Forsíða › Forums › Spjallið › Umhverfismál › Friðlýsing jökla
This topic contains 60 replies, has 1 voice, and was last updated by Einar Kjartansson 21 years, 6 months ago.
-
CreatorTopic
-
16.05.2003 at 12:13 #192592
AnonymousÞað hefur verið nokkur umræða um friðlýsingu Snæfellsjökuls og hvaða þýðingu hún hefur. Þessi umræða kom m.a. upp inni í Mörk í gær, en það hefur verið hlutverk umhverfisnefndar að fylgjast með þessari umræðu og koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Það gerir spurninguna ekki síður áleitna ef sömu reglur koma til með að gilda um Vatnajökulsþjóðgarð. Það væri ekki gott mál ef tekið væri upp á því að banna akstur á jöklum alveg.
Í reglugerð um Snæfellsjökulsþjóðgarðinn er tilgreint nákvæmlega hvað má og hvað ekki. Þar er tekið fram t.d. að meðferð skotvopna sé bönnuð, bannað að tjalda nema hvað göngumenn og hjólreiðamenn geta fengi leyfi til þess, hestaumferð utan reiðleiða bönnuð (heyr heyr!) og akstur vélknúinna ökutækja aðeins heimil á vegum og bílastæðum. Hins vegar er svo tekið sérstaklega fram að akstur á jökli sé leyfilegur með leyfi þjóðgarðsvarðar.
Þetta gætu sjálfsagt öfgafullir jeppaandstæðingar túlkað á þann veg að í hvert skipti sem menn ætla á jökulinn þurfi að sækja sér skriflegt leyfi þjóðgarðvarðar. Það er hins vegar margstaðfest að þeir aðilar sem ætlað er að framfylgja reglugerðinni (þjóðgarðsvörður og Náttúruvernd) leggja alls ekki þann skilning í þessa grein. Þetta höfum við í umhverfisnefndinni fengið margstaðfest bæði af þjóðgarðsverði og forstöðumanni Náttúruverndar. Þjóðgarðsvörður hefur gefið leyfi til aksturs á jöklinum og það leyfi gildir meðan annað er ekki ákveðið. Því verður ekki breytt nema eitthvað sérstakt kalli á það.
Ég fór fyrir hönd klúbbsins á borgarafund sem Náttúruvernd hélt í Ólafsvík um þjóðgarðinn fyrir u.þ.b. ári síðan. Þar kom nokkuð vel fram hvernig Náttúruvernd hugsar þetta. Það kom mjög skýrt fram að þau sjá tilgang þjóðgarðsins fyrst og fremst þann að fólk geti notið hans, hvaða ferðamáta sem menn kjósa sér, en reglurnar eru til þess að koma í veg fyrir skemmdir á náttúru eða minjum og jafnframt koma í veg fyrir árekstra milli fólks. Í spjalli við Árna eftir fundinn heyrði ég líka greinilega á honum að sá góði orðstýr sem f4x4 hefur tekist að skapa jeppamönnum gerir það að verkum að við njótum talsverðs trausts af hans hálfu. Þarna er því áþreifanlegur og ótvíræður árangur af þeirri hugarfarsbreytingu sem klúbburinn hefur unnið að í gegnum tíðina.
Á fundinum voru örfáir fulltrúar öfgaafla (kallast það ekki nöldurkellingar!) sem helst vildu banna alla jeppaumferð á jöklinum og voru eitthvað að reyna að hafa sig í frammi með slíkar skoðanir, vildu m.a. meina að það væri svo mikil mengun af bílunum. Árni Bragason gerði þeim ljóst að slíkt stæði alls ekki til og benti jafnframt réttilega á það að í raun væri mun meiri mengun frá vélsleðum og snjóbílnum heldur en bílum og jeppamenn hefðu sama rétt og aðrir til að njóta þjóðgarðsins. Hann semsagt sló á allar svona hugmyndir. Það var líka athyglisvert að hann sagði ítarlega frá því hvernig fyrirkomulagið væri víða í þjóðgörðum erlendis þar sem allt er bannað og lagði áherslu á að slíkt sé dæmi um hvernig við viljum EKKI hafa hlutina hér, hér gildi allt önnur lögmál og íslensk ferðamennska gjörólík.
Þetta hlýtur að geta slegið nokkuð á áhyggjur manna um að friðlýsingin verði til þess að banna alla jeppaumferð, hvort sem er á Snæfellsjökli eða öðrum jöklum. Það er í höndum Náttúruverndar að framkvæma reglugerðina og meðan aðilar sem þar stjórna hafa þessa túlkun er varla ástæða fyrir okkur að túlka þetta þrengra (nema við viljum skipa okkur í hóp nöldurkellinganna). Auðvitað er hugsanlegt að settar verði einhverjar reglur um umferð á jöklinum. Þannig hafa verið vangaveltur um að koma ákveðnu skipulagi á umferðina þannig að það séu ákveðnar leiðir eða svæði sem leyfilegt sé að aka, ákveðin svæði ætluð fyrir skíðafólk og ákveðin svæði fyrir göngufólk. Við þurfum auðvitað að taka tillit til þess að við erum ekki ein um að vilja njóta jökulsins og þarf að taka tillit til annarra hópa. T.d. getur skapast stórhætta af djúpum jeppaförum í skíðabrautinni, allir sem hafa stundað svigskíði sjá það í hendi sér. Eins er lítið spennandi að ganga þarna upp sömu leið og jeppar og vélsleðar fara, það þekki ég af eigin raun þar sem ég labbaði þarna upp fyrir nokkrum árum. Eftir þá göngu hét ég mér því að fara aldrei aftur á Snæfellsjökul nema akandi, en vel má vera að nú séu forsendur fyrir mig að breyta þeirri ákvörðun. Fínt ef þjóðgarðsvörður getur komið í veg fyrir að árekstrar verði milli hópa þarna og örugglega full ástæða til að draga úr hættu á náttúruskemmdum. Þarna í fyrra höfðu t.d. einhverjir húsbílamenn verið á ferð þarna og farið út fyrir slóða og skildu eftir sig ljót för, þannig að eftirlit er ekki alveg tilefnislaust á svona stað þar sem mikil traffík er margskonar hópa. Jafnframt kemur þetta vald þjóðgarðsvarðar í veg fyrir að þeir aðilar sem eru með skipulagðar ferðir þarna geti agnúast útí okkar umferð eða reynt að halda því fram að þeir hafi einhvern einkarétt á jöklinum, en sögur fóru af tilraunum þeirra í þá átt. Núna höfum við staðfestingu á að þeir eru algjörlega réttlausir hvað það varðar.
