This topic contains 21 replies, has 1 voice, and was last updated by Vésteinn Finnsson 13 years, 2 months ago.
-
CreatorTopic
-
20.10.2011 at 18:20 #220882
Fyrir rúmlega hálfri öld (4. jan 1958) komust menn landleiðina á Suðurpólinn í þriðja skiptið. Þarna voru á ferðinni nokkrir Ferguson traktorar og jafnframt fyrstu vélknúnu ökutækin sem þangað komu. Þessir traktorar voru óbreytt fjöldaframleiðsla nema hvað búnir frumstæðum beltum sem með lítilli fyrirhöfn var hægt að henda utan á dekkin á þeim.
Einfaldleikinn gæti varla verið meiri. Ódýrt og einfalt.
Núna hálfri öld síðar hamast menn við að breyta jeppum í hálfgerða traktora aftur til að komast sömu leið. Reyndar hið besta mál þó hvorki sé það ódýrt né einfalt.
1988 minnir mig keypti ég mér nýja Lödu 1200. Þá ódýrasti og kraftminnsti bíll sem fáanlegur var. Fljótlega kom í ljós að það mátti fara ýmislegt á þessu. Helsti annmarki bílsins voru slöngudekk sem setti úrhleypingum viss takmörk. Veðurfar er nú samt þannig hérlendis að harðfenni er nokkuð algengt. Þannig mátti aka um allar trissur án þess einu sinni að hleypa úr. Bíll sem var rúmlega tonn að þyngd og á skurðarskífum.
Stundum var harðfennið og hálkan slík að keðjur á öllum voru eina leiðin til að komast áfram og getað stýrt bílnum. Þannig var t.d. farið yfir Eyjafjallajökul eitthvert haustið. Haustið eftir var reyndar farið á Hyundai Elantra á keðjum á öllum á Snæfellsjökul. Þá voru galopnar ljótar sprungur í hliðarhalla efst á jöklinum og því ekki þorandi annað en að keyra með brodda á fótum og með öxi tiltæka færi bíllinn af stað á glerinu. Að keyra beinskiptan bíl á fullorðins broddum er reyndar frekar erfitt.
Svo komst ég yfir slöngulaus dekk undir Löduna. Þá þurfti ekki lengur harðfenni. Nýkominn með dekkin var farið á Skjaldbreið en vegna kraftleysis hætt við nálægt toppi. Þaðan inn á hábungu Langjökuls. Þá var notast við fyrsta „hand“ GPSinn hér á landi (nokkur kíló). Stundum varð þetta alveg loftlaust en aldrei affelgaðist. Með rússneskri handpumpu var svo dælt í dekkin.
Allt var þetta farið einbíla sem gerði þetta bara meira krefjandi og eftirminnilegra.
Boðskapurinn í þessu er að fyrst hægt er að fara á óbreyttum eins drifs fólksbílum um allar trissur þá er hægt að fara á lítt eða óbreyttum jeppum meira en margan grunar.
Peningarnir flæða ekki beinlínis úr vösum allra í dag þó það geri það vissulega hjá sumum. Menn þurfa ekkert endilega ofurbreyttan bíl til að fara um fjöll og jökla landsins. Menn verða bara að nota það sem til er. Og ég get lofað því að það er síst minna ævintýri.
Kv. Árni Alf
-
CreatorTopic
-
AuthorReplies
-
20.10.2011 at 21:33 #739919
Nei þetta getur ekki verið Árni, það er engan vegin hægt að aka í snjó öðruvísi en á a.m.k. 44 tommum og helst 49 tommum og 5 á tonnum af járni.
En að gamni slepptu þá eru ekkert svo margir áratugir síðan menn þóttust helvíti öflugir á 35 tommu Toyotum og fóru mikla leiðangra þvert og endilangt landið. Að vísu verður að játast að þetta skemmtilega harðfenni er að verða nánast aðeins í minningunni og reglan krapi eða púður. En það er örugglega hægt að ferðast helling þó bílarnir séu eitthvað minna breyttir. Það getur tekið meiri tíma og þurft meiri æfingar en er það ekki einmitt það sem við erum að sækjast eftir. Góð áminning Árni.
