This topic contains 4 replies, has 1 voice, and was last updated by Jack Hrafnkell Daníelsson 19 years, 9 months ago.
-
Topic
-
Sem einlægur aðdáandi Breska heimsveldisins hef ég öðru hvoru verið að grípa niður í fróðleik um sögu þess ágæta landbúnaðar- og fjallabifreiðar sem Land Rover kallast. Smá brot hérna úr sögunni
Upphafið er rakið aftur til 1947 og þó stundum sé sagt að ekkert hafi breyst síðan þá, er það nú kannski ekki alveg nákvæmt. Þá var Rover í eigu Wilks fjölskyldunnar, en auk þess átti fjölskyldan búgarð. Á búgarðinum var Willys jeppi frá stríðsárunum notaður við bústörfin og auðvitað var sú pæling áleitin að framleiða sambærilegt verkfæri undir Rover nafninu. Prótótýpan hefur enda ýmis samkenni með þeim ameríska forföður allra jeppa sem notaður var sem fyrirmynd. Þó má sjá það að þessi fyrsta útgáfa af Land Rover er hugsuð til landbúnaðarstarfa en ekki hernaðar m.a. á því að bílstjórinn sat fyrir miðjum bíl með gírstöngina milli fóta líkt og á traktor. Hugsunin var m.a. að þetta væri praktískt því þá hentaði hann jafnt þar sem væri hægri handar og vinsti handar umferð, því sem kunnugt er aka allir nema bretar og nýlendur heimsveldisins á röngum vegahelming og sjálfsagt að taka tillit til þess. Þessu var hins vegar breytt áður en til framleiðslu kom því það mun hafa verið frekar óþæginlegt að keyra bílinn í umferð sitjandi fyrir miðju.
Annað sem vert er að geta varðandi þessa fyrstu prótótýpu og það er að þá þegar var boddýið gert úr áli. Ástæðan var einfaldlega skortur á járni á þessum tíma, ekkert flóknara en það. Þetta hins vegar virkaði og hvers vegna þá að breyta því þó áratugirnir líða! Hann var málaður dökk grænn, sami litur og algengur var í stjórnklefum flugvéla á þessum tíma og ástæðan einfaldlega sú að nóg var hægt að fá af þessum lit. Herlegheitin voru svo knúin áfram af 1389 cc vél úr Rover 10 Saloon. Því miður er ekki til í dag upphaflegt eintak af þessum bíl, þar sem líklega hafa þeir verið rifnir til að nota í sjálfa framleiðsluna þegar hún hófst. Einhverjum sögum fer þó af því að einhver snillingur sé með fullkomna eftirgerð af honum í smíðum og kannski tilbúið.
Hagnýtt landbúnaðartækiÞað er mat margra að Land Roverinn sé síður hannaður með þægindi ökumanna í huga. Hvað sem því líður í dag var allavega í upphafi litið svo á að ending væri þægindum framar því þessi ágæta setning var höfð eftir einum ágætum manni sem vann að þróun bílsins: ‘Durability was based on drivers discomfort – we damaged more drivers then vehicles during testing.’ Ágætt sjónarmið þvi það má alltaf finna nýjan driver, en góður LandRover er þyngdar sinnar virði í gulli. Reyndar má láta þá sögu flakka að þeir Land Roverar sem hingað komu í denn voru enn hastari en þeir áttu að sér að vera. Skv. sögunni stafaði það að því að forsvarsmenn Heklu töldu rétt að fá hingað vel sterka bíla og töldu stífar fjaðrir sérlegan kost fyrir íslenska bændur. Því voru þeir pantaðir með stífustu fjöðrum sem völ var á. Hekla var reyndar eini kaupandinn af bílunum svona útfærðum fyrir utan breska herinn, en herinn hafði einmitt látið hanna þessar fjaðrir sérstaklega fyrir sig með það í huga að hægt sé að láta bílana falla úr þyrlu í 20 m hæð eða svo. Þannig kom það semsagt til að Robbinn fékk viðurnefnið fóstureyðingatækið. Tek þó fram að ég hef ekki séð þessa sögu staðfesta, en má þó vel vera að satt sé.
Árið 1948 hefst svo framleiðslan fyrir alvöru á Land Rover Series 1. Þó ýmislegt hafi breyst í Landanum síðan þá eru samt ákveðin sérkenni sem hafa haldið sér allar götur síðan. Sérstaklega áberandi eru frambrettin, en þau voru mótuð með sléttum hliðum til að losna undan vandamálum við móta álið til. Breskir bændur hafa æ síðan lagt þunga áherslu á að þessu verði ekki breytt þar sem hentugt er að leggja frá sér tebollann á brettin. Sama gildir í fjallaferðum á Íslandi, t.d. eftir að komið er á tjaldstað og baukur hefur verið opnaður. Ótvíræður kostur! Í öðrum málum hafa verksmiðjurnar ákveðið að láta ‘framþróunina’ ekki stöðvast af notagildissjónarmiðum, enda er það hjá flestum öðrum í jeppaframleiðslu orðið ‘the name of the game’ að fórna öllum alvöru jeppaeinkennum fyrir þróað plastdrasl og þróað hitt og þetta. Þannig bárust margar kvartanir þegar járngrindargrillið var látið víkja fyrir plastgrilldraslinu, einkum hjá þeim sem notuðu Land Rover til ferðalaga í Afríku og víðar. Ástæðan var sú að járngrindin nýttist svo ágætlega á annars konar grill, þ.e. steikargrillið.
Hentugur ferðabíll með aukahlutumSvo að lokum ein ágæt saga um það hvernig Hekla missti umboðið. Þannig var að einn góðan veðurdag gekk vel klæddur, virðulegur, enskumælandi maður inn í umboðið, hittir þar ungan og ákafan sölumann og segist vilja kaupa Land Rover jeppa. Sölumaðurinn lítur á hann og segist svo hafa miklu heppilegri kost fyrir hann heldur en Land Rover og fer í óða önn að reyna að ota að honum einhverjum leðurklæddum Pajero. Kom þó sölumanninum heldur á óvart þegar hann sér að herramaðurinn verður hinn illasti og rýkur út. Enda hvernig gat hann vitað að þarna væri á ferðinni breski sendiherrann sem var búinn að ákveða að viðeigandi væri að ferðast um landið á þessari stórkostlegu afurð bresks iðnaðar, hvað þá um kunningskap hans við æðstu stjórnendur hjá Rover. Sagan er góð þó líklega liggi skýringin á því að B&L fékk umboðið í öðrum þáttum.
You must be logged in to reply to this topic.