This topic contains 5 replies, has 1 voice, and was last updated by Agnar Benónýsson 21 years, 2 months ago.
-
Topic
-
Ég fór í dag að prófa GPS uppsetninguna „mína“. Þótt margir séu búnir að fara gegn um þetta á undan mér þá var ég svo hrifinn (að það skyldi virka) að ég skrifaði niður helstu punktana.
Varðandi smíð á leiðslum þá er öruggara fyrir óvana að kaupa þær tilbúnar hjá umboðsmönnum en að mixa þær sjálfir. Munið að ef illa tekst til og allt fer í bál og brand þá er það ykkur sjálfum að kenna.GPS tæki í jeppann
Vélbúnaður:
· Garmin Geko 201 (minnsta og ódýrasta tækið með tölvutengi sem ég fann)
· Gömul hálfónýt fartölva, 133 MHz með 32 MB minni og ónýta rafhlöðu.
· Heimagerð tengisnúra til að flytja 12 Volta spennu til tölvunnar úr bílnum.
· Heimagerðar tengisnúrur milli GPS og tölvu. Gögn og afl fyrir GPS.
· Pajero Dísel árgerð 1990.Hugbúnaður:
· Í GPS tækinu er hugbúnaður merktur Version 2.0
· PC tölvan keyrir Windows 98 SE og OZI explorer, útg. 3.95.3c.
· Hugsanlega má nota forrit frá Pivot Software til að hvolfa skjámyndinni (sjá kaflann um frágang).
· Kortgrunnur: LMÍ 1:50.000. Rýmisþörf tæp 500 MB með MAP, GEO og NOS skrám fyrir allt Ísland.Stillingar:
· Til að flytja vegmerki og ferla úr GPS tækinu í tölvuna hef ég stillt GPS á ?Garmin? samskipti og í OZI forritinu farið í aðgerðirnar Garmin / Get xxx from GPS.
· Til að fá stöðu og feril jafnharðan inn á kortið hef stillt GPS á ?NEMEA? samskipti og í OZI ræst ?Moving map Control? (velja Moving map / Moving map control) og smella á Start-hnappinn þar til að ræsa samskiptin. Þá birtist stór píla sem sýnir hvar maður er og stefnuna sem ferðast er í. Einnig birtast hraði, stefna og hæð í tölusvæðum.Frágangur tækja í bílnum:
· GPS tækið hafði ég bara liggjandi laust við framrúðuna og án aukaloftnets. Oftast þegar ég gáði gaf það upp nákvæmnina 6 til 7 metrar.
· Tölvan var laus í framsætinu farþegamegin, en ég þarf að finna henni betri stað, t.d. uppi í rjáfri, á hvolfi. Þar getur Pivot hugbúnaðurinn komið að gagni til að snúa skjámyndinni rétt.Nánari lýsing á tengisnúrum:
· Aflsnúra fyrir tölvuna tengir 12 Volt frá vindlingakveikjaratengi í bílnum inn á tengið á tölvunni sem ætlað er fyrir hleðslustraumbreyti (220 niður í 19 Volt). Ferríthólkur er á snúrunni til að minnka hættu á raftruflunum. Straumnotkun tölvunnar við 12-14 Volt er u.þ.b. 2,4 Amper
· Snúra sem tengir GPS við tölvu: GPS megin er heimagert tengi sem skrúfast aftan á GPS tækið. Hún hefur 4 leiðara: Jörð, gögn inn, gögn út og + 3 Volt. Auk þess er 3 Volta zenerdíóða tengd milli jarðpóls og +3 Volta póls til að tempra spennuna. Í hinn endann eru 2 tengi, sem skrúfast aftan í tölvuna: Eitt DB9 kvk, sem tengir gagnabrautirnar við COM-port tölvunnar. Tengið sem ég notaði er fengið af gamalli tölvumús. Sömuleiðis snúran. Straumur fyrir GPS tækið er sóttur úr DB15 karltengi sem fer í ?gameport? tengi tölvunnar. Spennan er felld úr 5 Voltum með ca 15 Ohma viðnámi og tempruð með 3 Volta zenerdíóðu. Báðir hlutirnir eru felldir inn í tengishúsið og verjast þannig fyrir hnjaski. Ekki er (enn) ferríthólkur á þessari snúru. Öll tengin eru fest með skrúfum og detta því síður úr sambandi við hristing.Prófun 23.11.2003
Ók um í Breiðholtshverfi og nágrenni Reykjavíkur, m.a. Hafravatnshring með nokkrum útskotum. Moving map virknin var mjög sannfærandi að öllu leyti eftir að ég hafði fundið hvernig átti að ræsa hana. Ók suma hluta leiðarinnar tvisvar, ýmist fram eða til baka. Ekki kom fram neinn sýnilegur mismunur á ferlunum sem teiknuðust á skjáinn. Það eina sem mér fannst að mætti vera betra er það að hæðin birtist í fetum en ekki metrum.
Staðsetning var mjög vel í samræmi við umhverfið og hvergi fundust áberandi skekkjur.
Kortið færðist sjálfkrafa til á skjánum þ.a. punkturinn sem maður var á hélst alltaf á miðjum skjáglugganum.
Vistaði ferilinn. Þegar ég kallaði hann upp aftur seinna birtist hann á jafn góðri upplausn og fyrr.
Í lokin prófaði ég að stilla til baka á Garmin samskipti og hlaða ferlinum niður frá GPS. Það sem birtist á skjánum var miklu grófari ferill (lengra milli punkta) en úr NEMEA dæminu auk þess sem hluta leiðarinnar vantaði inn í af einhverjum orsökum (hugsanlega minnisskortur í GPS tækinu).
Ekki var sjáanlegt að skortur væri á tölvuafli þótt einungis væru 133 MHz og 32 MB til ráðstöfunar.Niðurstaðan er sú að ódýrt GPS tæki, úrelt, hálfbiluð fartölva og gamall Pajeró geta virkað alveg prýðilega saman. Tölum ekki um eigandann, en honum fannst mjög gaman.
You must be logged in to reply to this topic.