Kv – Skúli
20.10.2011 at 22:54 #739921Skemmtileg lesning Árni, takk fyrir mig.
Þetta á vel við mig um þessar mundir. 38", 200 hp, læsti, létti snjójeppinn mun lúra í skúrnum um helgina ekki á númerum meðan ég fer á fjöll á nær óbreyttum Terrano…..:-)
Kv. Freyr
22.10.2011 at 20:07 #739923Verð að vera ósammála Skúla hvað varðar harðfennið. Harðfenni er og hefur alltaf verið til ama og leiðinda á fjöllum a.m.k. fyrir skíðamanninn. Það fer engin heilvita maður á fjöll eða jökul að vetrarlagi án mannbrodda. Ástæðan er hættan á harðfenni.
Harðfenni getur verið fjallamanninum hættulegt á fleiri vegu. Að geta ekki grafið sig niður getur verið alvarleg staða. Þannig lentum við í aftakaveðri efst á Eyjafjallajökli laugardag páska 1983 sem átti að vera síðasti dagur svonefnds Suðurjöklahrings. Reyndum að grafa okkur niður með ísöxum án árangurs. Í verstu hviðum tókust menn á loft með snjóþotum sínum. Fukum einfaldlega niður vestanverðan Jökulinn undan austan áttinni og lentum í gili ásamt öllum lausasnjónum. Held að sjaldan hafi maður verið jafn hætt komin.
Hef unnið s.l. sjö vetur í Bláfjöllum. Þar er harðfenni vandmál. Ég sé litlar breytingar til batnaðar. Harðfenni og mikill halli fer illa saman a.m.k. fyrir vélsleða og gúmmídekk þrátt fyrir að allt sé þrælneglt. Þá koma keðjurnar til sögunnar. Sexhjól á keðjum fer t.d. miklu meira en vélsleði og er mun öruggara. Snjótroðararnir slá samt öllu við á sínum ofurnöglum.
Ísinn á skriðjöklum er mjög misjafn. Stundum meir í sól og sumarhitum en annars glerhörð glæra. Fórum á Lödunni upp á Gígjökul eitthvert haustið. Þá var rigning og ísinn glerhart blautt svell og ekki séns að standa nema á broddum. Með keðjur á öllum var samt lítið mál að keyra á örmjóum ósléttum íshryggjum meðfram djúpum sprungum og svelgjum sem léttilega hefðu gleypt bílinn. Þarna komu keðjurnar meir að segja mér á óvart.
Það erfiðasta var að keyra þurfti beinskiptan bílinn á broddum með ísöxi nánast í annari hendi. Erfitt að kúpla og gefa fínlega inn auk þess sem gúmmímottan vildi festast í broddunum.
Talandi um krapa þá keyptu Vatnamælingar svona Ferguson með beltum 1959 eða 60. Sigurjón Rist vatnamælingamaður lofaði þennan traktor upp til skýja í ævisögu sinni „Vaddúddí“, sérstaklega hversu duglegur hann var í krapa. Í haustleiðöngrum á jökla þá komst traktorinn léttilega yfir ójafnan illfæran ísinn á jöðrum jöklanna ólíkt snjóbílum. Gaf hann snjóbílum (Bombardier og Weasel) frekar laka einkunn í samanburði við traktorinn. Frekar lágt var (og er) undir snjóbíla sem gátu setið á kviðnum í krapa meðan hátt var undir traktorinn.
Það eru nokkrir svona Fergusonar á beltum til hérlendis. Kannski maður kaupi sér einn. Dálítið kreppulegt kannski!
Kv. Árni Alf.
24.10.2011 at 13:49 #739925Þetta var mjög áhugaverð lesning og gaman að.
Við vorum einmitt að ræða það um helgina þegar ég var fastur í drullu að keðjur hefðu getað hjálpað. Ég á alveg eins von á því að fara og útbúa mér svona keðjur til að prufa í vetur.
