Forsíða › Forums › Spjallið › Umhverfismál › Kárahnjúkar
This topic contains 24 replies, has 1 voice, and was last updated by Hlynur Snæland Lárusson 22 years, 5 months ago.
-
CreatorTopic
-
29.03.2002 at 08:57 #191416
Þá eru norðmenn í annað sinn á jafn mörgum árum búnir að forða Íslendingum frá því að eyðaleggja einstæð og óbætanleg nátúruverðmæti vegna stundarhagsmuna fárra. Ennfremur er orðið openbert að forsvarsmenn téðra fræmkvæmda eru berir að lygum, bæði gagnvart hver öðrum og íslensku þjóðinni, sem ætlað var að borga brúsann.
Ef umræddar framkvæmdar væru arðbærar, óháð náttúruverndar sjónarmiðum, þá hefði ekki þurft að fara í mestu ríkisvæðingu Íslandssögunnar, til þess að fjármagna dæmið. Það er nefninlega þannig að ef verkefni er raunverulega arðbært, þá er nóg til af einkafjármagni í heiminum sem er sífellt að leita góðum fjárfestingarkostunum.
Það hefur alltaf legið fyrir að ríkisábyrgð væri forsenda fjármögnunar Kárahnjúkavirkjunar (sem almenningur hefði greytt fyrir með hærri vöxtum á öðrum skuldum íslendinga).
En það hefur ekki farið jafn hátt, að síðastliðin 30 ára hafa almennigsveitur greitt næstum þrisvar sinnum hærra verð að jafnaði fyrir raforku en stóriðja. Með öðrum orðum, almenningur og almennur atvinnurkstur, er látinn niðurgreiða orkuna handa stóriðjunni. -
CreatorTopic
-
AuthorReplies
-
29.03.2002 at 09:10 #460064
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Ertu að reyna að koma af stað stríði hérna á umræðuvefnum?
29.03.2002 at 09:11 #460066Sæll, sennilega er flest af þessu rétt hjá þér, svo er það bara spurningin hvoru meginn setið er við borðið. En perónlega tel ég rétt að koma upp stóriðju fyrir austan og hefði að mínu mati átt að stefna Norðuráli þangað austur á sínum tíma.
hafðu það svo sem allra best
Jon
29.03.2002 at 12:34 #460068Sælir félagar.
Þetta er sannarlega eldfimt efni…
Hér eiga ekki við sleggjudómar né einfaldar skýringar. Málið er einfaldlega mjög flókið og væri hægt að hafa um það langt mál… svo langt að enginn nennti að lesa það.
Í mínum huga verða menn að ræða þetta út frá hreinu hagsmunamati. Þá standa menn einfaldlega frammi fyrir spurningunni: Er réttlætanlegt að fórna þessum náttúrugæðum fyrir þá hagsmuni sem í staðinn koma??? Ég verð að játa að ég hef nokkurn skilning á sjónarmiðum beggja aðila. Mér finnst að virkjunarsinnum hafi á þessari stundu ekki tekist að setja fram sannfærandi rök fyrir því að það sé réttlætanlegt að fórna þessum náttúrugæðum. Af hverju eru menn að pukrast með orkuverðið? Af hverju hefur ekki verið hægt að blása út af borðinu umræðu margra mætra manna sem hafa fært fyrir því rök að verkefnið sé einfaldelga ekki arðbært? Einnig finst mér rétt sem eik segir, af hverju þarf að gera þetta á áhættu fólksins í landinu ef verkefnið er svona öruggt og skynsamlegt (bæði með ríkisábyrgðum og framlögum lífeyrissjóðanna)???
Á hinn bóginn verðum við að átta okkur á því að eðlileg framþróum verður ekki stöðvuð, enda er það hvorki skynsamlegt né æskilegt (ekki frekar en það var skynsamlegt að berjast gegn sjálfvirka símanum eða litasjónvarpinu…). Til þess að hámarka lífsgæði fólksins í landinu, þarf stundum að fórna einu til að fá annað. Við skulum ekki gleyma því að nú þegar hefur stórum svæðum á hálendinu verði sökkt til þess að hægt sé að framleiða þá raforku sem við nýtum nú þegar. Samfara þessu hafa fylgt ýmsar jákvæðar samgöngubætur o.fl. o.fl.
Væru menn til í að bakka þessu öllu til baka, hætta að nota rafmagn og skríða aftur inn á moldargólfin í torfbæjunum? Ég held ekki, spurningin er bara sú hvar á að setja mörkin? Ég skil vel vonbrigði austfirðinga sem sjá ekki framtíð í öðru en álbræðslu, vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi. Það hlýtur að vera erfitt að sætta sig við málflutning öfgamanna í náttúruvernd (sem eru að stórum hluta héðan af suðvesturhorninu), rífa sig oní rassgat vegna þessara mála fyrir austan en grjóthalda svon kjafti þegar risaálverum er komið fyrir í túnfætinum hjá þeim sjálfum…
Gætum okkar að tapa okkur ekki alveg í þessari umræðu, það eru gríðarlega margir vinklar á þessu og mörg ólík sjónarmið sem þarf að sætta. Hver sem endanleg ákvörðun verður, þarf að vanda mjög til hennar, sérstaklega ef menn ákveða að fara í virkjun. Þá verður ekki aftur snúið.