Kveðja,
Skúli H. Skúlason
umhverfisnefnd -
CreatorTopic
-
AuthorReplies
-
16.05.2003 at 20:49 #473440
Þetta er fróðleg lesning. Ég er einn af stofnfélögum klúbbsins og vann talsvert í þessum málaflokki fyrstu árin. Ég get tekið undir það að mikil hugarfarsbreyting hefur átt sér stað gagnvart jeppamönnum frá þessum tíma og vil þakka starfi klubbsins um það að mestu. Einnig heibrigðu hugarfari flestra jeppaferðamanna og virðingu þeirra fyrir náttúrunni. Ég held að eftir því sé tekið. Þar vil ég líka þakka félaginu okkar fyrir gott innlegg og jákvæðan áróður. Svokallaðir öfgamenn í náttúruvernd hafa þurft að lúffa fyrir þeim sem styðja meðalhóf og skynsemi.
Hins vegar vil ég vara við einu því að síðasti öfgamaðurnn er örugglega ekki kominn fram ennþá. Og hver veit nema hann komist til áhrifa. Þá er eins gott að orðanna hljóðan í reglugerðum og lögum sé ekki honum í hag. Það er nefnilega engin trygging fólgin í því að ráðandi menn á þessu sviði túlki ávallt orð laganna eins og nú er gert. Með breyttu hugarfari einu saman er hægt að þurrka út jeppaferðir á Snæfellsjökul og hver veit nema Vatnajökull fylgi allur í kjölfarið ef hann verður gerður að þjóðgarði.
Hvers vegna á orðalag í lögum og reglugerðum ekki að vera eins og það er túlkað?
Af hverju þarf að orða lögin þannig að yfirvöld hafi þægilegt alræðisvald ef þeim sýnist ef ekki á að nota það vald ?Við þurfum að halda vöku okkar og halda góðu starfi klúbbins okkar áfram.
Þetta minnir mig aðeins á fyrstu ár F4x4. Eitt af þeim málum og árekstrum sem ýtti undir stofnun félagsins var kæra sem lög var fram á hendur nokkrum jeppamönnum fyrir að valda "sjónmengun" og "hljóðmengun" við Öskjuvatn. Upp úr því vildu öfgamenn setja strangar reglur sem bönnuðu allan akstur utan vega, m.a. til að hlífa gróðri. Við héldum uppi vörnum og bentum á að þegar væru lög sem bönnuðu allan akstur utan vega þar sem skemmdir gætu hlotist af. Við bentum á að frekari bönn væru bara endurtekning á þessu banni, nokkurskonar ofurbann. Við kynntum á sama tíma ákaft nýtt fyrirbæri sem var akstur á snjó sem olli engum skemmdum á landinu. Rök sem notuð voru gegn gegn okkur voru þau að að frekari bönn einfölduðu allt eftirlit. Félgar í F4x4 gáfust ekki upp og við höfðum okkar sjónarmið fram með rökfestu og þrautseigju. En er hættan ekki enn uppi? Orðalag sem ofurbannar allt og lausari túlkun, "í byrjun".
En mikið hefur áunnist þessi 20 ár. Fyrsta sinn sem fulltrúar f4x4 mættu á náttúrverndarsamkomur og náttúruvernarþing mættu þeir beinni andúð og nokkurs konar "hvernig difist þið að láta sjá ykkur hér" andrúmslofti. Nú er öldin önnur og jeppamönnum tekið á slíkum samkomum af trausti og virðingu. Þetta er mikill árangur.
Við þurfum að átta okkur á því að við höfum mikið frelsi til að stunda áhugamál okkar hér á landi og við þurfum að fara vel með þetta frelsi, annars verður það tekið af okkur. Höfum það í huga á ferðum okkar um landið.
Með kveðjum
Snorri Ingimarsson
16.05.2003 at 22:45 #473442Tek heilshugar undir orð þeirra Skúla og Snorra Ingimarssonar. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig reglurnar yrðu túlkaðar ef VG tæki við umhverfisráðuneytinu og sjónarmið Hjörleifs og Kollu á móti yrðu ráðandi. Ég starfaði á sínum tíma í svokallaðri samvinnunefd um svæðisskipulag Miðhálendisins, sem lauk sínu starfi með útgáfu á skipulaginu – umfangsmiklar bókmenntir það! – Á fund nefndarinnar komu hinir "ýmsustu" aðilar, félög og einstaklingar, sem gerðu grein fyrir sínum sjónarmiðum og það var hálf ónotalegt að heyra sjónarmið sumra. Tek því undir orð Snorra um að við þurfum að halda vöku okkar, haa í heiðri reglur klúbbsins okkar og gefa öfgafólki ekkert færi á okkur. Maður fylgist með hvernig smám saman er þrengt að ´wheelers í USA og óttast að við lendum í þessum sama dilemma.
kv.
ólsarinn.
17.05.2003 at 10:26 #473444Þetta er mjög fróðleg lesning væri hægt að fá annanhvorn ykkar Snorri eða Skúli til að taka saman eitthvað svona svipað til að setja í Setrið?
Kveðja Helena í ritnefnd
19.05.2003 at 14:17 #473446
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Vandin er sá að það vantar skilgreinigar og lög fyrirfram þannig að aðilar geti sagt hvort þeir séu fylgjandi stofnunum þessar þjóðgarða/friðlýstu svæða eða ekki.
Gallin er nefnilega sá að menn virðast ætla að skjóta (friða) fyrst og spyrja (ákveða) svo, hvað má og hvað ekki.
Víða´st hvar í heiminum eru þjóðgarðslög oppnari en hér. Rekstur flestra þjóðgarða í Afríku eru til að mynda fjármagnaðir að hluta með sölu veiðileyfa.
Út á Snæfellsnesi var til að mynda sauðfjárbeit leifð, til að ná samningum við hreppina, en hestaumferð bönnuð nema á þartilgerðum götum. það þýðir í raun að hestaumferð er bönnuð, engar reiðgötur hafa verið gerðar þarna. Sem þíðir að smala verður á fæti.
Vandin er bara sá að það er ekki á neinn að treysta.
Það verður að vera ljóst fyrirfram hvort, aka megi á jökklum, eða snjó yfir höfuð.Hvort frjáls ferðamennska eins og við þekkjum hana sé að líða undir lok eða hvort hún verði heimil. Hvort veiða megi. hreindýr, rjúpur, gæsir, eða hvort vacumpakka egi svæðinu.
Spurningin er nefnilega altaf friðun, fyrir hverja og til hvers.