Þegar þið vorðu með svona keðjur voru þetta bara venjulegt dót eða voru þetta svona bílakeðjur með útstandandi broddum?
Hefur einhver reynslu af því að keyra með keðjur á úrhleyptu jeppadekki?Ívar
24.10.2011 at 16:50 #739927Þessar fólksbílakeðjur voru bara einfaldar þverbanda gaddakeðjur. Held að flestar fjöldaframleiddar keðjur séu með göddum. Er samt ekki viss að þessir gaddar breyti neinu stórkostlegu nema þá á hreinum ís.
Án þess að hleypa duglega úr hefðu menn aldrei komist neitt áfram í þessum ferðum. Án þess sátu menn bara kyrrir og spóluðu. Keðjur virka nefnilega miklu betur eftir að hleypt hefur verið úr. Stærri flötur og meira grip rétt eins og dekkin sjálf.
Keyptum léttar gaddakeðjur (hálfgildings krosskeðjur) undir 38“ og 44“ jeppa Hjálparsveitarinnar. Þetta eru reyndar fisléttar vörubílakeðjur úr einhverjum léttmálmi. Sjálfur hef ég nú aldrei verið með í för þegar þær hafa verið notaðar sem hefur nú venjulega verið á skriðjöklum eða ís. Eitthvað hefur mönnum hins vegar gengið misvel að láta þær tolla örugglega á dekkjunum. Mikilvægt er að hafa öflugar gúmmíteyjur (t.d. þverskornar gúmmíslöngur) til að strekkja á keðjunum utanverðum. Þetta hefur eitthvað brugðist að mér skilst. Sumir vilja segja að þetta hafi eitthvað með lögun dekkjanna að gera þ.e. keðjurnar passi hreinlega ekki. Leggist menn aðeins yfir vandamálið þá er það örugglega auðleyst.
Þykist vita að Jöklarannsóknafélagið notist við heavy duty gaddakeðjur af gamla skólanum á sínum 46“ með ágætis árangri. Þurfi menn að komast áfram í hvaða færi sem er t.d. vegna vinnu eða björgunarstarfa þá eru keðjur nauðsynlegur búnaður.
Kv. Árni Alf.
26.10.2011 at 01:29 #739929Oft velt því fyrir mér hvers vegna menn uppgötvuðu mátt úrhleypinga svona seint og hversu hægt sú þekking hefur breiðst út.
Þekkt er þegar Brandur Stefánsson (Vatna Brandur) hleypti úr dekkjum Ford bíls í fjörunni við Vík árið 1927 til að komast áfram í lausum sandinum.
1960 og jafnvel miklu fyrr virðist CTIS (central tyre inflation/deflation system ) komið í flestalla trukka í Rússlandi. Þannig geta menn stýrt loftþrýstingi í dekkjum innan úr bíl á ferð. Skalann 7-60 pund sá ég t.d. gefið upp fyrir einhvern 1960 tékkneskan Tatra trukk minnir mig. Úrhleypingar virðast þannig almennt þekktar austan við járntjald mjög snemma.
Úrhleypingar verða ekki almenn þekking hérlendis fyrr en vel upp úr 1980.
Þrátt fyrir að íslendingar telji sig nýjungagjarna þá er Landinn merkilega íhaldsamur og fylgist lítt með á sumum sviðum.
Haustið 2004, sem var óvenju illviðrasamt og snjóþungt, dvaldi ég um tíma austur undir Eyjafjöllum. Komst þá í kynni við dráttarvélar eftir tuttugu ára hlé. Í stað bensín Fergusona voru komnar nútíma vélar með drifi á öllum og bremsum.
