This topic contains 2 replies, has 1 voice, and was last updated by Steinmar Gunnarsson 13 years, 10 months ago.
-
Topic
-
Þessu bréfi var ég beðin um að koma á f4x4.is. það var sent á þingmenn umhverfisnefndar alþingis í kvöld af Stefáni, hægt er að skoða bréfið og inngang á jeppaspjall.is kv Jón G Snæland
Reykjavík 6. mars 2011
Kæri þingmaður
Stefán heiti ég og er náttúrufræðingur og náttúruunnandi. Mig langaði að skrifa ykkur ágætu þingmönnum í umhverfisnefnd alþingis, stutt bréf varðandi þá ósátt sem er orðin að veruleika hjá ferðafólki á Íslandi. Kannski frekar þann fleyg, sem rekinn hefur verið í raðir útivistarfólks, með samþykkt laga um Vatnajökulsþjóðgarð.
Mínar bestu stundir hafa verið með konu minni og börnum í fjallaferðum á hálendi Íslands og veit ég að það á við margan útivistarmanninn. Nú hefur verið samþykkt reglugerð um áðurnefndan Vatnajökulsþjóðgarð sem festir í sessi grófa mismunum milli ferðafólks.
Ég ætla ekki að ræða um umdeildar lokanir á jeppaslóðum innan þjóðgarðsins, ég hef mína skoðun á því en við skulum láta það liggja á milli hluta.
Sú grófa mismunun sem ég er að tala um er þess eðlis að mér, sem ferðamanni á eigin bíl, er meinað að reisa útilegutjald á öræfunum en göngufólki er það hinsvegar heimilt. Nú veit ég ekki hvaða reynslu þið hafið af ferðalögum á öræfum Íslands, en þar er ferðahraðinn á jeppa oft á tíðum rétt rúmlega gönguhraði, á erfiðum slóðum í hrauni, svo dæmi sé tekið. Gróf hraun er býsna algeng vestan- og norðan Vatnajökuls.
Ég ferðast á hálendinu á jeppa, enda er ég með lítil börn sem ekki eru líkleg í margra daga gönguferðir um hraun og sanda á öræfum Íslands. Það eru neflilega ekki allir á sama stað í lífinu. Ég gæti vel hugsað mér margra daga hálendisgöngu með konunni eftir kannski 10 ár, þegar ég er orðinn miðaldra.
Nú langar mig að taka stutt dæmi , sem allir fjölskylduferðamenn kannast við:
Segjum sem svo að við fjölskyldan séum á ferðalagi á öræfunum fyrir norðan Vatnajökul, t.d. einhversstaðar á milli Tungnafellsjökuls og Öskju. Þetta er leið sem er mjög gróf og mjög seinfarin á jeppa, ásamt því að vera löng.
Ég stoppa einhversstaðar á miðri leið eftir langan og erfiðan akstur og ákveðið er að taka upp gashelluna og elda kvöldmat, þar sem börnin eru farinn að ókyrrast all verulega. Eftir mat eru allir orðnir frekar uppgefnir og ákveðið er að tjalda (hefbundnu útilegutjaldi) og gista á þessum ágæta stað þarna í miðri hraunsléttunni. Skammt frá sé ég þrjú tjöld og er þar hópur göngufólks á ferðinni. Að svo stöddu förum við fjölskyldan að sofa, en með því erum við að brjóta reglur þjóðgarðsins, en ekki göngufólkið. Mættum við kannski sofa í sætunum í bílnum?
Þar sem við erum stödd á einstaklega heillandi stað, er ákveðið að fara í skemmtilegan göngutúr daginn eftir til að skoða svæðið.
Ef ég hefði fylgt reglum þjóðgarðsins, þá hefði ég þurft að henda krökkunum grenjandi inn í bíl eftir kvöldmat og leggja í margra klukkustunda akstur, lullandi á jeppanum til að finna tjaldsvæði. Svo hefði ég þurft að keyra alla leið til baka daginn eftir, til þess að skoða þetta áhugaverða svæði.
Hvaða þvæla er þetta eiginlega?
Hverjir hafa hag af svona reglum? Kannski ferðaþjónustuaðilar sem geta stundað einokun í skjóli fáránlegra reglna.
Tjaldið mitt skemmir ekki landið meira en tjald göngufólksins og það er ljóst að þessar reglur koma náttúruvernd ekkert við.
Reykjavík 6. mars 2011
Svona reglur eru ekki aðeins frámunalega heimskulegar, þær eru særandi og hrein móðgun við alla þá sem geta ekki komist í margra daga gönguferðir en eru þó að engu leyti minni náttúruunnendur en göngufólkið. Við fjölskyldan sækjumst eftir því sama og göngufólkið, friðar og öræfaþagnar, fjarri tjaldsvæðum. Flestir sem ferðast á eigin vegum á öræfum Íslands forðast einmitt tjaldsvæði, ekki vegna nísku, heldur vegna þess að þeir eru engum háðir og vilja frið og ró. Í framhaldi af því má spyrja hvort tjaldsvæðin í Þjóðgarðinum séu einkarekin eða opinber.
