This topic contains 5 replies, has 1 voice, and was last updated by Kristján Guðmundsson 13 years ago.
-
Topic
-
Hugleiðing um ferðafrelsið
Hvers virði er það okkur? Ef kallaður væri saman hópur af fólki og beðinn að skilgreina hvað ferðafrelsi er fengjum við trúlega mörg og mismunandi svör. Tökum sem dæmi þá sem bundnir eru við hjólastól. Ferðafrelsi þeirra gæti einkennst af því að komast á milli staða án hindrana, eitthvað sem okkur finnst sjálfsagt og eðlilegt. Með þessum nýju lögum um Vatnajökulsþjóðgarð um lokanir er enn frekar komið í veg fyrir að fólk sem á einhvern hátt býr við skerta hreyfigetu geti notið þess að ferðast á eigin forsendum.
Verum meðvituð um að við erum eins misjöfn og við erum mörg. Margbreytileikinn gerir mannflóruna bara meira spennandi. Það á líka við um ferðamáta okkar. Það sem einum hugnast kann öðrum að finnast klént, en það er líka allt í lagi, svo fremi sem hver og einn fær að fljúga eins og hann er fiðraður.
Fyrir mér er ferðafrelsi minn réttur til að ferðast af ábyrgð um landið mitt á sama hátt og forfeður mínir hafa gert öldum saman. Ég lít á landið mitt sem sameign allra og á ábyrgð allra.
Ferðafrelsið er líka eitthvað sem við viljum geta leyft komandi kynslóðum barna og barnabarna að njóta, og treyst þeim fyrir því á sama hátt og okkar var treyst fyrir landinu af horfnum kynslóðum.
Annað mál er hvaða ferðamáti er valinn, það fer eftir hverjum og einum. Sannarlega er ekkert neitt rétt eða rangt í þeim efnum.
Ég get bara ekki skilið hvernig það má vera að hægt sé að taka einn ferðamáta, og þá á ég við göngufólk, fram yfir annað og koma því þannig fyrir að það sé öllu betra og æðra. Slíkt gerir ekki annað en að skapa illindi og úlfúð manna á milli. Ég vil hafa val um hvernig ég ferðast og hvar og hvernig ég vel að gista. Svo fremi sem ég geri það af ábyrgð.
Einokun í hvað mynd sem er hefur alltaf verið og verður alla tíð til bölvunar.
Það er svo að umferð manna, hver svo sem hún er, skilur eftir sig spor. Hjá því verður ekki komist, göngufólk þar með talið. Eins og gefið hefur verið í skyn í fjölmiðlum að jeppamenn fari nú hamförum yfir landið í þeim tilgangi einum að marka nýja slóða, er eitt af því kjánalegasta sem ég hef heyrt. Samkvæmt þessu virðast sumir halda því fram að á hálendinu ríki skálmöld og menn aki um án nokkurrar ábyrgðar. Þetta er hin mesta firra og fjarri öllum sannleika. Slíkar fullyrðingar eru til þess eins fallnar að skapa leiðindi.
Óánægja og ósætti vegna lokunar slóða snýst fyrst og fremst um það að ekki má lengur aka um vegaslóða sem farnir hafa verið öldum saman, sumir hverjir ævagamlir og einnig leiðir sem frumherjar bílmenningar fóru að fara fyrir áratugum síðan. Það er sárt til þess að vita að það sé verið að hnýta í það góða fólk sem af eldmóði og hugsjón lagði á sig ótrúlega vinnu og erfiði sem við í dag njótum góðs af. Verum meðvituð um að þessir kappar opnuðu ævintýraheim hálendisins fyrir okkur. Hugsum frekar með þakklæti til þessarra horfnu hetja.
Reynum að vera málefnaleg og ræðum saman af virðingu hvert fyrir öðru og fyrir ferðamáta hvers annars.
Það hefur komið fram í fjölmiðlum að sveitastjórnir eru ekki alltaf sáttar við þær lokanir sem gerðar eru, samanber Skútustaðhreppur vegna Vikrafellsleiðar. Því spyr ég hvernig væri nú að fara að taka tillit til þeirra sem búa og starfa á þessum stöðum sem um er rætt. Ég er þess fullviss að fólkið sem þar býr er sannarlega betur í stakk búið til að meta stöðuna heima í héraði fremur en misgáfað ráðuneytislið sem í sumum tilfellum hefur aldrei komið á þá staði sem verið er að ráðskast með.Gerum árið 2012 ár sátta og alvöru samráðs. Látum fólk finna að á það sé hlustað og gefum gaum að því sem það hefur að segja.
Laila Margrét Arnþórsdóttir
You must be logged in to reply to this topic.