Ferðakveðja,
BÞV
29.03.2002 at 13:59 #460070Sælir félagar!
Þessi virkjana- og veitumál á hálendi Íslands, eru það stór og flókin mál, að það er ekki hægt að vera að með sleggjudóma hér á þessum vettvangi. Þar sem við erum ekki löglegir umsagnaraðilar er lítill tilgangur í því, en að vísu er öll umræða af hinu góða.
Stjórn okkar hvað upp um það að klúbburinn tæki ekki afstöðu með eða á móti þessari umræðu, sem skiljanlegt er.
Það sem mætti frekar gera er að halda umræðukvöld, t.d. í sal FÍ í Mörkinni og bjóða þangað forsvarsmönnum virkjannasinna og mótmælenda. Það væri einnig gaman að halda smá könnunn á vefsíðunni okkar til að sjá hlutfall og hug félagsmanna og þá um leið hvort menn teldu Kárahnjúka- eða Norðlingaölduvirkjun meiri röskun og því hvoru mætti fórna.
Við mættum 4 fulltrúar okkar, þ.e. tveir frá stjórninni og tveir úr umhverfisnefnd, á fund hjá Landsvikjun vegna kortagerðar á Tungnársvæðinu og komum við væntanlega að málum þegar líða fer á kortagerðina.
Mjög fróðlegt er að lesa og skoða vefi sem tengjast þessum málum öllum og eru þeir helstir; http://www.landsvirkjun.is, http://www.sudurland.is-gnupverjahreppur, http://www.thjorsarverfridland.is, http://www.landvernd.is .Með skinsamlegri verndunarkveðju
Magnús, umhverfisnefnd
fél. nr. R-2136
29.03.2002 at 22:46 #460072Það hafði lítið gerst á spjallrásunum undanfarna daga svo mér fannst tímabært að reyna að lífga aðeins upp á þær. Það virðist hafa tekist.
Ég hef alls ekki almennt verið á móti virkjunum. Ég vann um það bil áratug á Orkustofnun, og sé ekkert eftir því. Ég er á móti þeim virkjunum þar sem íslenskur almenningur er skattlagður beint eða óbeint til að kosta framkvæmdir sem ekki er efnahagslegur grundvöllur fyrir. Gott dæmi um slíka virkjun er Blönduvirkjun, sem var byggð meira en 10 árum áður en not fundust fyrir rafmagnið sem hún framleiðir, og þá var það selt á útsöluverði.
Besta prófið á það hvort slík verkefni eru arðbær eða ekki, er það hvort hægt er að fá einkaaðaila til framkvæma það án sérstakra styrkja eða niðurgreiðslna. Kárahnjúkavirkjun hefur ekki staðist það próf.
Ef hún hefði staðist það, þá þyrfti að meta það hvort efnhagaslegi ávinningurinn sé slíkur að menn vilji fórna þeim náttúrufyrirbærum sem um er að tefla. Ef þetta væri staðan, þá veit ég ekki hvaða afstöðu ég myndi taka. Það færi vætanlega eftir því hversu mikið framkvæmda aðilinn væri tilbúinn til að greiða fyrir aðstöðuna.
01.04.2002 at 22:31 #460074Hafið þið spurt borgarstjórnarframbjóðendur um það hagsmunamál Reykvíkinga að Orkuveitan fái að notast eingöngu við eigin rafmagn í stað þess að vera skikkuð til að kaupa sambærilegt forgangsrafmagn af Landsvirkjun á 2-3 földu Nesjavallaverði
Þessi þversögn er sérstaklega áhugaverð vegna 45% eignaraðildar Rvk. á LV.Karl
03.04.2002 at 09:03 #460076Það væru að mínu viti mikil mistök ef klúbburinn ætlaði að láta eins og sér komi framtíðar notkun á hálendi Íslands ekki við. Eftir því sem ég best veit er þetta heldur ekki raunin, ég veit t.d. ekki til þess að það sé ágreiningur um það í stjórn og umhverfisnefnd að við ætlum að gera kröfu um fulltrúa í ráðgjafarnefnd vegna væntanlegs Vantajökuls þjóðgarðs.
Það er í gangi virk umræða um það hversu langt út fyrir jökulinn þjóðgarðurinn eigi að ná. Það hefur verið talað um að hann tengist þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum. Eins kemur til greina að svæðið umhverfis Lakagíga og Langasjó verði gert að þjóðgarði.
Ef við viljum láta taka okkur alvarlega, verðum við því að vera undir það búnir að taka þátt í umræðum um það hvernig eigi að vega náttúruverðmæti þegar taka þarf afstöðu til hugsanlegra framkmæmda.
Varðandi Káranjúkavirkjun skiftir þetta ekki máli þessa stundina, vegna þess að ekki hefur fundist kaupandi sem tilbúinn að borga raunverulegt kostnaðarverð, hvað þá meira. Þetta gæti breyst hvenær sem er, þó það sé ekkert sem bendi til þess að það verði á allra næstu missirum.
