This topic contains 13 replies, has 1 voice, and was last updated by Árni Freyr Rúnarsson 11 years, 10 months ago.
-
Topic
-
Góðan dag til allra viðtakenda þessa pósts.
Við undirritaðir viljum vekja athygli á því að nú standa yfir umræður á alþingi um ný náttúruverndarlög og er stefnt að því að koma þeim í gegnum þingið fyrir þinglok. Það styttist því óðum tíminn sem við náttúruunnendur höfum til að sporna við þeirri þróun sem búin er að vera í gangi og mun óhjákvæmilega skerða ferðafrelsi okkar allra. Það er á vitorði allra þeirra sem á annað borð vilja vita að allt tal af hendi umhverfisráðherra um samráð við útivistarhópa er bara hjómið eitt, athugasemdir sem gerðar hafa verið við frumvarpið af hendi útivistarfélaga og annarra þeirra sem hafa skoðanir og athugasemdir um málið hafa engan hljómgrunn fengið og í ráðuneytinu þar sem tekið er við þeim er þeim dreift á starfsmenn ráðuneytisins til yfirlestrar og þar sofna athugasemdirnar. Þegar svo þeir sem standa fremstir í flokki ferðafrelsismála funda með forsvarsmönnum ráðuneytisins finna þeir fyrir þvi að þeir (ráðuneytisstarfsmennirnir) hafa ekki hugmynd um innihald þeirra athugasemda sem komið hafa inn á borð ráðuneytisins og koma af fjöllum þegar bent er á stóra ágalla í frumvarpinu sem t.d. varða ákvæðin um tjöldun. Og það eitt og sér er bara eitt atriði af mörgum. Því miður er það tilfinning undirritaðra að ráðuneytið og umhverfisráðherra hafi aldrei ætlað að hlusta á þessar athugasemdir yfirleitt. Það er því dagljóst að ef við ætlum að láta rödd okkar heyrast og ætlum ekki að láta umhverfisráðherra og allt hans lið valta yfir okkur í eitt skifti fyrir öll verðum við að grípa til aðgerða. Umhverfisráðherra hefur verið gefinn allt of mikill friður í þessu máli, friður, sem hún hefur nýtt sér til að geta lamið enn frekar á okkur sem ekki erum á sama máli og hún í þessum efnum.
Okkur undirrituðum hefur um langa hríð fundist að öll umræða um þessi mál hafi farið fram innan einhverrar girðingar og hafi ekki komist út fyrir hana þrátt fyrir ötula vinnu ýmissa einstaklinga sem gefið hafa mikið af tíma sínum í þessi ferðafrelsismál. Þessu þarf að breyta, við þurfum að láta í okkur heyra, láta almenning í landinu vita með háum rómi hvað er verið að gera í að skerða ferðafrelsi almennings í landinu og hvað þessi nýju lög í raun og veru gera. Það virðist vera sem svo að þegar rætt er við fólk úti í bæ um þessi mál þá kemur það af fjöllum, umræðan hefur einfaldlega ekki náð eyrum þess. Við viljum því leggja til aðgerðir, sem miða að því að láta þjóðina vita hvað er í gangi. Við leggjum því eftirfarandi til!
Undirbúinn verði blaðamannafundur þar sem málið verði reyfað, allar staðreyndir látnar koma fram og málið verði rætt almennt, fyrirspurnum svarað, dregið fram það sem jákvætt er í lögunum og um málið í heild fjallað með jákvæðum tón, jafnvel neikvæðu atriðin í frumvarpinu. Fram þarf að koma hvernig farið er með athugasemdirnar sem gerðar voru, hvernig þær eru teknar fyrir innan ráðuneytisins og hvort þessar athugasemdir yfirleitt eru látnar ná eyrum ráðherra umhverfismála. Óréttlæti í meðferð mála innan Vatnajökulsþjóðgarðs verði látið koma fram. Leggja fram allar atugasemdir sem sendar voru inn og gera þær opnar fyrir augum almennings og pressunnar. Benda á efnið sem Bandaríkjamennirnir komu með hingað og kynntu á fundum með okkur útivistarfólki. Gera ráðamönnum þjóðarinnar heyrinkunnugt að Ísland sé nógu stórt fyrir okkur öll, ekki bara fyrir sérhagsmunahópa. Margt fleira mætti týna til og fróðari menn en við geta bætt við.
Í tengslum við blaðamannfundinn verði skipulagður hópakstur í gegnum Reykjavík, byrja mætti á Korputorgi, aka niður Sæbraut og enda niður í miðbæ, blaðamannafundurinn gæti verið haldinn í Iðnó og ætti því mótmælaflaut þátttakenda bæði að ná eyrum blaðamanna og þingmanna.
Virkja mætti klúbba úti á landi til samræmdar þáttöku, t.d. hafa samsvarandi blaðamannafund og hópakstur á Akureyri og aðrir minni klúbbar gætu tekið þátt í þessu og sniðið stakk að vexti. Virkja mætti félagasamtök eins og Samút til að koma að þessu með okkur og værum við þá að ná til mikils hóps útivistarfólks. Aðalatriðið er samræmdar aðgerðir, helst um allt land. Pressan mundi örugglega taka eftir þessu og vonandi yrðu forsvarsmenn ferðafrelsis kallaðir í viðtöl í fjölmiðlum og best væri og sennilega mesti sigurinn ef þeir væru kallaðir inn á teppið hjá ráðherra.
Með von um góðar undirtektir.
Rúnar Sigurjónsson
Logi Már Einarsson(Bréfritarar eru meðlimir skálanefndar Seturs, fjallaskála Ferðaklúbbsins 4×4)
You must be logged in to reply to this topic.