Hægt að harðlæsa öllu með einum takka, ótakmörkuð niðurgírun, vökvakúpling, stór radial dekk, o.s.fr. Fannst tækið hafa allt til að bera að gera það gott á snjó með smá úrhleypingu. Fullur bjartsýni byrjaði ég á að tala við bændur, fór í fróðleiksferðir í helstu dráttarvélaumboð landsins og talaði við sölumenn, dekkjaverkstæðismenn o.s.fr. Engin taldi raunhæft að hleypa nokkuð úr. Myndi skemma dekkin auk þess sem kantar á felgum væru þannig að þetta myndi affelgast um leið. Niðurstaða spekinganna var sú að dráttarvél gæti aldrei flotið á snjó.
Ákvað samt að prófa þrátt fyrir úrtölur. Farið var upp Hamragarðaheiði í gljúpum haustsnjó og leiðindafæri. Hleypt var niður í 8 pund til að byrja með en við það bælast dekkin nokkuð vel. Ekki leið á löngu áður en gígbrún Eyjafjallajökuls var náð.
Til að fullvissa mig um að þennan árgangur bæri ekki eingöngu einskærri snilld ökumanns, einstöku færi eða tilviljun að þakka voru farnar nokkrar ferðir þarna upp í misjöfnu færi. Innan á felgum traktora eru mjög stórir ventlar. Þannig mátti hleypa úr stórum dekkjunum á örskotstundu. Stundum missti maður fullmikið loft úr á leiðinni upp. Helstu vandkvæðin voru að engin loftdæla var tiltæk. Sökum hæðarmunar voru dekkin því oftast loftlaus þegar komið var niður á þjóðveg úr 1600 m hæð. Aldrei affelgaðis þrátt fyrir loftleysi, hliðarhalla og alls konar æfingar.
Eitthvert skiptið var harðfenni og illstætt óbroddaður á svínhálum jöklinum. Þá kom mynstur traktorsdekkjanna á óvart. Kubbar dekkjanna skáru sig niður eins og háhælaðir skór niður í hjarnið. Þetta mynstur er einnig gott í blautum snjó og krapa þar sem þau hreinsa sig vel.
Fann svo manual í plasti. Þar gaf framleiðandi upp þrýsting niður í 6 pund og það fyrir vinnu á auðri jörð. Þá má nú væntanlega fara talsvert neðar í snjó. Á netinu má sjá að radial dekk undir traktora koma fram uppúr 1990 minnir mig. Og þau eru sérhönnuð til úrhleypinga. Traktor er því ekkert annað en ofurbreyttur jeppi nema hvað hann er alveg original.
Kv. Árni Alf.
26.10.2011 at 10:22 #739931Er sjálfur fæddur og uppalinn í sveit en hef aldrei prófað þetta. Flutti kannski of fljótt á mölina en það spurning að prófa þetta í vetur í sveitinni
Eitt verður þó að taka inni í reikninginn og það er verðið á svona tækjum, en það getur hlaupið á tugum milljóna fyrir nýja vél. Sá eina 2007 Case á 6,5 m.kr notaða.
Þá er líklegra ódýrara að breyta jeppa í alvöru fjallabíl fyrir ca. helminginn af verði svona dráttarvélar (sem dæmi var 54" notaður RAM á ca.15 m.kr. á bílasölu og hann kemst næstum allt).
Annað er farþegafjöldi en í stærri vélunum væri hægt að koma 1 farþega með en það er enginn lúxus þar á ferð.
Einangrun er þriðja en yfirleitt eru húsin aðallega glerhús og því erfitt að halda þeim heitum í miklum kulda, sérstaklega þar sem miðstöðvarnar eru ekki þær öflugustu.Því þyrfti að breyta þeim og bæta nokkuð, bara til þess að halda hita í húsinu.
Vissulega myndu svona vélar henta í sérhæfðari verkefni, s.s. björgunar- og rannsóknarstörf. Eins myndu þær örugglega nýtast vel sem undanfari í ferðum í þungu færi (aftur björgun eða rannsóknir).
Skemmtileg pæling engu að síður.