03.04.2002 at 10:59 #460078
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Úr því að menn eru komnir út í ÞESSA sálma.
Af hverju á Reykjavík 45% í Landsvirkjun? Af því að sogsvirkjanirnar voru settar inn sem "hlutafé" Reykjavíkur inn í Landsvirkjun. Og hvernig eignuðust Reykvíkingar allar þrjár sogsvirkjanirnar, þar sem tvær voru reistar fyrir Marshall-aðstoðina? Ég veit ekki betur en að allt suðurland hafi fengið straum frá þessum virkjunum. Marshall aðstoðin átti EKKI að renna til Reykjavíkur eingöngu, hvað þá heldur að einhvert mannhaf gæti tekið sér eignarrétt á því sem út úr henni kæmi umfram aðra.
03.04.2002 at 12:15 #460080
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Ég veit ekki hvort stjórnun orkumála almennt geti talist til málefna sem varðar 4×4 klúbbinn en framkvæmdir á hálendinu hlýtur að gera það. Það er mjög skiljanlegt að Austfirðingar vilji róttækar aðgerðir í atvinnumálum á svæðinu og séu orðnir óþreyjufullir í þessu máli, enda margbúið að lofa þeim gull og grænum skógum. Það er hins vegar allt annað mál hvað við viljum vernda af hálendinu og hverju við fórnum til orkuframleiðslu. Eyjabakkar voru í umræðunni og niðurstaðan varð sú að þeim ætti ekki að fórna. Virkjun í Jökulsá á Fjöllum hefur líka verið í umræðunni sem myndi gera vatnsmesta foss landsins að einhverri sprænu. Líklegt að það sé eitthvað sem yrði nokkur samhljómur hjá þjóðinni um fara ekki útí ef sú umræða færi á alvarlegt stig, enda um vel þekkta þjóðargersemi að ræða. Fyrir hálfri öld stóð meira að segja til að virkja Gullfoss en var stoppað af. Í dag held ég enginn myndi láta sér detta slíkt í hug.
Ég hef skoðað Dimmugljúfur nokkuð náið og finnst umræðan um Kárahnjúkavirkjun snúast ótrúlega lítið um það hvort þau sem slík séu eitthvað sem megi fórna eða eigi að vernda. Þar kemur örugglega til hvað þau eru í raun lítt þekkt og fáir sem hafa skoðað þessa náttúrusmíð. Ég myndi segja að þessi gljúfur séu hrikalegasta náttúrusmíð landsins og engu lík sem slík. Þau liggja hins vegar ekki í alfaraleið eða þeim leiðum sem algengt er að fara um á þessu svæði. Það er hins vegar ágætt tjaldstæði í Laugavalladal, rétt vestan við gljúfrin og tilvalið að renna þarna í sumarferðunum og skoða gljúfrin (meðan þau eru til sem slík!).
Það er efalaust rétt að klúbburinn sem slíkur taki ekki afstöðu í þessu máli, en hann ætti tvímælalaust að vera umræðuvettvangur um þessi mál á þessum forsendum, þ.e. hvernig verndun hálendisins sé háttað og hverju sé verið að fórna. Þar liggja hagsmunir okkar sem viljum ferðast um óbyggðir.
Kveðja,
Skúli H.
03.04.2002 at 12:15 #460082Ég er akki alveg viss um hvað Jóng er að fara. Ef hann telur það rök fyrir því að slaka á þeirri kröfu að virkjanir standi undir sér, að útlenskir mútupeningar voru notaðir til að byggja Sogsvirkjanir, þá erum við ekki sammála.
En ef hann hinsvegar á við það að sé ekki eðlilegt að Reykjavíkur borg sé einn aðaleigandi í fyrirtæki sem er að byggja virkjanir í öðrum landsshlutum, þá erum við sammála.
Það mun vera í undirbúningi að skifta Landsvirkjun upp, samkmvæmt tilskipun frá Brussel. Ég tel að það sé eðlilegast að gera það með þeim hætti að stofnuð verði sér fyrirtæki um dreifikerfið og sjálfstæð fyrirtæki sem eigi og reki virkjanir í Sogi, Þjórsá og Tungná, Blöndu og Kröflu. Verði farið í virkjanir annasstaðar, þá verði þau verkefin ekki falin einokunarfyrirtækum eins og Landsvirkjun er nú.
Ég tel eðlilegt að virkjanafyrirtækin verði seld. Það mun vera stefna ríkisstjórnarinnar að ef það tekst að selja eitthver ríkisfyrirtæki, þá eigi að nota þá peningar til að gera jarðjögn á Austfjörðum og Tröllaskaga.
03.04.2002 at 21:04 #460084
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Þannig er spurt á heimasíðu 4×4 undir dálkinum: Í brenni- depli. Vísað er til umfjöllunar um ýmis hagsmunamál 4×4 er fram fór á síðasta landsfundi í Setrinu. Þar er tekið fram að lítil umræða hafi orðið síðan þá og lítill áhugi virðist vera meðal félagsmanna um þessi mál, og viðbragða er óskað. Enn er allt kyrrt.
