This topic contains 60 replies, has 1 voice, and was last updated by Einar Kjartansson 21 years, 4 months ago.
-
Topic
-
Það hefur verið nokkur umræða um friðlýsingu Snæfellsjökuls og hvaða þýðingu hún hefur. Þessi umræða kom m.a. upp inni í Mörk í gær, en það hefur verið hlutverk umhverfisnefndar að fylgjast með þessari umræðu og koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Það gerir spurninguna ekki síður áleitna ef sömu reglur koma til með að gilda um Vatnajökulsþjóðgarð. Það væri ekki gott mál ef tekið væri upp á því að banna akstur á jöklum alveg.
Í reglugerð um Snæfellsjökulsþjóðgarðinn er tilgreint nákvæmlega hvað má og hvað ekki. Þar er tekið fram t.d. að meðferð skotvopna sé bönnuð, bannað að tjalda nema hvað göngumenn og hjólreiðamenn geta fengi leyfi til þess, hestaumferð utan reiðleiða bönnuð (heyr heyr!) og akstur vélknúinna ökutækja aðeins heimil á vegum og bílastæðum. Hins vegar er svo tekið sérstaklega fram að akstur á jökli sé leyfilegur með leyfi þjóðgarðsvarðar.
Þetta gætu sjálfsagt öfgafullir jeppaandstæðingar túlkað á þann veg að í hvert skipti sem menn ætla á jökulinn þurfi að sækja sér skriflegt leyfi þjóðgarðvarðar. Það er hins vegar margstaðfest að þeir aðilar sem ætlað er að framfylgja reglugerðinni (þjóðgarðsvörður og Náttúruvernd) leggja alls ekki þann skilning í þessa grein. Þetta höfum við í umhverfisnefndinni fengið margstaðfest bæði af þjóðgarðsverði og forstöðumanni Náttúruverndar. Þjóðgarðsvörður hefur gefið leyfi til aksturs á jöklinum og það leyfi gildir meðan annað er ekki ákveðið. Því verður ekki breytt nema eitthvað sérstakt kalli á það.
Ég fór fyrir hönd klúbbsins á borgarafund sem Náttúruvernd hélt í Ólafsvík um þjóðgarðinn fyrir u.þ.b. ári síðan. Þar kom nokkuð vel fram hvernig Náttúruvernd hugsar þetta. Það kom mjög skýrt fram að þau sjá tilgang þjóðgarðsins fyrst og fremst þann að fólk geti notið hans, hvaða ferðamáta sem menn kjósa sér, en reglurnar eru til þess að koma í veg fyrir skemmdir á náttúru eða minjum og jafnframt koma í veg fyrir árekstra milli fólks. Í spjalli við Árna eftir fundinn heyrði ég líka greinilega á honum að sá góði orðstýr sem f4x4 hefur tekist að skapa jeppamönnum gerir það að verkum að við njótum talsverðs trausts af hans hálfu. Þarna er því áþreifanlegur og ótvíræður árangur af þeirri hugarfarsbreytingu sem klúbburinn hefur unnið að í gegnum tíðina.
Á fundinum voru örfáir fulltrúar öfgaafla (kallast það ekki nöldurkellingar!) sem helst vildu banna alla jeppaumferð á jöklinum og voru eitthvað að reyna að hafa sig í frammi með slíkar skoðanir, vildu m.a. meina að það væri svo mikil mengun af bílunum. Árni Bragason gerði þeim ljóst að slíkt stæði alls ekki til og benti jafnframt réttilega á það að í raun væri mun meiri mengun frá vélsleðum og snjóbílnum heldur en bílum og jeppamenn hefðu sama rétt og aðrir til að njóta þjóðgarðsins. Hann semsagt sló á allar svona hugmyndir. Það var líka athyglisvert að hann sagði ítarlega frá því hvernig fyrirkomulagið væri víða í þjóðgörðum erlendis þar sem allt er bannað og lagði áherslu á að slíkt sé dæmi um hvernig við viljum EKKI hafa hlutina hér, hér gildi allt önnur lögmál og íslensk ferðamennska gjörólík.
Þetta hlýtur að geta slegið nokkuð á áhyggjur manna um að friðlýsingin verði til þess að banna alla jeppaumferð, hvort sem er á Snæfellsjökli eða öðrum jöklum. Það er í höndum Náttúruverndar að framkvæma reglugerðina og meðan aðilar sem þar stjórna hafa þessa túlkun er varla ástæða fyrir okkur að túlka þetta þrengra (nema við viljum skipa okkur í hóp nöldurkellinganna). Auðvitað er hugsanlegt að settar verði einhverjar reglur um umferð á jöklinum. Þannig hafa verið vangaveltur um að koma ákveðnu skipulagi á umferðina þannig að það séu ákveðnar leiðir eða svæði sem leyfilegt sé að aka, ákveðin svæði ætluð fyrir skíðafólk og ákveðin svæði fyrir göngufólk. Við þurfum auðvitað að taka tillit til þess að við erum ekki ein um að vilja njóta jökulsins og þarf að taka tillit til annarra hópa. T.d. getur skapast stórhætta af djúpum jeppaförum í skíðabrautinni, allir sem hafa stundað svigskíði sjá það í hendi sér. Eins er lítið spennandi að ganga þarna upp sömu leið og jeppar og vélsleðar fara, það þekki ég af eigin raun þar sem ég labbaði þarna upp fyrir nokkrum árum. Eftir þá göngu hét ég mér því að fara aldrei aftur á Snæfellsjökul nema akandi, en vel má vera að nú séu forsendur fyrir mig að breyta þeirri ákvörðun. Fínt ef þjóðgarðsvörður getur komið í veg fyrir að árekstrar verði milli hópa þarna og örugglega full ástæða til að draga úr hættu á náttúruskemmdum. Þarna í fyrra höfðu t.d. einhverjir húsbílamenn verið á ferð þarna og farið út fyrir slóða og skildu eftir sig ljót för, þannig að eftirlit er ekki alveg tilefnislaust á svona stað þar sem mikil traffík er margskonar hópa. Jafnframt kemur þetta vald þjóðgarðsvarðar í veg fyrir að þeir aðilar sem eru með skipulagðar ferðir þarna geti agnúast útí okkar umferð eða reynt að halda því fram að þeir hafi einhvern einkarétt á jöklinum, en sögur fóru af tilraunum þeirra í þá átt. Núna höfum við staðfestingu á að þeir eru algjörlega réttlausir hvað það varðar.
Kveðja,
Skúli H. Skúlason
umhverfisnefnd
You must be logged in to reply to this topic.