26.10.2011 at 11:18 #739933Sælir félagar. Ég held að aðal ástæðan fyrir því að menn hleyptu ekki úr dekkjunum hér áður hafi verið að dekkin voru með slöngu og eldri gerðir af dekkjum voru þannig að þau lögðust illa við úrhleypingu og mynduðu djúp för á jöðrunum og miðjan snerti varla veginn. Þessi gömlu dekk voru fljót að eyðileggjast ef keyrt var á þeim loftlitlum. Svo var þetta náttúrulega ekki vani fyrir tíma radialdekkjanna og vaninn telur alltaf mikið. Mér finnst skrítin kenning í nýlegri ábendingu frá Umferðarstofu að bæði of mikill loftþrýstingur og minni en gefið er upp valdi minna veggripi . Ég hef góða reynslu af að minnka um þó ekki sé nema örfá pund í dekkjunum í hálku jafnvel á fólksbílum. Það er brött brekka á leiðinni heim til mín og góð til tilrauna í snjó og hálku. KV.Olgeir
26.10.2011 at 12:41 #739935Snemma á nýjunda áratugnum voru framdrifnar dráttarvélar notaðar við björgunarstörf eftir flugslys fyrir austan, í Smjörfjöllum ef ég man rétt. Þóttu gríðarlega öflug torfærutæki af þeim sem þar voru.
Dráttarvél er jú ekkert annað en purpose-build torfærutæki.
Reyndar er alveg óþarfi að vera hleypa úr þessu, bara setja undir þær 75tommu radial blöðrur
http://www.michelinag.com/agx/en-US/pro … ts=Englishkv
Rúnar.
26.10.2011 at 17:58 #739937Þetta er nú með skemmtilegri þráðum sem ég hef séð lengi hér á vef klúbbsins. Það hefur verið í gangi manna á meðal, bæði á YouTube og eins á geisladiski mynd tekin í hundrað bíla ferðinni 1988 og svo annarri ferð, sem farin var nokkru seinna og þá um Hveravelli og austur með jökli. Skemmtilegt að horfa á þetta og kannski ekki síst hvað margir lögðu í svona ferð á 33" dekkjum. Einhvernveginn hefur það festst inni í mínum ferkantaða haus að stórar, hundrað og fimmtíu hestafla dráttarvélar væru svo déskoti þungar að þær ættu ekkert erindi á snjó. Líklega er það tóm della í manni. Takk fyrir þetta, ágætu félagar.
26.10.2011 at 19:16 #739939Svo má ekki gleyma því að það er mjög auðvelt að setja dráttarvél á "tvöfalt", setja auka felgu og dekk utan á dekkin sem eru fyrir.
Var eitt sinn að vinna á traktorsgröfu með svona búnað, og flaut þetta helling í mýrum þó svo að dekkinn væru harðpumpuð. Að vera á traktor með úrhleyp og tvöfalt hlýtur að vera rosalegt.
[img:2rsp1ju7]http://t2.gstatic.com/images?q=tbn:ANd9GcSmkvEcA76NwQV0chPkKZnaGDEWnEhjaeXWHfJebhOvn6PNrMF-1g[/img:2rsp1ju7]
26.10.2011 at 20:29 #739941Afsakið, en mig langaði að bæta við sem ég gleymdi áðan. Beltin, sem notuð voru á gamla Ferguson, voru tvennskonar og hvorutveggja útfærslan þekktist hér á landi. Bæði var um að ræða hálfbelti, en þá var skotið inn öðru hjólasetti milli fram og afturhjóla og hinsvegar heilbelti, sem náðu á framhjólin. Þá var vélinni stýrt með bremsunum. A.m.k. einn uppgerður traktor á heilbeltum held ég sé til á Samgönguminjasafninu á Yztafelli. Ég veit um einn traktor hér í nágrenninu á hálfbeltum, sá sem hann á heitir Einar Guðmundsson og er líklega einhver reyndasti flutningabílstjóri á þjóðvegum landsins nú um stundir og býr þar sem heitir að Veðramóti. Hann notaði þessa vél mikið á árum áður heima á búi sínu, bæði til vetrarferða og eins til að hann kláraði sig betur á blautu landi og í brattlendi, en túnin á Veðramóti eru nánast öll í miklum bratta.