Öfgarnar verða til, og það fólk vill að sjálfsögðu ekki segja við ykkur, akstur utan malbiks er bannaður því þá fær það engan stuðning.
Því á að fryða fyrst og ræða svo seinna hvað má, eða öllu heldur hvað má ekki!!E.Har
19.05.2003 at 15:17 #473448
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Gott að þetta efni vekji áhuga, enda verulegt hagsmunamál eins og fram hefur komið. Það er mjög mikilvægur punktur sem Snorri bendir á að við njótum mjög mikils frelsis hér í þessum efnum, meira en nokkurs staðar annnars staðar í hinum vestræna heimi. Öruggasta leiðin til að vernda það frelsi er að jeppamenn standi undir þeirri ábyrgð sem fylgir frelsinu.
Það er öruggt mál að ef "yfirvaldinu" (umhverfisráðherra eða framkvæmdaaðilar eins og Umhverfisstofa (áður Náttúruvernd ríkisins) kýs að takmarka þetta frelsi er það hægur vandi. Ráðherra getur breytt reglugerðum og það má alltaf finna eitthvað orðalag í lögum og reglugerðum sem hægt er að teygja og túlka. Þessi setning sem ég vísaði til í reglugerðinni um Snæfellsjökulsþjóðgarð er gott dæmi um það og ef það er ágreiningur um túlkun er það dómsstóla að skera úr um hlutina. Við skulum vona að til þess komi ekki og ekkert sem bendir til þess að svo fari.
Mér þykir ólíklegt að hægt sé að fá ákvæði sem þetta fellt úr reglugerðinni. Það er litið svo á að þjóðgarðsvörður beri vissa ábyrgð á umferð um þjóðgarðinn, honum ber að reyna að koma í veg fyrir hættur á náttúruskemmdum, slysum og öðru því sem upp á getur komið og jafnframt gera öllum gestum kleift að njóta þess sem þjóðgarðurinn hefur upp á að bjóða. Þess vegna er honum falið töluvert vald, m.a. að banna umferð ef ástæða þykir til. Ég get allavega ekki skilið málið öðru vísi en svo að það sé tilgangur þessa ákvæðis. Friðlýsing almennt er til þess að tryggja að náttúran haldist óspillt og í ofanálag er það markmið með stofnun þjóðgarða að almenningur fái að njóta náttúrunnar. Frelsi og friðun getur farið ágætlega saman ef rétt er á málum haldið.
Engu að síður eru þetta góðir punktar hjá Einari hér að ofan. Við þurfum að vera með puttana í málunum frá upphafi og vera umsagnaraðilar um reglur áður en þær eru settar. Til þess að svo verði þurfa stjórnvöld að líta á okkur sem samstarfsaðila í þessum málum.
Ég held að það besta sem við getum gert í stöðunni sé að viðhalda þessu jákvæða hugafari sem hefur tekist að skapa í garð jeppamanna og eiga áfram gott samstarf við umhverfisyfirvöld. Stundum hefur mér fundist örla á því að menn líti á þessa aðila sem andstæðinga og skipi þeim sjálfkrafa í flokk með öfgamönnunum, en ég held að það sé ekki skynsamleg nálgun og betra að byggja á gagnkvæmu trausti. Þannig höfum við mikið meiri áhrif á það sem er að gerast og minnkum stórlega hættuna á að frjáls ferðamennska líði undir lok.
Kveðja,
Skúli H. Skúlason
19.05.2003 at 17:24 #473450Frábært að lesa þetta allt frá þér Skúli og reyndar margt athyglisvert.
En ég spyr ert þú viss um að við séum með jákvætt viðhorf
hjá umhverfisnefnd og jafnfram umhverfissinnum.Ertu viss um að að allstaðar sé jákvætt hugsarfar út í okkur þar sem við þurfum að hafa það?
eigum við ekki frekar undir högg að sækja þar?kveðja Lúther
19.05.2003 at 17:43 #473452
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Við höfum allavega ekki orðið varir við annað hjá þeim fulltrúm Náttúruverndar ríkisins sem við höfum talað við, þ.e. forstöðumanninum (Árni Bragason) og þjóðgarðsverðinum á Snæfellsjökli. Nú er spurning hver verður umhverfisráðherra í nýrri stjórn, en allavega höfum við ekki mætt neinni andúð í ráðuneytinu. En efalaust má finna einstaklinga innan kerfisins og örugglega inni á þingi sem hafa einhver gamaldags viðhorf, einhver vígi efalaust óunnin. En það er mjög athyglisvert að lesa lýsingar Snorra frá fyrstu árum klúbbsins og bera það saman við þau viðhorf sem fulltrúar hans mæta í dag, þetta er eins og allt önnur veröld.
Meðan við skipum okkur í flokk með þeim sem vilja ferðast og njóta náttúrunnar í sátt við hana og aðra ferðamenn, erum við að afla málstað okkar fylgis. Um leið og við snúum baki við þessum sjónarmiðum og tökum einhverja aðra hagsmuni fram yfir er hætta á að við séum ekki trúverðug.
Kv – Skúli
19.05.2003 at 20:55 #473454Sæll Kamerat Skúli og aðrir, ég held að ég verði nú heldur að leggjast á sveif með Einari og fans mér hann komað með góða punkta. Ég hef verið mjög tortrygginn gagnvart þessu reglugerðarflóði þarna fyrir vestan, en sem stendur er þjóðgarðsvörðurinn okkur hliðhollur, en það er ekki víst að arftaki hennar verði það eða arftaki Árna. Og með allt þetta vald í höndum Þjóðgarðsvarða og landvarða er ég hræddur um að hægt sé að gera okkur og öðrum ferðamönnum lífið leitt, einsog reyndar hefur orðið raunin í öðrum þjóðgarði. í ljósi þessa get ég ekki skylið þessa ofur bjartsýni þína. Þjóðgarðsvörðurinn fyrir vestan sagði á fundi með 4×4 að hún skildi ekki áhyggur og hræðslu íbúa í nágrenni við þjóðgarðinn. Það mætti í því sambandi halda að vörðurinn hefði ekki lesið eigin reglur um þjóðgarðinn.
Td 1- skilst mér að búið sé að banna berjatínslu inn garðsins sem nú auðvita kemur helst niður á nágrönnunum (Söndurum )
2-Það er búið að banna minka og tófuveiði og það kemur líka niður á Söndurum
3-Hestar fá ekki að ganga lausir í sumar, og er búið að vara íbúa við því.( Þarna hafa hestar gengið lausir um aldir ) þar að auki hafa þeir ekki haft dug í sér til þess að girða af þjóðgarðinn hvernig eiga íbúarnir þá að fara að því að passa búskapinn þetta er nú einu sinni sveit.