Þó virðist sem tengja megi Kárahnjúkaskrif hér á undan í þennan farveg. Eða hvað? Um hvað má klúbburinn fjalla án þess að vera stimplaður pólitískur og um hvað ekki?
Á landsfundinum féll einn umræðuliðurinn undir umhverfismál og á þeim var tæpt þann tíma sem skammtaður var. – Og svo höfum við vitaskuld umhverfisnefnd klúbbsins. – En megum við einungis fjalla um umhverfismál út frá tiltölulega þröngu sjónarhorni? svo sem eins og að tína rusl á víðavangi, græða land, stika og bæta slóða, keyra ekki út úr braut, osfrv.; vissulega er allt þetta þarflegt.
Eða eigum við kannski einnig að líta til átakameiri mála sem varða beinlínis stefnumörkun um eðli og umfang framkvæmda í óbyggðum? Og þar liggur beint við að hugsa til vegamála, sem m.a. tengjast sumum virkjunum. Hvaða viðhorf höfum við til verndarsvæða, hvernig eru þau skilgreind og hvernig gæti umferð fallið sem best að þeim?
Við getum tæpast verið stikkfrí og erum það raunar ekki. Nægir þar að líta til hvatningar klúbbsins um GPS-ferlun til þess að festa slóða í sessi svo þeim verði síður lokað.
Hér á undan hafa menn rætt hvort klúbburinn eigi að taka afstöðu til framkvæmda við Kárahnjúka og þá hvernig. Margir landar okkar eru varfærnir með að láta uppi afstöðu því erfitt virðist að meta fyrirliggjandi gögn sem trúverðuga forsendu skoðanamyndunar. Auk þess er hulu haldið um meginþætti, svo sem orkuverð.
Einn félagi okkar stakk upp á því að hafa skoðanakönnun innan 4×4 um það hvort menn kjósi fremur Kárahnjúka- eða Norðlingaölduvirkjun. Þetta held ég að sé ekki heppilegt.
Vandinn er sá að undanfarin ár hefur einstökum virkjunar- kostum of oft verið stillt upp út frá fáum og afmörkuðum forsendum og ekki val um aðra. Þannig átti að þröngva Fljótsdalvirkjun í gegn. Og þegar sá kostur brást þá var rokið til Kárahnjúka. Og þegar það gerist að einkageirinn einhverra hluta vegna reynist ekki, enn amk, tilbúinn í svo arðsama framkvæmd (ekki bara Norsk Hydro) og þrátt fyrir ríkisábyrgð, þá kemur einn framámaðurinn í morgunútvarpið á Rás 1 og kennir andstæðingum Fljótsdalvirkjunar fullum fetum um það hvernig komið sé fyrir austfirðingum og málinu í heild! En nú vill svo til að einn samflokksmaður hans á frumkvæðið að því að skipuð var fyrir nokkru samráðsnefnd um gerð Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.
Markmið Rammaáætlunar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafl og háhita, með tilliti til orkugetu, hagkvæmni, áhrifa á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, svo og hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði.
Og nú vil ég trúa því að ætlunin hafi verið að vinna þetta af fullum heilindum. En hvers vegna þá í ósköpunum var allt kapp lagt á að halda Fljótsdals- og Kárahnjúkavirkjun utan hennar. Svarið er: of knappur, of knappur tími elsku vinur til að bíða annarra kosta, auk þess sem álver skal á Austfirði hvernig sem allt veltur. – Sú röksemd er hins vegar útaf borðinu nú.
Eftir síðustu uppákomu væri eðlilegt að nota tækifærið og fella alla virkjunarkosti á landinu undir jafn sjálfsagt mat og unnið er að skv Rammaáætlun sjálfrar ríkis-stjórnarinnar. Um slíka ályktun tel ég að allir klúbbfélagar ættu að geta sameinast hvernig svo sem þeir skipast í pólitíska flokka eða hvernig þeirra afstaða er í einstökum virkjunarmálum.
Hins vegar sýnist mér ljóst að lagafrumvarp um Kárahnjúkavirkjun verði keyrt í gegn á Alþingi nú á næstu dögum, – á þrjóskunni einni saman.
03.04.2002 at 22:35 #460086Ég er sammála þeim sem hér hafa bent á að ferðaklúbburinn 4×4 verður að taka umræðu um umhverfismál upp. Það má vera að menn séu ekki sammála um hvernig nálgast eigi þessi mál og virðist sem einhver hreppapólítík sé komin í málið.