27.10.2011 at 21:52 #739943Held að menn séu nú ekkert sérstaklega að hugsa þessi tæki til samkeppni við Þorvarð Inga og félaga. En Bragi nefnir þarna björgunarþáttinn. Búið ámoksturstækjum lít ég á þetta sem eitt öflugasta alhliða björgunartæki sem til er á landinu og það sem oft á tíðum er nærtækast. Í neyð á að nota það.
Stórir trukkar færir í flestan sjó eins og vatnsmiklar jökulár eru nánast að verða minningin ein, því miður. Á sama tíma og stórum dráttarvélum fjölgar.
Lendi menn í hrakförum í vatnsmikilli á t.d. á Þórsmerkursvæðinu utan sumartíma mega menn búast við langri bið. Nærtækasti trukkur er á Hellu sem er ansi langt í burtu. Heill her stórra dráttarvéla sem er í næsta nágrenni og kemst mun fyrr á vettvang hefur aldrei verið virkjaður. Ég tel þessa stöðu öryggismála á svæðinu óviðunandi.
Lendi jeppi í verulegum vandræðum, t.d. niður um ís, velti í á o.s.fr. þá geta ámoksturstæki dráttarvéla oft meðhöndlað margt á mýkri hátt en ella og lágmarkað tjónið á ökutækinu. Það getur t.d. verið gott að geta lyft lóðrétt í stað þess að draga. Ámoksturstækin eru einnig hin besta sprunguvörn á jökli.
Harður áróður er rekin, sérstaklega í Bandaríkjunum, og mikið lagt upp úr sem mestu floti traktora og fylgitækja. Slíkt er fengið fram með sífellt belgmeiri dekkjum og úrhleypingum. Ástæðan er fyrst og fremst að með því að minnka þungann á jarðveginn fæst mun meiri uppskera. Auk þess minnkar olíueyðsla mikið. Allt spurning um pening. Samfara þessu virðist gamla sovéska CTIS úrhleypisystemið vera að ryðja sér til rúms.
Þarna úti eru gerðar miklar rannsóknir á öllu þessu og m.a. birtar greinar í ritrýndum vísindatímaritum. Spennandi að fylgjast með. Kannski kemur eitthvað ofurfarartæki út úr þessu öllu.
Íslenskir bændur virðast hins vegar lítið fylgjast með. Eru út á túni í orðsins fyllstu merkingu.
Svo menn misskilji þetta ekki þá er engin að halda því fram að nútíma traktor komi eitthvað í stað breyttra jeppa. Þetta er bara enn eitt tækið í flóru faratækja. Það er hins vegar verulega vanmetið. Sér í lagi sem björgunartæki. Þröngsýni er eitthvað sem við megum ekki við í kreppunni.
Kv. Árni Alf.
28.10.2011 at 22:21 #739945[youtube:25045ddn]http://www.youtube.com/watch?v=QTNim9Eifuc&feature=share[/youtube:25045ddn]
Er þetta bara ekki málið.
29.10.2011 at 22:46 #739947[youtube:xf5d77ae]http://www.youtube.com/watch?v=YnRRGW6z3UQ[/youtube:xf5d77ae]
svo er þetta málið í krapanum ekki satt
kv vesteinn
31.10.2011 at 11:03 #739949Er samt ekki eitt sem menn eru að gleyma. Málið með jeppana er ekki alltaf það að drífa ultimate mest heldur líka að gera það á skaplegum tíma og það fari vel um menn og farangur.
Þar finnst mér dráttarvélarnar verða svoldill dragbítur. Hinsvegar minnir þessi beltapæling mig á að þetta var í umræðunni hér fyrir einhverju. Er þetta ekki bara að verða commercially available fyrir okkur hin. Jeppar gætu verið á 35-38" á sumrin og tekið svo svona beltasett eins og er undir dráttarvélinni á veturnarnarÍvar
31.10.2011 at 15:09 #739951Er ekki bara málið að hætta þessum breytingum og kaupa sér MATTRACKS og skella undir þegar eitthvað er að færð ?