4- Vissu þið að fjölskylda frá Hellisandi er búin að tjalda á hverju ári í Hóla-Hólum í 50 ár og rækta þar upp vin, var rekinn á brott með tjaldið.
5-Vissuð þið að fólk í fjöruferð var rekið á brott
6-Vissuð þið að 10 manns höfðu vinnu við vikurnámu ofan við Eysteinsdal og fengu þeir ekki að fara út í vegabætur og lagðist því þessi starfsemi af, fyrirtæki með 10 starfsmönnum vegur bara töluvert þungt á svo litlum stað.
þessi upptalning er svona til umhugsunar fyrir þá sem hlyntir eru stórfjölgun friðlanda og þjóðgarða.
Skúli ekki segja Örugglega mesta frelsi á vesturlöndum !!!
nema vita það örugglega. hefur þú lesið lög um alla mans retten í svíþjóð og ekki gleima að vesturlönd hafa færst langt til austurs eftir stækkun EB og að lokum, hræddur er ég um að árekstrar verði margir í framtíðini ef við verðum komin með á annað hundrað friðlönd og þjóðgarða vítt og breytt um landið.PS þingmaður með gamalsdags viðhorf, er þetta ekki öfugmæli eru þetta ekki nútíma viðhorf.
Jón Snæland
19.05.2003 at 23:59 #473456Sælir félagar.
Ég verð nú að játa, að ég upplifi skrif Skúla H eins og hann hafi verið ráðinn sem sérlegur blaðafulltrúi Náttúruverndar ríkisins í því skyni að fullvissa jeppafólk um að verndun og takmarkanir séu í okkar þágu! Ég vil leyfa mér að álykta sem svo, að fyrirspurn frá mér til umhverfisnefndar sem ég varpaði fram á fundinum sem Skúli nefnir í upphafi pistilsins sé kveikjan að skrifum hans.
Það sem brennur á mér er einkum tvennt. Í fysta lagi veldur það mér áhyggjum að ekki liggur fyrir skilgreining á hugtakinu "slóði" frá nefndinni, en veturinn 2001-2002 var óskað eftir að nefndin leggði fram tillögu að skilgreiningu, enda er það ljóst að slík skilgreining er grundvallaratriði í baráttu okkar við að fá að halda opnum slóðum og leiðum víðsvegar um hálendið sem ýmsir aðrir hafa barist fyrir að verði lokað. Mér vitanlega hefur nefndin ekki enn skilað af sér tillögum í þessu mikilvæga efni og ekki komu fram upplýsingar um það hvenær von væri á tillögum.
Í öðru lagi spurði ég hvort nefndin hefði sett sig í samband við umhverfisyfirvöld til að forða því að álíka ákvæði rati inn í reglugerðir um stofnun þjóðgarða á hálendinu og rötuðu inn í reglugerð dags. 28. júní 2001 um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Því er skemmst frá að segja að fulltrúar nefndarinnar svöruðu því með þjósti að það hefði ekki enn fundist annar en undirritaður sem hefði þann skilning á reglugerðinni að akstur á jöklinum værin bannaður! Reyndar fannst strax a.m.k. ein skoðanasystir mín á nefndum fundi. Þrátt fyrir að við höfum bæði nokkra þjálfun í lestri laga- og reglugerðatexta, þá vil ég halda því fram fullum fetum að slík sérþjálfun sé með öllu óþörf öllum sæmilega læsum mönnum. Í 15. gr. reglugerðarinnar stendur: "Umferð á vélknúnum ökutækjum í þjóðgarðinum er ferðamönnum aðeins heimil á vegum og bílastæðum. Akstur vélknúinna ökutækja á jökli er háð(ur) leyfi þjóðgarðsvarðar." Ég skil ekki að menn geti misskilið innihald þessa texta, hann er ekki svo flókinn. Akstur á jöklinum (á snjó) er einfaldlega bannaður, nema að fyrir liggi leyfi þjóðgarðsvarðar. Þú mátt sem sagt ekki aka á snjóþekjunni, nema að hafa upp á vasann leyfi frá þjóðgarðsverði. Þetta er kjarni málsins og annað ekki!
Þetta virðast fulltrúar í umhverfisnefnd ekki skilja og vísa stöðugt í ummæli fulltrúa náttúruverndar og þjóðgarðsvarðar. Með allri virðingu fyrir fulltrúa Náttúruverndar og þjóðgarðsverðinum sjálfum sem komu á fund til okkar á Esju sl. vetur, þá skildu þau ekki sjálf þetta ákvæði reglugerðarinnar og héldu því fram fullum fetum að "akstur á jöklinum væri heimill" og að "stofnun þjóðgarða væri til að tryggja aðgengi almennings að þessum stöðum…!" Því miður sýnist mér á málflutningi Skúla að hann hafi kokgleypt þessa vitleysu alveg hráa og átti sig því ekki á raunverulegri stöðu málsins.
Þegar ég frétti af setningu þessarar reglugerðar, sem n.b. Skúli, var aldrei borinn undir Ferðaklúbbinn 4×4 til umsagnar eins og ætla má af orðum þínum, setti ég mig í samband við fulltrúa ráðuneytisins og lýsti áhyggjum mínum af þessu. Þar var ég fullvissaður um að séraðstæður á Snæfellsjökli vegna ágangs og smæðar hans, hefðu þótt réttlæta þessa takmörkun og að ekki stæði til að setja viðlíka takmarkanir annars staðar. Í ráðuneytinu var mér einnig bent á að afla þyrfti leyfis með umsókn á símbréfi áður en ég færi á jökul, fram þyrfti að koma númer á öllum þeim ökutækjum sem vildu fá leyfi til að aka á jökulinn…
Það getur vel verið að við njótum skilnings frá núverandi þjóðgarðsverði og fulltrúa Náttúruverndar og er það vel. Hins vegar er það alls ekki nóg að réttur okkar til ferðalaga um jökla landsins sé ekki á sterkari grundvelli byggður. Hvað með slagorð okkar "Frjálsir ferða!"
Útaf fyrir sig get ég á margan hátt fallist á að nauðsynlegt sé að hægt sé að takmarka umverð vélknúinna ökutækja um Snæfellsjökul, m.a. m.t.t. þeirra sjónarmiða sem að framan voru rakin. Það er hins vegar mín skoðun (og margra annarra) að slíkar takmarkandi og íþyngjandi ákvæði megi alls ekki rata inn í aðrar reglugerðir um stofnun þjóðgarða á öðrum jöklum landsins sem eru margfalt stærri en Snæfellsjökull og því lítil hætta á árekstrum og óþægindum af för annarra ferðamanna.