Það er mín skoðun að forsendur fyrir álveri og virkjun hafi ekki verið settar fram af nægilega traustum rökum. Aðgerðir stjórnmálamanna til að #bjarga# landsbyggðinni með #byggðastefnu# s.l. áratuga hefur skilað þeim #árangri# að straumurinn liggur æ meira suður. Ég held að fólk taki ákvarðanir um búsetu út frá mismunandi forsendum á ólíkum tímum. Aukin netvæðing gæti t.d. haft þau áhrif í framtíðinni að þróunin snerist við og fólk vilji heldur eiga heima í sveit og vinna þaðan. Pólítískar aðgerðir hafa þar lítil áhrif. Um þetta mætti hafa langt mál…
Virkjun á hálendinu hefur stórkostleg áhrif á náttúrufar til langs tíma. Við sem ferðamenn um hálendið höfum sjálfsagt einhverja hugmynd um að þar séu verðmæti sem ekki má glata nema að vandlega skoðuðu máli. Sanngjarnt er að við reynum að finna einhverja mælistiku á þau verðmæti. Þar þarf klúbburinn að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
04.04.2002 at 08:26 #460088
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Í allri umræðu um Kárahnjúkavirkjun hef ég rekið mig á eitt. Það tala allir friðunarsinnar um að það megi ekki sökkva Dimmugljúfrum.
En það sem Ómar Ragnarsson og aðrir myndatökumenn "gleyma" eða þykjast ekki vita, er að stærsti og dýpsti hluti gjúfranna verður fyrir FRAMAN stífluna!
Ég hef komið nokkrum sinnum að gljúfrunum sl. 4 ár bæði sumar og vetur, og sá hluti þeirra sem kemur til með að fara undir vatn er kannski 1/5 af dýpsta hlutanum, en innanvið hærri hnúkin þar sem stíflan á að vera grynnist þetta mikið á stuttum kafla.
Dýpsti og hrikalegasti hluti gljúfranna verður ennþá sjáanlegur og meiraðsegja mun aðgengilegri en áður.
04.04.2002 at 08:52 #460090Eins og margt annað í náttúru Íslands, þá eru Dimmugljúfur mjög ung og raunar enn að myndast. Þau byrjuðu ekki að grafast fyrr en fyrir um það bil 2-4000 árum. Á 50 ára gömlum loftmyndum sjást fossar sem eru þar ekki núna.
Ef Jökulsá á Brú verður veitt yfir í Lagarfljótið munu gljúfrin fyllast að hluta til af hruni úr börmunum. Dimmugljúfur án árinnar verða allt annað fyrirbæri en gljúfrin með ánni. Sjá:
http://www.os.is/arsfundur/2001/erindi3.shtml
08.04.2002 at 11:18 #460092
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Sæll jong. Það er hárrétt að stór hluti gljúfranna fer ekki undir vatn. Hins vegar rís 200 metra hátt steinsteypt mannvirki ofan í þeim. Þar með eru þau ekki það náttúrufyrirbæri sem þau eru í dag og verða það raunar aldrei aftur (varanleg röskun). Menn deila jafnvel um réttmæti trépalla á vissum stöðum þar sem með þeim missa staðirnir þetta náttúrulega yfirbragð, hvað þá 200 metra steinveggur og öll önnur mannvirki sem þarna fylgja. Þegar ég ferðast um náttúruna er ég að sækjast eftir ákveðnum hlutum og mannvirki eru ekki eitt af þeim. Þeir sem sækjast eftir slíku kaupa sér ekki jeppa heldur flugmiða til New York. Ég held það sé því óumdeilanlegt að ef við virkjum við Kárahnjúka erum við búin að fórna gljúfrunum sem því náttúrufyrirbæri sem þau eru í dag. Með þessu er ekkert endilega sagt að þarna megi ekki virkja, þjóðin getur tekið þá afstöðu að ávinningurinn sé slíkur að sú fórn sé réttlætanleg (sem mér sýnist eik allavega draga mjög í efa). Minn punktur er einfaldlega að menn verða að gera sér grein fyrir fórnarkostnaðinum og það held ég að margir geri ekki. Og félög fólks sem þekkir hálendið og ferðast þar um, eins og 4×4, geta lagt þann skref í umræðuna.
En svo er auðvitað til fullt af fólki sem finnst meira spennandi að skoða stór stíflumannvirki eða skýjakljúfa í stórborgum en náttúruna og við því er ekkert að segja, fólk hefur auðvitað mismunandi áhugamál. Þeim mun mikilvægara að rödd okkar sem sækjum í óbyggðirnar fái að heyrast.
Skúli
09.04.2002 at 17:57 #460094
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Enn um virkjanir.
Eftir að hafa lesið umræður um Kárahnjúkana þá langar mig aðeins að bæta við þar sem ég er nokkuð kunnugur málinu. Mig langar að upplýsa eik t.d. um það að ekki ein einasta vatnsaflsvirkjun hefur verið verkefnafjámögnuð (einkafjámögnuð) svo vitað sé. Ástæðan er hár stofnkostnaður og langur endurgreiðsluferill fjármagns. Þetta er staðreynd sem á við allar vatnsaflsvirkjanir og allþekkt um allan heim. Venjan er að vatnsaflsvirkjanir séu fjármagnaðar af opinberum aðilum, oft með ríkisábyrgð, enda betra að borga lægri vexti úr landi og greiða ríkinu í staðinn ábyrgðargjald. Síðar kemur til álita að breyta eignarhaldinu þegar erfiðasti hjallinn er að baki.