Kostnaðurinn er minni í mörgum tilvikum og slitið minna 😉[youtube:3iodgaz7]http://www.youtube.com/watch?v=zDlLt28WmOA[/youtube:3iodgaz7][youtube:3iodgaz7]http://www.youtube.com/watch?v=rhUnVOAE904[/youtube:3iodgaz7]
31.10.2011 at 16:16 #739953Það er nú svolítið skondið að sjá hvernig þessi skemmtilegi þráður hefur þróast. Í upphafi er ágætur pistlill frá Árna Alfreðs um það að nú á krepputímum sé vert að hafa í huga að vel sé hægt að ferðast á minna breyttum jeppum, það þurfi ekki endilega 44plús til að bregða sér til fjalla, en nú er umræðan komin út í pælingu með að breyta jeppunum í skriðdreka á beltum. Spurning hvernig þessi beltabúnaður virkar í krapa sem mér finnst vera helsta hindrunin í vetrarferðum í dag, maður þarf alveg að sitja um snjóinn til að komast í hann áður en hann breytist í krapa. Þá vil ég frekar harðfenni, svona fyrir jeppaferðir allavega (auðvitað annað mál á skíðum). Hreinn og klár snjór er hins vegar minna vandamál þó þungt færi geti vissulega dregið úr ferðahraða, með lagni á festa í snjó að vera undantekning.
Kv – Skúli
P.s. Reyndar finnt mér trikkið með plankann í drullunni hreinasta snilld, væri þó hræddur um öxlana mína ef maður færi út í svona æfingar.
02.11.2011 at 19:20 #739955Vatna Brandur í Vík byrjaði sinn feril 1927 á eins drifs „Gamla“ Ford á örmjóum dekkjum. Lét það samt ekki aftra sér frá því að þvælast um vötn og vegleysur. 1930 var hann komin á Ford „Drossíu“ eða það sem hann kallaði fólksbíl. Þessir bílar voru á teinafelgum, ekki með mismunadrifi (læst), lágt gíraðir og sæmilega hátt undir þá. Fólksflutninga frá Vík og vestur að Markarfljóti stundaði Brandur en yfir margar ár var að fara sem gátu orðið illskeyttar. Þegar lítið var í eða vel lá kom fyrir að Múlakvísl eða Markarfljót væru lögð að velli.
Núna allmörgum árum síðar hafa alltof margir viljað festast í þeirri hugsun að ekkert sé orðið fært nema á mikið breyttum bíl. Þessu hugarfari þarf að breyta.
Fljótlega eftir að ég keypti Löduna (1988-89?) lá leiðin inn á Þórsmörk. Ferðinni var heitið í margmennið inn í Húsadal. Þegar komið var að Krossá var allmikið í ánni. Óð á undan meðan litli bróðir keyrði. Reyndar var ekki hægt að vaða vatnsmesta álinn en allt gekk þetta vel. Það tók talsverðan tíma að finna gott vað þannig að á eftir Lödunni myndaðist löng halarófa jeppa og rútubifreiða. Þetta var hálf skondin sjón.
Næstu sumur voru farnar fjölmargar ferðir þarna innúr á bílnum. Reyndar var Steinsholtsáin oft verst við að eiga enda oftast bara um eitt vað að velja. Hvanná gat líka verið erfið ef hún gróf sig niður. Krossáin bauð hins vegar oftast uppá að hægt var velja sér fleiri en eina leið, m.ö.o. velja vað.
Helsta vandamálið var hversu bíllinn var hátt gíraður. Kraftleysið var líka það mikið að það þurfti nánast að fara á botngjöf yfir stærri ár. Þannig gekk vatn iðulega hátt upp á húdd. Oft var vaðið yfir á undan bílnum og aðstæður kannaðar, léki vafi á einhverju. Þetta þurfti allt að gera í meiri sátt og samlyndi við straumvötnin en á öflugri bíl.
