This topic contains 0 replies, has 1 voice, and was last updated by Ragnar Þórðarson 15 years, 3 months ago.
-
Topic
-
Sælir félagar.
Ég fór hring á Hellisheiðinni í dag og sá að menn eru meta aðstæður mjög illa og taka slæmar ákvarðanir. Það er rétt svo kominn snjór á jörðina og menn halda að þeir geti keyrt um vegleysur án þess að hugsa. Á mörgum stöðum hafa menn farið niður úr snjónum og ofan í mjúka vatnssósa jörðina og brekkan sem sést til SA þegar komið er niður að Hengladalsá er orðin hálf brún eftir jeppana sem hafa verið að djöflast upp á glænýjum snjónum með engu undirlagi. Og það er ekki bara þar sem menn fara niður í svaðið heldur líka á svæðum sem eru með deigum jarðvegi sem ekki er nægilega frosinn, það munu koma í ljós hjólför þegar snjóa leysir og þá mun fólk halda að jeppamenn séu að keyra utan vega í snjóleysu. Þegar maður sér svona skammast maður sín dálítið fyrir að vera talinn í hópi með þessum böðlum sem kalla sig jeppamenn. Við verðum að hugsa betur um náttúruna en þetta. Þetta kemur allt undan snjónum á endanum og hvernig verður þá alhæft um okkur hina. Flestir hafa lent í því að valda jarðraski óviljandi en þá er líka að koma sér úr þeim aðstæðum sem fyrst og með sem minnstu viðbótarraski, og gera sitt besta til að bæta fyrir, ekki bara ýta eldsneytisgjöfinni lengra inn og loka augunum!
Þið vitið alveg hverjir þið eruð sem spóluðuð upp jarðveginum í brekkunni, eða hvar sem er annarsstaðar, og þið vitið líka að þið eigið að vita betur en að aka svona.
Ég vona bara að menn sjái að sér með þetta og haldi aðeins aftur af sér þar til snjóalög eru orðin það góð að ekki verður skaði af utanvegaakstri. Og ég vona líka að menn geri það afþví það er það rétta en ekki bara til að við hinir fáum ekki slæmt orð á okkur.Hef pistilinn ekki lengri að sinni, en endilega segið ykkar skoðun.
Kv. Raggi Þórðar
You must be logged in to reply to this topic.