Ég get tekið undir það sjónarmið að Reykjavík eigi að selja sinn hlut í LV og að sá hlutur verði seldur einkaaðilum eða lífeyrissjóðum. Ég er hins vegar ósammála um að skipta beri Landsvirkjun upp í smærri fyrirtæki. Þar er verið að skipta "litlu" fyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða upp í enn smærri einingar sem er algerlega fráleit hugmynd. Ein af ástæðum þess að erlend fyrirtæki setja hér upp stóriðju er að það er til sæmilega stór aðili sem ræður við nauðsynlega orkuöflun. Auk þess er fyrirséð að mörg smærri fyrirtæki auki kostnað í kerfinu sem mun leiða til hærra orkuverðs.
Talandi um orkuverð þá hafa menn fullyrt að stóriðja hafi leitt til hærra orkuverðs og neytendur hafi borgað brúasnn!
Staðreyndin er sú að orkuverð hér á landi er með því lægsta sem gerist þrátt fyrir það að við séum með tiltölulega ungt kerfi m.v. t.d. Norðurlöndin sem eru með einna lægsta verðið. Það sem er villandi er munurinn á stóriðjuverði og verðinu sem almenningsveitur greiða en sumir virðast falla viljandi eða óviljandi í þá gryfju að bera saman epli og appelsínur og fá út einhverja steypu. Staðreyndin er sú að samanburður á orkuverði til almennings og stóriðju er vandmeðfarinn og efni í annað spjall.Að lokum finnst mér umhugsunarvert hve margir félagsmenn í klúbbnum virðast vera andvígir stóriðju og virkjanaframkvæmdum þegar haft er í huga hversu nausynleg þessi atvinnugrein er við þjóðarbúið. Við lifum ekki á fiski einum saman og ferðamenn munu eftir sem áður koma og njóta þess sem við höfum upp á að bjóða. Að mínu mati skýtur það skökku við að menn sem aka um á dýrum jeppum og eyða miklu eldsneyti séu að fetta fingur út í eðlilegar framfarir sem gera okkur m.a. kleift að stunda okkar sport og lifa þeim lífsstíl sem við kjósum okkur. Ég er ekki að mæla með að við setjum niður stóriðju í hvern fjörð, en undirstrika það að hófleg nýting orkulinda okkar er nauðsynleg til að viðhalda þeim lífskjörum sem flestir okkar vildu ekki vera án.
Ég sé t.d. fyrir mér að ferðamannaiðnaður muni blómstra fyrir austan með tilkomu Kárahnjúkana, aðgengi eykst o.s.frv. Hver kann ekki t.d. að meta uppbyggðan Kvíslaveituveg og malbikaðan veg til Vatnsfells í stað leiðinda slóða áður? Ég held að menn ættu aðeins að líta í eigin barm og njóta eðlilegra framfara í stað þess að vera með sleggjudóma um mál sem þeir hafa ekki hugsað til enda. Auðvitað á að fara varlega í allar framkvæmdir og huga að umhverfismálum, en það hefur einmitt verið gert myndarlega fyrir austan. Ekkert svæði á landinu hefur verið rannsakað jafn gaumgæfilega og í Fljótsdal og við Kárahnjúka og kostnaðurinn veltur á milljörðum.
Niðurstaðan er sú að hagkvæmt er að virkja þarna þrátt fyrir óhjákvæmilega umhverfisröskun. Gljúfrin verða áfram á sínum stað og mun stíflan án efa trekkja að ferðamenn sbr. Hooverdam. Fyrir okkur jeppamenn opnast leiðir inn á hálendið á greiðfærum vegum sem gerir okkur kleift að komast í snjó mun fljótar en áður.Læt þetta nægja að sinni og þakka líflegar umræður.
09.04.2002 at 22:46 #460096Skýringin á því hversvegna það er lítið um að að vatnsaflsvirkjanir hafi verið "einkafjármagnaðar" er einfaldlega sú að það er hvergi í þróuðum ríkjum verið að byggja vatnsafsvirkjanir ennþá.
T.d. stóð ríkið fyrir miklum framkvæmdum að þessu tagi í Bandaríkjunum fyrir stríð, þegar heimskreppan hafði grafið undan trú manna á getu einkaframtaksins til að leysa stór verkefni eða koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það eru áratugir síðan ríkið hefur komið að fjármögnun orkuframkvæmda þar, þó t.d. kjarnorkuver og olíuvinnsla á sjó séu miklu fjárferkari og áhættusamari en vatnsaflsvirkjanir.Það að eigendur Landsvirkjunar skuli þurfa að borga næstum þrisvar sinnum hærra HEILDSÖLUVERÐ en stóriðjan, og að Landsvirkjun hefur aldrei greitt eigendum sínum arð, sýnir að stóriðjan hefur ekki verið að borga eðlilegt verð fyrir orkuna, við erum að niðurgreiða rafmagnið handa stóriðjunni.
Ef stóriðjan hefði ekki komið til, og skynsamlega hefði verið staðið að orkuframkvæmdum, þá væri rafmagn til allmenningsveitna á Íslandi verulega ódýrara en þar sem það er framleitt með kolum eða olíu. Það er það ekki.