Aðeins til umhugsunar: Í 24. gr. reglugerðarinnar er sagt að hver sem brjóti gegn ákvæðum hennar skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sektir skuli renna í ríkissjóð og að með mál skv. greininni skuli fara skv. reglum um meðferð opinberra mála sbr. lög nr. 19/1991. Ef þú ferð á jökulinn um helgina Skúli og telur þig ekki þurfa leyfi, einhver kærir þig til lögreglu, þá leiða ofangreind ákvæði til þess að þér verður refsað skv. þessu ákvæði, enda er mér ekki kunnugt um að fyrir liggi opinber auglýsing frá þjóðgarðsverði um að almennt leyfi til aksturs á snjóþekjunni liggi fyrir. Þetta er fremur dapurleg staða málsins og hugnast alls ekki öllum eins vel og þú heldur.
Ég tek að lokum undir það að afstaða okkar jeppamanna þarf að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og að við þurfum að byggja upp traust og virðingu fyrir okkar sjónarmiðum bæði innan og utan félags. Það gerum við hins vegar ekki með því að þegja bara þunnu hlóði og láta embættismenn slá okkur út af laginu með klysjum og loforðum, því það eru reglurnar sem að lokum gilda!
Ferðakveðja,
BÞV
20.05.2003 at 06:46 #473458Paji mér datt það í hug hvort ekki væri réttara að fá einhvað af þessu reglugerðarfólki til þess að skrifa í setrið td Ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins eða aðra sem hafa með málið að gera, Skemtilegt gæti einnig verið að fá að heyra sjónarmið Landsvirkjunnarmanna á öllum þessum friðlanda draumum og hvernig þeir muni snúa sér í málunum.
Ég held í þessu sambandi að klúbburinn verði að blása til stórsóknar í heild svo þessi Snæfellsnesgjörningur fái ekki einhvert fordæmisgildi
Núna verður klúbburinn að taka afstöðu þar sem sjaldan hefur verið meir að okkar frelsi vegið, við getum ekki lengur verið áhorfendu heldur þarf að mótmæla þessu formlega.
Ferðaklúbburinn 4×4 er hagsmunaklúbbur og nú er lag fyrir stjórn að reyna að gæta þeirra hagsmuna.Jón Snæland.
PS hvernig gátum við dottað svona yfir þessu ???????
20.05.2003 at 06:48 #473460Eftir að hafa lesið sumt tvisvar sem hér stendur fyrir ofan og þá einkum það sem lögfræðingurinn BÞV skrifar, hef ég satt að segja miklar áhyggjur af framhaldinu. Við verðum að gera okkur ljóst, að menn koma og fara. Túlkun einhvers einstaklings getur haft tímabundin áhrif, en ekki til langframa. Það er því mikilvægt hvað stendur í lögum og reglugerðum, ekki hvernig einstakir menn túlka það á hverjum tíma. Ef til dómsmála kemur, þá verður það lagabókstafurinn sem stendur, við skulum alveg gera okkur grein fyrir að BÞV veit hvað hann er að segja í því efni. Það er sterk tilhneiging til þess hjá tilteknum aðilum að líta svo á að allt sé bannað nema það sem er sérstaklega leyft. Nú veit ég ekki frekar en aðrir hver verður umhverfisráðherra næstu fjögur árin, en það er víst, að eftir næstu kosningar er veruleg hætta á að sá/sú sem kemur til með að gegna því embætti verði úr hópi þeirra sem hafa hvað allt á hornum sér varðandi akstur jeppa og vélsleða. Eins og hér hefur komið ítrekað fram að ofan, hefur komið fram áætlun um að gera Vatnajökul allan að samskonar þjóðgarði og Snæfellsjökul. Það er mikil hætta á að lög og reglugerðir um Snæfellsjökul verði hreinlega kópieraðar yfir á hann. Ég held að mínir gömlu sveitungar fyrir vestan hafi allavega hrokkið við þegar þeir urðu varir við ýmsar afleiðingar friðlýsingarinnar, sem öfgafólk í náttúruvernd fékk alltof frjálsar hendur við að semja reglurnar um.
kv.
ólsarinn (fæddur og uppalinn undir Jökli)
20.05.2003 at 07:38 #473462Ef lögskýringar Björns Þorra stæðust, hvernig ætli standi á því að fangelsin séu ekki full af fólki sem hefur brotið gegn aksturbanni í [url=http://www.natturuvernd.is/3_Fridlysingar/Tjodgardar/Jokulsargljufur/3_2_1_Regluged_Skaftafell.htm:egwdl9kd]ASkaftafells þjóðgarði[/url:egwdl9kd], en Grímsvötn og Grímsfjall eru innan þjóðgarðsins. Ellefta grein þeirrar reglugerðar hljóðar svo:
[i:egwdl9kd]Umferð á vélknúnum ökutækjum í þjóðgarðinum er ferðamönnum aðeins heimil á vegum og bílastæðum neðan við Skaftafellsbrekkur.[/i:egwdl9kd]16 grein þessara sömu reglugerðar er svohljóðandi:
[i:egwdl9kd]Náttúrufræðilegar rannsóknir í þjóðgarðinum eru háðar leyfi [Náttúruverndar ríkisins].[/i:egwdl9kd]Þetta er nánast sama orðlag og notað er um akstur á Snæfellsjökli. Ég hef ekki orðið var við að náttúrufræðingar hafi túlkað þetta sem bann við rannsóknum.
Að öllu gamani slepptu, þá tel ég mjög mikilvægt að við fáum fulltrúa í ráðgjafarnefndir vegna bæði Vatnajökulsþjóðgarðs og áformaðs þjóðgarðs milli Þingvalla og Langjökuls. Það verður auðveldara ef við höldum áfram að njóta velvilja annara samtaka þeirra sem hafa áhuga á útivist og náttúrvernd. Það stuðlar ekki að slíku, ef menn sjá óvini og samsæri í öllum hornum.
-Einar Kjartansson
20.05.2003 at 08:01 #473464Sko, ég veit að Björn Þorri er fullfær um að svara fyrir sig, en ég hugsa nú að hann viti meira en eik um lögfræði þótt eik viti meira en hann um jarðfræði. Hvað Grímsvatnasvæðið varðar, þá er okkur báðum fullkunnugt um það eik, að það eru til menn, sem hafa haft fullan hug á að fá því framgengt að einmitt þessum ákvæðum verði framfylgt, því það er ekki annað sem á stendur en að einhver kæri og framkvæmdavaldið telji sig hafa mannskap og búnað til að framfylgja lögunum. Þetta hefur komið fram bæði í ræðu og riti tiltekinna aðila, sem ég ætla ekki að nafngreina hér.
kv.
