This topic contains 24 replies, has 1 voice, and was last updated by Björn Ingi Óskarsson 13 years, 1 month ago.
-
Topic
-
Hvað er náttúruverndarsinni?
Þegar ég velti fyrir mér orðinu náttúruverndarsinni kemur fyrst upp í hugann mynd af bónda sem er fæddur og uppalinn í sveit og hefur búið þar alla sína tíð og þekkir landið betur en lófa sinn. Hann leikur hárfínt á duttlunga náttúrunnar með virðingu eins og færasti fiðluleikari á hljóðfæri sitt. Hann getur sagt til um veður og snjólög með því einu að þefa út í loftið. Ég ber virðingu fyrir þessu.
Í huganum birtist mynd af þeim sem velja sér hross til að ferðast um landið, ekki bara á blíðum sumardegi heldur líka í hríðar hraglanda eða bullandi slagveðri svo að það verður að hafa sig allan við að haldast á baki. Ríðandi eftir reiðstígum kynslóðanna sem farið hafa sömu leið frá landnámi. Sannir reiðmenn vindanna þar á ferð. Þessu kann ég vel og ber virðingu fyrir.
Svo er mynd þeirra sem hafa tileinkað sér ferðamáta nútímans, það er að segja ferðamátann minn að fara um á ökutæki til þess að njóta þess sem náttúran hefur upp á að bjóða. Stundum er sá ferðamáti valinn vegna þess að heilsa eða annað kemur í veg fyrir að annað sé í boði.
Hjá þessum hóp hefur safnast upp hafsjór þekkingar um vegi og slóða og hugvitsamlegar lausnir á vandamálum sem upp kunna að kom fjarri byggið ef fararskjótinn bilar. Í þessum félagsskap hef ég kynnst samhygð, hjálpsemi og ómældri þolinmæði auk þess sem jeppamenn eru ólatir að uppfræða þá sem lítið kunna. Þeir leggja líka mikla áherslu á virðingu fyrir landinu og náttúrunni.
Þekking á vöðum og duttlungum stórfljóta er mikil meðal jeppamanna. Þeir vita að ljúf spræna getur á augabragði breyst í beljandi stórfljót. Síðast en ekki síst þarf að hafa vit á að stoppa og snúa við þegar það á við.
Íslensk náttúra er þess eðlis að hún getur verið eina stundina ljúf sem lamb og á einu augabragði umturnast í tryllt óargadýr sem engum eirir. Það er mikilvægt að meta aðstæður rétt og kunna sín mörk. Það getur skilið milli lífs og dauða.
Enn ein mynd kemur upp í hugann. Það er mynd af þeim sem velja að ganga um fjöll og firnindi, velja að rölta um landið og njóta þess sem það býður upp á. Hressir fjallamenn á ferð sem fá náttúruna beint í æð og vekja aðdáun okkar hinna fyrir vikið.
Þó er það þannig að þetta geta ekki allir því hugsanlega vegna aldurs eða heilsu er okkur þessi leið ekki fær og þá er gott að hafa val um annað.
Munum að markmið okkar eru þau sömu við unnum íslenskri náttúru og landinu okkar og finnum gleði og frelsi við að njóta hennar. Það sem skilur okkur að er val okkar á ferðamáta og er mér fyrirmunað að skilja hvers vegna einum ferðamáta er hampað á kostnað annars. Við lestur Hvítbókar sem inniheldur grunn að breytingum á náttúruverndarlögum læðist sá grunur að manni að gangandi ferðamáti sé það sem stjórnvöldum hugnast.
Það ættu allir að geta notið sín ef við sýnum hvert öðru umburðarlyndi og tillitssemi. Það er jú pláss fyrir okkur öll. Látum náttúruvernd og ást á landinu verða okkar sameiningartákn.
Laila Margrét Arnþórsdóttir
You must be logged in to reply to this topic.