Eftir að vatnsmiðlanir komu í gagnið (t.d. Þórisvatn) þá er ekki lengur ástæða til að selja rafmagnið margfalt ódýrara til notenda sem nota rafmagn allan sólarhringinn, allt árið, þar sem miðlanirnar gera kleyft að láta framleiðslunna fylgja þörfum markaðarins. Nú er það vatnsmagnið sem kemur í lónin sem ræður því hversu mikið rafmagn hægt er að afhenda í stað þess sem áður var þegar uppsett afl í virkjunum var takmarkandi.
Ég held að það sé alrangt að stóriðjan sé nauðsynleg fyrir þjóðarbúið. Þau lífskjör sem við og okkar afkomendur koma til með að njóta fara fyrst og fremst eftir því hveru vel okkur tekst að nýta hugvit og útsjónarsemi okkar sjálfra, ekki því hversu margir þorskar eru veiddir eða hveru margar kílovattstundir af rafmagni eru framleiddar.
Nú er ég alls ekki á móti því að orkulindir Íslendinga séu nýttar en ég er andvígur því að við séum látin borga með þeirri orku sem seld er.
Við þurfum líka að gera það upp við okkur hvað við viljum ganga langt í nýtingunni. Það er mín skoðun að það eigi að skilja eftir einhver svæði þar sem náttúran fær að halda sér.
Ég held að flestir séu þessu sammála, a.m.k. eru það ekki margir sem vilja virkja Gullfoss, þó það gæti án efa verið hagkvæmt.
Það er mikilvægt að menn ræði þessi mál og velti því fyrir sér hvaða svæði það eru sem menn vilja friða og hvar manvirkjagerð er ásættanleg.
10.04.2002 at 11:20 #460098
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Ég ætla að láta vera að blanda mér í umræðuna um hagkvæmni stóriðju og orkuveranna, en það eru nokkur atriði hjá honum Bensa sem ég verð að gera athugasemd við. Og mín vegna mætti setja stóriðju í hvern fjörð ef menn fá út að það sé þjóðhagslega hagkvæmt, en eins og eik bendir á þá þarf að huga að því hvar mannvirkjagerð er ásættanleg og það á ekki síst við um orkuöflunarmannvirkin. Það er nokkuð algengt að hörðustu fylgismenn þessara framkvæmda fyrir austan setji málið þannig upp að þeir sem séu andsnúnir Kárahnjúkavirkjun sem slíkri séu þar með andsnúnir öllum stóriðjuframkvæmdum, ef ekki bara allri framþróun! En það getur ekki talist málefnalegur málflutningur.
En það er þetta sjónarmið að virkjanaframkvæmdirnar verði til þess að ferðamannaiðnaður muni blómstra sem mér finnst vægast sagt einkennilegt. Ég ætla ekki að fullyrða að Kárahnjúkavirkjun drepi niður alla ferðamennsku um svæðið, en hún verður örugglega ekki til að auka hana. Þeir ferðamenn sem koma til Íslands koma ekki til þess að dást að mannvirkjagerð, þvert á móti koma ferðamenn hingað til að upplifa sig á stórum víðáttum án mannvirkja eða þar sem verk mannanna eru í algjöru lágmarki, nokkuð sem meginlandsbúarnir geta ekki heima hjá sér. Allavega er þetta það sem flestir ef ekki allir erlendir ferðamenn á hálendinu sem ég hef rætt við í mínum ferðum tala um. Ekki þar með sagt að það sé ekki til í dæminu að fólk ferðist til að skoða stórkostleg mannvirki, en það fólk kemur ekki til Íslands og ferðamennska á Íslandi er ekki og verður (vonandi!) seint markaðssett sem slík. Og spurt er "hver kann ekki að meta uppbyggðan Kvíslaveituveg"? Ég kann ekki að meta hann þó ég hafi fullan skilning á að Landsvirkjun þurfi greiðar samgöngur um virkjanasvæðið á Tungnársvæðinu. Ég er hins vegar þá fyrst farinn að njóta ferðalagsins þegar ég er kominn af þessum uppbyggðu vegum og kominn á jeppaslóðana. Þess vegna á ég jeppa, um það snýst þetta jeppa- og hálendisferðasport. Ég hef enga sérstaka ánægju af því að keyra jeppann minn á þjóðvegi 1 eða öðrum uppbyggðum vegum, sækist frekar í grófari slóða þar sem einmitt mannvirkjagerðin er í lágmarki. Og ég hugsa með hryllingi til þessara hugmynda um uppbyggða vegi þvert yfir hálendið, þeir myndu endanlega eyðileggja þann sjarma sem hálendisferðir hafa. Og um leið þann ferðamannaiðnað sem byggir á að selja útlendingum aðgang að þessum ósnertu víðernum.
Við verðum auðvitað að nýta þá möguleika sem landið hefur, það efast enginn um að. Ég er t.d. nokkuð sáttur við áframhaldandi framkvæmdir á Tungnársvæðinu, enda telst það svæði tæpast ósnortið lengur. En við þurfum að meta af kostgæfni hvaða ný svæði á hálendinu við tökum undir orkuöflunarmannvirki.
