This topic contains 32 replies, has 1 voice, and was last updated by Jón G. Guðmundsson 11 years, 8 months ago.
-
Topic
-
Sælir félagar. Um leið og viljum þakka ykkur fyrir samveruna í stórferðinni langar okkur að koma með nokkrar hugleiðingar um atburði ferðarinnar. Með hugleiðingum þessum er ekki á nokkurn hátt verið að kasta rýrð á skipulag Túttugengisins, semokkur þótti til fyrirmyndar eða á störf þeirra annarra sem að skipulaginu komu. Þessum hugleiðingum okkar er fyrst og fremst ætlað að vekja okkur til umhugsunar um hvernig við getum undirbúið okkur undir svona ferð og verið fær um að takast á við það sem upp á getur komið og er alveg eins beint að okkur sjálfum eins og öðrum sem í ferðinni voru. Við erum reynslunni ríkari og við vonum að aðrir séu það líka.
Það fyrsta sem huga ætti að er fjöldi bíla í hóp. Það er ekki heppilget að hafa of marga bíla í hverjum hóp. Það er óhjákvæmilget að einhverjar tafir geti orðið á leiðinni og þá er betra að fáir tefjist en margir. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar raðað er saman í hóp fólki, sem ekki hefur ferðast saman áður. Það geta komið upp þær aðstæður að einhver úr hópnum getur þurft að leggja til óvinsælar ákvarðanir og taka hagsmuni heildarinnar fram yfir hagsmuni einstaklingsins eins og t.d. að skilja bíl eftir í þágu þess að hópurinn komist fyrr til byggða ef veður og aðstæður fara versnandi. Miðað við þær aðstæður sem sköpuðust á jöklinum núna um helgina getur verið mikilvægt að taka ákvörðun sem þessa fyrr en seinna. Það verður aldrei of oft áréttað að menn séu undir það búnir bæði andlega og hvað varðar útbúnað að þurfa að dvelja um lengri eða skemmri tíma í ökutækinu vegna veðurs eða bilana. Mikilvægt er því að að hafa meðferðis nógu góðan búnað til að halda á sér hita s.s. góðan fatnað, svefnpoka sem ekki er ætlaður til sumarferða og álpoka.
GPS tæki eru grunnur að ferðamennsku á jöklum og eru skylda í þeim bílum sem taka þátt í svona ferð. Við skulum hafa í huga að ekki er nóg að hafa tækið í bílnum, við þurfum að geta notað það líka. Það eru grunnatriði að geta fært hnit í tækið og geta kallað fram eigin staðsetningu til að geta miðlað heni til björgunaraðila. Það voru dæmi þess að að ekki væru gefnar upp réttar staðsetningar þegar leitað var eftir þeim. Allir hljóta að sjá hversu mikilvægt þetta atriði er. Einföldustu aðgerðir á tækjunum verða flóknar þegar menn kunna þær ekki og á það sérstaklega við þegar menn standa frammi fyrir aðstæðum eins og þeim sem mynduðust á jöklinum um helgina. Tillaga til lausnar á þessu væri t.d. að þeir félagar sem hafa staðgóða þekkingu á gps tækjum gætu miðlað af þekkingu sinni á klúbbkvöldum, opnu húsi og slíku og væri slíkt auglýst á heimasíðu 4×4. Þá er miðað við að menn gætu komið með sín eigin tæki og fengið grunnleiðsögn á þau. Kunnátta í því að lesa saman kort og áttavita getur einnig komið sér vel ef svo illa fer að gps kerfið dettur út eða tækið bilar.
Að mörgu er að hyggja þegar bíll er undirbúinn í svona ferð. Loftinntök þurfa að vara þannig útbúin að ekki geti skafið inn á þau því það veldur því gjarnan að loftsíur stíflast og vélar hætta að ganga. Kveikikerfi bensínbíla þarf að vera vel rakavarið og gera þarf ráðstafanir í blöndugsbílum til að ekki frjósi í blöndungunum. Þessi tvö atriði geta skift sköpum þegar að því kemur að halda vélum gangandi og geta haldið hita í farþegarými.
Ferðaklúbburinn 4×4 hefur byggt upp gríðarlega öflugt VHF kerfi og er ekki ofsagt að það hafi gert gæfumuninn núna um helgina þar sem símasamband náðist ekki á svæðinu og verður þeim seint fullþakkað sem staðið hafa að uppbyggingu þess. Í ferðinni um helgina var nokkuð um það að menn töluðu inn í samtöl sem fóru á milli stjórnstöðvar á Höfn og þeirra sem voru aðmiðla upplýsingum til þeirra. Það er gríðarlega mikilvægt að menn forðist að tala hver ofan í annan og hafi formleg samskifti t.d. að kynna sig með nafni til að auðvelda hjálparsveitum og stjórnstöðvum að hafa sambandi við tiltekna aðila aftur.
Enn og aftur viljum við taka það fram að við teljum Túttugengið hafa staðið vel að skipulagningu ferðarinnar og ekki síður í því að aðstoða fólk við að komast niður af jöklinum. Við viljum þakka Hornafjarðardeild Ferðaklúbbsins fyrir þeirra þátt í aðstoðinni, Björgunarsveit Hornafjarðar fyrir alla þeirra miklu aðstoð og stjórnstöðinni á Hornafirði fyrir góð samskifti. Ekki má gleyma Bjarna snjótroðarastjóra sem ruddi fyrir okkur brautina og gerði gæfumuninn í þvi að allir komust niður.
Rúnar Sigurjónsson R-2035
Logi Már R-3641
You must be logged in to reply to this topic.