This topic contains 21 replies, has 1 voice, and was last updated by Vésteinn Finnsson 13 years, 2 months ago.
-
Topic
-
Fyrir rúmlega hálfri öld (4. jan 1958) komust menn landleiðina á Suðurpólinn í þriðja skiptið. Þarna voru á ferðinni nokkrir Ferguson traktorar og jafnframt fyrstu vélknúnu ökutækin sem þangað komu. Þessir traktorar voru óbreytt fjöldaframleiðsla nema hvað búnir frumstæðum beltum sem með lítilli fyrirhöfn var hægt að henda utan á dekkin á þeim.
Einfaldleikinn gæti varla verið meiri. Ódýrt og einfalt.
Núna hálfri öld síðar hamast menn við að breyta jeppum í hálfgerða traktora aftur til að komast sömu leið. Reyndar hið besta mál þó hvorki sé það ódýrt né einfalt.
1988 minnir mig keypti ég mér nýja Lödu 1200. Þá ódýrasti og kraftminnsti bíll sem fáanlegur var. Fljótlega kom í ljós að það mátti fara ýmislegt á þessu. Helsti annmarki bílsins voru slöngudekk sem setti úrhleypingum viss takmörk. Veðurfar er nú samt þannig hérlendis að harðfenni er nokkuð algengt. Þannig mátti aka um allar trissur án þess einu sinni að hleypa úr. Bíll sem var rúmlega tonn að þyngd og á skurðarskífum.
Stundum var harðfennið og hálkan slík að keðjur á öllum voru eina leiðin til að komast áfram og getað stýrt bílnum. Þannig var t.d. farið yfir Eyjafjallajökul eitthvert haustið. Haustið eftir var reyndar farið á Hyundai Elantra á keðjum á öllum á Snæfellsjökul. Þá voru galopnar ljótar sprungur í hliðarhalla efst á jöklinum og því ekki þorandi annað en að keyra með brodda á fótum og með öxi tiltæka færi bíllinn af stað á glerinu. Að keyra beinskiptan bíl á fullorðins broddum er reyndar frekar erfitt.
Svo komst ég yfir slöngulaus dekk undir Löduna. Þá þurfti ekki lengur harðfenni. Nýkominn með dekkin var farið á Skjaldbreið en vegna kraftleysis hætt við nálægt toppi. Þaðan inn á hábungu Langjökuls. Þá var notast við fyrsta „hand“ GPSinn hér á landi (nokkur kíló). Stundum varð þetta alveg loftlaust en aldrei affelgaðist. Með rússneskri handpumpu var svo dælt í dekkin.
Allt var þetta farið einbíla sem gerði þetta bara meira krefjandi og eftirminnilegra.
Boðskapurinn í þessu er að fyrst hægt er að fara á óbreyttum eins drifs fólksbílum um allar trissur þá er hægt að fara á lítt eða óbreyttum jeppum meira en margan grunar.
Peningarnir flæða ekki beinlínis úr vösum allra í dag þó það geri það vissulega hjá sumum. Menn þurfa ekkert endilega ofurbreyttan bíl til að fara um fjöll og jökla landsins. Menn verða bara að nota það sem til er. Og ég get lofað því að það er síst minna ævintýri.
Kv. Árni Alf
You must be logged in to reply to this topic.