Skúli
10.04.2002 at 14:02 #460100
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Hver er friðunarsinni, náttúruverndarsinni, virkjunarsinni?
Hverjir eru með og hverjir á móti framförum?!
Hvað eru framfarir?
Og hverjir eru allir?!Þetta eru hugtök, spurningar og/eða fullyrðingar, sem heyrast í umræðum um virkjanamál.
Ég er virkjunarsinni. Sú fullyrðing segir hins vegar ekkert um hug minn til Kárahnjúkavirkjunar.
Ég er allt í senn virkjunarsinni, náttúruverndarsinni og friðunarsinni, á forsendum Rammaáætlunar (eins og ég vil að hún sé notuð), en þar er virkjunarkostum raðað með hliðsjón af orkugetu, hagkvæmni, áhrifum á náttúrufar, náttúru- og menningarminja, svo og hagsmunum allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði.
Á sama hátt kýs ég að horfa í víðu samhengi á Kárahnjúkasvæðið sem náttúrufyrirbæri; ekki bara eitt stykki Dimmugljúfur fyrir neðan stíflu (þótt ærið sé).
Ég vil ekki láta setja á mig sjónskyggni eins og á dráttarklár, sem einungis má horfa beint fram.Ég er fjarri því viss um að mér hugnist alltaf sú niðurstaða sem fæst með úrskurði Rammaáætlunar varðandi einstaka virkjunarkosti. En ég sé ekki skynsamlegri og sanngjarnari leið, og þess vegna held ég því fram að fella hefði átt Fljótsdals- og Kárahnjúkavirkjun þar undir.
Stór galli er hins vegar að stjórnvöld hafa ekki enn gefið upp um það hvernig þau hyggist beita Rammaáætlun. Hættan er sú að ráðamenn (mis-) noti áætlunina til þess eins að forgangsraða virkjunarkostum, villi þannig á vissan hátt um fyrir almenningi og á endanum verði allt virkjað.
Stjórnvöld virðast nefnilega ekki enn tilbúin til þess að taka af skarið og viðurkenna að jafnsjálfsagt sé að friða sum svæði á sama hátt og eðlilegt muni vera að virkja önnur.Auðvitað eru allir Íslendingar fylgjandi því að virkja til raforkuframleiðslu; það er svo sjálfsagt mál að ekki þarf orðum að því að eyða. Þótt margir séu andvígir virkjun við Kárahnjúka af ýmsum ástæðum er fráleitt að tengja það andstöðu á almennum framförum og velsæld.
Jarðhiti verður einnig til skoðunar í Rammaáætlun, m.a.Torfajökulssvæðið sem er eitt stærsta jarðhitakerfi á landinu og gæti framleitt um 1000MW.
Sveinbjörn Björnsson, verkfræðingur, fyrrverandi háskólarektor og núverandi formaður verkefnisstjórnar um Rammaáætlun, hefur bent á að Torfajökulssvæðið sé jafnframt gífurlega mikilvægt til útivistar, og því ekki sjálfgefið að virkjun jarðhitans væri besti kosturinn (á fundi Landverndar og verkefnisstjórnar rammaáætlunar, sem var haldinn með almenningi í Félagsheimilinu Árnesi; sjá heimasíðu Landverndar).Seint held ég að nokkrum dytti í hug að telja Sveinbjörn andstæðing framfara, þótt hann láti þessa getið.
19.08.2002 at 22:41 #460102Sælir félagar.
Gaman að vera kominn aftur heim úr sumarfríinu, en það notaði ég m.a. til að skoða þessi náttúruverðmæti fyrir austan sem þeir ætla að sökkva.
Ég verð nú að játa það að ég hef verið mjög tvístígandi til þessa, hvort maður á að vera meðfylgjandi eða á móti, einfaldlega af því að maður hefur ekki kynnt sér svæðið sem um er að ræða. Nú liggur hins vegar mitt álit fyrir. Þetta svæði er að mínu viti ekki merkilegra en önnur sem tekin hafa verið undir uppistöðulón fyrir virkjanir á hálendi Íslands. Dimmugljúfur (Hafrahvammagljúfur) verða eftir fyrir neðan stíflumannvirkin og því hægt að njóta þeirra áfram.
Allir þeir austfirðingar sem ég hitti og ræddi málið við segja þetta lífsspursmál fyrir byggðina og einnig telja þeir að hvimleitt sand- og leirfok af þessu svæði bæði niðri á Héraði og eins niðri á fjörðum heyri í kjölfarið sögunni til (þetta ku vera gamall stöðuvatnsbotn sem endalaust fýkur úr).
Ég tel því að við getum hætt þessari hysteríu um "óbætanleg náttúruverðmæti", þetta er einfaldlega ekki merkilegra en önnur svæði á hálendinu.
Þetta breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni að Landsvirkjun á auðvitað að sjá sóma sinn í því að upplýsa undanbragðalaust um orkuverðið, það er algerlega óskiljanlegt að í svona máli skuli það vera leyndarmál.
Með ferðakveðju,
Björn Þorri.
-
AuthorReplies
You must be logged in to reply to this topic.