Ég trúi því ekki að þessar reglur sem mismuna fólki svona gróflega, standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þið getið kannski sagt til um það?
Að sjálfsögðu færi ég ekki eftir þessu, ekki vegna þess að ég telji mig hafinn yfir lög og reglur, heldur vegna þess að ég neita að láta koma fram við mig sem annarsflokks ferðamann og læt ekki fráleitar reglur ræna mig ánægjustundum á fjöllum.
Mig langar að spyrja þig, þingmaður góður, hvað myndir þú gera við þessar aðstæður?
Er hugmyndin kannski sú að fæla burt fjölskyldufólk eins og okkur, með því að setja reglu sem þessa, sem gerir ferðalagið að eilífu stressi um að tjaldsvæði sé nálægt þegar kvölda tekur.
Ekkert tillit er tekið til þess hvort fólk vilji skoða sig um í nokkra daga á áhugaverðum stöðum sem eru fjarri tjaldsvæðum. Nema auðvitað með því að láta það keyra í marga tíma fram og til baka frá tjaldsvæðinu á hverjum degi !
Þeir sem bent hafa á þetta hafa ekki verið svaraverðir í augum stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, enda erum við ekkert nema heimtufrekjan. Það er neflilega auðvelt að stimpla alla mótmælendur sem freka jeppamenn sem vaða yfir allt og alla.
Það er álíka mikil sátt um Vatnajökulsþjóðgarð og kvótakerfið okkar.
Þessar reglur eru greinilega sniðnar að þörfum ákveðins hóps, sem er þó aðeins lítill hluti ferðamanna á hálendi Íslands, þ.e. miðaldra og eldra fólks, sem hefur aðeins sjálft sig til að hugsa um. Þar að auki útlendingum sem vilja ekki sjá ökutæki í sinni öræfagöngu.
Hér kemur smá bútur úr símafundi stjórnar þjóðgarðsins, sem haldin var þann 2. Júlí 2010.
http://www.vatnajokulsthjodgardur.is/media/fundagerdir/stjornar/fundargerd-34-020710.pdf
Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
Ýmsar athugasemdir
Tjöldun
(Tilvitnun hefst)
Andmælt er mismunun sem kemur fram í því að akandi gestir mega ekki tjalda til einnar nætur
utan skipulagðra tjaldsvæða. Það skerði verulega möguleika akandi gesta til að upplifa
Reykjavík 6. mars 2011
náttúruna og ferðast með fjölskyldur. Ennfremur sé gisting á þjónustusvæðum aðeins í boði
eins ferðaþjónustuaðila sem ráði verðlagningu að vild. Ákvæðið útiloki trússferðir sem njóti
vaxandi vinsælda.
Allmargir gerðu athugasemd við það að aðeins göngufólki væri heimilt að tjalda til einnar nætur
utan skipulagðra tjaldsvæða. Þannig væri gestum þjóðgarðsins mismunað eftir ferðamáta og
gert að kaupa þjónustu þess ferðaþjónustaðila sem starfar á hverjum slíkum stað. Ákvæðið
útiloki líka trússferðir innan þjóðgarðsins (tilvitnun lýkur).
Hér kemur skýrt fram að þetta skerði verulega ferðafrelsi mitt og ég sé þar að auki skikkaður á einkarekið tjaldsvæði sem geti rukkað mig að vild! Mismununin og vandamálið er sem sagt viðurkennt.
Á fundinum kemur einnig fram að stjórn þjóðgarðsins muni fara fram á það við Umhverfisráðuneytið að reglurnar verði rýmkaðar.
Þann 28. Febrúar síðastliðin, samþykkti Umhverfisráðherra, Stjórnunar- og verndaráætlun um Vatnajökulsþjóðgarð. Ekkert hafði breyst þar hvað varðar mismunum á milli ferðafólks þegar kom að rétti fólks til að haga sinni eigin næturdvöl.
Ég get ekki annað en krafist þess að umhverfisnefnd alþingis fari fram á það, við stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs eða Umhverfisráðherra, að þessum ósanngjörnu og vanhugsuðu reglum verði breytt, svo að annar hver ferðamaður í Vatnajökulsþjóðgarði verði ekki gerður brottrækur vegna brota á reglum Þjóðgarðsins.
Reglum, sem settar eru til þess að skemma hálendisferðalög langflestra Íslendinga.
Með von um svör.
Virðingarfyllst,
Stefán Þ. Þórsson, náttúrufræðingur
Esjugrund 17, Kjalarnesi
You must be logged in to reply to this topic.