ólsarinn
20.05.2003 at 11:16 #473466
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Ég veit ekki hvort ég eigi standa í að svara vangaveltum um að ég skrifi hér sem einhver leigupenni Náttúruverndar. Væri þó umhugsunarvert ef það er almenn afstaða til míns málflutnings. Ég hef hins vegar viljað vara við því að menn máli sér óvini í hverju horni, sérstaklega þegar ég hef sjálfur reynt það í persónulegu samtali við Árna Bragason að þannig líta menn ekki á málin handan "víglínunnar". Ef tortryggnin á að ráða stefnu og viðbröðum klúbbsins í málum sem snúa að verndun náttúrunnar og almennri andstöðu gegn því er ekki víst að menn upplifi hann áfram á sama hátt og verið hefur.
Maður ætti kannski ekki að deila við lögfræðing um lögfræðileg málefni, en það er nú reyndar gjarnan þannig í því fagi að menn komast að mismunandi niðurstöðum um ákvæði í lögum og reglugerðum og svo virðist vera í þessu tilfelli. Um það verður ekki deilt að í ákvæðinu stendur að akstur á jöklinum sé háður leyfi þjóðgarðsvarðar, en það stendur ekkert um það að menn þurfi að hafa þetta leyfi skriflegt upp á vasann. Það sem ég hef verið að benda á hérna er að framkvæmdaraðili þessarar reglugerðar lítur svo á að þjóðgarðsvörður gefi út almennt leyfi til aksturs á jöklinum og meðan það sé ekki afturkallað sé það í gildi. Tilgangur ákvæðisins af hálfu þeirra sem sömdu reglugerðina er að þjóðgarðsvörður geti ef ástæða þykir til bannað akstur, s.s. afturkallað leyfið. Ég færi því óhræddur á jökulinn um helgina, jafnvel þó einhver kverúlant hyggðist kæra. Ef til kæru kæmi væri það þjóðgarðsvarðar að staðfesta að leyfi hafi verið til akstursins. En við gætum látið á þetta reyna Björn, ég gæti t.d. látið þig vita næst þegar ég hyggst fara þarna upp ef þú vilt senda inn kæru.
Auðvitað er þetta samt ákveðin skerðing á frelsi. Ég ætla ekki að leggja mat á þörfina fyrir þetta ákvæði eða þennan möguleika fyrir þjóðgarðsvörð. Ágangur á jöklinum er auðvitað heilmikill, ekki síst þegar heilt ferðaþjónustufyrirtæki byggir rekstur sinn á að flytja fólk þarna upp plús öll önnur umferð. Ég ætla heldur ekki að leggja mat á önnur óskyld ákvæði eða sögur af framkvæmd laganna. Þó finnst mér það vera breyting til batnaðar að lausaganga hrossa sé bönnuð og hestamönnum óheimilt að flengjast þarna um allt. Mér finnst ekki missir af þeim moldarflögum sem þeir skilja stundum eftir sig og þau kannski einmitt eitt af því sem gerir það að verkum að ég fer varlega í að ráðast gegn hverskonar friðun. Þar skiptir kannski meira máli hvernig hún er útfærð og að hún feli ekki í sér einhver óþarfa boð og bönn sem skerða möguleikana á að njóta náttúrunnar á ábyrgan hátt. Og eins og ég er óþreytandi að benda á hefur það verið styrkur f4x4 að vera klúbbur sem berst fyrir ábyrgri ferðamennsku í sátt við náttúruna.
Það er reyndar athyglisvert að heyra að Björn hafi fengið sína túlkun staðfesta í ráðuneytinu, þar sem enginn hefur viljað staðfesta þennan skilning við okkur. Og einmitt þess vegna hefur mér fundist þetta svo sérkennilegt að heyra þá túlkun sem er okkur óhagstæðust haldið hæst á lofti innan klúbbsins en ekki annars staðar.
Ég vil líka leiðrétta þann misskilning að ég hafi viljað meina að f4x4 hafi verið umsagnaraðili um þessar reglur. Ég held hins vegar að við getum unnið að því að fá að vera slíkur umsagnaraðili. Það er talsvert um það að hagsmunaaðilar séu fengnir til að veita umsögn eða fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Þær ályktanir sem ég dreg af þessum pælingum okkar eru þessar: Annars vegar virðist sem svör ráðuneytisins séu ekki einróma og því þurfum við að fá túlkun þeirra staðfesta. Ráðuneytisstjórinn segir eitt meðan einhver fulltrúi segir annað. Ágæt hugmynd hjá Jóni Snæland að fá pistil í Setrið um efnið frá ráðuneytisstjóranum, við getum þá allavega haft Setrið upp á vasann!! Hins vegar eigum við að fara fram á að fá að gefa umsögn um þau lög og þær reglur sem ætlunin er að setja og snerta ferðalög um óbyggðir á jeppum, hvort sem þær snúist um friðun eða verndun eða annað. Þá stöndum við að vísu frammi fyrir þeim vanda að taka ábyrga afstöðu með það að leiðarljósi að áfram verði hægt að ferðast frjálst um óspillta náttúru á Íslandi. Og reyndar er margt annað sem ógnar því í dag á jafnvel enn uggvænlegri hátt, en það væri efni í annan spjallþráð.
Kveðja
Skúli H. Skúlason
20.05.2003 at 12:37 #473468
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Það að koma ekki að laga- og reglugerðasmíð er skelfilegt.
Samkvæmt reglum er akstur á Jökklinum bannaður nema með leyfi.
Þótt núverandi þjóðgarðsvörður sé skinsamur og skilningsríkur er ekki víst að sá næsti sé það.Svo er annar flötur á þessu. Ef segjum kannski gangandi vegfarendur á jökklinum ákveða að kæra Skúla H fyrir akstur þar, þá fer það mál ekki til þjóðgarðsvarðar, heldur sýslumanns og síðan áfram og endar hjá héraðsdómara í Borgarnesi. Og ef Skúli er ekki með leyfi þá verður hann dæmdur, sennilega í einhverja smá segt en vésinið sakavottorðið og allar sá pakki er ekki sérlega skemtilegur.
Það sem þarf að gera er að koma að málum á þessum nýju þjóðgörðum / friðlýstusvæðum sem fyrst.
