This topic contains 5 replies, has 1 voice, and was last updated by Einar Steinsson 19 years, 2 months ago.
-
Topic
-
Smá pæling varðandi könnina sem nú er í gangi. Það eru að vísu aðeins 117 svör komin þegar þetta er skrifað sem er auðvitað ekki stórt úrtak, en samt gaman að spá í þetta.
Aðeins 0,8% (sem er þá 1 svar) segir að aðgangur að skálunum hafi ráðið mestu um að ganga í klúbbinn en 9,4% (11 svör) velja afslættina sem áhrifamesta þáttinn.
2,5% meta baráttuna í umhverfismálum mest en 23% (varnar)baráttuna fyrir jeppabreytingum. Kemur reyndar ekkert á óvart að breytingamálin skori hátt, það er mál sem snertir menn persónulega með afgerandi hætti. Ef klúbburinn hefði aldrei gert neitt í þeim málum væri ekkert til hér á landi sem heitir löglegur 38 tommu jeppi, hvað þá meir og ef klúbburinn myndi hætta að halda vöku í þeim efnum væri bara spurning um hversu mörg ár liðu þar til lög og reglugerðir yrðu með þeim hætti að enginn nennti að standa í því að koma breyttum jeppa löglega á götuna. Ef við uppfræðum stjórnsýsluna ekki um raunveruleikann í þeim málum gerir það enginn fyrir okkur, en villukenningar sem oft hljóma sannfærandi en eru bara rangar yrðu einu viðmiðin sem yfirvöld hefðu til að vinna með.
Svo er einn sem velur fundina og einn sem velur félagsritið. Það fyrra kemur mér svosem ekkert á óvart þannig séð, en frekar hið síðara. Umræður um Setrið á síðasta aðalfundi og hér á vefnum eitthvað áður bendir ótvírætt til þess að fyrir marga skipti miklu máli að fá það sent mánaðarlega.
Svo er um fimmti hver sem gekk í klúbbinn aðallega vegna félagsskaparins. Veit ekki hvort maður eigi að túlka það sem gott eða slæmt, en mætti svosem alveg skora hærra.
Eik spurði einhvers staðar hvers vegna aðgangur að VHF rásunum væri ekki valkostur hérna og það er alveg réttmæt ábending. Sérstaklega í seinni tíð er örugglega nokkuð um það að menn ganga í klúbbinn vegna þeirra. Ég reikna með að það hafi bara gleymst þegar könnunin var sett inn, en valmöguleikarnir þarna eru 10 og mega tæpast vera mikið fleiri upp á dreifingu á svörum. Það eru þarna þrír liðir með aðeins eitt svar sem segir eiginlega að svarmöguleikar eru of margir. Þegar svona fá svör eru á bak við hvern svarmöguleika er raunar mjög lítið hægt að túlka svörin af einhverri alvöru, þó auðvitað sé í lagi að skemmta sér við það. Þessi túlkun mín hér er því kannski lítið merkilegri en stjörnuspá dagblaðanna, en gefur þó kannski einhverja hugmynd. Allavega hvað varðar þá liði sem skora hæst.
Kv – Skúli
You must be logged in to reply to this topic.