnráðsson gerir í sinni grein, hvort sem verið er að fjalla um jeppa breytingar eða ferðamennsku á jeppum. Þá sýnir það sig hversu mikilvægt það er fyrir okkur jeppamenn að hafa Ferðaklúbbinn 4×4 sem málsvara og hagsmunasamtök til að viðhalda ferðafrelsi og frelsi til að breyta bílum með reglugerðum en ekki hafa reglurnar á móti okkur.
Takk fyrir mig
Hilmar Örn
15.05.2012 at 00:58 #739899Þetta er frábær grein Snorri – takk fyrir það, ég lærði margt af henni sem ég hef ekki heyrt um áður.
En ég ætla að vera með pínu leiðinlega athugasemd.
Eru þessar upplýsingar sem þarna koma fram – þessar prófanir og annað – er þetta aðgengilegt einhvers staðar ?
Hefði þessi ágæti maður getað aflað sér þessara upplýsinga, án þess hreinlega að hringja í einhvern af þeim sem þekkja þessa sögu, og hefði jafnvel þurft að hringja í marga aðila til að fá alla söguna.Væri ekki tímabært að koma þessum upplýsingum á framfæri á síðunni okkar ?
Eða eru þær kannski þarna einhvers staðar – ég fann þær allavega ekki ?
Þetta eru alls ekki illa meint leiðindi – en væri það ekki okkar málstað bara til framdráttar að gera þetta aðgengilegt?
Hugsanlega er eitthvað þessu ekki í eigu klúbbsins, eins og það sem gert hefur verið af Toyota – en þeir hljóta að vera tilbúnir að birta þetta hjá okkur ?kv.
Arnór Árnason
15.05.2012 at 15:05 #739901Frábær grein !
Kannski ætti einhver að senda hana á forsetann, þar sem fram kom í fyrri greininni að kappaksturs-útlendingurinn (sem ég mann ekki hvað heitir) hafi lýst áhyggjum sínum vegna þessa við forsetann.
kv. Óli
16.05.2012 at 13:26 #739903Þær prófanir og útreikningar sem að vísað er til voru unnir af tækninefnd þess tíma er stóð hvað mest í því að koma núgildandi reglugerð í gegn. ‘i henni sátu m.a. Snorri og Guðni Ingimarssynir.
Eins hefur Freysi unnið mikið í þessu á breytingaverkstæði toyota, síðar AT.
Þessi gögn eru vafalítið aðgengileg hjá þessum aðilum og hugsanlega einnig til hjá klúbbnum, það er rétt hjá þér Arnór að það væri gaman og gagnlegt að safna þessu öllu á einn stað.
Tækninefndin tekur það upp á sína arma fyrir næsta starfsár.
Benni
16.05.2012 at 14:34 #739905Með fullri virðingu fyrir mikilvægi ferðafrelsis og umhverfismála, þá er starf tækninefndar eitt það mikilvægasta í klúbbstarfinu og þar hefur verið lyft Grettistökum í að díla við hann Opinbera Geira. Sérstaklega á það við á fyrstu árum klúbbsins en þeir vinningar sem nefndin vann þá hefur með reglulegu millibili þurft að verja fyrir árásum besservissara.
Frábær hugmynd að taka saman gögn um þessi mál, rannsóknir, úttektir og yfirlit yfir þær reglur sem eru í gildi. Við sem keyrum um á breyttum jeppum lendum alltaf öðru hvoru í því að ræða þessi mál og þá er gott að hafa allar staðreyndir á hraðbergi. Stærstu rangfærslunar eða þær mest sláandi í þessari grein um "lausatök yfirvalda" eru reyndar atriði sem snúa að gildandi reglum um bílabreytingar og viðkomandi hefi þvi ekki farið rangt með ef hann hefði kynnt sér þær áður en hann tjáði sig um innihald þeirra. Staðleysum er best svarað með staðreyndum eins og greinin frá okkar mönnum ber glögglega með sér.
Kv – Skúli
-
AuthorReplies
You must be logged in to reply to this topic.