4×4 Skotvís, Sleðamenn og fleirri sem telja sig eiga einhverra hagsmuna að gæta ættu að mynda smá breiðfylkingu, oflugan þrýstihóp, til að koma í veg fyrir svona slys eins og urðu við gerð Snæfellsþjóðgarðs.Ég held að við, sem erum fylgjandi eðlilegri sjálfbærri nýtingu ættum ekki að hafa minni hljómgrunn í ráðuneitum og stofnunum en þeir sem öllu vilja vacumpakka.
Spyrjum einfaldlega þriggja spurninga áður en við tökum afstöðu.
Í fyrstalgi, þjóðgaður til hvers?
Í annan stað, fyrir hverja?
Og seinas hvaða lög og reglur eiga að gilda þar?Þegar þeim spurningum hefur verið svarað og ef við erum sáttir við svörin. þá eigum við að taka afstöðu.
Ekki friða (skjóta)fyrst, spyrja svo, og vera háðir mismunandi túlækun mismunandi manna!!!Einar Har
20.05.2003 at 12:47 #473470Sælir félagar.
Þetta er ótrúlegt, bæði að lesa þann skæting sem fram er kominn frá Einari Kjartanssyni varðandi fangelsismál og eins að Skúli H Skúlason skuli leggja meira upp úr því að hlusta á orð einstakra opinberra starfsmanna en að lesa það sem stendur í lögum og reglum.
Það er hreinn og klár undirlægjuháttur að mínu viti, að trúa því og treysta sem einstakir starfsmenn Náttúruverndar eða þjóðgarðsvörðurinn segja, það er hinn ritaði texti sem gildir þegar upp er staðið. Að menn skuli halda það að það sé betra að segja sem minnst í þeim tilgangi að afla sér einhverskonar vinsælda og fá hugsanlega einhver mál til umsagnar er einnig hin mesta firra að mínu viti. Ég vil líka ítreka það sem ég hef áður sagt, að ég tel mig ekki betri til að skilja orð þessarar reglugerðar sem lögfræðingur, það er nóg að vera sæmilega læs til þess. Auðvitað mun ég ekki kæra þig Skúli fyrir að aka á jöklinum, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því. Þú getur samt verið viss um að það er til fullt af öðru fólki sem væri meira en svo til í það!
Staðreyndirnar eru eftirfarandi:
1) Akstur á jöklinum án leyfis þjóðgarðsvarðar er bannaður.
2) Þeir sem brjóta bannið eiga á hættu að verða sektaðir eða fangelsaðir í allt að 2 ár.
3) Um málsmeðferð fer skv. reglum um meðferð opinberra mála. Það þýðir það, að berist lögreglunni kæra, þá ber henni að rannsaka málið og upplýsa það. Hafi viðkomandi ekki leyfi frá þjóðgarðsverði upp á vasann, þá verður honum refsað. Eftirá gefið leyfi þjóðgarðsvarðar skiptir engu í því sambandi, brotið er þegar fullframið.
4) Þjóðgarðsvörður getur gefið út almennt leyfi til aksturs á jöklinum, en það þarf þá að kynna og auglýsa með ákveðnum hætti. Hann getur með sama hætti afturkallað slíka heimild án nokkurs fyrirvara. Mér er ekki kunnugt um að nokkur slík almenn heimild hafi verið birt og ÞVÍ ER AKSTUR Á JÖKLINUM ÁN SÉRSTAKS LEYFIS ALFARIÐ BANNAÐUR.
5) Menn sem aka á jökulinn án sérstaks leyfis, kunna að baka sér bótaskyldu vegna óhappa sem annars yrðu e.t.v. ekki metin þeim til sakar, þar sem þeir eru að brjóta bann. Spurning hvort tryggingafélög gætu ekki einnig ákveðið að takamarka eða fella niður greiðslur úr utanvegakaskói á grdv. hins sama?
Mér finnst dapurlegt að umhverfisnefndarmenn þeir sem hér hafa tjáð sig, telji velvild einstakra starfsmanna nóg til að tryggja ferðafrelsi okkar á jöklum landsins. Það er ömurleg framtíðarsýn. Með núverandi fyrirkomulagi er nóg að þjóðgarðsverði detti í hug að friða heilan jökul, þá verður það bara þannig! Hvernig líst mönnum á eftirfarandi auglýsingu í útvarpi viku fyrir páska: "Af umhverfisástæðum og til að forða slysum er öll umferð vélknúinna ökutækja um jökla landsins bönnuð til 1. júní nk. Göngum vel um landið okkar og notum ekki skíðastafi á viðkvæmum svæðum. Þjóðgarðsverðir."
Það er þetta sem ég tel að Ferðaklúbburinn 4×4 eigi klárlega að taka föstum tökum, enda í fullkomnu samræmi við tilgang félagsins. Jafnframt lýsi ég efasemdum mínum við þeim hugmyndum sem fulltrúar umhverfisnefndar hafa kynnt, að klúbburinn eigi að móta afstöðu til nýtingarmála á hálendinu. Það er einfaldlega ekki tilgangur félagsins. Ef menn vilja hafa áhrif á slík mál, ganga menn t.d. í náttúruverndarsamtök Íslands, Framsóknarflokkinn eða Vinstri hreyfinguna grænt framboð. Það verður aldrei og á aldrei að reyna að nota Ferðaklúbbinn sem þrýstihóp til annarra verkefna en lög félagsins skilgreina sem tilgang þess.
Að lokum tek ég heilshugar undir með Skúla, Snorra og öðrum sem hafa lagt á það áherslu að við gætum að því að umgangast landið og náttúruna af varúð og virðingu, það er auðvitað forsenda þess að hlustað verði á okkur.
Ferðakveðja,
BÞV
20.05.2003 at 12:57 #473472
20.05.2003 at 12:59 #473474Ég gleymdi að lýsa því, að framangreind afstaða mín er ekki af því að ég líti á Árna Bragason eða Þjóðgarðsvörðinn í Snæfellsjökulsþjóðgarði sem einhverja "óvini í hverju horni" eins og ýjað var að hér að framan, þvert á móti trúi ég því heils hugar að þetta ágæta fólk vilji eiga gott samstarf við jeppamenn um þessi mál, en það er því miður ekki góð tilhugsun að eiga alltaf undir slíkan velvilja að sækja hjá opinberum embættismönnum, sem hæglega geta þá úthýst okkur á grundvelli skýrra laga- eða reglugerðaheimilda.