Aðalamálið var að láta strauminn hjálpa bílnum yfir með því að slá nógu vel undan straumi. Þannig var það straumurinn sem stundum fleytti bílnum yfir ána frekar en hann færi þetta á eigin afli. Góð lending með lágum bakka var jafnframt lykilatriði. Hins vegar var stundum látið flakka fram af háum bakka á leiðinni út í.
Það sem var mest gefandi við þessar ferðir er að þetta var miklu meira krefjandi en maður hafði vanist á jeppa. Þarna þurfti virkilega að spá og spekúlera. Sem og skilaði sér í því að það kom merkilega sjaldan fyrir að bíllinn stoppaði.
Stoppi maður á svona lágum og litlum bíl þá er í flestum tilfellum nóg að standa einfaldlega upp og vaða í land. Séu menn hins vegar á miklu hærri og stærri bíl þá getur slíkt reynst þrautin þyngri. Það er því dálítið afstætt að tala um hvað er öruggt farartæki og hvað ekki þegar um straumvatn er að ræða.
Fyrst hægt hefur verið að fara þetta á óbreyttum fólksbíl flesta daga sumars þá er þetta vel fært og öruggt venjulegum óbreyttum jeppa flesta daga ársins. Menn verða bara að nota skynsemina og fara varlega.
Styrkur jeppamennsku hér á landi hefur að hluta legið í því hversu margir hafa stundað hana. Það er líka komin heil kynslóð sem stendur í þeirri trú að menn komist varla út fyrir veg á minni en 38“ dekkjum. Sá hópur sem getur rekið þannig bíla fer því miður hratt minnkandi þessa dagana. Menn þurfa að losna við þessa meinloku úr höfðinu.
Kv. Árni Alf.
02.11.2011 at 19:47 #739957Ég hef fylgst með þessari umræðu frá byrjun og er gaman að sjá hversu víða menn fara. Það sem ég hef kannski helst til málanna að leggja er það að vera sammála Árna Alfreðssyni. Það er hverjum jeppamanni nauðsynlegt og ætti að vera krafa um, byrja jeppamennskuna/ferðamennskuna á litlum lítið eða óbreyttum bíl.
Þannig byrjaði ég sjálfur á Lödu 1200 árg. 1974. Eftir því sem buddan þykknaði og áhuginn ókst, stækkuðu ökutækin og urðu öflugri. Á gömlum Rússajeppa á 36" dekkjum taldi maður sig færan í flestan sjó og sömuleiðis á 1960 módelinu af MB Unimog á 33" dekkjum (900-20)
Þessir bíla voru notaðir til ferðalaga allt árið um kring, þó mest í námunda við heimahagana (höfuðborgarsvæðið). Seinna komu alvöru trukkar eins og Ford F-250 med Bedford díesel og 37" dekk. Sá var notaður mikið í Mörkina og fleira slark, enda á þeirra tíma mælikvarða mjög öflugur bíll.
Seinna komu svo öflugri heimasmíðaðir bílar eins og Mazda B2600 pallbíll á 44" dekkjum með V8 benzínmótor. Samt var þarna á milli bíll sem varð þekktur í þröngum hópi sem "öflugasti bíllinn". Þar var á ferð Lada Sport á 32" dekkjum með lægri drif og lægri hluföll í gírkassa (til að nýta vélaraflið betur). Sá bíll reyndist vel í allskonar slarki bæði í krapa og þaðan af lakara færi.
Það hefur nú alltaf staðið til að setja inn myndir af þessum ökutækjum en alltaf hefur eitthvað orðið til þess að ekkert hefur orðið úr verki.
Það að það "þurfi" ofvaxinn mikið breyttann trukk til að komast út í búð, er náttúrulega út í hött, maður reynir að gera sitt besta með það sem maður hefur í höndunum hverju sinni, 44" Patrol eða gamall Zetor með fjórhjóladrifi skiptir ekki máli ef maður getur gert það sem til stóð.Kv. Steinmar
-
AuthorReplies
You must be logged in to reply to this topic.