This topic contains 3 replies, has 1 voice, and was last updated by Eiríkur Þór Eiríksson 20 years, 8 months ago.
-
Topic
-
Hvernig er það, hefur enginn í f4x4 tekið upp á því að flytja sjálfur inn notaðan jeppa eða 4×4 pallbíl ?
Ég er búinn að snuðra dálítið á internetinu og leita að bílum erlendis, en hef ekki enn fundið ?rétta? bílinn, hvernig sem á því stendur.Mig langar til að vekja upp umræðu um þetta mál, legg hér fyrsta innlegg í púkkið og skora á þá sem hafa reynslu eða skoðanir á málinu að fylgja á eftir og láta heyra í sér og sér í lagi þá sem hafa slegið til og keypt bíl erlendis – sjálfir.
Ef maður fer á Ebay og leitar eftir stikkorðunum ?4×4? og ?diesel? finnst venjulega hellingur af bílum, mest Ford F-250 og F-350 pallbílar. Þetta eru vafalaust ágætir bílar og auk þess eru nú lág aðflutningsgjöld á pallbílum, en ég held að þeir séu þungir og óþægilega stórir að mínu mati. Hugsanlega er athugandi að kaupa svona hlunk á tvöföldum afturdekkjum (dually) til að breyta fyrir fjörutíuogeitthvað tommur. Hefur nokkur reynt þetta eða eru e.t.v. botnlaus vandræði með framhjólin ?
Einnig er talsvert framboð á Ebay af 4×4 Pajeróum (Montero) á góðu verði, en það eru allt saman bensínhákar og mér líst ekki alls kostar á slíkt dæmi. Svo virðist sem japönsku jeppaframleiðendurnir hafi ekki komið díselvélum sínum inn á USA-markað. Eru það e.t.v mengunarkröfur sem einungis stóru sleggjurnar geta uppfyllt ?
Mörgum bílanna fylgja ítarlegar myndaseríur og ég hef sérlega gaman af að skoða myndir úr vélarhúsinu. Þær sýna næstum undantekningalaust tandurhreina vél, svo hreina og glansandi að manni dettur helst í hug að hún hafi aldrei verið sett í gang, jafnvel þótt bílnum hafi verið ekið hundruð þúsundna mílna. Þótt maður bjóði ekki í bílinn finnst mér þetta hin ágætasta skemmtun og sé fyrir mér fjölda fólks við að fægja vélasalinn.
Í Þýskalandi er talsvert til af díselknúnum jeppum, Toyum, Pæjum og Mússum. Við fyrstu sýn eru verðin ekki sérlega hagstæð, en ég ætla samt að skoða þá betur. Ágæt leitarvél er t.d. http://www.mobile.de en dálítið erfitt er að nota hann nema maður sé sæmilega fær í Þýskunni. Önnur þýsk leitarvél er http://www.autoscout24.de . Þeir sem þekkja til annarra góðra leitarvéla mættu gjarna segja frá þeim hér.
Svo er það flutningur á bílnum. Sumir sem bjóða bíla á Ebay gefa upp að þeir sendi þá um allan heim, Worldwide, meðan aðrir vilja einungis senda innan USA. Ég fékk uppgefið hjá einum bílasala í Texas, sem er tilbúinn að senda hvert sem er að flutningur á F-150 pallbíl fra Houston í Texas til Íslands kostaði 1600 dollara (115 þús kall). Hins vegar minnir mig að Eimskip hafi gefið upp eitthvað í námunda við 200 þúsund kallinn fyrir flutning frá Norfolk. Þarna munar miklu og veit ég ekki hvorn er meir að marka.
Flutningur á bíl frá Evrópu eru e-ð ódýrari, öðru hvoru megin við 100 þús kr. samkvæmt símtali við Eimskip, en fer þó eftir stærð bílsins. Langsamlega er samt ódýrast ef hægt er að flytja bílinn sem hluta af búslóð og virðist því sem fargjaldafrumskógurinn teygi anga sína víða. Spurning er hvort maður geti ekki flutt tímabundið til útlanda til að geta nýtt sér þetta tilboð.Loks eru það aðflutningsgjöldin, hlutur skattmanns. Af kaupverði og flutningskostnaði þarf að greiða 24,5% vask og aðflutningsgjöld, sem eru 13% af pallbílum og 45% af öðrum bílum (35% ef rúmtak vélar er undir 2 lítrum). Þetta eru þá alls 40,7% af pallbílum en 80,5% af jeppum.
Það sem eftir stendur er að meta áhættuna og gæti jafnvel borgað sig að fara út og skoða bílinn áður en gengið er frá fullnaðargreiðslu. Ég hef keypt létt tjónaðan fólksbíl frá USA samkvæmt lýsingu á internetinu, var heppinn og fékk góðan bíl á ágætu verði. Vinnufélagi minn sem sló til skömmu seinna og keypti bíl af sama aðila var hins vegar óheppinn og reyndist tjón á bíl hans vera miklum mun meira en lýsing á því gaf til kynna. Sem sagt engum er treystandi í bílaviðskiptum.
Nú skora ég enn og aftur á þá sem búa yfir reynslusögum af innflutningi notaðra bíla að senda inn upplýsingar og sögur af reynslu sinni.
Kveðjur
Wolf
You must be logged in to reply to this topic.