Ferðakveðja,
BÞV
20.05.2003 at 14:29 #473476
Anonymous- Umræður: 0
- Svör: 16404
Til að svara síðustu athugasemd þá tel ég mig ekki hafa ýjað að neinu um afstöðu BÞV gagnvart Árna eða þjóðgarðsvörðum (hvað er þetta með þessar "ýjanir" Björn?). Þegar ég tala um að menn sjái óvini í hverju horni var ég hvergi að vísa til ummæla BÞV, en finnst hins vegar stundum hafa örlað á þessum sjónarmiðum innan klúbbsins og finnst það einfaldlega ekki vænlegt til árangurs að nálgast málin þannig. Ég er hér að fjalla almennt um það hvernig ég sé þessi mál en ekki einvörðungu að svara BÞV, enda sýnist mér við vera sammála um margt og þá einmitt sérstaklega að við þurfum að nálgast málin á þann hátt að mark verði tekið á okkur og við vinnum okkur sem flesta bandamenn.
"Akstur vélknúinna ökutækja á jökli er háð leyfi þjóðgarðsvarðar". Það stendur ekkert meira um þetta í reglugerðinni, ekki hvernig leyfið sé veitt, hvernig auglýst, engar nánari skilgreiningar þar. Það er það sem ég les í reglugerðinni, ekki að leyfið skuli vera gefið út skriflega á bílnúmer eða önnur skilyrði sett fram. Framkvæmdaaðilinn, í þessu tilfelli þjóðgarðsvörður, lýsir yfir að hann leyfi akstur á jökli og tekur fram að ekki sé þörf að sækja um leyfi í hverju tilfelli fyrir sig og yfirboðaðar hans staðfesta það. Þetta er nóg til að þess að ég keyri óhræddur á Snæfellsjökull og hefði engar áhyggjur þó svo BÞV hyggðist kæra (sem ég þó auðvitað veit að þú gerir ekki Björn). Auðvitað ráða menn hvaða afstöðu þeir taka og hvort þeir telji sér óhætt að fara á jökulinn, en mér finnst ástæðulaust að hræða menn frá því og þaðan af síður að það sé okkar að hnekkja þessum skilningi framkvæmdaaðilans. Og enn síður að það feli í sér einhver undirlægjuhátt að treysta því sem þessir aðilar segja.
Reyndar fæ ég ekki betur séð en það sé mun meiri ástæða til að óttast um lagalegan grundvöll fyrir akstri á Vatnajökul eins og reglurnar eru í dag, ef útí það er farið. Í reglum um Skaftafellsþjóðgarð (sem nær að vatnaskilum, norðan við Grímsvötn) segir "Umferð á vélknúnum ökutækjum í þjóðgarðinum er ferðamönnum aðeins heimil á vegum og bílastæðum neðan við Skaftafellsbrekkur." Þarna er ekkert undanþáguákvæði sem opnar á þennan jöklaakstur og ekkert talað um að þjóðgarðsvörður geti leyft aksturinn. Það er verkefni framtíðarinnar að fá þessu breytt þegar Vatnajökulsþjóðgarður verður stofnaður, en kannski skiljanlega höfðu menn tök á að hafa áhrif á þetta árið 1984. Það kemur mér reyndar mjög á óvart sem ólsarinn segir hér að einhverjir þarna úti sitji um tækifæri til að kæra okkur (þætti fróðlegt að fá nafnið þó ég skilji vel að ólsarinn telji ekki rétt að birta það hér). Eftir hverju eru þeir að bíða! Þeir hafa tækifæri t.d. aðra helgi, þá hyggst ég verða þarna á ferðinni. Reyndar held ég slík kæra yrði ef eitthvað er málstað okkar til framdráttar því hún myndi draga fram fáránleikann. Féll ekki einmitt bjórbannið hér á Íslandi þannig!
Það er auðvitað alveg rétt að ef í þessum þjóðgörðum, Umhverfisstofu, eða umhverfisráðuneytinu kæmust til valda öfgafólk sem ekki væri starfinu vaxið, þá værum við í vondum málum. Það er reyndar þannig á svo mörgum sviðum. Lögreglan hefur t.d. völd sem gætu gert okkur og reyndar öllum vegfarendum lífið verulega leitt og þó það sé reyndar ekki rétt að Náttúruvernd eða þjóðgarðsverðir gætu bannað allan akstur á jöklum (þeir eru ekki allir þjóðgarðar né innan friðlanda), þá gæti lögreglan það. Við viljum samt treysta því að þeir sem þar ráða séu starfi sínu vaxnir og geti farið með það vald.
Kv
Skúli H. Skúlason
20.05.2003 at 14:48 #473478Það er nú ekki vafi á að það er gagn að svona umræðu eins og hér hefur farið fram og sem betur fer hafa menn ekki farið teljandi út í neitt ósæmilegt, eða það finnst mér ekki allavega. Nú, en smá ábending til Skúla, sem mér finnst nú vera ágætlega málefnalegur þótt ég sé ekki sammála honum í öllu. Í fyrsta lagi, þá vil ég undirstrika það sem BÞV hefur bent á, að það er alltaf erfitt að þurfa að treysta á túlkun embættismanna á mismunandi tímum þegar fyrirmæli laga/reglugerða eru svona beinskeytt. Í öðru lagi, mig uggir að það, að ekkert hafi verið gert í að framfylgja lögunum um Grímsvatnasvæðið sé einfaldlega það, að löggæslan hefur ekki verið í stakk búin til að sinna eftirliti þarna, hvorki er varðar mannskap né tæki – þeir verða jú að príoritera hafandi sín fjárhagslegu takmörk – og svo hitt, að valdamiklir aðilar hafa haft beina hagsmuni af því að sjálfboðaliðsstarfi JÖRFÍ sé ekki mikil takmörk sett í bili a.m.k. Í þriðja lagi getur varla verið Skúli, að þú gerir þér ekki grein fyrir að það er talsverður hópur fólks sem er tilbúinn til að loka alveg á alla umferð vélknúinna ökutækja á jöklum og þess vegna á öllu hálendinu og ég veit að þú skilur af hverju ég nefni engin nöfn hér á þessum vettvangi. Í fjórða lagi langar mig til að benda á, að ég held að við fáum engan embættismenn að tjá sig um túlkun reglugerða til eða frá í Setrinu, þeir láta ekki hanka sig á því að láta frá sér einhverja dokumentation, sem síðar gæti verið notuð í hugsanlegum málaferlum.
En umfram allt, ræðum málið áfram. Meðan umræðan er á þessum nótum getur það aldrei orðið nema gagnlegt.
kv.
-
AuthorReplies
You must be logged in to reply to this topic.